2012
Endurvekja anda jólanna
desember 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, desember 2012

Endurvekja anda jólanna

Ljósmynd
Thomas S. Monson forseti

Fyrir mörgum árum, þegar ég var ungur trúboði, var ég kallaður ásamt öðrum til að fara í sjúkrahús í Salt Lake City til að veita sjúkum börnum blessun. Þegar við komum þangað sáum við jólatré skreytt skærum og fallegum ljósum og gjafir vandlega pakkaðar undir útbreiddum greinum þess. Við gengum síðan eftir göngum þar sem litlir drengir og stúlkur — sum hver plástruð á hendi eða fæti og önnur haldin kvillum sem voru kannski ekki fljótlæknaðir — heilsuðu okkur brosandi.

Ungur, smávaxinn og afar veiklulegur drengur kallaði til mín: „Hvað heitirðu?“

Ég sagði honum nafn mitt og hann spurði: „Viltu gefa mér blessun?“

Blessunin var veitt og þegar við vorum í þann mund að fara frá rúmstæði hans, sagði hann: „Þakka ykkur kærlega fyrir.“

Þegar við höfðum tekið fáein skref, heyrði ég hann kalla: „Ó, bróðir Monson, gleðileg jól.“ Og um leið færðist breitt bros yfir andlit hans.

Þessi drengur hafði með sér anda jólanna. Ég vona að við höfum öll anda jólanna í hjörtum okkar og í lífi okkar — ekki aðeins á þessum sérstöku jólum, heldur einnig allt árið.

Þegar við höfum með okkur anda jólanna, höfum við þann í huga sem fæddist og við nú minnumst með jólahaldi. „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs“ (Lúk 2:11).

Á okkar tíma gegnir andi gjafmildis mikilvægu hlutverki í jólahaldinu. Ég velti fyrir mér hvort það væri okkur gagnlegt að spyrja okkur sjálf: Hvaða gjafir myndi Drottinn vilja að ég gæfi honum eða öðrum á þessum dýrmæta tíma ársins?

Má ég leggja til að himneskur faðir myndi vilja að hvert okkar gæfi honum og syni hans gjöf hlýðni. Ég held að hann myndi líka vilja að við gæfum af okkur sjálfum og værum ekki sjálfselsk, ágjörn eða þrasgjörn, líkt og hinn dýrmæti sonur hans hvetur til í Mormónsbók:

„Því að sannlega, sannlega segi ég yður, að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, … og egnir menn til deilna og reiði hver gegn öðrum.

Sjá! Það er ekki mín kenning að egna menn til reiði hver við annan, heldur er það kenning mín, að slíkt skuli afnumið“ (3 Ne 11:29–30).

Á þessari undursamlegu ráðstöfun í fyllingu tímanna, veitast okkur ótal tækifæri til að vera kærleiksrík og gefa af okkur sjálfum, en þau geta einnig glatast okkur. Í dag eru hjörtu sem gleðja má, blíð orð sem segja má, góðverk sem vinna má og sálir sem bjarga má.

Einhver sem hafði djúpt innsæi í anda jólanna ritaði:

Ég er jóla andinn —

Ég kem inn á heimilin snauðu og lýk upp augum barnanna fölu, sem af undrun gleðjast.

Ég sefa hina ágjörnu og lýsi upp sálir þeirra.

Ég yngi upp aldna og kveð upp hlátur þeirra dátt.

Ég lífga ævintýrin í hjörtum æskunnar og glæði svefninn björtum töfradraumum.

Ég fæ fúsa fætur til að klifra dimma stiga, með fylltar körfur, og glæði hjörtun furðu yfir góðsemi heimsins.

Ég fæ hinn týnda til að staldra við á sínum villta, skaðlega vegi og senda áfjáðum ástvini glaðning sem vekur gleðitár — tár sem hylja svipbrigði harðinda og sorgar.

Ég kem í myrka klefa og minni afvegaleiddan manndóm á það sem hefði getað verið og vísa til góðra daga sem bíða.

Ég kem blíðlega til hljóðra og þjáðra heimila, og of veikar varir til að mæla titra af þakklæti í þögn.

Á ótal vegu fæ ég hinn lúna til að horfa á ástjónu Guðs og gleyma um hríð því smáa og vesæla.

Ég er jóla andinn.1

Megum við öll endurnýja anda jólanna — já, anda Krists.

Heimildir

  1. E. C. Baird, „Christmas Spirit,” í James S. Hewitt, útg., Illustrations Unlimited (1988), 81.

Hvernig kenna á boðskapinn

Þegar þið miðlið boðskap Monsons forseta með fjölskyldunum, ígrundið þá að leggja áherslu á spurninguna sem hann varpaði fram, um það hvaða gjafir Drottinn hefði viljað að við gæfum honum og öðrum þessi jól. Hvetjið fjölskyldmeðlimi til að skrá hugsanir sínar og hugmyndir (eða börn til að teikna myndir) um hvernig „við [megum] öll endurnýja anda jólanna — já, anda Krists.“