2012
Ígrundið blessanirnar
nóvember 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, nóvember 2012

Ígrundið blessanirnar

Faðir okkar á himnum þekkir þarfir okkar og þráir að hjálpa okkur þegar við biðjum hann um aðstoð.

Kæru bræður og systur, á þessari ráðstefnu hafa 49 ár liðið frá því að ég var studdur sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar, 4. október 1963. Fjörutíu og níu ár er langur tími. Á margan hátt virðist tíminn þó hafa liðið afar hratt frá því að ég stóð í ræðustólnum í Laufskálanum og hélt mína fyrstu ræðu á aðalráðstefnu.

Margt hefur breyst frá 4. október 1963. Við lifum á sérstökum tíma í sögu heimsins. Við erum blessuð með svo mörgu. En þó reynist stundum erfitt að íhuga vandamál og frjálslyndi okkar tíma án þess að láta hugfallast. Mér hefur fundist að betra sé að dvelja ekki við hið neikvæða, og ef við stöldrum við og hugleiðum blessanirnar í lífi okkar, líka þær sem virðast smáar og við gleymum stundum, munum við verða hamingjusamari.

Þegar ég lít yfir farinn veg síðustu 49 ára, hef ég áttað mig á nokkru. Eitt af því er að hin ótal atvik sem ég hef upplifað, myndu ekki endilega teljast vera óvenjuleg. Í raun virðast þau oft venjuleg og jafnvel hversdagsleg þegar þau gerast. En þegar litið er til baka, má sjá að þau hafa auðgað og blessað aðra ‒ og ekki síst sjálfan mig. Ég mæli með að þið gerið þetta líka ‒ að þið skoðið farinn veg með það fyrir augum að greina einkum blessanir sem þið hafið hlotið, bæði stórar og smáar.

Vitneskja mín um að bænir okkar eru heyrðar og þeim svarað, hefur eflst til muna við að líta yfir liðin ár. Við erum kunnug sannleikanum sem skráður er í 2. Nefí í Mormónsbók: „Menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta.“1 Ég vitna um að sú gleði hlýst aðallega þegar við áttum okkur á að við getum átt samskipti við föður okkar á himnum með bæn og að bænir okkar eru heyrðar og þeim svarað ‒ kannski ekki á þann hátt og á þeim tíma sem við óskum, heldur að þeim verði svarað af himneskum föður, sem þekkir og elskar okkur fullkomlega og þráir að við séum hamingjusöm. Hefur hann ekki lofað okkur: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum?“2

Á þeim fáu næstu mínútum sem ég hef til umráða, ætla ég að miðla ykkur örlitlum hluta þeirra atvika þar sem ég hef upplifað bænheyrslu og, sem eftir á að hyggja, hafa orðið til að blessa mig, sem og aðra. Dagbókarskrif mín öll þessi ár hafa hjálpað mér að muna eftir smáatriðum, sem ég hefði líklega ekki getað munað eftir að öðrum kosti.

Snemma árs 1965 var mér falið að sækja stikuráðstefnu og hafa fleiri samkomur víða um Suður-yrrahafseyjasvæðið. Þetta var í fyrsta sinn sem ég kom í þennan heimshluta og sá tíma var ógleymanlegur. Margt andlegs eðlis gerðist í þessu verkefni mínu á fundum með leiðtogum, meðlimum og trúboðum.

Laugardaginn og sunnudaginn 20. og 21. febrúar vorum við í Brisbane, Ástralíu, með reglubundnar ráðstefnusamkomur Brisbane-stikunnar. Á sunnudagssamkomunum var ég kynntur fyrir umdæmisforsetanum frá aðliggjandi svæði. Þegar ég tók í hönd hans, fann ég greinilega að ég þurfi að ræða við hann og veita ráðgjöf og spurði því hvort hann gæti orðið mér samferða á sunnudagssamkomu daginn eftir, svo hægt væri að koma því við.

Eftir sunnudagssamkomuna gafst okkur færi á að eiga fund saman. Við ræddum um hina margþættu ábyrgð hans sem stikuforseta. Í þeirri umræðu fann ég mig knúinn til að bera fram ákveðnar tillögur um trúboðsstarf og hvernig hann og meðlimir hans gætu hjálpað trúboðunum í starfi þeirra á svæðinu. Síðar komst ég að því að maður þessi hafði verið að biðja um leiðsögn í þessu sambandi. Honum fannst fundur okkar staðfesta að hann hefði verið bænheyrður. Þetta virtist aðeins venjubundinn fundur, en ég var viss um handleiðslu andans, sem gerði gæfumuninn í lífi og starfi þessi umdæmisforseta, fyrir meðlimi hans og fyrir velgengni trúboðanna þar.

Bræður mínir og systur, tilgangi Drottins verður oft náð með því að hlíta leiðsögn andans. Ég trúi að því meir sem við bregðumst við þeim innblæstri sem við hljótum, því betur mun Drottinn treysta okkur fyrir erindagjörð sinni.

Mér hefur lærst, líkt og ég hef áður sagt, að fresta aldrei innblásnu hugboði. Eitt sinn, fyrir mörgum árum, var ég að synda í lauginni í gömlu Deseret-líkamsræktarstöðinni í Salt Lake City, þegar ég hlaut innblástur um að fara á Háskólasjúkrahúsið til að heimsækja þar góðan vin, sem hafði misst mátt í neðri útlimum, vegna meinsemdar og skurðaðgerðar. Ég fór þegar upp úr lauginni, klæddi mig og var brátt á leið til þessa góða manns.

Þegar ég kom inn í herbergið hans, sá ég að enginn var þar. Ég spurðist fyrir og mér var sagt að ég fyndi hann líklega á laugarsvæði sjúkrahússins, en þar fór líkamleg endurhæfing fram. Og þar hitti ég hann. Hann hafði komist þangað í hjólastól og var einsamall í salnum. Hann var við bakkann á dýpri enda laugarinnar. Ég kallaði til hans og hann kom til mína í hjólastólnum og heilsaði mér. Við áttum ánægulegan fund og ég varð honum samferða inn á sjúkrastofuna hans, þar sem ég veitti honum blessun.

Ég komst síðar að því frá þessum vini mínum, að hann hafi verið algjörlega vonlaus dag þennan og íhugað að taka eigið líf. Hann hafði beðið um lausn, en síðan fundist að bænum hans væri ekki svarað. Hann fór að lauginni með þá hugsun að binda þar enda á kvalræði sitt ‒ með því að láta hjólastólinn falla út í dýpri enda laugarinnar. Ég hafði komið á ögurstundu, með því að bregðast við því sem ég veit að var innblástur að ofan.

Vinur minn lifði í mörg ár eftir þetta ‒ í hamingju og þakklæti. Hve þakklátur ég er fyrir að hafa verið verkfæri í höndum Drottins á þessum ögurdegi við sundlaugina.

Í öðru tilviki, þegar ég og systir Monson ókum heim eftir að hafa vitjað vinar, hlaut ég innblástur um að okkur bæri að fara í bæinn ‒ sem var í margra mílna fjarlægð ‒ til að vitja eldri ekkju, sem eitt sinn hafði verið í deild með okkur. Nafn hennar var Zella Thomas. Á þeim tíma bjó hún á dvalarheimili. Við komum að henni síðdegis þar sem hún lá í rúmi sínu afar veikburða en friðsæl.

Zella hafði lengi verið blind, en hún þekkti raddir okkar þegar í stað. Hún spurði hvort ég gæti gefið henni blessun og bætti við að hún væri undir það búin að deyja, ef Drottinn vildi fá hana heim. Það var ljúfur og friðsæll andi í herberginu og öllum var okkur ljóst að tími hennar á jörðu yrði stuttur. Zella tók í hönd mína og sagðist hafa beðist heitt fyrir um að ég myndi koma til fundar við hana og veita henni blessun. Ég sagði henni að við hefðum komið vegna greinilegs innblásturs frá himneskum föður. Ég kyssti hana á ennið, vitandi að líklega myndi ég ekki sjá hana aftur hér. Sú reyndist raunin, því daginn eftir gaf hún upp andann. Það var okkar ljúfu Zellu og mér blessun að ég gat veitt henni huggun og frið.

Oft berast tækifærin óvænt til að verða öðrum til blessunar. Á einkar köldu laugardagskvöldi, veturinn 1983 til 84, ókum við hjónin nokkrar mílur til fjalladalsins Midway í Utah, þar sem við eigum heimili. Frostið þetta kvöld var um 31 gráða á Selsíus, og við vildum ganga úr skugga um að húsið okkar þar væri í góð lagi. Við komumst að því að allt var í fínu lagi, svo við snerum aftur til Salt Lake City. Við rétt komumst fáeinar mílur að aðalveginum áður en bíllinn hætti að ganga. Við gátum ekkert farið. Mér hefur sjaldan, eða aldrei, verið jafn kalt og þetta kvöld.

Við gengum treglega í átt að næsta bæ og bílarnir þutu fram hjá okkur. Loks stöðvaði bíll og ungur maður bauð fram hjálp sína. Endanlega niðurstaðan var sú að díselolían hefði þykknað svo í eldsneytistankinum vegna frostsins að útilokað var að við gætum ekið bílnum. Þessi ljúfi ungi maður ók okkur til baka að heimili okkar í Midway. Ég reyndi að borga honum fyrir þjónustuna, en hann hafnaði vingjarnlega. Hann sagðist vera skáti og vildi láta gott af sér leiða. Ég kynnti mig yfir honum og hann lét þakklæti í ljós fyrir að geta hjálpað okkur. Ég gerði ráð fyrir að hann væri á aldur við trúboða, svo ég spurði hvort hann hyggðist fara í trúboð. Hann sagðist ekki vera viss um hvað hann tæki sér fyrir hendur.

Mánudagsmorguninn eftir ritaði ég bréf til þessa unga manns og þakkaði honum fyrir hugulsemina. Í bréfinu hvatti ég hann til að þjóna í trúboði. Ég lét eina bóka minna fylgja með og undirstrikaði kaflana um trúboðsþjónustu.

Um viku síðar hringdi móðir unga mannsins í mig og sagði að sonur hennar væri afar góður ungur maður, en vegna ákveðinna áhrifa í lífi hans hafði dregið úr langvarandi þrá hans eftir að þjóna í trúboði. Hún sagði að hún og faðir hans hefðu fastað og beðið um að breyting ætti sér stað í hjarta hans. Þau höfðu sett nafnið hann á bænarlista Provo-musterisins í Utah. Þau vonuðu að hann yrði einhvern veginn fyrir varanlegum áhrifum og að þrá vaknaði að nýju með honum til að fara í trúboð og þjóna Drottni af trúmennsku. Móðir þessi vildi að ég vissi að hún tryði að atvikið sem gerðist á hinu kalda kvöldi væri svar við bænum þeirra í hans þágu. Ég sagði: „Ég er á sama máli.“

Að nokkrum mánuðum liðnum og eftir fleiri samskipti við þennan unga mann, vorum við hjónin afar glöð yfir að vera við kveðjusamkomu hans, áður en hann hélt í Vancouver-trúboðið í Kanada.

Réði tilviljun því að vegir okkar lágu saman þetta kalda desemberkvöld? Því trú ég ekki eitt andartak. Ég trúi fremur að fundur okkar hafi verið svar við hjartnæmum bænum móður og föður í þágu sonar sem þau elska.

Ég endurtek, bræður og systur, faðir okkar á himnum þekkir þarfir okkar og þráir að hjálpa okkur þegar við biðjum hann um aðstoð. Ég trúi því að ekkert áhyggjuefni okkar sé of ómerkilegt. Drottinn veit af því smáa í lífi okkar.

Ég ætla að ljúka með því að segja frá einu nýlegu atviki, sem hafði áhrif á hundruð manna. Það átti sér stað á menningarhátíð Kansas City musterisins fyrir aðeins fimm mánuðum. Svo margt gerist í lífi okkar, að á þessum tíma virtist þetta aðeins eins og hver önnur upplifun þar sem allt gekk upp. En þegar ég frétti hvernig aðstæðurnar hefðu verið kvöldið fyrir vígslu musterisins, komst ég að því að frammistaða kvöldsins hafði ekki verið venjuleg. Hún var afar óvenjuleg.

Líkt og á við um alla menningarviðburði í tengslum við musterisvígslu, hafði æskufólkið á Kansas musterissvæðinu í Missouri æft sig í hópum á eigin heimasvæði. Ráðgert var að æskufólkið kæmi allt saman í stórri, útleigðri borgarmiðstöð á laugardagsmorgni sýningarinnar, svo það gæti lært hvenær og hvar ætti að koma inn, hvar ætti að standa, hve mikið bil ætti að vera á milli einstaklinga, hvernig fara ætti af aðalsviðinu og svo framvegis ‒ mörg smáatriði sem það þurfti að ná tökum á þann daginn, er stjórnendur settu upp hinar ýmsu sviðsmyndir, til að lokasýningin yrði fáguð og fagleg.

Það var bara einn hængur á þann daginn. Öll uppfærslan var grundvölluð á uppteknum sneiðmyndum sem sýna átti á stórum skjá, sem kallaður var JumboTron. Þessir uppteknu sneiðmyndir voru nauðsynlegar í allri uppfærslunni. Þær tengdu ekki bara öll atriðin saman, heldur var fyrri sneiðmynd kynning á næstu uppfærslu. Sneiðmyndir þessar voru rammi sem öll uppfærslan byggðist á. Og JumboTron virkaði ekki.

Tæknimenn unnu sleitulaust að því að leysa vandann meðan æskufólkið beið átekta, svo hundruðum skipti, og varð af dýrmætum tíma til þjálfunar. Aðstæðurnar urðu ískyggilegar.

Höfundur og stjórnandi hátíðarverksins, Susan Cooper, sagði síðar: „Þegar við fórum frá áætlun A til B og Ö, var okkur ljóst að þetta virkaði ekki. … Þegar við litum á dagskrána, varð okkur ljóst að þetta var utan okkar getu, en við vissum að við höfðum gríðarlegt afl niðri á gólfinu ‒ þrjú þúsund ungmenni. Við þurftum að fara niður og segja því hvað gerst hafði og biðja um trú þess.“3

Aðeins klukkustund áður en áhorfendur kæmu inn í miðstöðina, krupu 3.000 ungmenni á gólfið og báðust fyrir saman. Þau báðu þess að þeir sem unnu við JumboTron hlytu innblástur og vitneskju um hvað gera skyldi til að gera við skjáinn; þau báðu himneskan föður um að bæta upp það sem þau sjálf megnuðu ekki að gera, vegna tímaskortsins.

Eitt þeirra sagði eftir á: „Þetta var bæn sem æskufólkið mun aldrei gleyma, ekki vegna þess að gólfið var hart, heldur vegna þess að andinn var svo sterkur.“4

Ekki var langt að bíða þess að einn tæknimaðurinn kæmi til að segja því að vandinn hefði uppgötvast og verið leystur. Hann sagði lausnina hafa verið heppni, en allt unga fólkið vissi betur.

Þegar við komum í umdæmismiðstöðina um kvöldið, höfðum við ekki hugmynd um erfiðleika dagsins. Okkur var sagt frá þeim síðar. Það sem við sáum var aftur á móti dásamlega fögur sýning ‒ ein sú besta sem ég hef séð. Æskufólkið ljómaði af dýrðlegum og kröftugum anda, sem allir viðstaddir skynjuðu. Það virtist vita nákvæmlega hvar koma ætti inn, hvar ætti að standa og hvernig ætti að hreyfa sig í takt við aðra þátttakendur. Þegar ég komst að því að æfing þess hefði verið stytt og að mörg atriðin hefðu ekki verið æfð af hópnum í heild, varð ég forviða. Enginn hefði getað vitað það. Drottinn hafði vissulega gert gæfumuninn.

Það vekur mér ætíð jafn mikla undrun hvernig Drottinn megnar að stjórna og hafa áhrif á lengd og vídd ríkis síns, og á sama tíma veitt innblástur varðandi hinn eina ‒ eða einn menningarviðburð eða einn JumboTron. Sú staðreynd að hann getur það, að hann gerir það, er mér vitnisburður.

Bræður mínir og systur, Drottinn er í öllu ykkar lífi. Hann elskar okkur. Hann vill veita okkur blessanir. Hann þráir að við leitum hjálpar hans. Þegar hann leiðir okkur, og er hann heyrir bænir okkar og svarar þeim, munum við finna þá hamingju hér og nú, sem hann óskar okkur. Ég bið þess að við séum meðvituð um blessanir hans í lífi okkar, í nafni Jesú Krists, frelsara okkar, amen.

Heimildir

  1. 2 Ne 2:25.

  2. Kenning og sáttmálar 112:10.

  3. Susan Cooper, í Maurine Proctor, „Nothing’s Too Hard for the Lord: The Kansas City Cultural Celebration,” Meridian Magazine, 9. maí 2012, ldsmag.com.

  4. Proctor, Meridian Magazine, 9. maí 2012.