Kenning og sáttmálar 2021
25.–31. október. Kenning og sáttmálar 124: „Nafni mínu hús“


„25.–31. október. Kenning og sáttmálar 124: ,Nafni mínu hús,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Kenning og sáttmálar 2021 (2020)

„25.–31. október. Kenning og sáttmálar 124,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2021

Ljósmynd
Nauvoo

Nauvoo hin fagra, eftir Larry Winborg

25.–31. október

Kenning og sáttmálar 124

„Nafni mínu hús“

Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 124, íhugið þá þær blessanir sem Drottinn bauð hinum heilögu í Nauvoo og blessanirnar sem hann býður ykkur.

Skráið hughrif ykkar

Eins erfið og síðustu sex ár höfðu verið fyrir hina heilögu, þá tók að rætast úr hlutunum vorið 1839: Hinir landflótta heilögu höfðu fundið samúð meðal íbúanna í Quincy, Illinois. Verðir höfðu leyft spámanninum Joseph Smith og öðrum leiðtogum kirkjunnar að flýja ánauðina í Missouri. Kirkjan hafði nýlega keypt land í Illinois þar sem hinir heilögu gátu safnast saman aftur. Þetta var jú mýrlendi fyllt moskítóflugum, en í samanburði við fyrri áskoranir hinna heilögu, virtist þetta sennilega viðráðanlegt. Þeir þurrkuðu upp mýrina og sömdu stofnskrá að nýrri borg, sem þeir nefndu Nauvoo. Nauvoo þýðir „falleg“ á hebresku, sem í upphafi var fremur trúarleg skírskotun, en nákvæm lýsing á staðnum. Samhliða þessu vakti Drottinn knýjandi tilfinningu hjá spámanni sínum. Hann hafði meiri sannleika og helgiathafnir til að endurreisa og hann þurfti heilagt musteri, þar sem hinir heilögu gætu tekið á móti þeim. Að mörgu leyti eru þessar sömu trúarlegu og knýjandi tilfinningar mikilvægar í verki Drottins á okkar tíma.

Þótt Nauvoo hafi orðið að fallegri borg, með fallegu musteri, var hvorttveggja að lokum yfirgefið. Hið sannlega fallega verk Drottins hefur þó alltaf verið til að „krýna [okkur] heiðri, ódauðleika og eilífu lífi“ (Kenning og sáttmálar 124:55) og enginn endir er á því verki.

Sjá Saints [Heilagir], 1:399–427; „Organizing the Church in Nauvoo [Kirkjan skipulögð í Nauvoo],“ Revelations in Context [Opinberanir í samhengi], 264–71.

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Kenning og sáttmálar 124:12–21

Ég get verið lærisveinn sem Drottinn treystir.

Þótt nokkrir áberandi leiðtogar hafi yfirgefið kirkjuna seint á áratugnum 1830, þá var meirihluti meðlima trúfastur. Meðal þeirra heilagra voru þeir sem höfðu tekist á við raunirnar í Missouri, sem og þeir sem nýlega höfðu gengið í kirkjuna. Í Kenningu og sáttmálum 124:12–21 fór Drottinn lofsamlegum orðum um nokkra þeirra. Hvaða skilning á hlutverki lærisveinsins finnið þið í þessum orðum? Er eitthvað í fari þessara trúföstu heilögu sem hvetur ykkur til að líkjast þeim? Þið gætuð líka íhugað hvernig Drottinn hefur tjáð ykkur elsku sína.

Kenning og sáttmálar 124:22–24, 60–61

Drottinn vill að ég taki öðrum feginshendi og lyndi við þá.

Miðað við hvað hinir heilögu höfðu upplifað í Missouri, gætu þeir hafa freistast til að einangra sig og letja til gestagangs í Nauvoo. Hafið það í huga við lestur Kenningar og sáttmála 124:22–24, 60–61. Hvað hrífur ykkur varðandi boð Drottins um að byggja „gistihús“? (vers 23). Hvað kenna þessi orð ykkur um ætlunarverk kirkjunnar? Ígrundið hvernig þessar leiðbeiningar gætu átt við um ykkur og heimili ykkar.

Sjá einnig myndbandið „A Friend to All [Vinur allra],” ChurchofJesusChrist.org.

Kenning og sáttmálar 124:25–45, 55.

Drottinn býður okkur að byggja musteri, svo við getum tekið á móti helgiathöfnum.

Það kom hinum Síðari daga heilögu alls ekki á óvart, eftir að þeir höfðu numið land í Nauvoo, að Drottinn hafi boðið þeim að byggja musteri – eins og hann hafði gert í Ohio og Missouri. Hvað finnið þið í Kenningu og sáttmálum 124:25–45, 55 sem eykur skilning ykkar á ástæðu þess að Drottinn sagði: „Fólki mínu er ætíð boðið að reisa [musteri] heilögu nafni mínu“? (vers 39).

Frá byggingu Nauvoo-musterisins, hafa yfir 200 musteri verið byggð eða eru í bígerð. Russell M. Nelson forseti kenndi: „Við vitum að tími okkar í musterinu er það sem ræður úrslitum varðandi sáluhjálp okkar og upphafningu, bæði fyrir okkur sjálf og fjölskyldur okkar. … árásir andstæðingsins aukast gífurlega, bæði að styrk og fjölbreytni. Þörf okkar á því að fara reglulega í musterið hefur aldrei verið meiri“ („Verum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018). Hvernig hefur musterið hjálpað ykkur að standast „árásir andstæðingsins“? Hvað finnst ykkur þið hvött til að gera til að fylgja leiðsögn Nelsons forseta?

Sjá einnig Church History Topics, „Nauvoo Temple,“ ChurchofJesusChrist.org/study/church-history.

Ljósmynd
Joseph Smith með öðrum við byggingu Nauvoo-musterisins.

Joseph Smith við Nauvoo-musterið, eftir Gary E. Smith

Kenning og sáttmálar 124:84–118

Drottinn þráir að veita mér sérstaka leiðsögn fyrir líf mitt.

Vers 84–118 eru að mestu leiðsögn til ákveðinna einstaklinga og sumt þar kann að virðast óviðkomandi lífi ykkar. Þið gætuð þó fundið eitthvað sem þið þurfið að heyra. Íhugið að spyrja Drottin hvað í þessum versum hann gæti ætlað ykkur og leitið leiðsagnar andans til að finna það. Ákveðið síðan hvað þið hyggist gera til að bregðast við því. Hvernig gæti t.d. aukin auðmýkt hjálpað ykkur að meðtaka andann? (sjá vers 97).

Þið gætuð líka hugleitt aðra leiðsögn sem Drottinn hefur veitt ykkur. Hvernig bregðist þið við henni?

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Kenning og sáttmálar 124:2–11.Ef Drottinn bæði ykkur og fjölskyldu ykkar að „gefa út hátíðlega yfirlýsingu um fagnaðarerindi [hans],“ til „[allra konunga] heims“ (vers 2–3), hvernig myndi þá yfirlýsingin hljóða? Íhugið að setja eina saman og biðja fjölskyldumeðlimi að leggja til sannleika fagnaðarerindisins sem þeir vilja hafa með.

Kenning og sáttmálar 124:15.Hvað felst í því að vera einlægur? Afhverju metur Drottinn einlægni? Hvaða dæmi um einlægni hefur fjölskylda ykkar upplifað? (Sjá einnig Til styrktar æskunni, 19.)

Kenning og sáttmálar 124:28–29, 40–41, 55.Hvað lærum við af þessum versum um ástæðu þess að Drottinn býður okkur að reisa musteri? Fjölskylda ykkar gæti notið þess að teikna mynd af musteri eða byggja það úr kubbum eða öðru efni. Við þá iðju gætuð þið rætt afhverju við erum þakklát fyrir að hafa musteri á okkar tíma og ástæður þess að við tilbiðjum þar reglubundið.

Kenning og sáttmálar 124:91–92.Væri það gagnlegt fyrir fjölskyldu ykkar að ræða patríarkablessanir? Fjölskyldumeðlimir sem þegar hafa fengið patríarkablessun sína, gætu sagt frá því hvernig það var að fá hana og hvernig það hefur blessað þá. Þið gætuð líka fjallað um „Patríarkablessanir“ (Leiðarvísir að ritningunum, churchofjesuschrist.org/study/scriptures/gs/patriarchal-blessings?lang=isl).

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Tillaga að söng: „Musterið,“ Barnasöngbókin, 99.

Ljósmynd
Táknmynd radda endurreisnarinnar

Raddir endurreisnarinnar

Líknarfélagið

Ljósmynd
Joseph og Emma Smith og fleiri konur

Málverk af Líknarfélaginu, eftir Paul Mann

Árið 1842, eftir stofnun Líknarfélagsins í Nauvoo, Illinois, sagði spámaðurinn Joseph Smith: „Kirkjan var aldrei fyllilega skipulögð fyrir en starf kvennanna var skipulagt á þennan hátt.“1 Athugun á endurreisn kirkjunnar og prestdæmi Drottins (sjá Kenning og sáttmálar 107) væri ekki fullnægjandi fyrr en Líknarfélagið, sem er „endurreist forn fyrirmynd“ kvenlærisveina Jesú Krists, hefur líka verið skoðað.2

Eliza R. Snow gegndi mikilvægu hlutverki í þeirri endurreisn. Hún var viðstödd þegar Líknarfélagið var fyrst stofnað og skrifaði fundargerðir sem ritari á fundum félagsins. Hún var sjálf vitni að því að Líknarfélagið var skipulagt „að fyrirmynd prestdæmisins.“3 Hér að á eftir eru orð hennar, skrifuð meðan hún starfaði sem aðalforseti Líknarfélagsins, til að hjálpa systrum sínum að skilja hið guðdómlega starf sem falið er sáttmálsdætrum Guðs.

Ef þið viljið kynna ykkur betur hvernig Líknarfélagið var skipulagt, sjá þá Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2017), 1–25; The First Fifty Years of Relief Society (2016), 3–175.

Eliza R. Snow

Ljósmynd
Eliza R. Snow, eftir Lewis Ramsey

„Þótt nafnið [Líknarfélagið] gæti verið nútímalegt, þá er það stofnun af fornum uppruna. Okkur er sagt af [Joseph Smith] að þessi sama stofnun hafi átt sér tilurð í kirkjunni til forna, samkvæmt tilvísunum í sumum bréfanna í Nýja testamentinu, þar sem orðtakið ,útvalin frú [kjörin kona]‘ kemur fyrir [sjá 2. Jóhannesarbréfið 1:1; Kenning og sáttmálar 25:3].

„Þetta er félag sem ekki getur verið án prestdæmisins, því staðreyndin er sú að allt valdsumboð þess á sér rætur í prestdæminu. Þegar prestdæmið var tekið af jörðu, átti þessi stofnun, sem og allir aðrir viðaukar hinnar sönnu skipan Kirkju Jesú Krists, sér ekki lengur tilveru á jörðu. …

Eftir að hafa verið viðstödd stofnun ,Líknarfélags kvenna í Nauvoo,‘ … og eftir nokkra reynslu af því félagi, gæti ég ef til vill komið nokkrum ábendingum á framfæri, dætrum Síonar til aðstoðar við að láta til sín taka í þessu afar mikilvæga hlutverki, fyllt nýjum og margfalt fleiri ábyrgðarskyldum. Ef einhverjum dætra og mæðra í Ísrael finnst þær að einhverju leyti takmarkaðar á sínu núverandi sviði, munu þær nú hafa nægilegt svigrúm til að nýta alla sína krafta til góðs, sem þeim er svo afar eðlislægt að gera. …

Ljósmynd
Rauðsteinsbúðin

Líknarfélagið var stofnað á efri hæð Rauðsteinsbúðarinnar.

„Ef einhver spyr: Hvert er hlutverk Líknarfélags kvenna? Væri svar mitt – að gera góðverk – að sameina alla krafta okkar til að gera góðverk, ekki einungis til að líkna fátækum, heldur frelsa sálir. Sameiginlegt starf fær áorkað ólýsanlega miklu meiru, en afkastamesti einstaklingur fengi komið til leiðar. …

Líknarfélag kvenna hefur fleiri skyldum að gegna en einungis að líkna hinum fátæku líkamlega. Fátækt í huga og sjúkleiki í hjarta krefjast einnig athygli; og oft megnar ljúft viðmót – fáein orð leiðsagnar, eða jafnvel hlýtt og ástúðlegt handaband, að gera meira gott og er betur þegið en pyngja af gulli. …

„Þegar hinir heilögu koma frá útlöndum, eru öllum ókunnugir og auðveld bráð þeim sem bíða þess að geta logið og blekkt, þá ætti [Líknar]félagið að koma [þeim] skjótt til hjálpar, kynna þeim samfélag sem bætir þá og upphefur, og umfram allt, eflir þeim trú á fagnaðarerindið, og vera á þann hátt mikilvægt við frelsun margra.

„Það þyrfti heilu bækurnar til að skilgreina skyldurnar, forréttindin og ábyrgðina sem falla undir verksvið félagsins. … Takist á við verkið (með leiðsögn biskups ykkar) af rósemd, þrótti, elju, einingu og kostgæfni og Guð mun krýna starf ykkar farsæld og árangri.“4

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 451.

  2. Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2017), 1.

  3. Joseph Smith, í Sarah M. Kimball, „Auto-biography,“ Woman’s Exponent, 1. sept. 1883, 51.

  4. „Female Relief Society,“ Deseret News, 22. apríl 1868, 81.

Ljósmynd
Nauvoo-musterið

Nauvoo-musterið, eftir George D. Durrant