Kom, fylg mér 2024
15.–21. apríl: „Hann starfar í mér, svo að ég gjöri vilja hans.“ Enos–Orð Mormóns


„15.–21. apríl: ‚Hann starfar í mér, svo að ég gjöri vilja hans.‘ Enos–Orð Mormóns,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„15.–21. apríl. Enos–Orð Mormóns,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Enos, sem ungur drengur með föður sínum Jakobi og móður sinni

Jakob og Enos, eftir Scott Snow

15.–21. apríl: „Hann starfar í mér, svo að ég gjöri vilja hans“

Enos–Orð Mormóns

Þótt Enos hafi farið út í skóg á dýraveiðar til að seðja líkamlegt hungur, þá fór svo að hann dvaldi þar allan daginn og fram á kvöld, því „sál [hans] hungraði.“ Hungrið leiddi Enos til að „[hrópa] hátt, svo að rödd [hans] næði himnum.“ Hann lýsti reynslu sinni sem baráttu frammi fyrir Guði (sjá Enos 1:2–4). Af Enos lærum við að bæn er einlæg tilraun til að komast nær Guði og reyna að þekkja vilja hans. Þegar þið biðjið af þeim ásetningi er líklegra, eins og hjá Enosi, að Guð heyri og láti sér vissulega annt um ykkur, ástvini ykkar og jafnvel óvini ykkar (sjá Enos 1:4–17). Þegar þið vitið hver vilji hans er, eigið þið auðveldara með að gera vilja hans. Þið, líkt og Mormón, „[vitið ekki] alla hluti, en Drottinn veit … allt, … og hann starfar í [ykkur], svo að [þið gjörið] vilja hans“ (Orð Mormóns 1:7).

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Enos 1:1–17

Guð mun heyra og svara bænum mínum.

Upplifun ykkar af bæninni er mögulega tilkomuminni en hjá Enosi, en hún þarf ekki að vera þýðingarminni. Hér eru nokkrar spurningar til að íhuga er þið nemið Enos 1:1–17:

  • Hvaða orð lýsa viðleitni Enosar er hann baðst fyrir?

  • Hvernig breyttust bænir Enosar frá versi 4 til 11?

  • Hvað læri ég af Enosi sem getur hjálpað mér að bæta mínar bænir?

Sjá einnig „Enos Prays Mightily“ (myndband), Gospel Library; „Bænin er andans einlægt mál,“ Sálmar, nr. 46.

Miðla umræðuspurningum. Ef þið eruð að kenna öðrum, íhugið þá að hafa spurningarnar sem þið viljið ræða á áberandi stað, þar sem allir geta séð þær. Það hjálpar fólki að hugleiða spurningarnar og koma með innblásnari svör.

Enos 1:1–4

Ljósmynd
trúarskólatákn
Drottinn getur hjálpað mér að hafa varanleg áhrif á fjölskyldu mína.

Ef til vill er einhver í fjölskyldu ykkar sem þið vilduð að þið gætuð hjálpað að koma til Krists, en þið efist um hvort það sé erfiðisins virði. Hvað getið þið lært af Enos 1:1–4 um áhrif Jakobs á son sinn Enos? Dæmi: Hvað merkir orðtakið „umhyggja og áminningar Drottins“ í ykkar huga? Hvernig getið þið stuðlað að áhrifum hans á heimili ykkar?

Þegar þið hugsið um fjölskyldu ykkar, íhugið þá þessar spurningar og heimildir:

Öldungur Dieter F. Uchtdorf miðlaði gagnlegri leiðsögn fyrir fjölskyldur í „Til vegsemdar þeim sem bjarga“ (aðalráðstefna, apríl 2016). Hvað hvetur þessi boðskapur ykkur til að gera til að styrkja fjölskyldu ykkar? (sjá einkum hlutann sem heitir „Rækta fjölskyldu okkar“).

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Fjölskylda,“ Gospel Library; „Home and Family—Through Small Things“ (myndband), Gospel Library.

Enos 1:1–18

Ég get hlotið fyrirgefningu þegar ég iðka trú á Krist.

Stundum gætuð þið velt fyrir ykkur hvort syndir ykkar hafi verið fyrirgefnar, jafnvel eftir að þið hafið iðrast vegna þeirra synda. Hvaða skilning hljótið þið af upplifun Enosar í Enos 1:1–8? Hvernig sýndi Enos trú sína á Jesú Krist áður og eftir að hann hlaut fyrirgefningu?

Jarom–Omní

Guð mun blessa mig þegar ég geri mitt besta til að halda boðorð hans.

Bækur Jaroms og Omnís segja báðar frá sambandi réttlætis og velsældar. Hvað lærið þið af Jarom 1:7–12; Omní 1:5–7, 12–18? Hvernig eru veraldlegar skilgreiningar á velsæld öðruvísi en skilgreining Drottins? Hvernig hjálpar Drottinn fólki sínu að njóta velsældar? (sjá Alma 37:13; 48:15–16).

Omní 1:25–26

„Komið til Krists, sem er hinn heilagi Ísraels.“

Boðið um að „koma til Krists“ kemur oft fyrir í Mormónsbók. Einn megintilgangur bókarinnar er í raun sá að færa öllum þetta boð. Hvaða orð eða orðtök finnið þið við lestur Omnís 1:25–26 sem lýsa því hvernig koma á til Krists? Hvað munið þið gera til að koma til hans af meiri eindrægni?

Ljósmynd
Mormón gerir útdrátt af gulltöflunum

Mormón gerir útdrátt af töflunum, eftir Jorge Cocco

Orð Mormóns 1:1–8

Guð mun vinna í gegnum mig þegar ég fylgi leiðsögn hans.

Ein ástæða þess að Drottinn innblés Mormón að hafa smærri töflur Nefís með í Mormónsbók var sú að Guð vissi að fyrstu 116 þýðingarsíðurnar myndu glatast (sjá Kenning og sáttmálar 10; Heilagir, bindi 1, kafli 5). Af hverju eruð þið þakklát fyrir að Mormón fylgdi leiðsögn Drottins um að hafa þetta ritverk með (sem er 1. Nefí til og með Omní)? Hvaða ástæður gaf Mormón fyrir því að hafa þær með? (sjá Orð Mormóns 1:3–7). Hvenær hafið þið séð Guð vinna í gegnum ykkur sjálf eða aðra?

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Enos 1:1–5

Ég get talað við himneskan föður í bæn.

  • Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að gera bænir þeirra innihaldsríkari? Íhugið að sýna þeim mynd af Enosi biðjast fyrir; látið þau lýsa því sem þau sjá. Þau gætu síðan lokað augunum og ímyndað sér að þau væru að tala við himneskan föður augliti til auglitis. Um hvað myndu þau vilja ræða? Hvað gæti hann viljað segja við þau?

  • Þegar þið lesið Enos 1:1–5 upphátt, gætu yngri börn látist vera Enos með því að leika að þau séu á veiðum, krjúpandi í bæn, o.s.frv. Eldri börn gætu hlustað eftir orði eða orðtaki sem lýsir bæn Enosar. Hvað segja þessi orð okkur um bæn Enosar? Segið frá upplifun þar sem sál ykkar „hungraði“ og þið „ákölluðuð“ Drottin (Enos 1:4).

Ljósmynd
fjölskylda á bæn

Við getum beðið til föður okkar á himnum sem börn Guðs.

Enos 1:2–16

Himneskur faðir heyrir og svarar bænum mínum.

  • Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að skilja að himneskur faðir heyrir og svarar bænum þeirra. Íhugið að bjóða þeim að skrá eitthvað af því sem þau segja venjuleg í bænum sínum. Þið gætuð síðan hjálpað þeim að finna það sem Enos sagði í bænum sínum í Enos 1:2, 9, 13–14 og 16 (sjá einnig „kafla 11: Enos,“ Sögur úr Mormónsbók, 30–31).

    Hvaða árangur hlaust af bænum Enosar? (sjá vers 6, 9, 11).

    Hvað lærum við af upplifun Enosar um hvernig við getum bætt bænir okkar?

  • Syngið saman söng um bæn, svo sem „Bæn barns“ (Barnasöngbókin, 6). Börn ykkar gætu ef til vill rétt upp hendur í hvert sinn sem þau heyra orðið „bæn“ eða „biðja“ í einhverri mynd eða annað endurtekið orð. Segið börnum ykkar frá einhverjum þeim skiptum sem himneskur faðir hefur bænheyrt ykkur.

Orð Mormóns 1:3–8

Ég get blessað aðra þegar ég hlusta á heilagan anda.

  • Mormón fylgdi leiðsögn heilags anda er hann hafði smærri töflur Nefís með í Mormónsbók. Allt sem við höfum lært fram að þessu í Mormónsbók á þessu ári, hefur verið mögulegt vegna þess að Mormón ákvað að hlusta á andann. Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að læra að hlusta á andann? Bjóðið þeim að skiptast á við að lesa versin í Orð Mormóns 1:3–8. Þið gætuð rætt hvað þau læra af hverju versanna. Börn ykkar gætu síðan:

    • Miðlað því sem þau lærðu af sögum í Mormónsbók á þessu ári (myndir í Kom, fylg mér geta hjálpað þeim að rifja það upp).

    • Sungið saman söng um heilagan anda, svo sem „Heilagur andi“ (Barnasöngbókin, 56).

    • Rætt upplifanir þar sem þau voru leidd af andanum til að gera eitthvað öðrum til blessunar.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Enos biðst fyrir

Enos biðst fyrir, eftir Robert T. Barrett