Helgiathafnir og yfirlýsingar
Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins


Fjölskyldan

Yfirlýsing til heimsins

Æðsta forsætisráðið og ráð postulanna tólf í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu

Við, Æðsta forsætisráðið og ráð postulanna tólf í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, lýsum því hátíðlega yfir að hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði og að fjölskyldan er kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans.

Allar mannlegar verur – karlar og konur – eru skapaðar í mynd Guðs. Hver þeirra er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhvert þeirra guðlegt eðli og örlög. Kynferði er nauðsynlegur eiginleiki einstaklingsins, sem einkennir hann og samræmist tilgangi hans í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð.

Í fortilverunni þekktu og tilbáðu andasynir og dætur Guðs hann sem eilífan föður og samþykktu áætlun hans, en samkvæmt henni gátu börn hans hlotið efnislíkama og öðlast jarðneska reynslu til að feta í átt að fullkomnun og að lokum gera að veruleika guðleg örlög sín sem erfingjar eilífs lífs. Hin guðlega sæluáætlun gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar. Helgiathafnir og sáttmálar í heilögum musterum gera mönnum mögulegt að komast aftur í návist Guðs og fjölskyldum að sameinast að eilífu.

Fyrsta boðorðið sem Guð gaf Adam og Evu varðaði mögulegt foreldrahlutverk þeirra sem eiginmanns og eiginkonu. Við lýsum því yfir að boðorð Guðs til barna hans um að margfaldast og uppfylla jörðina er enn í gildi. Við lýsum því jafnframt yfir að Guð hefur boðið að hinn helgi sköpunarkraftur skuli aðeins notaður milli karls og konu í löglega vígðu hjónabandi.

Við lýsum því yfir að leiðin til sköpunar jarðlífsins sé guðlega tilnefnd. Við staðfestum helgi lífsins og mikilvægi þess í eilífri áætlun Guðs.

Eiginmaður og eiginkona bera þá helgu ábyrgð að elska og annast hvort annað og börn sín. „Synir eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun“ (Sálm. 127:3). Foreldrar bera þá helgu skyldu að ala börn sín upp í kærleika og réttlæti, að sjá fyrir líkamlegum og andlegum þörfum þeirra, að kenna þeim að elska hvert annað og þjóna hvert öðru, að virða boðorð Guðs og vera löghlýðnir þegnar, hvar sem þau búa. Eiginmenn og eiginkonur ‒ mæður og feður ‒ verða ábyrg frammi fyrir Guði, ef þau bregðast þessum skyldum.

Fjölskyldan er vígð af Guði. Hjónaband milli karls og konu er nauðsynlegt eilífri áætlun hans. Börn eiga rétt á því að fæðast innan hjónabandsins, vera alin upp af föður og móður sem heiðra hjónabandseiða sína af fullkominni tryggð. Hamingju í fjölskyldulífi hljótum við fyrst og fremst þegar við byggjum á kenningum Drottins Jesú Krists. Farsælt hjónaband og fjölskyldulíf byggist og varðveitist á reglum trúar, bænar, iðrunar, fyrirgefningar, virðingar, kærleika, umhyggju, vinnu og heilbrigðrar dægrastyttingar. Samkvæmt guðlegri áætlun eiga feður að sitja í forsæti fjölskyldu sinnar í kærleika og réttlæti og bera þá ábyrgð að sjá henni fyrir nauðsynjum lífsins og vernda hana. Meginábyrgð mæðra er að annast börnin. Við þessa helgu ábyrgð ber feðrum og mæðrum skylda til að hjálpa hvort öðru sem jafningjar. Sjúkdómar, andlát eða aðrar aðstæður geta gert persónulega aðlögun nauðsynlega. Ættingjar ættu að veita stuðning þegar með þarf.

Við vörum við því að þeir sem rjúfa sáttmála skírlífis, sem misþyrma maka eða barni, eða sinna ekki ábyrgð sinni gagnvart fjölskyldunni, munu síðar meir verða að standa ábyrgir gerða sinna frammi fyrir Guði. Enn fremur viljum við vara við því að sundrung fjölskyldunnar mun leiða yfir einstaklinga, samfélög og þjóðir þær hörmungar sem spámenn fyrr og nú hafa sagt fyrir um.

Við biðjum alla ábyrga þegna og opinbera embættismenn alls staðar að efla þá þætti sem ætlaðir eru til að varðveita og styrkja fjölskylduna sem grundvallareiningu þjóðfélagsins.