2010–2019
Hin áþreifanlega gæska Guðs
Apríl 2019


Hin áþreifanlega gæska Guðs

Þótt við bíðum Drottins þolinmóð, hljótum við ákveðnar blessanir samstundis.

Fyrir nokkrum árum kom fimm ára gamall sonur okkar til mín og sagði: „Pabbi, ég hef komist að nokkru. Ég hef komist að því að bráðum er mikið lengri tími fyrir mig en þig.“

Þegar Drottinn eða þjónar hans segja: „Sá tími er ekki langt undan“ eða „innan tíðar,“ getur það í raun verið heil mannsævi eða meira.1 Hans tími, og oft tímasetning, er ekki sá sami og okkar. Þolinmæði er lykillinn. Án hennar getum við hvorki þroskast, né iðkað trú á Guð, til lífs og sáluhjálpar. Boðskapur minn í dag er þó sá að við hljótum ákveðnar blessanir samstundis, þótt við bíðum Drottins þolinmóð.

Þegar Alma og fólk hans var í ánauð Lamaníta, baðst það fyrir um björgun. Fólkinu var ekki bjargað samstundis, en meðan það beið björgunar af þolinmæði, veitti Drottinn af gæsku sinni ákveðnar blessanir tafarlaust. Hann mildaði hjörtu Lamanítanna samstundis, svo þeir dræpu fólkið ekki. Hann styrkti líka fólk Alma og létti byrðar þess.2 Þegar björgunin kom, fór það til Sarahemla, þar sem það greindi forviða áheyrendum frá reynslu sinni. Fólkið í Sarahemla fylltist dásemd og „þegar [það hugsaði] um hina áþreifanlegu gæsku Guðs og kraft hans, sem bjargaði Alma og bræðrum hans úr … ánauð, [hóf það] upp raust sína og [færði] Guði þakkir.“3

Hin áþreifanlega gæska Guðs hlýst öllum þeim sem ákalla hann af einlægum ásetningi og öllu hjarta. Það á líka við um þá sem hrópa af einlægri örvæntingu, er sálarheill virðist svo fjarri og þjáningin langvin og jafnvel óbærileg.

Sú var staða ungs spámanns, sem þjáðist að þolmörkum í saggafullri dýflissu, áður en hann loks hrópaði: „Ó Guð, hvar ert þú? … Hversu lengi munt þú halda að þér hendi þinni …? Já, Drottinn, hversu lengi …?“4 Drottinn brást ekki þegar við Joseph til bjargar, en hann veitti honum frið þegar í stað.5

Guð veitir líka áþreifanlega von um endanlega björgun.6 Hvað sem öllu líður, hvar sem er, þá brosir vonin bjarta við okkur í Kristi og fyrir Krist.7 Hún veitist okkur samstundis.

Ennfremur hefur hann lofað: „Miskunnsemi við þig [mun] ekki færast úr stað.“8

Guðs elska er framar öllu áþreifanleg. Ég ber vitni með Páli um að ekkert fær gert okkur „viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú.“9 Syndir okkar fá jafnvel ekki aðskilið okkur frá hans stöðugu, áþreifanlegu og guðlegu föðurlegu elsku, þótt þær geti aðskilið okkur frá anda hans um tíma.

Þetta eru nokkrar þeirra leiða og aðferða sem hann notar til að „[blessa okkur] samstundis.“10 Ég ætla að gera þessar reglur lifandi og ljósar, með því að segja frá reynslu tveggja einstaklinga, sem með lífi sínu eru vitnisburðir um hina áþreifanlegu gæsku Guðs.

Allt frá unglingsaldri háði Emilie baráttu við vímuefni. Fikt leiddi til ávana og loks sterkrar ánetjunar, sem fjötraði hana í mörg ár, þótt hún hafi endrum og eins átt tímabil góðrar heilsu. Emilie hélt þessari þolraun sinni vandlega leyndri, einkum eftir að hún giftist og varð móðir.

Til að byrja með virtist björgun hennar alls engin björgun. Eina stundina gekkst Emilie undir læknisprófanir og aðra var henni ekið með sjúkrabíl á meðferðarheimili legusjúklinga. Hún fylltist skelfingu er hún hélt sig verða aðskilda börnum sínum, eiginmanni og heimili.

Þetta kvöld hnipraði Emilie sig saman í rúminu, ein í köldu og dimmu herbergi, og grét. Geta hennar til að hugsa rökrétt hvarf og yfirkomin af sálarkvíða, ótta og yfirþyrmandi myrkri í herberginu, hélt Emilie að hún myndi í raun deyja þessa nótt. Alein og yfirgefin.

Í þessari vonlausu stöðu, tókst Emilie á einhvern hátt að safna nægum kröftum til að velta sér fram úr rúminu og á hnén. Án allrar tilgerðar, sem fyrri bænir höfðu stundum einkennst af, fól Emilie sig algjörlega í hendur Drottni og sárbað af örvæntingu: „Kæri Guð, ég þarfnast þín. Hjálpaðu mér. Ég vil ekki vera ein. Hjálpaðu mér að þrauka í nótt.“

Jesús rétti fram hönd sína, jafn skjótt og hann hafði gert við Pétur til forna, og greip sökkvandi sál hennar.11 Emilie fylltist dásamlegri rósemd, hugrekki, fullvissu og elsku. Herbergið var ekki lengur kalt, hún vissi að hún var ekki ein og í fyrsta skipti frá 14 ára aldri, var Emilie viss um að allt færi vel. Þegar Emilie „[vaknaði] til Guðs“12, sofnaði hún friðsæl. Af þessu sjáið þið að „ef þið þess vegna iðrist og herðið ekki hjörtu ykkar, þá mun hin mikla endurlausnaráætlun samstundis ná til ykkar.“13

Ljósmynd
Fjölskylda við musteri

Lækning og endanleg björgun Emilie tók langan tíma – margra mánaða meðferð, þjálfun og ráðgjöf, en hún var styrkt og stundum borin af gæsku Guð. Þessi gæska var áfram með henni, er hún fór í musterið með eiginmanni sínum og börnum, til að vera innsigluð saman um eilífð. Líkt og fólkið í Sarahemla, færir Emilie nú þakkir, er hún hugsar um hina áþreifanlegu gæsku Guðs og mátt til að leysa hana úr ánauð.

Ég segi nú frá öðrum hugdjörfum og trúuðum einstaklingi. Þann 27. desember 2013 tók Alicia Schroeder fagnandi á móti vinum sínum, Sean og Shörlu Chilcote, sem óvænt birtust í dyragættinni. Sean, sem líka var biskup Aliciu, rétti henni farsíma sinn og sagði alvarlega: „Alicia, við elskum þig. Þú þarft að svara í símann.“

Mario, eiginmaður Aliciu, var í símanum. Hann var á fjarlægum stað, með nokkrum börnum þeirra, í langþráðri snjósleðaferð. Hræðilegt slys hafði orðið. Mario var alvarlega slasaður og 10 ára sonur þeirra, Kaleb, hafði dáið. Þegar Mario sagði Aliciu társtokkinn frá dauða Kalebs, lét hún bugast af losti og hryllingi, sem flest okkar fá aldrei upplifað. Hún féll við. Alicia fékk hvorki mælt, né hreyft sig og var lömuð af ólýsanlegri angist.

Biskup og systir Chilcote stukku til, reistu hana upp og héldu utan um hana. Þau grétu og syrgðu sáran saman nokkra stund. Chilcote biskup bauðst til að gefa Aliciu blessun.

Það sem gerðist næst er óskiljanlegt án þess að skilja að einhverju leyti friðþægingu Jesú Krists og hina áþreifanlegu gæsku Guðs. Chilcote biskup lagði hendur sínar gætilega á höfuð Aliciu og tók til máls titrandi röddu. Alicia heyrði tvennt sem væri það mælt af Guði sjálfum. Fyrst heyrði hún nafnið sitt, Alicia Susan Schroeder. Síðan heyrði hún biskupinn vísa í valdsumboð almáttugs Guðs. Á þeirri örskotsstundu – aðeins þegar nafn Aliciu var sagt og vald Guðs tilgreint – kom yfir hana áþreifanlegur friður, elska, huggun og ótrúlegt en satt, gleði. Þetta hefur haldist með henni.

Alicia, Mario og fjölskylda þeirra syrgja auðvitað áfram og sakna Kalebs. Þetta er þeim erfitt! Þegar ég tala við þau, fyllast augu Aliciu tárum, er hún tjáir mér hversu heitt hún elskar og saknar litla drengsins síns. Augu hennar eru svo áfram rök, er hún tjáir mér hve hinn mikli bjargvættur hefur stutt hana í hverri þrekraun, sem hófst samstundis með hans áþreifanlegu gæsku í hennar dýpstu örvæntingu og viðvarandi bjartri von um ljúfa sameiningu ,innan fáeinna daga.“

Mér er ljóst að lífsins reynsla færir okkur stundum ringulreið og ókyrrð, sem getur torveldað okkur að meðtaka eða skilja þessa líkn sem Emilie og Alicia fundu. Ég hef upplifað slíka tíma. Ég ber vitni um, að á slíkum tímum er varðveisla okkar ein og sér ljúf og áhrifarík staðfesting á hinni áþreifanlegu gæsku Guðs. Munið eftir að hinum forna Ísrael var að lokum bjargað „af [hinum sama Guði], sem varðveitti þá“14 dag frá degi.

Ég ber vitni um að Jesús Kristur er hinn mikli bjargvættur og í hans nafni lofa ég, ef þið komið til hans af einlægum ásetningi og öllu hjarta, að hann mun bjarga ykkur frá hverju því sem ógnar eða spillir lífi ykkar eða gleði. Sú björgun getur tekið lengri tíma en þið hefðuð viljað – kannski allt lífið eða lengur. Ég vitna um og færi ykkur hina áþreifanlegu gæsku Guðs, ykkur til huggunar, fullvissu og vonar og stuðnings og styrktar, fram að degi endanlegrar björgunar, í nafni Jesú Krists, amen.