2012
Umönnun og þjónusta með heimsóknarkennslu
janúar 2012


Boðskapur heimsóknarkennara, janúar 2012

Umönnun og þjónusta með heimsóknarkennslu

Lærið efnið og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.

Trú, fjölskylda, líkn

„Kærleikurinn [er] miklu meira en aðeins góðvild,“ sagði Henry B. Eyring forseti og fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu. „Kærleikurinn verður til vegna trúar á Drottin Jesú Krist og er afleiðing friðþægingar hans.“1 Heimsóknarkennslan getur verið Líknarfélagssystrum kærleiksverk, mikilvæg leið til að iðka trú á frelsarann.

Við sýnum hverri systur umönnun með heimsóknarkennslu, miðlum boðskap fagnaðarerindisins og leggjum okkur fram við að þekkja þær og þarfir fjölskyldna þeirra. „Heimsóknarkennslan verður verk Drottins þegar áherslan verður á fólk frekar en prósentuhlutfall,“ útskýrði Julie B. Beck, aðalforseti Líknarfélagsins. „Í raun er heimsóknarkennslu aldrei lokið. Hún er frekar lífsmáti en starf. Dygg þjónusta heimsóknarkennarans er sönnun á lærisveinshlutverki hans.“2

Þegar við erum bænheitar í stöðugri umönnun, lærist okkur hvernig best er að þjóna og uppfylla þarfir hverrar systur og fjölskyldu hennar. Þjónusta getur verið margs konar — stundum umfangsmikil og stundum minni háttar. „Oft eru hin látlausu verk þjónustu allt sem þarf til að uppörva og blessa aðra: Spurning um fjölskyldu viðkomandi, ljúf hvatningarorð, einlæg hrósyrði, stutt þakkarbréf, stutt símtal,“ kenndi Thomas S. Monson forseti. „Ef við erum næm og athugul og ef við fylgjum innblæstri okkar, getum við komið miklu góðu til leiðar. … Þau þjónustuverk eru óteljandi sem hinn fjölmenni skari heimsóknarkennara Líknarfélagsins hefur innt af hendi.“3

Úr ritningunum

Jóh 13:15, 34–35; 21:15; Mósía 2:17; Kenning og sáttmálar 81:5; HDP Móse 1:39

Úr sögu okkar

Árið 1843 var kirkjumeðlimum í Nauvoo, Illinois, skipt í fjórar deildir. Í júlí sama ár tilnefndu Líknarfélagsleiðtogar heimsóknarnefnd skipaða fjórum systrum frá hverri deildanna. Heimsóknarnefndinni var falin sú ábyrð að meta þarfir og safna framlögum. Líknarfélagið notaði framlögin til að annast fátæka.4

Þótt heimsóknarkennarar safni ekki lengur framlögum, hafa þeir enn þá ábyrgð að meta þarfir — andlegar og stundlegar — og vinna að því að uppfylla þær þarfir. Eliza R. Snow (1804–87), annar aðalforseti Líknarfélagsins, sagði: „Kennari … ætti vissulega að búa svo ríkulega að anda Drottins að hún fái metið anda þess heimilis sem hún heimsækir. … Ákallið frammi fyrir Guði og heilögum anda til að hljóta [andann], svo þið fáið metið þann anda sem á heimilinu ríkir … og fáið mælt orð friðar og huggunar, og ef þið finnið systur sem köld er orðin, umvefjið hana þá kærleika, líkt og þið faðmið barn að brjósti ykkar, og veitið henni yl og hlýju.“5

Heimildir

  1. Henry B. Eyring, „Hin varanlega arfleifð Líknarfélagsins,“ Aðalráðstefna, okt. 2009, 136.

  2. Julie B. Beck, „Líknarfélagið: Heilagt verk,“ Aðalráðstefna, okt. 2009, 126.

  3. Thomas S. Monson, „Þrjú markmið til leiðsagnar,“ Aðalráðstefna, okt. 2007, 131.

  4. Sjá Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 105.

  5. Eliza R. Snow, í Daughters in My Kingdom, 108.

Hvað get ég gert?

  1. Hvað geri ég til að hjálpa systrum mínum að finna að ég er vinkona sem ann þeim og ber hag þeirra fyrir brjósti?

  2. Hvernig get ég betur annast og elskað aðra?