Kom, fylg mér
17.–23. ágúst. Helaman 1–6: „Á bjargi lausnara okkar“


„17.–23. ágúst. Helaman 1–6: ,Á bjargi lausnara okkar,‘“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: Mormónsbók 2020 (2020)

„17.–23. ágúst. Helaman 1–6,“ Kom, fylg mér – Fyrir einstaklinga og fjölskyldur: 2020

Ljósmynd
Öldurót á bjargi

17.–23. ágúst

Helaman 1–6

„Á bjargi lausnara okkar“

Reglurnar í þessum lexíudrögum geta hjálpað ykkur við að læra Helaman 1–6, en látið þær þó ekki skyggja ykkur sýn. Heilagur andi mun leiða ykkur í þann sannleika sem þið þurfið að læra.

Skráið hughrif ykkar

Í Bók Helamans er sagt frá bæði sigrum og hörmungum meðal Nefítanna og Lamanítanna. Í upphafi eru „alvarlegir erfiðleikar meðal Nefíþjóðarinnar“ (Helaman 1:1) og þeim linnir ekki út alla heimildina. Í henni lesum við um pólitískt ráðabrugg, ræningjagengi, höfnun spámannanna og dramb og vantrú um allt landið. Þar má líka finna fyrirmyndir, líkt og Nefí og Lehí, og „auðmjúkari hluta þjóðarinnar,“ sem ekki aðeins stóðst raunir sínar, heldur naut andlegrar farsældar (Helaman 3:34). Hvernig fór það að þessu? Hvernig var það staðfast í stöðugt hnignandi siðmenningu? Á sama hátt og sérhvert okkar er staðfast þegar „voldugur stormur,“ sem djöfullinn sendir, „bylur á [okkur]“ – með því að byggja líf okkar „á bjargi lausnara okkar, … [grundvelli sem] menn byggja á [svo] þeir [geta] ekki fallið“ (Helaman 5:12).

Ljósmynd
Táknmynd persónulegs náms

Hugmyndir að persónulegu ritningarnámi

Helaman 1–6

Hroki aðskilur mig frá andanum og styrk Drottins.

Þegar þið lesið Helaman 1–6 – og alla Mormónsbók – gætuð þið séð mynstur í atferli Nefítanna: Þegar Nefítarnir eru réttlátir, blessar Guð þá og þeir njóta farsældar. Að nokkrum tíma liðnum, verða þeir hrokafullir og ranglátir, taka rangar ákvarðanir sem leiða til tortímingar og þjáningar. Þeir verða síðan auðmjúkir og innblásnir til iðrunar og Guð blessar þá enn og aftur. Þetta ferli endurtekur sig í sífellu, svo margir kalla það „hrokaferlið.“

Ljósmynd
Hrokaferlið

„Hrokaferlið.“

Gætið að dæmum um þetta ferli við lesturinn. Þið gætuð jafnvel viljað merkja við slík dæmi þegar við finnið þau. Hér eru nokkrar spurningar til að auðvelda ykkur að skilja þetta ferli og hvernig það gæti átt við um ykkur:

  • Hvaða vísbendingar um hroka sjáið þið meðal Nefítanna? (sjá t.d. Helaman 3:33–34; 4:11–13). Sjáið þið álíka dæmi um hroka í fari ykkar sjálfra?

  • Hverjar eru afleiðingar hroka og ranglætis? (sjá Helaman 4:23–26). Hverjar eru afleiðingar auðmýktar og iðrunar? (sjá Helaman 3:27–30, 35; 4:14–16).

  • Hvað vildi Helaman að synir sínir hefðu hugfast? (sjá Helaman 5:4–12). Hvernig getur það hjálpað ykkur að forðast hroka að hafa þennan sannleika hugfastan?

Sjá einnig Dieter F. Uchtdorf, „Drambsemi og prestdæmið,“ aðalráðstefna, október 2010.

Helaman 3:24–35

Ég get helgast þegar ég gef Guði hjarta mitt.

Í Helaman 3 segir Mormón frá tímabili þar sem kirkjan naut slíkrar farsældar og blessana að jafnvel leiðtogar hennar voru forviða (sjá vers 24–32). Að því kom að sumir urðu hrokafullir, en aðrir „sífellt [styrkari] í auðmýkt sinni, … já, sem hreinsaði og helgaði hjörtu þess“ (Helaman 3:35). Gætið að því í versum 34–35 hvað auðmjúkara fólkið gerði til að hreinsast og helgast. Hvernig hjálpar þetta ykkur til að verða helgaðri. Gagnlegt gæti verið að vita að í Leiðarvísi að ritningunum (churchofjesuschrist.org/study/scriptures/study-helps?lang=isl) er orðið helgun skilgreint sem „sá ferill að verða laus við synd, hreinn, óflekkaður og helgaður fyrir friðþægingu Jesú Krists.” Hvað finnst ykkur þið knúin til að gera til að fylgja fordæmi þessara lærisveina? Hvað gerið þið til að gefa Guði hjarta ykkar?

Helaman 5:14–52

Trú mín styrkist vegna „hinnar miklu sönnunar, sem [mér hefur] hlotnast.“

Öldungur Jeffrey R. Holland sagði eitt sinn um þá sem há trúarlega baráttu: „Ennfremur er trú ykkar meiri en þið haldið, vegna ,hinnar miklu sönnunar,‘ líkt og staðhæft er í Mormónsbók [Helaman 5:50]. … Ávöxturinn af því að lifa eftir fagnaðarerindinu er greinilega sýnilegur í lífi Síðari daga heilagra allsstaðar“ („Ég trúi,“ aðalráðstefna, apríl 2013). Hugsið um sannanir sem Drottinn hefur veitt ykkur við lestur þessara versa. Dæmi: Þið hafið ef til vill ekki heyrt rödd Drottins bókstaflega, en hafið þið skynjað „[hljóðláta rödd]“ heilags anda, sem „[smýgur] inn í sjálfa sálina“? (Helaman 5:30; sjá einnig Kenning og sáttmálar 88:66). Ef til vill hafið þið verið í myrkri, ákallað Guð um trúarstyrk og verið „[fyllt ólýsanlegri gleði]“ (Helaman 5:40–47). Hvaða aðrar upplifanir hafa veitt ykkur trúarstyrk á Krist og fagnaðarerindi hans?

Ljósmynd
Táknmynd fjölskyldunáms

Hugmyndir að ritningarnámi og kvöldstund fjölskyldunnar

Þegar þið lesið ritningarnar með fjölskyldu ykkar, getur andinn hjálpað ykkur að vita hvaða reglur ber að ræða og leggja áherslu á, til að uppfylla þarfir fjölskyldu ykkar. Hér eru nokkrar ábendingar.

Helaman 3:27–30

Þegar spámaðurinn Mormón gerði útdrátt úr hinum helgu heimildum, notaði hann stundum orðtakið „þannig sjáum við“ til að leggja áherslu á mikilvægan sannleika. Hvað vildi hann að við sæjum í Helaman 3:27–30? Í námi ykkar þessa vikuna, gætuð þið staldrað við endrum og eins til að spyrja fjölskyldumeðlimi hvernig þeir myndi ljúka orðtakinu „og þannig sjáum við,“ samkvæmt efninu sem þau hafa lesið. Hvaða sannleika viljið þið leggja áherslu á?

Helaman 5:6–7

George A. Smith, látinn afi George Albert Smith forseta, birtist honum í draumi og sagði: „Mig langar að vita hvernig þú hefur borið nafnið mitt.“ Smith forseti svaraði: „Ég hef ekkert gert við nafnið þitt sem þú þarft að fyrirverða þig fyrir“ (í Teachings of Presidents of the Church: George Albert Smith [2011], xxvi). Eftir lestur Helaman 5:6–7, gætuð þið ef til vill rætt við fjölskyldumeðlimi ykkar um að hafa hugföst og heiðra nöfnin sem við berum, þar með talið nafn frelsarans.

Helaman 5:12

Ef til vill gæti fjölskylda ykkar byggt saman eitthvað mannvirki og sett það á mismunandi undirstöður, til að fjölskyldan skilji sjónrænt hvað „öruggur grundvöllur“ er. Þið gætuð síðan sprautað vatni á þær og notað viftu eða hárblásara til að úr verði „voldugur stormur.“ Hvað gerðist fyrir mannvirkið þegar það var á hinum ýmsu undirstöðum? Hvernig er Jesús Kristur eins og „öruggur grundvöllur“ í lífi okkar?

Helaman 5:29–33

Hverjar eru upplifanir okkar við að þekkja rödd Guðs í lífi okkar?

Finna má fleiri hugmyndir fyrir kennslu barna í Lexíudrög þessarar viku í Kom, fylg mér – Fyrir Barnafélagið.

Bæta persónulegt nám

Hafið þolinmæði með ykkur sjálfum. Undirstaða trúar er byggð lið fyrir lið. Ef ykkur finnst erfitt að skilja ákveðnar kenningar, sýnið þá þolinmæði. Treystið því að þið hljótið skilning þegar þið byggið á Jesú Kristi sem undirstöðu og iðkið trú og lærið af kostgæfni.

Ljósmynd
Nefí og Lehí í fangelsi

© Mormónsbók fyrir unga lesendur, Nefí og Lehí umluktir eldstólpa, eftir Briana Shawcroft; afritun óheimil