Jólasamkomur
Gefðu mylsnur þínar


Gefðu mylsnur þínar

Kæru bræður og systur, ég færi ykkur kveðju og blessun frá okkar ástkæra spámanni, Thomas S. Monson forseti. Hann er þakklátur fyrir bænir ykkar og kærleika þessi jól og alla daga.

Ég hef ætíð elskað þennan árstíma. Jólasamkoma Æðsta forsætisráðsins hefur orðið að hefðbundinni dagskrá fyrir marga, þar með talið fjölskyldu mína. Við hlökkum til þess að byrja jólatíðina á því að hlusta á hina dásamlegu tónlist Hljómsveitar Musteristorgsins og hinn óviðjafnanlega söng Laufskálakórs mormóna. Boðskapurinn og tónlistin gera sitt til að vekja anda jólanna og minna okkur á hina mikilvægu ástæðu að baki hátíðarhalda okkar.

Jól í Þýskalandi

Á bernskurárum mínum snérust jólaóskir mínar ætíð um hina fullkomnu vetrarmynd og ég veit að ég er ekki einn um það. Hvað mig varðaði var það kalt vetrarloft, heiðskýr blár himinn og jörð þakin nýföllnum hvítum snjó. Þess í stað var veðrið næstum alltaf öðruvísi en draumar mínir um undursamlegan vetur, því oft var himininn grár og þokukenndur, snjórinn blautur og krapakenndur eða jafnvel rigning.

Engu að síður þá dúðaði móðir mín okkur upp í hlýjan vetrarfatnað á aðfangadagskvöld og faðir minn gekk með okkur um stræti borgarinnar.

Við börnin þekktum hina raunverulega ástæðu þessa árlega göngutúrs – móðir mín þurfti tíma til að skreyta jólatréð, setja gjafirnar undir það og búa stofuna okkar undir hina helgu nótt. Við reyndum allt til að stytta þennan göngutúr eins og mögulegt var. Faðir okkar var þó afar úrræðagóður við að bæta við öðrum krók eða annarri beygju til að móðir mín fengi sinn tíma.

Á þessum tíma voru göturnar í Zwickau, Þýskalandi, fremur dimmar á kvöldin. Þetta var rétt eftir Síðari heimsstyrjöldina og ljósin voru fá. Aðeins fáeinar verslanir voru opnar og sumar voru staðsettar við sprengjuhrunin hús, sem enn lyktuðu af hinum undarlega stríðsdaun.

Það var einn hluti göngutúrsins sem okkur fannst afar skemmtilegur – að staldra við í dómkirkjunni í miðborg Zwickau, þar sem við hlustuðum á dásamleg jólalög og stórbrotna orgeltónlist, sem ætíð virtist spiluð á aðfangadagskvöldi. Einhvern veginn virtist tónlistin skyndilega gera hin fábrotnu ljós borgarinnar mun bjartari – næstum eins og blikandi stjörnur – og fylla hin ungu hjörtu dásamlegum anda tilhlökkunar.

Þegar við komum heim hafði móðir mín lokið undirbúningi sínum og við fórum í röð inn í stofuna, eitt af öðru, til að virða fyrir okkur hið ævintýralega nýskreytta jólatré. Erfitt var að fá tré á þessum tíma og við tókum hvaðeina sem var fáanlegt. Stundum þurftum við að bæta við þó nokkrum greinum til að það liti út eins og raunverulegt tré. Mínum ungu augum fannst þó jólatréð ætíð fullkomlega dýrðlegt.

Flöktandi ljós vaxkertanna færðu leyndardómsfullan og næstum töfrandi blæ yfir herbergið. Við virtum fyrir okkur gjafirnar undir tréinu af tilhlökkun og aðdáun og vonuðumst eftir að leyndar óskir okkar uppfylltust.

Spenningurinn yfir að fá gjafir jafnaðist næstum á við unaðinn af því að gefa þær. Oft voru gjafirnar handunnar. Eitt árið, þegar ég var mjög ungur, var gjöfin til bróður míns mynd af honum sem ég hafði teiknað. Ég var afar stoltur af þessu meistarastykki mínu. Hann var líka afar gæskuríkur og höfðinglegur í þakkarorðum sínum og hrósi.

Ég mun ætíð varðveita þessar ljúfu minningar um bernsku mína í Austur-Þýskalandi.

Óendanleg elska

Jólahefðir eru haldnar hátíðlegar á mismunandi og undraverðan hátt í menningarlöndum heims. Allar eru þær fallegar og merkilegar og jafnframt afar frábrugðnar.

Allar vekja þær sömu tilfinningu, sama anda, sem ávallt virðist vera til staðar þegar við minnumst fæðingar Krists konungs, huggara okkar og traust, til vegsemdar Ísraels.

Hægt væri að nota mörg orð til að lýsa þessari tilfinningu: Gleði, von, tilhlökkun, fögnuður. Hvert þeirra lýsir hluta af því sem við köllum „jólaandann.“

Hvað mig varðar er þó eitt orð sem lýsir best þeirri tilfinningu sem við upplifum á jólum. Það orð er elska.

Hvað sem öllu líður, þá er gjöfin sem við minnumst á jólum gjöf kærleika – sonargjöf Guðs. „Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor, að Guð hefur sent eingetinn son sinn í heiminn til þess að vér skyldum lifa fyrir hann. Þetta er kærleikurinn.“1

Hjörtu okkar mildast af þeim kærleika. Við upplifum ljúfleika sem fær okkur til að ná til annarra í gæsku og samkennd.

Jólin innblása okkur til að elska betur.

Jafnvel þegar ég segi þetta, þá finnst mér orðið elska vera ófullnægjandi. Á ensku, líkt og á mörgum öðrum tungumálum, þá getur „elska“ haft margskonar merkingu. Ég gæti til dæmis sagt ég „elska“ rigninguna eða ég „elska“ nýju fötin þín eða ég gæti jafnvel „elskað“ ilminn af nýopnuðum stauk af tennisboltum.

Sú elska sem ég vísa til er þó langtum dýpri. Okkar jarðneska hugtak um elsku er eins og agnarsmátt sandkorn á feikistórri sjávarströnd í samanburði við elsku Guð til okkar.

Elska hans er óendanleg og ótæmandi samúð. Guðleg elska fyllir eilífðina. Hún er yfirfull eilífri náð. Hann nær til okkar og hefur okkur upp. Hún fyrirgefur. Hún blessar. Hún frelsar.

Guðleg elska er hafin yfir ólíka persónuleika, menningu eða trú. Hún hafnar því að hlutdrægni og fordómar standi í vegi fyrir því að auðsýna huggun, samúð og skilning. Hún er gjörsneydd einelti, aðgreiningu eða hroka. Guðleg elska innblæs okkur til að breyta líkt og frelsarinn: „Styðja þá óstyrku, lyfta máttvana örmum og styrkja veikbyggð kné.“2

Þetta er sú elska sem við stefnum að. Hún ætti að skilgreina persónugerð okkar sem einstaklinga og fólks.

Við getum kannski ekki tileinkað okkur fyllingu guðlegrar elsku í þessu lífi, en við ættum aldrei að hætta að reyna. Ef það er einhver einn tími ársins sem gerir okkur svolítið nánari en annar, þá gætu það verið jólin, þegar hjarta okkar og hugsanir snúast um lifandi staðfestingu hinnar guðlegu elsku, frelsarans Jesú Krists.

Lögreglumaðurinn og dregnurinn

Ég ætla að segja ykkur sögu til að sýna fram á hvernig þessi elska getur virkað í lífi okkar. Á aðfangadagskvöldi fyrir 85 árum, í Heimskreppunni miklu, var lögreglumaður að skoða vegina í Salt Lake City eftir vetrarstorm. Á ferð sinni í bílnum kom hann auga á lítinn dreng sem stóð við vegkantinn, í engri yfirhöfn, vettlingum eða skóm í frostgaddinum. Lögreglumaðurinn stöðvaði við vegkantinn, bauð drengnum að koma inn í bílinn í hlýjuna og spurði hvort hann hlakkaði til jólanna. Drengurinn svaraði: „Það verða engin jól heima hjá mér. Pabbi dó fyrir þremur mánuðum, svo mamma og ég og litli bróðir og litla systir erum ein eftir.“

Lögreglumaðurinn hækkaði hitann í bílnum og sagði: „Sonur sæll, segðu mér hvað þú heitir og hvað þú átt heima. Einhver mun koma heim til þín – það verður munað eftir ykkur.“

Svo vildi til að lögreglumaðurinn var líka stikuforseti í miðborg Salt Lake City. Hann hafði starfað með meðlimum stiku sinnar við að sjá til þess að þær fjölskyldur sem ekki gátu séð fyrir sér, fengju mat og gjafir. Drengurinn var ekki meðlimur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, en það stóð ekki í vegi fyrir lögreglumanninum. Um kvöldið gengu hann og einn biskupinn í stikunni úr skugga um að drengurinn og fjölskylda hans fengju vel fyllta jólakörfu.3

Stikuforsetinn varð fyrir miklum áhrifum af samskiptum sínum við drenginn. Þau gerðu hann enn staðráðnari en áður að leita hinna þjáðu hvarvetna og létta byrðar þeirra. Það varð jafnvel aðalsmerki lífs hans.

Nafn lögreglumannsins var Harold Bingham Lee og 40 árum síðar varð hann ellefti forseti Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Lee forseti var aðalhvatamaður þess að þróa hina umfangsmiklu verkáætlun kirkjunnar um að líkna þeim sem þjáðust og hjálpa öllum börnum Guðs að verða sjálfbjarga.

Þegar dró að lokum lífs Lee forseta, sagðist hann skilja þá sem þjáðust og þráðu líkn, sökum síns eigin fábrotna og einfalda bakgrunns.4

Þetta snýst ekki um hversu mikið þið eigið, heldur hve heitt þið elskið

Ég held ég viti hvernig Lee forseta leið.

Fjölskylda mín bjó líka um tíma við afar fábrotnar aðstæður. Tvisvar á sjö árum yfirgáfum við heimili okkar sem flóttafólk og skildum allt eftir. Í Vestur-Þýskalandi leigðum við rishæð í gömlu bóndabýli. Þar voru tvö lítil herbergi og við sváfum öll saman í öðru herbergjanna. Svo þröngt var um okkur að ég þurfti að ganga á hlið til að komast á milli rúmana.

Móðir mín átti hitahellu sem við notuðum sem eldavél. Þegar við vildum fara á milli herbergja, þá þurftum við að ganga yfir allskyns landbúnaðarverkfæri, kistur og framhjá kjöti sem hékk í loftinu til þurrkunar. Eitt sinn er ég var veikur og þurfti að vera í rúminu allan daginn, horfði ég á mýsnar sem deildu með okkur húsakynnum, hlaupa yfir gólfið. Bera þurfti vatnið upp í dvalarstað okkar og klósettið var utandyra, hinum megin í hlaðinu, við hliðina á hlöðunni. Á sunnudögum gengum við í nokkrar klukkustundir til að komast til kirkju í Frankfurt og til baka aftur. Við höfum vart ráð á því að taka sporvagninn.

Ég minnist enn þessa tíma með bæði trega og gleði. Foreldrar mínir gerðu sitt besta til að sjá fyrir okkur og við vissum að þau elskuðu okkur. Já, þetta voru tímar mikillar neyðar, en ég sé þá sem gleðitíma, af því að ég skynjaði ástina sem við bárum til hvers annars og til Drottins og kirkju hans.

Það er engin skömm af því að vera fátækur. Hafið í huga að frelsari heimsins fæddist í gripahúsi og var lagður í jötu, „af því að eigi var rúm handa [honum] í gistihúsi.“5 Hann og María og Jósef urðu svo nokkru síðar flóttafólk er þau flúðu til Egypalands til að leita sér skjóls frá hinum morðóða Heródes. Í almennri þjónustu sinni gekk Jesús um meðal þjáðra, hungraðra og sjúkra. Dagar hans voru fylltir þjónustu við slíka. Hann kom „til að flytja fátækum gleðilegan boðskap.“6 Á margan hátt var hann einn af þeim, því eins og það, þá átti hann „hvergi höfði sínu að að halla.“7

Hann lofaði hina blásnauðu ekkju, sem af skorti sínum lét tvo smápeninga í fjárhirslu Guðinga.8 Einn síðasti boðskapur hans í jarðlífinu var sá að hjálpræði okkar væri háð framkomu okkar við aðra – einkum þá sem álitnir voru meðal hinna „minnstu“ – því „það allt, sem þér gjörðuð einum [þeirra],“ sagði hann, „það hafið þér gjört mér.“9

Nítjándu aldar enskt skáld orti þennan texta:

Á köldum vetri í slyddu og snjó,

er smáfugl sest á jörð þér hjá,

af samúð hrek hann ei á braut,

en af mylsnum þínum gefðu þá. …

 

Af skorti ávallt gefa má,

er kaldur vetur skellur á.

Brauðið allt var aldrei þitt,

svo mylsnur gefðu alltaf fús.

 

Brátt mun vetra yfir þig,

og dagur uppgjörs renna upp,

þá syndir þínar mældar verða,

í ljósi þeirra gefnu mylsna.10

Hver sem staða okkar er í lífinu, þá erum við öll biðjandi smáfuglar – betlarar – frammi fyrir Guði. Við erum upp á náð hans komin. Það er fyrir fórn Jesú Krists, frelsara okkar, sem er hluti af sæluáætluninni, að við eigum von um hjálpræði og miskunn. Þessi andlega gjöf innblæs okkur til að halda boðorð Guðs og sýna þeim samúð sem umhverfis eru. Þótt aleiga okkar væri einungis brauðmylsnur, þá gefum við þeim fúslega sem eru í tilfinningalegri, andlegri eða stundlegri neyð, til að sýna þakklæti okkar fyrir hina andlegu veislu sem Guð hefur búið okkur.

Blessa aðra á jólum

Á þessum dásamlegu jólum er við hæfi að njóta ljósanna, tónlistarinnar, gjafanna og glingursins. Allt þetta er hluta af þeirri ástæðu að við elskum þennan árstíma.

Gleymum þó aldrei að við erum lærisveinar og fylgjendur Jesú Krists, lifandi sonar hins lifandi Guðs. Við þurfum að gera eins og hann gerði, til að heiðra komu hans í heiminn með sanni, og ná til samferðafólks okkar í samúð og miskunn. Það getum við gert daglega í orði og verki. Látum það verða okkar jólahefð, hvar sem við erum – að verða örlítið vingjarnlegri, fúsari til að fyrirgefa, síður dæmandi, þakklátari og örlátari við að deila gnægð okkar með hinum nauðstöddu.

Megi hugleiðing okkar um fæðingu frelsarans í Betlehem innblása okkur til að líkjast honum meira. Megi hlutverk og fordæmi Krists fylla hjörtu okkar guðlegri elsku til Guðs og djúpri samúð með samferðafólki okkar. Megum við svo gefa af brauðmylsnum okkar af auknu örlæti og fölskvalausri ást. Það er bæn mín og blessun þessi jól og ávallt, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. 1 Jóh 4:9–10.

  2. Kenning og sáttmálar 81:5.

  3. Sjá Harold B. Lee, Ye Are the Light of the World (1974), 346–47.

  4. Sjá L. Brent Goates, Harold B. Lee: Prophet and Seer (1985), kafli 32.

  5. Lúk 2:7.

  6. Lúk 4:18, ensk stöðluð útgáfa.

  7. Matt 8:20, ensk stöðluð útgáfa.

  8. Sjá Mark 12:42–44.

  9. Sjá Matt 25:32–46.

  10. Alfred Crowquill, “Scatter Your Crumbs,” í Robert Chambers, ritst. af The Book of Days (1881), 2:752. Ljóðið í heild hljómar svo:

    Amidst the freezing sleet and snow,

    The timid robin comes;

    In pity drive him not away,

    But scatter out your crumbs.

    And leave your door upon the latch

    For whosoever comes;

    The poorer they, more welcome give,

    And scatter out your crumbs.

    All have to spare, none are too poor,

    When want with winter comes;

    The loaf is never all your own,

    Then scatter out the crumbs.

    Soon winter falls upon your life,

    The day of reckoning comes:

    Against your sins, by high decree,

    Are weighed those scattered crumbs.