Námshjálp
ÞJS, 1. Mósebók 50


ÞJS, 1. Mósebók 50:24–38. Samanber 1. Mósebók 50:24–26; sjá einnig 2 Nefí 3:4–22

Jósef í Egyptalandi spáir því, að Móse frelsi Ísrael undan ánauð Egypta; að grein afkomenda Jósefs verði leidd til fjarlægs lands, þar sem þeirra verður minnst í sáttmálum Drottins; að Guð kalli síðari daga spámann að nafni Joseph til að sameina heimildir Júda og Jósefs; og að Aron þjóni sem talsmaður Móse.

24 Og Jósef sagði við bræður sína: Ég dey og fer til feðra minna og geng glaður til grafar minnar. Guð Jakobs, föður míns, veri með yður og bjargi yður úr þrengingum á dögum ánauðar yðar, því að Drottinn hefur vitjað mín og ég hef fengið loforð frá Drottni: Að af ávexti lenda minna muni Drottinn Guð upp vekja réttláta grein af lendum mínum, og fyrir yður, sem faðir minn, Jakob, hefur nefnt Ísrael, spámann (ekki Messías sem nefndur er Síló), og sá spámaður mun bjarga fólki mínu út úr Egyptalandi á dögum ánauðar yðar.

25 Og svo ber við að þeim mun enn tvístrað, og grein mun brotna af og berast til fjarlægs lands. Engu að síður munu þeir í minnum hafðir í sáttmálum Drottins, þegar Messías kemur, því að hann mun opinberast þeim á síðari dögum, í anda kraftsins, og mun leiða þá úr myrkrinu í ljósið, úr huldu myrkri, og úr ánauð í frelsi.

26 Sjáanda mun Drottinn Guð minn upp vekja, sem verða mun útvalinn sjáandi fyrir ávöxt lenda minna.

27 Svo segir Drottinn Guð feðra minna við mig: Útvalinn sjáanda mun ég upp vekja af ávexti lenda þinna, og hann mun mikils metinn meðal ávaxtar lenda þinna. Og honum mun ég gefa þau boð, að vinna verk fyrir ávöxt lenda þinna, bræður sína.

28 Og hann mun færa þeim vitneskju um sáttmálana sem ég hef gjört við feður yðar, og hann mun gjöra allt sem ég býð honum að gjöra.

29 Og ég mun gjöra hann mikinn í augum mínum, því að hann mun vinna verk mitt. Og hann verður mikill líkt og sá sem ég sagðist myndu upp vekja fyrir yður, til að bjarga fólki mínu, ó Ísraelsætt, út úr Egyptalandi, og hann mun nefndur Móse. Og af nafni sínu mun hann vita að hann er af húsi yðar, því að hann mun fóstraður af dóttur konungs og kallast hennar sonur

30 Og ennfremur mun ég upp vekja sjáanda af ávexti lenda yðar, og honum mun ég veita kraft til þess að flytja orð mitt til niðjanna af lendum yðar. Og ekki aðeins að flytja orð mitt, segir Drottinn, heldur sannfæra þá um orð mitt, sem þegar mun hafa borist meðal þeirra á síðustu dögum —

31 Því mun ávöxtur lenda yðar rita, og ávöxtur lenda Júda mun rita, og það sem ritað verður af ávexti lenda yðar, og einnig það sem ritað verður af ávexti lenda Júda, mun sameinast til þess að falskenningar verði kveðnar niður og deilum linni, og friður verði meðal ávaxtar lenda yðar og þeir fái vitneskju um feður sína á síðari dögum, og einnig vitneskju um sáttmála mína, segir Drottinn.

32 Og af veikleika verður hann styrkur gjörður á þeim degi sem verk mitt mun unnið meðal alls fólks míns, er mun á síðustu dögum endurreisa þá, sem eru af húsi Ísraels.

33 Og þann sjáanda mun ég blessa, og þeir sem leitast við að tortíma honum munu smánaðir verða, því að það loforð gef ég yður. Því að ég mun minnast yðar, kynslóð eftir kynslóð. Og hann verður nefndur Joseph, eftir föður sínum, og hann verður líkur yður, því að það sem Drottinn gjörir með hans hendi mun færa fólki mínu hjálpræði.

34 Og Drottinn vann Jósef þann eið, að hann myndi varðveita niðja hans eilíflega, og sagði: Ég mun upp vekja Móse, og stafur verður í hendi hans, og hann mun safna saman fólki mínu, og hann mun leiða þá líkt og hjörð, og hann mun ljósta vötn Rauðahafsins með staf sínum.

35 Og dómurinn verður hans, og hann mun rita orð Drottins. Og hann mun ekki mæla mörg orð, því að ég mun rita fyrir hann lögmál mitt með fingri handar minnar. Ég mun gjöra honum talsmann, og nafn hans verður Aron.

36 Og það mun einnig fyrir yður gjört á síðustu dögum, eins og ég hef svarið. Því, sagði Jósef við bræður sína, mun Guð vissulega vitja yðar og flytja yður úr þessu landi, til landsins sem hann sór Abraham og Ísak og Jakob.

37 Og Jósef staðfesti margt fleira fyrir bræðrum sínum, og tók eið af börnum Ísraels og sagði við þau: Guð mun vissulega vitja yðar, og þér munuð flytja bein mín héðan.

38 Og Jósef dó þá er hann var hundrað og tíu ára gamall, og þeir smurðu hann og kistulögðu í Egyptalandi. Og börn Ísraels greftruðu hann ekki, svo hægt yrði að flytja hann og leggja í gröf hjá föður sínum. Og þannig minntust þeir eiðsins, sem þeir höfðu unnið honum.