2019
Hjónaband, peningar og trú
maí 2019


Hjónaband, peningar og trú

Höfundurinn býr í Ashanti héraði í Ghana.

Ég og unnusta mín höfðum úr litlu að spila fyrir brúðkaup okkar, bæði hvað varðar tíma og peninga, en við bjuggum þá að nokkru enn mikilvægara: Trú.

Ljósmynd
Sunday and Priscilla on their wedding day

Ég fór á sérstaka samkomu fyrir unga einhleypa í Kumasi, Ghana, ekki vegna þess að ég hafði þörf fyrir unnustu – því ég var þegar trúlofaður – heldur vegna þess að mér fannst ég þurfa aukna hvatningu og að þessi viðburður væri rétti vettvangurinn til að hljóta hana. Bænum mínum var vissulega svarað á samkomunni eftir að systir Call, eldri trúboði starfandi með ungum einhleypum, ræddi um mikilvægi musterishjónabands.

Þegar nær dró umræðulokum, þá breyttist skyndilega ásjóna hennar og hún sagði: „Þú þarft ekki peninga til að ganga í hjónaband – þú þarft bara að sýna trú.“ Mér fannst sem hún talaði beint til mín, en taldi þetta þó ekki eiga við um mig, því við þurftum að kaupa ýmislegt fyrir brúðkaupið okkar. Ég spurði sjálfan mig: „Hvernig get ég einungis þarfnast trúar en ekki peninga?“

Ég hugsaði stöðugt um þetta alla vikuna. Í þessum hugleiðingum spurði ég sjálfan mig: „Er Guð takmarkaður í verkum sínum?“ Í fyrstu fannst mér það ekki vera, en þegar leið á fannst mér það geta verið. Þá kom enn önnur spurning: „Hvernig getur hann verið takmarkaður, ef hann er almáttugur?“ Andinn veitti mér svarið: Blessanir Guðs eru bundnar hlýðni okkar við hann. Hann takmarkast ekki af eigin getu til að blessa okkur, en við verðum að sækjast eftir blessunum hans með því að iðka trú og gera það sem hann óskar af okkur.

Eftir þetta hringdi ég í unnustu mína, Priscillu, til að ræða áformaða giftingaráætlun. Þrátt fyrir að við værum félítil, þá ákváðum við að velja dagsetningu fyrir brúðkaupið okkar, en gátum ekki komið okkur saman um hana. Við ákváðum að hún spyrði biskupinn að því hvaða dagar væru lausir í viðburðaáætlun deildarinnar og stikunnar. Af tveimur dagsetningum sem við fengum, völdum við 27. september 2014 – sem þýddi að við höfðum aðeins sjö vikur fram að brúðkaupinu!

Priscilla spurði: „Obim [sem þýðir „hjartað mitt“ á igbomáli], átt þú einhverja peninga? Tíminn er skammur.“

Ég svaraði: „Nei, en ég á einhverja trú.“

Hún hló og sagði: „Það er í lagi. Við skulum biðja og fasta.“ Hún hélt áfram og umorðaði 1. Nefí 3:7: „Drottinn mun opna okkur leið, því hann hefur boðið okkur að stofna til hjónabands.“

Í þeirri viku fékk ég greitt fyrir starf sem ég hafði unnið mánuðum áður. Pricilla sagði síðan að hún hugðist hefja viðskipti til að safna í sjóð. Hún keypti notuð kvenveski með þeim peningum sem ég hafði aflað og seldi þau aftur. Eftir að hafa keypt sumt af því sem var á innkaupalista okkar, þá átti hún enn eftir tvöfalda þá upphæð sem ég hafði látið hana fá.

Á þessum tíma hafði mér ekki boðist nein atvinna . Ekkert hafði komið út úr starfsumsóknum. Enn voru tvær vikur eftir og við áttum eftir að kaupa ýmislegt. Unnusta mín lagði til að við færðum dagsetninguna aftur. Það eina sem ég sagði var: „Kraftaverk er á leiðinni.“

Aðeins tveimur dögum fyrir brúðkaupið, gerðist kraftaverkið: „Mér var greitt fyrir verkefni sem ég hafði lokið tveimur vikum áður. Ég var líka að læra að með því að leggja hart að sér, þá blessar Drottinn okkur til að ná fram okkar réttlátu markmiðum.

Við fórum í bankann til að leysa út ávísunina og þaðan á markaðinn til að kaupa það sem eftir var af því sem vantaði í grenjandi rigningu, sem við sáum sem viðurkenningu himins á trúarlegri breytni okkar.

Innan 24 klukkustunda vorum við gift. Þegar við vorum beðin um að skiptast á tryggðarheitum, var tilfinningin ólík nokkru öðru sem ég hafði upplifað í lífinu. Mér fannst ég svo dugmikill að mér fannst ég geta gert allt fyrir tilstilli trúar frá þeirri stundu. Við vorum seinna innsigluð í Accara musterinu í Ghana.

Þótt ykkur skorti eitthvert fé til að undirbúa brúðkaup, þá er mikilvægast að sýna trú.