2019
Þrjár lexíur um elsku, gleði og frið
Apríl 2019


Þrjár lexíur um elsku, gleði og frið

Úr trúarhugvekju með yfirskriftina „Honesty – The Heart of Spirituality,“ flutt í Brigham Young háskóla, 5. desember 2017.

Sé þessum þremur skrefum fylgt, getur það haft mikið að segja í lífi ykkar og gert ykkur kleift að skynja ávexti andans.

Ljósmynd
bowl of fruit

Þegar ég var nemi í háskóla, hugsaði ég mikið um eigin framtíð. Þegar svo framtíðin rann upp – sem var lífið eftir háskólann – lærðist mér þrjár mikilvægar lexíur, sem gerðu mikinn gæfumun fyrir mig. Ég ætla að miðla ykkur þessum lexíum, í þeirri von að það taki ykkur skemmri tíma að læra þær en mér. Þær geta hjálpað ykkur að finna aukna gleði í lífinu – og hljóta að lokum upphafningu til dvalar hjá föður ykkar á himnum.

1. Leitið hamingju, friðar og heilags anda

Ég kynntist eiginkonu minni, Melindu, á öðru ári í háskóla, um sex mánuðum eftir að ég kom af trúboði. Ég vissi þegar í stað að ég vildi giftast Melindu. Melinda upplifði þetta hins vegar öðruvísi. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar að hún hlaut svar um að það væri „Í LAGI“ að giftast mér.

Á þessum fimm árum gekk ég í gegnum eina mestu áraun lífs míns. Ég vissi hverri ég átti að giftast og andinn hvatti mig áfram, en mér virtist ómögulegt að ná því markmiði.

Stuttu eftir að ég útskrifaðist ákvað Melinda að fara í trúboð – að hluta til að komast frá mér, þykist ég viss um. Stundum leið mér ömurlega meðan hún var í trúboði sínu, því ég einblíndi á það sem ég fékk ekki. Ég lærði þó ritningarnar og baðst fyrir daglega, þjónaði í kirkju og reyndi að gera það sem þurfti til að hafa heilagan anda hjá mér.

Snemma að morgni sunnudags nokkurs í Minneapolis, Bandaríkjunum, er ég var akandi á kirkjufund, hugsaði ég með mér: „Mér ætti í raun að líða ömurlega núna. Það gengur ekkert eins og ég ég hefði viljað. Mér líður þó ekki ömurlega. Ég er óumræðanlega hamingjusamur!“

Hvernig gat ég verið hamingjusamur, ef ég var að takast á við erfiða áraun, að því að mér fannst?

Svarið er að finna í Galatabréfinu 5:22–23: „Ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð, bindindi.“

Ég fann anda Guðs, því ég var að gera það sem laðaði andann inn í líf mitt. Ég fann gleði og frið. Ég var langlyndur og jafnframt hamingjusamur.

Elska, gleði og friður í eigin lífi, fjölskyldu okkar og hjónabandi, verða ekki til af því að eiga íburðarmikil hús, fallega bíla, tískufatnað, glæstan starfsferil eða nokkuð af því sem heimurinn segir að veiti okkur hamingju. Í raun, þar sem tilfinning elsku, gleði og friðar kemur frá andanum, þurfum við alls ekki að upplifa þetta í gegnum okkar stundlegu aðstæður.

Gætið að því að ég er ekki að segja að við verðum alltaf hamingjusöm eða að stundlegar aðstæður okkar hafi aldrei áhrif á hamingju okkar. Staðreyndin er sú, að ef við upplifum ekki hið beiska, fáum við ekki greint hið sæta (sjá Kenning og sáttmálar 29:39; sjá einnig HDP Móse 6:55).

Stundum þörfum að að erfiða og basla. Auk þess getur líkamlegt og tilfinningalegt ástand valdið okkur miklum þjáningum og gert okkur afar erfitt með að finna fyrir andanum. Ef við hins vegar reynum að hafa andann í lífi okkar og treystum Guði, þá getum við að öllu jöfnu verið hamingjusöm.

Af persónulegri reynslu ber ég vitni um að það er sannleikur. Af reynslu minni meðan að Melinda var í trúboði, hefur mér lærst að ef ég geri það sem laðar andann inn í líf mitt, ásamt því að trúa og treysta því að allt muni fara eins og Guð ætlar því að fara, þá er ég yfirleitt hamingjusamur (sjá Jakob 3:2).1

2. Ekki falla fyrir fölsuðum eftirlíkingum

Ljósmynd
bowl of fake fruit

Satan líkir eftir og falsar allt það sem Guð gerir til að reyna að villa um fyrir okkur. Þótt Satan reyni að sannfæra okkur um annað, kennir frelsarinn okkur: „Slæmt tré [fær ekki borið] góðan ávöxt“ (3 Ne 14:18). Þar sem Satan er slæmt tré, getur hann ekki vakið upp í okkur tilfinningar „[kærleika, gleði, friðar, langlyndis, gæsku, góðvildar, trúmennsku, hógværðar og bindindis]“ (Gal 5:22–23). Satan vill fremur gera okkur vansæl (sjá 2 Ne 2:27).

Hvað er það þá sem Satan gerir? Hann reynir að blekkja okkur.

Ein vinkona mín, einn af hinum kjörnu, lét blekkjast. Vinkona mín þjónaði í trúboði og var framúrskarandi trúboði. Þegar hún koma heim af trúboði sínu, hafði hún einsett sér að gera allt hið smáa sem viðhélt andanum í lífi hennar og hafði eflt hana í trúboðinu. Hún gerði það um tíma.

Hún sá hins vegar vini sína, marga sem höfðu komið heim af trúboði, fara í kirkju hvern sunnudag, en lifa að hætti heimsins utan kirkju. Þeir virtust hamingjusamir. Þeir voru að gera „skemmtilega“ hluti. Lífsmáti þeirra virtist ennfremur ekki krefjast jafn mikillar vinnu og hennar.

Hún hætti smám saman að gera hið smáa sem hafði viðhaldið andlegum styrk hennar í trúboðinu. Hún átti samt vitnisburð, en sagði mér að hún hefði ályktað: „Ef ég bara færi áfram á kirkjusamkomur, þá væri þetta Í LAGI – ég væri á veginum.“ Hún sagði þó: „Ég var andlega ónæm.“2 Þegar hún lifði að hætti heimsins, varð hver ákvörðunin annarri verri og að því koma að hún varð barnshafandi.

Að lokum varð hún að bíta úr nálinni fyrir sínar röngu ákvarðanir. Hún var ekki hamingjusöm og var meðvituð um það. Til allrar hamingju, sá vinkona mín að hún hefði látið blekkjast og iðraðist.

Reynsla hennar sýnir glögglega að jafnvel hinir bestu geta látið blekkjast. Reynsla hennar sýnir ennfremur að við verðum stöðugt að vera á verði gegn blekkingum. Það gerum við með því að gera hið smáa sem laðar andann inn í líf okkar.

Ég gleðst yfir því að geta sagt að vinkona mín er hamingjusöm í dag, gerir sitt besta til að halda boðorðin og er líkamlega og andlega virk í fagnaðarerindinu.

Blekkingar Satans eru margskonar. Ég ætla einungis að nefna fáeinar.

Satan reynir að sannfæra okkur um að hafa hið stundlega í fyrirrúmi hins andlega. Við getum fundið út hvort forgangur okkar er rangur með því að taka eftir hversu oft við segjum: „Ég er bara of úrvinda eða önnum kafinn einmitt núna til að _________.“ Skrifið í eyðuna: Fara í musterið, þjóna, læra og ígrunda ritningarnar, framfylgja köllun minni eða jafnvel flytja bænir.

Ein ástæða þess að okkur finnst við önnum kafin, er sú að Satan leggur mikið á sig við að trufla okkur. Til þess notar hann snjallsímana í höndum okkar, útvarpið í bílnum okkar, sjónvarpið á heimili okkar og margt annað til að ná athygli okkar næstum hvarvetna. Af því leiðir að okkur finnst við vera önnum kafnari en við í raun erum.

Annað sem af þessari truflun leiðir, er að við ígrundum stöðugt minna. Satan reynir að trufla okkur, því hann veit að ígrundun, einkum ritninganna, leiðir til aukinnar trúar og opinberunar.

Önnur blekking Satans á rætur í þeirri hugmynd að ytri athafnir okkar skipti meira máli en okkar innri ásetningur. Þegar við höfum engan ásetning til að gera andlega hluti, getum við ekki upplifað gleði fagnaðarerindisins. Af því leiðir að það verður íþyngjandi að halda boðorðin og Satan veit að ef honum tekst að láta okkur líða þannig, þá er líklegra að við látum af því að gera það sem við vitum að við eigum að gera.

Satan reynir líka að telja okkur trú um að gleði og hamingja hljótist af þægilegu lífi eða einfaldlega af stöðugum skemmtunum. Það er ekki rétt. Sannleikurinn er sá að engin gleði eða hamingja finnst án þess að sigrast sé á einhverju (sjá 2 Ne 2:11, 23).

Sú blekking Satans sem ég mun að síðustu nefna er sú að hann reynir að telja okkur trú um að ranglæti, með sinni stundlegu ánægju, sé hamingja. Satan veit, hið minnsta á því augnabliki, að ákveðnar tilfinningar geta (1) fengið okkur til að trúa að við séum að upplifa ávexti andans, (2) dregið úr þrá okkar eftir þessum ávöxtum eða (3) virst vera ásættanlegar í þeirra stað.

Satan getur til dæmis freistað okkar til að sækjast eftir losta í stað elsku. Hann getur tælt okkur með hrifningu í stað varanlegrar gleði. Hann reynir að trufla okkur í stað þess að veita frið. Hann vill að við séum sjálfumglöð, áköf og pólitískt rétttrúuð í stað þess að vera óeigingjörn, stöðugt hlýðin og réttilega andalega innstillt. Freistingar hans geta valdið því að við verðum ráðvillt, sem getur síðan leitt til þess að við höldum að það færi okkur hamingju að brjóta boðorðin.

3. Gerum hið smáa

Yfirleitt er það hið smáa sem laðar andann að okkur, kemur í veg fyrir að við látum blekkjast og hjálpar okkur að halda boðorðin og að lokum að öðlast eilíft líf. Frelsarinn kenndi öldungunum í kirkjunni í Kirtland, Ohio, þessar reglur: „Þreytist þess vegna ekki á að gjöra gott, því að þér eruð að leggja grunninn að miklu verki. Því „af hinu smáa sprettur hið stóra“ (Kenning og sáttmálar 64:33).

Af hverju eru hið smáa svo mikilvægt? Í næsta versi segir frelsarinn: „Drottinn krefst hjartans og viljugs hugs“ (Kenning og sáttmálar 64:34). Af hverju tengdi frelsarinn þetta tvennt saman, að gera hið smáa af hjarta og viljugum huga? Af því að þegar við gerum hið smáa stöðugt og endurtekið, gefum við Guði hjarta okkar og huga, sem hreinsar og helgar okkur (sjá Helaman 3:35).

Sú hreinsun og helgun breytir eðli okkar, smám saman, svo við verðum stöðugt líkari frelsaranum. Af því leiðir síðan að við verðum móttækilegri fyrir innblæstri heilags anda, sem minnkar líkurnar á því að við látum blekkjast.

Á efsta stigi mínu í grunnskóla, kenndi faðir minn mér trúarskólann heima. Þar sem námsefni þess árs var Mormónsbók, ákvað faðir minn að við skildum lesa hana saman, vers fyrir vers, og ræða efnið. Þegar við lásum, spurði faðir minn mig spurninga sem fengu mig til að hugsa um efnið og útskýrði það sem ég ekki skyldi. Ég man enn eftir því að hafa lært um frelsarann og fundið að hann vitjaði í raun Nefítanna og að ég gæti í raun hlotið fyrirgefningu synda minna, sökum friðþægingar hans.

Þessar námsstundir með föður mínum lögðu grunn að skilningi mínum á ritningunum. Ég skynjaði eitthvað þegar við lásum saman. Það sem kannski var mikilvægara, var að þrá mín, ásetningur og breytni breyttust. Ég vildi verða betri. Ég tók að sjá í hverju ég lét blekkjast. Ég iðraðist oftar. Þegar dró að lokum fyrsta árs míns í háskóla, las ég ritningarnar dag hvern.

Um það leyti bauð Ezra Taft Benson forseti (1899–1994) kirkjumeðlimum að lesa Mormónsbók daglega og tileinka sér námsefnið.3 Ég las því hið minnsta eitthvað í Mormónsbók, auk alls annars sem ég las.

Ljósmynd
fruit and scriptures

Í trúboði mínu lærðist mér í raun hvernig ætti að læra og endurnærast á ritningunum. Ég skynjaði ekki aðeins heilagan anda við lesturinn, heldur tók ég líka að finna gleði er ég kannaði ritningarnar til að finna svör við vanda mínum og trúarnema minna.

Að trúboði loknu, hélt ég áfram að nærast daglega á ritningunum. Þar sem þessi ástundun bauð heilögum anda í líf mitt, hlaut ég leiðsögn hans um að nota tíma minn skynsamlegar. Af því leiddi að mér gekk betur í skóla og síðar í starfi. Auðveldara reyndist að taka góðar ákvarðanir. Ég baðst oftar fyrir og framfylgdi köllun minni af aukinni kostgæfni. Að endurnærast á ritningunum daglega, leysti ekki allan minn vanda, en lífið varð auðveldara.

Í ágúst 2005 setti Gordon B. Hinckley forseti (1910–2008) fram áskorun um að lesa Mormónsbók fyrir árslok.4 Þar sem ég var þegar að lesa Mormónsbók daglega, var ég kominn að Eter eða Moróní. Ég lauk lestrinum einni eða tveimur vikum síðar og fannst ég hafa fulllokið áskorun Hinckleys forseta.

Þá kom trúfastur heimiliskennari í heimsókn til fjölskyldunnar. Hann spurði hvernig mér gengi með áskorun Hinckleys forseta.

Ég sagðist hafa notið þeirrar gæfu að hafa byrjað á Mormónsbók fyrir áskorun Hinckleys forsteta. Ég lýsti síðan yfir af nokkurri sjálfumgleði að ég hefði lokið verkinu.

Sem betur fer þá leit heimiliskennari minn þetta öðrum augum. Andinn talaði kyrrlátlega til mín, leiðrétt mig ljúflega og benti mér á að heimiliskennarinn hefði rétt fyrir sér.

Ég þurfti nú að lesa tvo kapítula daglega til að ljúka lestrinum fyrir árslok. Þegar ég jók lestur minn í Mormónsbók, tók ég eftir að jafnvel enn meiri kraftur streymdi inn í líf mitt. Ég naut aukinnar gleði. Ég sá hlutina skýrar. Ég iðraðist jafnvel enn oftar. Ég vildi þjóna og koma öðrum til hjálpar. Ég varð síður fyrir áhrifum af blekkingum og freistingum Satans. Ég elskaði frelsarann heitar.

Í þeim nóvembermánuði var ég kallaður sem biskup í deildinni okkar. Að takast á við áskorun Hinckleys forseta bjó mig undir þá köllun. Upp frá þessu hef ég tekið eftir að því önnum kafnari sem ég verð, annaðhvort í vinnu eða kirkju, því nauðsynlegra er fyrir mig að læra ritningarnar, einkum Mormónsbók.

Þið getið líka notið þessara sömu blessana og áhrifa í lífi ykkar, ef þið endurnærist daglega á ritningunum. Ég lofa ykkur, að ef þið endurnærist daglega á ritningunum, einkum Mormónsbók, munið þið bjóða heilögum anda í líf ykkar og ykkur verður eðlislægra að biðjast daglega fyrir, iðrast oftar og auðveldar verður að fara í kirkju og meðtaka sakramentið vikulega.

Ég ber vitni um þegar þið gerið hið smáa og treystið Drottni, getið þið fundið elsku, gleði, frið og hamingju, hverjar sem aðstæður ykkar eru. Ég ber líka vitni um að það er mögulegt sökum fórnar Jesú Krists. Allt sem gott er hlýst sökum hans (sjá Moró 7:22, 24).

Heimildir

  1. Þegar við erum staðföst í trú á Krist, getum við notið elsku Guðs, hverjar sem aðstæður okkar eru.

  2. Viðtalspunktar og handrit eru í eigu höfundar.

  3. Sjá Ezra Taft Benson, “A Sacred Responsibility,” Ensign, maí 1986, 77–78; sjá einnig “The Book of Mormon—Keystone of Our Religion,” Ensign, nóv. 1986, 4–7.

  4. Sjá Gordon B. Hinckley, “First Presidency Message: A Testimony Vibrant and True,” Ensign, ágúst 2005, 2–6.