2011
Þið skiptið hann máli
nóvember 2011


Þið skiptið hann máli

Drottinn notar allt annan mælikvarða til að vega og meta verðleika sálarinnar.

Móse, einn mesti spámaður sem heimurinn hefur nokkru sinni átt, var alinn upp af dóttur Faraós og eyddi fyrstu 40 árum ævi sinnar í hinum konunglegu sölum Egyptalands. Hann þekkti af eigin raun dýrð og glæsileika hins forna ríkis.

Nokkrum árum síðar stóð Móse á tindi fjarlægs fjalls, víðs fjarri glæsimennsku og mikilleik hins mikla Egyptalands, og hann stóð þar í návist Guðs og ræddi við hann augliti til auglitis, líkt og vinir ræðast saman.1 Meðan á því stóð sýndi Guð Móse verk handa sinna, gaf honum sýn inn í verk sitt og dýrð. Þegar sýninni lauk féll Móse til jarðar og lá þar í margar stundir. Þegar hann loks fékk aftur styrk sinn, varð honum ljóst það sem hann hafði aldrei áður séð öll árin sín við hirð Faraós.

„Af þessu veit ég,“ sagði hann, „að maðurinn er ekkert.“2

Við erum minni en við ætlum

Því meira sem við lærum um alheiminn, þess betur skiljum við — að minnsta kosti að hluta — það sem Móse vissi. Alheimurinn er svo stór, leyndardómsfullur og dýrðlegur að hann er óskiljanlegur hinum mannlega huga. „Ótal heima hef ég skapað,“ sagði Guð við Móse.3 Fegurð næturhiminsins er fallegur vitnisburður þess sannleika.

Það eru nokkrir hlutir sem hafa fyllt mig slíkri andakt og undri, til dæmis að fljúga í svartnætti yfir höf og meginlönd og horfa úr flugstjórnarklefa mínum á hina takmarkalausu dýrð milljóna stjarna.

Stjörnufræðingar hafa reynt að telja fjölda stjarnanna í alheiminum. Einn hópur vísindamanna telur að fjöldi stjarnanna innan sviðs stjörnusjónauka okkar sé 10 sinnum fleiri en öll sandkornin á öllum ströndum heims og eyðimörkum.4

Sú niðurstaða er sláandi lík yfirlýsingu hins forna spámanns Enoks: „Og væri manninum unnt að telja öreindir jarðar, já, milljóna jarða sem þessarar, þá næði það ekki upphafstölu sköpunarverka þinna.“5

Þegar víðfeðmi sköpunarverks Guðs er haft í huga, er ekki að undra þótt Benjamín konungur hafi ráðlagt fólki sínu „að [muna og varðveita] ætíð í hug yðar mikilleik Guðs og smæð yðar.“6

Við erum stærri en við ætlum

En jafnvel þótt maðurinn sé ekkert, fyllist ég undri og lotningu yfir því hve „verðmæti sálna er mikið í augum Guðs.“7

Og þótt við getum litið víðáttu alheimsins og sagt: “Hvað er maðurinn í samanburði við dýrð sköpunarinnar?” Hefur Guð sjálfur sagt að við séum ástæðan fyrir því að hann skapaði alheiminn. Verk hans og dýrð — tilgangur þessa undursamlega alheims — er að frelsa og upphefja mannkyn.8 Með öðrum orðum er víðátta eilífðarinnar, dýrðir og leyndardómar hins takmarkalausa tíma og rúms, allt gert til heilla og hags venjulegum dauðlegum verum, líkt og ykkur og mér. Himneskur faðir skapaði alheiminn til að við gætum náð möguleikum okkar sem synir hans og dætur.

Þetta er þversögn mannsins. Í samanburði við Guð er maðurinn ekkert; en samt erum við Guði allt. Þótt við getum, andspænis hinni algjöru sköpun, virst vera ekkert, þá brennur í brjósti okkar neisti hins eilífa elds. Við eigum hið óskiljanlega fyrirheit um upphafningu — óendanlega heima — innan seilingar okkar. Og Guð þráir heitt að hjálpa okkur að ná því.

Heimska drambsins

Hinn mikli blekkjari veit að ein áhrifaríkasta leiðin til að leiða börn Guðs afvega er að höfða til öfganna í þversögn mannsins. Hjá sumum höfðar hann til drambsamra tilhneiginga þeirra, hrósar þeim í hástert og hvetur þá til að trúa á sitt eigið mikilvægi og ósigrandi mátt. Hann segir þeim að þeir séu ofar hinu venjulega og það vegna getu sinnar, fæðingarréttar eða félagslegrar stöðu, að þeir standi framar öllum öðrum sem umhverfis þá eru. Hann telur þeim trú um að þeir séu þess vegna ekki undir annarra reglur settir og láti sig engu varða annarra vandamál.

Abraham Lincoln er sagður hafa unnað þessu ljóði sem hljóðar svo:

Hvers vegna ætti andi hinna dauðlegu að vera hreykinn?

Líkt og hrapandi stjarna, eða hraðfleygt ský,,

sem eldingsleiftur, eða alda sem brotnar,

Maðurinn yfirgefur lífið til hvíldar í gröfinni.9

Lærisveinar Jesú Krists skilja að í samanburði við eilífðina er dauðleg tilvera okkur aðeins „örskotsstund“ í tíma og rúmi.10 Þeir vita að hið sanna gildi mannsins á ekkert skylt við það sem heimurinn hefur í hávegum. Þeir vita að við gætum safnað saman öllu því fjármagni sem til er í heiminum, en gætum ekki keypt fyrir það brauðhleif á himnum.

Þeir sem munu „[erfa] Guðs ríki“11 eru þeir sem hafa orðið „sem barn, undirgefinn, hógvær, auðmjúkur, þolinmóður, elskuríkur.“12 Því að „hver sem upphefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“13 Slíkir lærisveinar skilja „að þegar þér eruð í þjónustu meðbræðra yðar, eruð þér aðeins í þjónustu Guðs yðar.“14

Við erum ekki gleymd

Önnur leið Satans til að blekkja er með vonleysi. Hann reynir að beina sjónum okkar að eigin lítilvægi þar til við tökum að efast um að við séum einhvers virði. Hann segir okkur að við séum of smá til að tekið sé eftir okkur, að við séum gleymd — einkum Guði.

Má ég segja ykkur frá persónulegri reynslu sem gæti hjálpað þeim sem finnst þeir léttvægir, gleymdir eða einir.

Fyrir mörgum árum var ég við flugþjálfun í flugher Bandaríkjanna. Ég var víðs fjarri heimili mínu, ungur hermaður frá Vestur-Þýskalandi, fæddur í Tékkóslóvakíu, en ólst upp í Austur-þýskalandi og ég átti mjög erfitt með að tala ensku. Ég man greinilega ferð mína á æfingastöðina í Texas. Ég var í flugvél, sat næstur farþega sem talaði með miklum suðurríkja hreim. Ég skildi varla orð af því sem hann sagði. Ég fór í raun að hugleiða hvort mér hefði verið kennt rangt tungumál. Mér stóð ógn af því að þurfa að keppa um eftirsóknanverð toppsæti í flugþjálfuninni við nema sem áttu ensku að móðurmáli.

Þegar ég kom á flugstöðina í smábænum Big Spring í Texas, leitaði ég að og fann kirkjugrein Síðari daga heilagra, en í henni voru nokkrir dásamlegir meðlimir sem komu saman í leiguhúsnæði á sjálfum flugvellinum. Meðlimirnir voru að byggja lítið samkomuhús sem verða myndi varanlegri staður fyrir kirkjuna. Á þeim tímum sáu meðlimirnir mikið um vinnuna við nýjar byggingar.

Dag eftir dag sótti ég flugþjálfunina og lagði eins hart að mér við námið og ég gat, og síðan fóru frítímarnir að mestu í vinnu við samkomuhúsið. Þar lærði ég að tvisvar sinnum fjórir eru ekki dansspor heldur mál á timbri. Ég lærði einnig þá mikilvægu lexíu að slá ekki á þumalfingurinn þegar ég hamraði naglann.

Ég eyddi svo miklum tíma við samkomuhúsið að greinarforsetinn — sem einnig reyndist vera einn af flugkennurunum — lét í ljós áhyggjur af því að ég vanrækti námið.

Vinir mínir og samnemendur voru líka önnum kafnir í frítíma sínum, þótt ég telji næsta víst að það sem þeir gerðu í frímtíma sínum samræmdist ekki bæklingnum Til styrktar æskunni. Hvað mig varðar naut ég þess að taka þátt í starfi þessarar litlu kirkjugreinar í Texas, æfa mig í trésmíði og bæta enskukunnáttu mína samtímis því að sinna þeim köllunum mínum að kenna í öldungasveitinni og í sunnudagaskólanum.

Á þeim tíma var Big Spring fámennur, óverulegur og óþekktur staður. Og mér fannst oft að ég væri eins — óverulegur, óþekktur og aleinn. Engu að síður hugleiddi ég það aldrei að Drottinn hefði gleymt mér, eða hvort hann gæti fundið mig þarna. Ég vissi að einu gilti fyrir himneskan föður hvar ég væri, hvar í röðinni ég stæði gagnvart öðrum í flugnámi mínu, eða hver kirkjuköllun mín væri. Það sem skipti hann máli var að ég væri að gera mitt besta, að hjarta mitt hneigðist að honum, og að ég væri fús til að hjálpa þeim sem með mér voru. Ég vissi að ef ég gerði eins vel og ég gat, færi allt vel.

Og allt fór vel.15

Hinir síðustu verða fyrstir

Drottin skiptir það engu hvort við vinnum í marmarasölum eða gripahúsum. Hann veit hvar við erum, sama hve fátæklegar aðstæður okkar eru. Hann mun nota — á sinn hátt og í sínum tilgangi — þá sem beina hjörtum sínum til hans.

Guð veit að sumar stærstu sálirnar sem nokkru sinni hafa lifað eru þær sem aldrei fá nöfn sín skráð í veraldarsögunni. Þær eru blessaðar, auðmjúkar sálir sem fylgja fordæmi frelsarans og eyða ævidögum sínum í að gjöra gott.16

Ein slík hjón, foreldrar vinar míns, eru í mínum huga gott dæmi um þá reglu. Eiginmaðurinn vann í stálverksmiðju í Utah. Í hádegistíma sínum dró hann upp ritningarnar eða kirkjutímarit og las. Þegar aðrir vinnufélagar hans sáu þetta, hæddu þeir hann og rengdu trú hans. Alltaf þegar þeir gerðu það, talaði hann til þeirra af góðvild og öryggi. Hann lét óvirðingu þeirra aldrei reita sig til reiði eða óhugsaðra orða.

Nokkrum árum síðar varð einn þeirra sem hæddust að honum mjög veikur. Áður en hann dó bað hann þennan auðmjuka mann að tala við útför hans — sem hann og gerði.

Þessi dyggi meðlimur kirkjunnar naut aldrei hárrar stöðu eða auðæfa, en hann hafði djúp áhrif á alla sem þekktu hann. Hann dó í vinnuslysi, er hann stansaði til að hjálpa öðrum verkamanni sem stóð fastur í snjó.

Áður en ár var liðið gekkst ekkja hans undir heilaskurðaðgerð, og hefur síðan ekki getað gengið. En fólk nýtur þess að koma og vera hjá henni vegna þess að hún hlustar. Hún man. Hún lætur sér annt um aðra. Hún getur ekki skrifað og leggur því símanúmer barna sinna og barnabarna á minnið. Hún man afmælisdaga og aðra minnisverða daga.

Þau sem heimsæka hana fara frá henni með betri tilfinningar varðandi lífið og þau sjálf. Þau finna elsku hennar. Þau vita að hún lætur sér annt um þau. Hún kvartar aldrei heldur ver dögum sínum í að blessa aðra. Ein vinkona hennar sagði þessa konu vera eina af þeim fáu sem hún hefði nokkru sinni kynnst sem sannlega tæki sér elsku og líf Jesú Krists til eftirbreytni.

Þessi hjón hefðu orðið fyrst til að segja að þau hafi ekki verið mikilvæg í þessum heimi. En Drottinn notar allt annan mælikvarða til að vega og meta verðleika sálarinnar. Hann þekkir þessi staðföstu hjón. Hann elskar þau. Gerðir þeirra eru lifandi vitni um sterka trú þeirra á hann.

Þið skiptið hann máli

Kæru bræður og systur, það kann að vera satt að maðurinn sé ekki neitt í samanburði við mikilleik alheimsins. Stundum finnst okkur ef til vill að við skiptum litlu máli, séum ósýnileg, alein og gleymd. En munið ávallt — þið skiptið hann máli! Ef þið efist einhvern tíma, íhugið þá þessar fjóru guðlegu reglur.

Í fyrsta lagi elskar Guð hina auðmjúku og lítillátu, því að þeir eru „[mestir] í himnaríki.“17

Í öðru lagi treystir Drottinn því að „hinir veiku og einföldu fái boðað fyllingu fagnaðarerindisins til endimarka heims.“18 Hann hefur valið að „hið veika í heiminum [muni] koma og brjóta niður hina máttugu og sterku,“19 og „valda hinu volduga kinnroða.“20

Í þriðja lagi skiptir ekki máli hvar þið búið, hve fátæklegar aðstæður ykkur eru, hve lítilfjörleg atvinna ykkar virðist vera, hve takmörkuð geta ykkar er, eða hversdagslegt útlit ykkar, eða hve lítil köllun ykkar í kirkjunni virðist vera, þið eruð ekki ósýnileg föður ykkar á himnum. Hann elskar ykkur. Hann þekkir auðmjúkt hjarta ykkar og kærleiks-og góðverk ykkar. Saman mynda þau varanlegan vitnisburð um tryggð ykkar og trú.

Í fjórða lagi og að lokum bið ég ykkur að skilja, að það sem þið sjáið og reynið nú er ekki það sem eilífðin verður. Þið finnið ekki einmanaleika, sorg, sársauka og vonbrigði að eilífu. Við eigum það staðfasta loforð Guðs, að hann muni hvorki gleyma né yfirgefa þá sem beina hjörtum sínum til hans.21 Vonið og trúið á þetta loforð. Lærið að elska himneskan föður og verða lærisveinar hans í orði og verki.

Verið þess fullviss að ef þið haldið áfram, trúið á hann og haldið staðfastlega boðorðin, þá munuð þið dag einn reyna sjálf loforðið sem opinberaðist Páli postula: „Það sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki og ekki kom upp í hjarta nokkurs manns, allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“22

Bræður og systur, máttugasta vera alheimsins er faðir anda ykkar. Hann þekkir ykkur. Hann elskar ykkur með fullkominni elsku.

Guð sér ykkur ekki aðeins sem dauðlega veru á lítilli plánetu sem lifir skamma hríð — hann sér ykkur sem börn sín. Hann sér ykkur sem þá veru sem þið getið orðið og ykkur er ætlað að verða. Hann vill að þið vitið að þið skiptið hann máli.

Megum við ætíð trúa og treysta og haga lífi okkar þannig að við skiljum hina sönnu og eilífu verðleika okkar og möguleika. Megum við verða verðug þeirra dýrmætu blessana sem himneskur faðir geymir okkur, það er bæn mín í nafni sonar hans, já, Jesú Krists, amen.