2013
Líf og dauði: Skilningur brautryðjanda á upprisunni
Apríl 2013


Líf og dauði

Skilningur brautryðjanda á upprisunni

Þegar fyrstu meðlimir kirkjunnar lögðu á sig ferðalag til vesturhluta Bandaríkjanna til að sameinast hinum heilögu, horfðust þeir í augu við dauðann, en styrktust af hinni nýju trú sinni á hið endurreista fagnaðarerindi. Eftirfarandi er útdráttur úr frásögnum brautryðjanda sem er lýsandi fyrir von hinn heilögu á upprisuna, ásamt hughreystandi kenningum fyrstu fimm forseta kirkjunnar.

Frásögn ónafngreinds Norðurlandabúa, Síðari daga heilagra föður, hvers sonur dó er hann ferðaðist frá New York til Utah árið 1866:

„Með hjálp vinar var lítil gröf tekin og hinar jarðnesku leifar settar í hana. Barnið hafði látist úr smitsjúkdómi og engir syrgjendur voru þar saman komnir, engin formleg athöfn var höfð, engar blómaskreytingar voru þar, enginn sálmasöngur og engin kveðjuorð sögð. En áður en hinn syrgjandi faðir fór frá gröfinni flutti hann stutta vígslubæn á móðurmáli sínu (dönsku) eins og hér segir: …

„‚Himneski faðir: Þú gafst mér þennan litla fjársjóð—þennan yndislega dreng, og nú hefur þú kallað hann heim. Vilt þú sjá til þess að jarðneskar leifar hans hvíli hér í friði fram að morgni upprisunnar. Verði þinn vilji. Amen.‘

Þegar hann stóð upp voru kveðjuorðin þessi:

„‚Vertu sæll, kæri litli Hans—fallegi drengurinn minn.‘ Síðan hélt hann staðfastlega til tjaldbúðar sinnar, lotinn og sorgmæddur í hjarta.“1

Joseph Smith forseti (1805–44):

„Hve hughreystandi fyrir þá er syrgja, eftir viðskilnað eiginmanns, eiginkonu, föður, móður, barns eða náins ástvinar, að búa yfir þeirri vitneskju, að þótt jarðnesk tjaldbúð þeirra sé lögð í gröf til að leysast upp, munu þau rísa upp að nýju til dvalar í eilífri og ódauðlegri dýrð, án sorgar, þjáningar og dauða, og verða erfingjar Guðs og samarfar Jesú Krists.“2

Joseph Watson Young (1828–73), frændi Brigham Young, sem ferðaðist frá Englandi til Bandaríkjanna árið 1853:

„Það var sorgleg stund að fela samferðamann sinn djúpri og þögullri gröfinni á miðri nóttu, þar sem aðeins fáeinir voru viðstaddir. … Hann átti engan að um borð eða engan sem syrgði hann nema samþjón sinn. Á skammri stundu verða kærar vonir hins mannlega eðlis að engu. Þessi ungi maður hafði yfirgefið allt til að fara til Síonar og hjarta hans brann af eftirvæntingu um framtíðina, og ekki kom honum í huga að jarðneskar leifar hans yrðu fengnar soltnu öldurótinu. En hann lét ekki lífið líkt og þeir sem enga von hafa, því hann hafði friðmælst við Guð og átti fullvissu um dýrðlega upprisu að morgni hinna réttvísu.“3

Brigham Young forseti (1801–77):

„Hve dimmur dalur og myrkur er við nefnum dauða! Hve undarlegt það er að hverfa frá þessari tilveru, hvað varðar hinn jarðneska líkama, í ástand tómleika! Hve dimmur sá dalur er! Hve dularfullur þessi vegur er og hann verðum við að fara einsömul. Ég óska að segja ykkur, vinir mínir og bræður, ef við fengjum séð raunveruleikann eins og hann er, og líkt og við munum sjá og skilja hann, væri þessi dimmi og myrkvi dalur svo smávægilegur, að við myndum horfa um öxl á hann og hugsa með okkur, þegar hann er að baki, hvernig hann hefur aukið á framfarir tilveru okkar, því við höfum horfið frá ástandi sorgar og sútar, hörmunga og harmkvæla, vesældar og vonbrigðar, yfir í ástand þar sem við fáum notið lífsins til hins ýtrasta, eins mögulega mikið og hægt er án líkamans.“4

Dan Jones (1811–62), velskur trúskiptingur, sem sigldi til Bandaríkjanna árið 1849, ásamt frú Williams og fleiri kirkjumeðlimum:

„Frú Williams, frá Ynysybont nærri Tregaron [Wales], hrakar hratt og ekki er líklegt að hún lifi lengi enn. … Hún sagði sinn mesta heiður í lífinu vera þann að hafa verið þess umkomin að verða meðlimur hinnar sönnu kirkju sonar Guðs, og að hún bæri engan ótta í brjósti yfir komandi lífi og að trú hennar væri henni styrkur, aldrei sem áður. … Hún hvatti syni sína af alvöru til að sýna hollustu allt til dauða, svo að þeir gætu með henni hlotið betri upprisu. … Hún var skýr alla nóttina og fimmtán mínútur yfir fjögur um morguninn yfirgaf andi hennar líkamann af friðsæld og bros færðist yfir andlit hennar.“5

John Taylor forseti (1808–87):

„Hve hughreystandi fyrir þá sem finna til sorgar yfir að missa ástkæra vini, að vita að þeir mun hitta þá að nýju! Hve hughreystandi fyrir alla þá sem lifa samkvæmt opinberuðum reglum sannleikans, hugsanlega einkum fyrir þá sem hafa vandað líf sitt, sem borið hafa byrðar í hita dagsins, að vita að innan skamms munum við rjúfa helsi grafarinnar, og koma fram sem lifandi og ódauðlegar sálir, og njóta samfélags við okkar góðu og tryggu vini, án áhrifa dauðans, til að ljúka því verki sem faðirinn hefur falið okkur að vinna!“6

Andrew Jenson (1850–1941), danskur innflytjandi, sem ferðaðist í vagnahópi Andrews H. Scott frá Nebraska, Bandaríkjunum, til Utah árið 1866:

„Þegar við urðum vitni að því að jarðneskar leifar þeirra [samferðamanna þeirra] voru grafnar í móður jörð, í óbyggðunum, grétum við öll, eða vildum gráta; því hugsunin um að grafa ástvini okkar á þennan hátt, þar sem vinir og ættmenni urðu að hverfa skjótt frá, án vonar um að geta vitjað hvíldarstaðarins aftur, var vissulega erfið og döpur. … En grafir þeirra finnast þegar Gabríel þeytir lúðurinn að morgni fyrstu upprisunnar. Þessir dánu hurfu þannig frá líkömum sínum á för sinni til Síonar. Drottinn kallaði þá heim áður en þeir náðu ákvörðunarstað sínum; þeim var ekki ætlað að sjá Síon í holdinu; en þeir munu hljóta dýrð og eftirleiðis fagna; þeir dóu í þeirri viðleitni að hlýða Guði og halda boðorð hans og sælir eru þeir sem deyja í [Drottni].“7

Wilford Woodruff forseti (1807–98):

„Án fagnaðarerindis Krists er aðskilnaður dauðans ein drungalegasta hugsun allra; en um leið og við hljótum fagnaðarerindið og lærum um upprisuna, hverfur drunginn, sorgin og sársaukinn sem dauðinn veldur, að mestu. … Upprisa hinna dánu verður ljós hinum upplýsta huga mannsins, og andi hans getur reitt sig á örugga vitneskju. Að því búa Síðari daga heilagir í dag. Við vitum fyrir okkur sjálf, við erum ekki í myrkrinu hvað þetta varðar; Guð hefur opinberað okkur það og við fáum skilið reglur upprisu hinna dánu, og að fagnaðarerindið gerir líf og ódauðleika að veruleika.“8

William Driver (1837–1920), brautryðjandi sem ferðaðist frá Englandi til New York, Bandaríkjunum, árið 1866:

„Willie, mitt kæra barn, var afar veikur alla nóttina, þar til klukkan 7:30 að morgni, er hann var leystur undan þjáningum sínum. Guð blessi hans dýrmætu sál. Hve hann þjáðist. Hann dó þar sem vagn herra Poulters brotnaði á St. Ann’s Hill, Wandsworth, Surrey, Englandi. Ó, hve ég syrgi þennan mikla missi. Ó, Drottinn, hjálpa mér með mætti þínum að takast á við þessa byrði og örva mig til þjóna þér af enn meiri göfgi og hollustu, og megi ég lifa til að búa mig undir að hitta hann í gleðilegri og betri heimi, ásamt systur hans, Elizabeth Maryann, og megi ég hitta þau við upprisu hinna réttvísu.“9

Lorenzo Snow forseti (1814–1901):

„Í næsta lífi munu líkamar okkar verða dýrðlegir og óháðir sjúkdómum og dauða. Ekkert er jafn fagurt og manneskja í upprisnu og dýrðlegu ástandi. Ekkert er jafn yndislegt og að vera í þessu ástandi og að hafa eiginkonu okkar og börn og vini meðal okkar.“10

Heimildir

  1. Robert Aveson, „Leaves from the Journal of a Boy Emigrant,“ Deseret News, 12. mars 1921, 4:7; fáanlegt á lds.org/churchhistory/library/pioneercompanysearch.

  2. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 52.

  3. Joseph W. Young, Journal, 6. mars 1853, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City, Utah; fáanlegt á mormonmigration.lib.byu.edu.

  4. Teachings of Presidents of the Church: Brigham Young (1997), 273.

  5. „Bréf frá kapteini D. Jones til ritstjóra Udgorn Seion,“ í Ronald D. Dennis, The Call of Zion: The Story of the First Welsh Mormon Emigration, bindi 2 (1987), 164–65; fáanlegt á mormonmigration.lib.byu.edu.

  6. Teachings of Presidents of the Church: John Taylor (2001), 50–51.

  7. Dagbók Andrew Jenson, 20. ágúst 1866, í Journal History of The Church of Jesus Christ of Latter-day Saints, 8. okt. 1866, Sögusafn kirkjunnar, Salt Lake City, Utah, 6; fáanlegt á lds.org/churchhistory/library/pioneercompanysearch.

  8. Teachings of Presidents of the Church: Wilford Woodruff (2004), 82‑–83.

  9. Frank Driver Reeve, London to Salt Lake City in 1866: The Diary of William Driver (1942), 42; fáanlegt á mormonmigration.lib.byu.edu.

  10. Lorenzo Snow, í Conference Report, okt. 1900, 63.

Teikningar eftir Michael T. Malm OG BAKGRUNNUR EFTIR Welden C. Andersen © IRI

Vinstri: Brigham Young forseti. Að ofan: Joseph Watson Young.

Til hægri: John Taylor forseti. Að ofan: Dan Jones.

Innfellt: Brigham Young, eftir John Willard Clawson; ljósmynd af Joseph Watson Young, birt með leyfi Sögusafns kirkjunnar; ljósmynd af Dan Jones © IRI; John Taylor, eftir A. Westwood, birt með leyfi Sögusafns kirkjunnar

Vinstri: Wilford Woodruff forseti. Að ofan: Andrew Jenson.

Til hægri: Lorenzo Snow forseti. Að ofan: William Driver.

Innfellt: Wilford Woodruff, eftir H. E. Peterson © IRI; ljósmynd af Andrew Jenson, eftir Harold Howell Jenson, birt með leyfi Sögusafns kirkjunnar; ljósmynd af William Driver, birt með leyfi Sögusafns kirkjunnar; Lorenzo Snow, eftir Lewis Ramsey, birt með leyfi Sögusafns Kirkjunnar © IRI