Aðalráðstefna
Einkenni hamingjunnar
Aðalráðstefna október 2023


Einkenni hamingjunnar

Að byggja á grundvellinum Jesú Kristi er forsenda hamingju okkar.

Þegar ég var í flugi í viðskiptaerindum sat ég við hlið manns frá Hollandi. Ég vildi óðfús eiga stund með honum, því ég hafði þjónað í Belgíu og Hollandi þegar ég var ungur trúboði.

Þegar kynni tókust með okkur, fékk hann mér viðskiptaspjaldið sitt með hinum einstaka titli „Sérfræðingur í hamingju“.  Ég tjáði mig um hans undraverða starfssvið og spurði hvað sérfræðingur í hamingju gerði? Hann sagðist kenna fólki hvernig lifa ætti hamingjuríku lífi með því að leggja rækt við innileg sambönd og setja sér markmið. Ég svaraði: „Það er dásamlegt, en hvað ef þú gætir einnig kennt hvernig þessi sambönd geta viðhaldist handan grafar og svarað öðrum spurningum um sálina, til að mynda um tilgang lífsins, hvernig við getum sigrast á veikleikum okkar og hvert við förum eftir að við deyjum?“ Hann viðurkenndi að frábært væri ef við hefðum svörin við þessum spurningum og ég gladdist yfir að geta sagt honum að við hefðum þau.

Í dag myndi ég vilja fara yfir nokkrar grundvallarreglur um hamingju, sem virðast fara forgörðum hjá svo mörgum í þessum ruglingslega heimi, þar sem margt er áhugavert en aðeins fátt eitt raunverulega mikilvægt.

Alma kenndi fólkinu á hans tíma: „Því að sjá. Ég segi yður, að margt er í vændum. Sjá, eitt er öllu mikilvægara. Sjá, sá tími er ekki langt undan, að lausnarinn lifi og komi meðal fólks síns.“1

Þessi staðhæfing er jafn mikilvæg okkur í dag, er við væntum og búum okkur undir síðari komu Krists!

Þess vegna er fyrsta athugun mín sú að forsenda hamingju okkar er að byggja á grundvellinum Jesú Kristi. Það er: „öruggur grundvöllur, og ef menn byggja á þeim grundvelli, geta þeir ekki fallið.”2 Að gera það, mun búa okkur undir áskoranir lífsins og hvaðeina sem koma skal.

Fyrir mörgum árum fórum ég og Justin, sonur okkar, í sumarskátabúðir Þegar viðburðirnir stóðu yfir, tilkynnti hann okkur með spenningi að hann og vinir hans hefðu hug á að ávinna sér heiðursmerkið í bogfimi. Til þess að ná því markmiði, þurftu drengirnir að standast skriflegt próf og hitta í mark með bogaörvum.

Ég fékk sting í hjartað. Á þessum tíma var Justin frekar viðkvæmur vegna slímseigjusjúkdóms sem hann hafði glímt við frá fæðingu. Ég velti fyrir mér hvort hann gæti strekkt bogann nægilega til að örin næði í markið.

Þegar hann og vinir hans héldu af stað á námskeið í bogfimi bað ég þess í hljóði að þessi upplifun yrði honum ekki niðurlægjandi. Eftir tvær kvíðavænlegar klukkustundir sá ég hann ganga skælbrosandi í átt að mér upp stíginn. „Pabbi!“ hrópaði hann. „Ég fékk heiðursmerkið! Ég hitti beint í miðjuna, reyndar í skífuna við hliðina á mér en samt í miðjuna.“ Hann hafði strekkt bogann af öllu afli og skotið örinni, án þess að geta stjórnað stefnu hennar. Hve þakklátur ég er fyrir bogfimikennarann sem aldrei sagði: „Því miður, rangt skotmark!“ Þegar hann sá greinilegar takmarkanir og einlægt framtak Justins sagði hann öllu heldur ljúfmannlega: „Vel gert!“

Þannig verður það einnig hjá okkur, er við gerum okkar besta til að fylgja Kristi og spámönnum hans, þrátt fyrir takmarkanir okkar. Ef við komum til hans með því halda sáttmála okkar og iðrast synda okkar, munum við gleðilega heyra frelsarann segja: „Gott, þú góði og trúi þjónn.“3

Ég gef ykkur minn vitnisburð um guðleika frelsarans og hans endurleysandi elsku og mátt til að lækna okkur, styrkja og upplyfta, þegar við reynum af einlægni að koma til hans. Aftur á móti getum við á engan hátt fylgt fjöldanum og jafnframt komist nær Jesú Kristi. Frelsarinn hefur sigrað dauðann, sjúkleika og synd og séð okkur fyrir leið til fullkomnunar, ef við fylgjum honum af öllu hjarta.4

Síðari athugun mín er sú að forsenda hamingju okkar, er að hafa hugfast að við erum synir og dætur kærleiksríks himnesks föður. Að þekkja og reiða sig á þennan raunveruleika breytir öllu.

Fyrir nokkrum árum, í flugi heim eftir verkefni á vegum kirkjunnar, sátum ég og systir Sabin fyrir aftan mjög stórann mann sem hafði reiðilegt andlit húðflúrað á hnakkann, ásamt númerinu 439.

Er við lentum sagði ég: „Afsakaðu mig, herra. Mætti ég spyrja hvað númerið aftan á höfði þínu merkir?“ Ég þorði ekki að spyrja um reiðilega andlitið.

Hann sagði: „Það er ég. Það er sá sem ég er. Ég hef yfirráðasvæði: 219!“

Númerið var reyndar fjögur hundruð þrjátíu og níu svo ég undraðist það hann segði rangt númer, þar sem þetta virtist honum svo mikilvægt.

Ég hugleiddi hve sorglegt væri að auðkenni og sjálfsmat þessa manns byggðust á númeri sem tengdist yfirráðasvæði gengis. Ég hugsaði með sjálfum mér: Þessi harðneskjulegi maður var eitt sinn lítill drengur sem enn þurfti að tilheyra og vera einhvers metinn. Ef hann aðeins vissi hver hann raunverulega væri og hverjum hann tilheyrði, því öll erum við „verði keypt.“5

Það er viska í textalínu lags í kvikmyndinni Egypski Prinsinn ,sem segir: „Líttu á líf þitt með augum himins.“6 Eftir því sem þekkingin á guðlegu ætterni okkar og eilífum möguleikum fyllir sál okkar, munum við sjá líf okkar sem innihaldsríkt fyrirliggjandi ævintýri sem við getum lært og vaxið af, þótt „sjáum vér svo sem í skuggsjá,“7 um skamma hríð.

Þriðja einkenni hamingjunnar er að hafa ætíð hugfast virði sálar. Við gerum það best með því að hlýða áminningu frelsarans: „Elskið hvert annað … eins og ég hef elskað yður.“8

Hann kenndi líka: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“9

Í Orðskviðunum er ráðlagt viturlega: „Synjaðu ekki góðs þeim sem þarfnast ef það er á þínu valdi að veita það.“10

Við munum aldrei sjá eftir því að vera of gæskurík. Í augum Guðs er gæska sama og mikilleiki. Að vera gæskuríkur er að vera fús til að fyrirgefa og vera ekki dómharður.

Fyrir mörgum árum, þegar við vorum ung fjölskylda, hugðumst við fara í kvikmyndahús á fjölskyldukvöldi. Við vorum öll komin út í bíl nema sonur okkar og eiginkona mín, Valerie. Það var myrkur úti og er sonur okkar skellti upp hurðinni og hljóp út að bílnum, sparkaði hann óvart í það á veröndinni sem hann hélt vera köttinn okkar. Því miður fyrir son okkar og eiginkonu mína, var þetta ekki köttur heldur mjög svo ósáttur skunkur sem virkilega lét þau finna fyrir því! Við fórum öll aftur inn í húsið, þar sem eiginkona mín og sonur fóru bæði í sturtu og þvoðu hár sitt með tómatasafa, sem átti að vera óskeikull til að fjarlægja óþef skunksins. Eftir að þau höfðu þvegið sér og skipt um föt, vorum við öll ónæm á nokkurn óþef, svo við ákváðum að þrátt fyrir allt væri í lagi að fara í kvikmyndahúsið. 

Þegar við höfðum sest aftast í salnum tók fólkið umhverfis að týnast út úr salnum eitt af öðru til að sækja sér poppkorn. Þegar það kom aftur settist ekkert þeirra aftur í sama sætið.

Við höfum hlegið er við minnumst þessarar upplifunar, en hvað ef allar okkar syndir lyktuðu af óþef? Hvað ef hægt væri að finna óþef óheiðarleika, losta, öfundar eða drambs? Ef veikleikar okkar væru svo augljósir, myndum við vonandi vera örlítið tillitssamari og varfærnari við fólk, og það sömuleiðis við okkur, er við gerum þarflegar breytingar í lífi okkar. Ég í raun nýt tóbakslyktar í kirkju, því hún merkir að einhver er að reyna að breytast. Slíkir þurfa finna að við tökum þeim opnum örmum.

Russel M.Nelson forseti hefur af visku sagt: „Ein einfaldasta leiðin til að bera kennsl á sannan lærisvein Jesú Krists er að sjá hversu samúðarfull breytni fólks er við aðra.“11

Páll skrifaði til Efesusmanna: „Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.“12

Sem lærisveinar Jesú Krists, erum við beðin að treysta himneskum föður okkar og frelsaranum og reyna ekki að skipta þeim út fyrir eitthvað annað. Jesús Kristur þekkir misbresti okkar fullkomlega og mun dæma þá fullkomlega.

Fjórða einkenni hamingjunnar er að viðhalda eilífri yfirsýn. Áætlun okkar himneska föður nær inn í eilífðirnar; það er auðvelt að hugsa um það sem er hér og nú og gleyma því sem eftir kemur

Mér lærðist sú áhrifamikla lexía fyrir þó nokkrum árum frá dóttur okkar Jennifer, sem þá var 16 ára. Hún var að fara í tvöfalda lungnaígræðslu, þar sem fjarlægja átti fimm sýkt lungnablöð algjörlega og setja í stað þeirra tvö heilbrigð minni lungnablöð, gefin af tveimur yndislegum vinum í Kristi. Þetta var mjög áhættusöm aðgerð, en kvöldið fyrir hana prédikaði Jennifer samt fyrir mér af næstum öllum sínum 41 kílóa þunga og sagði: „Hafðu ekki áhyggjur, pabbi! Á morgun mun ég annaðhvort vakna með ný lungu eða vakna á betri stað. Þetta verður frábært hvernig sem fer.“ Þetta er trú; þetta er eilíf yfirsýn! Að sjá lífið út frá eilífu sjónarhorni, veitir skýra sýn, hugarró, hugrekki og von.

Eftir aðgerðina, þegar sá langþráði dagur rann upp er fjarlægja átti slönguna og slökkva á öndunarvélinni sem hafði hjálpað Jennifer við öndun, biðum við á milli vonar og ótta til að sjá hvort nýju lungnablöðin myndu virka. Þegar hún tók sinn fyrsta andardrátt, fór hún strax að gráta. Þegar hún sá áhyggjur okkar, sagði hún „Það er bara svo gott að anda.“ 

Upp frá þeim degi hef ég þakkað himneskum föður að morgni og kvöldi fyrir getu mína til að anda. Við erum umlukin ótal blessunum sem við getum auðveldlega tekið sem sjálfsögðum hlut, ef við erum ekki vakandi fyrir þeim. Á hinn bóginn, ef einskis er vænst og allt er þakkarvert, verður lífið töfrandi.

Nelson forseti hefur sagt: „Hver nýr morgun er gjöf frá Guði. Meira að segja loftið sem við öndum að okkur fáum við af elsku lánað frá honum. Hann viðheldur lífi okkur dag fyrir dag og styður okkur frá einni stundu til annarar. Þess vegna ætti fyrsta verk hvers morguns að vera auðmjúk þakklætisbæn.“13

Með þessu komum við að fimmtu og síðustu athuguninni, sem er að þið munuð aldrei verða hamingjusamari en sem nemur þakklæti ykkar.

Drottinn segir: „Og sá, sem veitir öllu viðtöku með þakklæti, mun dýrðlegur gjörður.“14 Ef til vill er það svo vegna þess að þakklæti getur af sér margar aðrar dyggðir.

Hve vitund okkar myndi breytast, ef við vöknuðum hvern morgun aðeins með þær blessanir sem við vorum þakklát fyrir kvöldið áður. Að láta bregðast að meta ekki blessanir okkar, getur valdið óánægju sem fær rænt okkur þeirri gleði og hamingju sem þakklætið vekur. Þau sem eru í hinni stóru og rúmmiklu byggingu tæla okkur til að horfa framhjá markinu, svo við missum algjörlega af því.

Í raun má finna mestu hamingju og mestu blessanir jarðlífsins í áunnum vexti okkar fyrir náð Guðs, er við gerum og höldum helga sáttmála okkar við hann. Frelsarinn mun fínpússa okkur og betrumbæta, vegna verðleika friðþægingar sinnar og hefur sagt um þá sem fúslega fylgja honum: „Samt eru þeir mínir og verða mínir á þeim degi, er ég kem og raða saman gimsteinum mínum.“15

Ég lofa ykkur, að ef við byggjum líf okkar á Jesú Kristi sem grundvelli; heiðrum okkar sanna auðkenni sem synir og dætur Guðs; höfum hugfast virði sálar;, viðhöldum eilífri yfirsýn;; og metum þakksamlega okkar mörgu blessanir, einkum boð Krists að koma til sín, getum við fundið hina sönnu hamingju sem við leitum í þessu jarðneska ævintýri. Lífið mun samt hafa sínar áskoranir, en við munum geta tekist á við þær betur með tilgangi og friði, vegna þess eilífa sannleika sem við skiljum og lifum eftir.

Ég ber ykkur vitni um Guð, okkar ástríka föður og hans elskaða son Jesú Krist. Ég ber ykkur líka vitni um lifandi spámenn, sjáendur og opinberara. Hvílík blessun að taka á móti himneskri leiðsögn fyrir þeirra milligöngu. Frelsarinn sagði skýrt: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“16 Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.