Trúboðskallanir
6. kafli: Tileinka sér kristilega eiginleika


„6. kafli: Tileinka sér kristilega eiginleika,“ Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að miðlun fagnaðarerindis Jesú Krists (2023)

„6. kafli,“ Boða fagnaðarerindi mitt

Ljósmynd
Köllun fiskimannanna (Kristur kallar Pétur og Andrés), eftir Harry Anderson

6. kafli

Tileinka sér kristilega eiginleika

Til hugleiðingar

  • Hvernig uppfyllir það tilgang minn sem trúboði að tileinka mér kristilega eiginleika?

  • Hvernig get ég bæði leitað og tekið á móti kristilegum eiginleikum?

  • Hvaða eiginleika eða eiginleikum ætti ég að einbeita mér að núna?

Aðfaraorð

Í upphafi jarðneskrar þjónustu sinnar gekk Jesús á strönd Galíleuvatns og kallaði á tvo fiskimenn, Pétur og Andrés. „Fylgið mér,“ sagði hann, „og ég [mun] láta yður menn veiða“ (Matteus 4:19; sjá einnig Markús 1:17).

Drottinn hefur líka kallað ykkur til verksins og býður ykkur líka að fylgja sér. „Hvers konar menn ættuð þér því að vera?“ spurði hann. „Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er“ (3. Nefí 27:27).

Sumir kaflar í Boða fagnaðarerindi mitt fjalla um það sem þið þurfið að gera sem trúboðar, eins og hvernig á að læra, hvernig á að kenna og hvernig á að setja sér markmið. Alveg jafn mikilvægt því sem þið gerið er hver þið eruð og hver þið eruð að verða. Það er áhersla þessa kafla.

Ritningarnar tilgreina þá kristilegu eiginleika sem nauðsynlegt er að þið leitið að sem trúboðar og alla ykkar ævi. Kristilegur eiginleiki er hluti af eðli og persónuleika frelsarans. Þessi kafli greinir frá nokkrum þessara eiginleika. Lærið um þá og ritningarversin sem tengjast þeim. Leitið annarra kristilegra eiginleika þegar þið lærið aðra ritningarhluta.

Einkanám

Sjá Kenning og sáttmálar 4. Hvaða eiginleika tilgreinir Drottinn sem mikilvæga fyrir trúboða? Hvernig hjálpar það ykkur að uppfylla trúboðstilgang ykkar að leita þessara eiginleika?

„Leitið þessa Jesú“

Spámaðurinn Moróní hvatti: „Ég [býð] yður að leita þessa Jesú, sem spámennirnir og postularnir hafa ritað um“ (Eter 12:41). Eitt sem mikilvægt er að gera til að leita Jesú, er að leggja kapp á að læra um hann og verða líkari honum. Trúboðið ykkar er kjörinn tími til að einbeita sér að þessu.

Þegar þið leitist við að verða líkari Kristi eigið þið auðveldar með að ná tilgangi ykkar sem trúboðar. Þið munuð upplifa gleði, frið og andlegan vöxt þegar eiginleikar hans verða hluti af persónuleika ykkar. Þið munuð líka leggja grunn að því að fylgja honum alla ævi.

Gjafir frá Guði

Kristilegir eiginleikar eru gjöf frá Guði. Líkt og með allar góðar gjafir, þá hljótast þessar gjafir fyrir „náð Guðs föðurins, og einnig [Drottin Jesú Krist og heilagan anda]“ (Eter 12:41).

Einblínið á Krist þegar þið tileinkið ykkur eiginleika hans (sjá Kenning og sáttmálar 6:36). Eiginleikar þessir eru ekki atriði á gátlista. Þetta eru ekki aðferðir sem þið þróið í sjálfstyrkingaráætlun. Þeir verða ekki einungis áunnir með eigin ásetningi. Þið tileinkið ykkur þá öllu heldur með því að keppa að því að verða trúræknari lærisveinar Jesú Krists.

Biðjið Guð að blessa ykkur með þessum eiginleikum. Viðurkennið af auðmýkt veikleika ykkar og þörfina fyrir kraft hans í lífi ykkar. Þegar þið gerið þetta mun hið „hið veika verða styrk [ykkar]“ (Eter 12:27).

Hægfara ferli

Að verða líkari frelsaranum er hægfara, ævilangt ferli. Bætið eina ákvörðun í senn með þrá til að þóknast Guði.

Verið þolinmóð við ykkur sjálf. Guð veit að breyting og vöxtur taka tíma. Hann gleðst yfir einlægri þrá ykkar og mun blessa ykkur fyrir hverja viðleitni ykkar.

Þrár ykkar, hugsanir og verk munu breytast þegar þið keppið að því að verða líkari Kristi. Fyrir friðþægingu Jesú Krists og kraft heilags anda, mun eðli ykkar verða fágað (sjá Mósía 3:19).

Ljósmynd
Parley P. Pratt

Heilagur andi útvíkkar og eykur hæfni okkar. Hann „hvetur til dyggðar, góðvildar, gæsku, ljúfleika, hógværðar og kærleika. … Í stuttu máli er það sem væri mergur í beinum, gleði fyrir hjartað, ljós fyrir augað, tónlist fyrir eyrað og líf fyrir alla sálina“ (Parley P. Pratt, Key to the Science of Theology [1855], 98–99).

Ritningarnám

Hvað kenna þessi ritningarvers um að fylgja fordæmi Jesú Krists?

Hvað lærið þið af eftirfarandi ritningarversum um kristilega eiginleika?

Ljósmynd
Rís upp og gakk, eftir Simon Dewey

Trú á Jesú Krist

Til þess að trú leiði til sáluhjálpar, verðið þið að beina henni að Jesú Kristi (sjá Postulasagan 4:10–12; Mósía 3:17; Moróní 7:24–26). Þegar þið hafið trú á Krist, treystið þið á hann sem eingetinn son Guðs. Þið eruð þess fullviss að þegar þið iðrist munuð þið hljóta fyrirgefningu synda ykkar fyrir friðþægingarfórn hans og verða helguð af heilögum anda (sjá 3. Nefí 27:16, 20).

Trú er ekki að búa að fullkominni þekkingu. Hún er öllu heldur fullvissa frá andanum um það sem þið sjáið ekki en er sannleikur. (Sjá Alma 32:21.)

Þið tjáið trú ykkar með verkum. Þau verk fela í sér að fylgja kenningum og fordæmi frelsarans. Þau fela í sér að þjóna öðrum og hjálpa þeim að velja að fylgja Kristi. Þið tjáið líka trú ykkar með kostgæfni, iðrun og kærleika.

Trú er regla máttar. Þegar þið iðkið trú á Jesú Krist munuð þið hljóta blessun með krafti hans sem hæfir aðstæðum ykkar. Þið munuð geta upplifað kraftaverk samkvæmt vilja Drottins. (Sjá Jakob 4:4–7; Moróní 7:33; 10:7.)

Trú ykkar á Jesú Krist styrkist eftir því sem þið þekkið hann og kenningar hans betur. Hún mun aukast þegar þið kannið ritningarnar, biðjist fyrir af einlægni og hlýðið boðorðunum. Efi og synd grafa undan trú.

Ljósmynd
Öldungur Neil L. Andersen

„Trú er ekki einungis tilfinning, hún er ákvörðun. Með bæn, námi, hlýðni, og sáttmálum byggjum við upp og treystum trú okkar. Sannfæring okkar um frelsarann og Síðari daga verk hans verður það öfluga sjóngler sem við dæmum allt annað í gegnum. Síðan, þegar við erum stödd í þolraun lífsins, búum við að þeim styrk sem þarf til að fara hina réttu leið“ (Neil L. Andersen, „Það er satt, er það ekki? Hvað annað skiptir þá máli?aðalráðstefna, apríl 2007).

Ritningarnám

Hvað er trú?

Hvernig öðlist þið trú og hvað getið þið gert fyrir trú?

Hvaða blessanir hljótast fyrir trú?

Ljósmynd
Von vakin, eftir Joseph Brickey

Von

Von er ekki bara óskhyggja. Hún er öllu heldur varanlegt traust, byggt á trú ykkar á Krist, um að Guð muni uppfylla loforðin sem hann hefur gefið ykkur (sjá Moróní 7:42). Hún er vænting „þeirra gæða sem komin eru“ með Kristi (Hebreabréfið 9:11).

Ykkar endanlega uppspretta vonar er Jesús Kristur. Spámaðurinn Mormón spurði: „Í hverju skal von yðar fólgin?“ Hann svaraði því síðan: „Þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs, og það vegna trúar yðar á hann, í samræmi við fyrirheitið“ (Moróní 7:41; sjá vers 40–43).

Þegar þið beinið von ykkar að Kristi hafið þið fullvissu um að allt muni samverka ykkur til góðs (sjá Kenning og sáttmálar 90:24). Sú fullvissa hjálpar ykkur að varðveita trúna þegar þið takist á við erfiðleika. Hún getur líka hjálpað ykkur að vaxa af erfiðleikum ykkar og þróa andlega þrautseigju og styrk. Von á Krist er akkeri gerir fyrir sál ykkar (sjá Eter 12:4).

Von veitir ykkur fullvissu um að Guð muni efla kostgæfið, réttlátt framlag ykkar (sjá Kenning og sáttmálar 123:17).

Ein leið til að glæða von okkar er með því að iðrast. Að verða hreinsuð og hljóta fyrirgefningu með friðþægingarfórn Jesú Krists vekur og glæðir von (sjá Alma 22:16).

Nefí hvatti: „[Sækið] fram, [staðföst] í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna“ (2. Nefí 31:20). Þegar þið lifið eftir fagnaðarerindinu munuð þið vaxa og verða „auðug að voninni“ (Rómverjabréfið 15:13).

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

„Á erfiðum stundum getum við haldið fast í þá von að allt [muni] „vinna saman að velfarnaði [okkar] er við fylgjum leiðsögn spámanns Guðs. Slík tegund vonar á Guð, gæsku hans og kraft, lífgar okkur með hugrekki í erfiðum vanda og veitir þeim styrk sem finnst þeim ógnað og umkringd ótta, efa og örvæntingu“ (Dieter F. Uchtdorf, „Hinn takmarkalausi lækningamáttur vonarinnar,“ aðalráðstefna, október 2008).

Ritningarnám

Hvað er von og hverju vonumst við eftir?

Ljósmynd
Kristur og börnin, eftir Minervu Teichert

Kærleikur og elska

Maður nokkur spurði eitt sinn Jesú: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Jesús svaraði: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er hliðstætt þessu: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Matteus 22:36–39).

Kærleikur er „hin hreina ást Krists“ (Moróní 7:47). Hann felur í sér ótakmarkaða elsku Guðs til allra barna sinna.

Spámaðurinn Mormón kenndi: „Biðjið … til föðurins, … af öllum hjartans mætti, að þér megið fyllast þessari elsku“ (Moróní 7:48). Þegar þið biðjist fyrir um að kærleikur fylli hjarta ykkar munuð þið upplifa elsku Guðs. Elska ykkar til fólks mun aukast og þið munuð upplifa einlæga umhyggju fyrir eilífri hamingju þess. Þið munuð sjá þau sem börn Guðs, sem er mögulegt að verða eins og hann er og þið munuð starfa í þess þágu.

Þegar þið biðjist fyrir um gjöf kærleika, munuð þið síður hneigjast til að dvelja við neikvæðar tilfinningar, eins og reiði eða öfund. Þið verðið líka ólíklegri til að dæma eða gagnrýna aðra. Þrá ykkar verður sterkari til að reyna að skilja aðra og skoðanir þeirra. Þið verðið þolinmóðari og reynið að hjálpa þegar fólk á erfitt eða er vondauft. (Sjá Moróní 7:45.)

Kærleikur leiðir til verka eins og trúin. Þið styrkið hann með því að þjóna öðrum og gefa af ykkur sjálfum.

Kærleikur er umbreytandi. Himneskur faðir veitir hann „öllum sönnum fylgjendum sonar síns, Jesú Krists; … að þegar hann birtist, þá verðum vér honum líkir, … að vér megum verða hreinir eins og hann er hreinn“ (Moróní 7:48).

Ritningarnám

Hvað er kærleikur?

Hvernig sýndi Jesús kærleika?

Hvað getið þið lært af eftirfarandi ritningarversum um kærleika?

Ljósmynd
Ester (Ester drottning), eftir Minervu Teichert

Dyggð

„Við trúum að við eigum að vera … dyggðug,“ segja Trúaratriðin (1:13). Dyggð er mynstur hugsana og atferlis sem byggist á háum siðferðisstöðlum. Hún er hollusta við Guð og aðra. Mikilvægur hluti dyggðar er að keppa að andlegum og líkamlegum hreinleika.

Dyggð á rætur í hugsunum og þrám okkar. „Lát dyggðir prýða hugsanir þínar linnulaust,“ sagði Drottinn (Kenning og sáttmálar 121:45). Leggið áherslu á réttlátar, upplyftandi hugsanir. Útilokið óverðugar hugsanir úr huga ykkar, fremur en að dvelja við þær.

Hugur ykkar er eins og leikhússvið. Ef þið leyfið óheilnæmum hugsunum að dvelja á sviði huga ykkar er líklegra að þið syndgið. Ef þið fyllið huga ykkar á virkan hátt af heilnæmum hlutum er líklegra að þið meðtakið það sem er dyggðugt og forðist það sem er illt. Sýnið visku varðandi hugsanir sem þið leyfið að komist inn fyrir og dvelji áfram á sviði hugans.

Þegar þið leitist við að lifa dyggðugu lífi, „mun traust [ykkar] vaxa og styrkjast í návist Guðs og … heilagur andi verður [ykkur] stöðugur förunautur“ (Kenning og sáttmálar 121:45–46).

Ritningarnám

Hvað merkir að vera dyggðugur?

Ráðvendni

Ráðvendni á rætur í æðsta boðorðinu um að elska Guð (sjá Matteus 22:37). Þar sem að þið elskið Guð verðið þið trú honum á öllum tímum. Eins og synir Helamans, „[gangið þið grandvör] frammi fyrir honum“ (Alma 53:21).

Þegar þið eruð ráðvönd skiljið þið að til er rétt og rangt og að til er alger sannleikur – sannleikur Guðs. Þið notið sjálfræði ykkar til að velja í samræmi við sannleika Guðs og þið iðrist tafarlaust þegar þið gerið það ekki. Það sem þið kjósið að hugsa – og gera þegar þið teljið engan fylgjast með ykkur – er góður mælikvarði á ráðvendni ykkar.

Ljósmynd
Daníel í ljónagryfjunni, eftir Clark Kelley Price

Ráðvendni merkir að þið lækkið ekki staðla ykkar eða breytni til að vekja aðdáun eða njóta samþykkis annarra. Þið gerið það sem rétt er, jafnvel þótt aðrir hæðist að þrá ykkar til að vera trú Guði (sjá 1. Nefí 8:24–28). Þið sýnið heiðarleika í öllu umhverfi, þar með talið hvernig þið komið fram á netinu.

Þegar þið tileinkið ykkur ráðvendni haldið þið sáttmála ykkar við Guð sem og réttlátar skuldbindingar ykkar við aðra.

Ráðvendni felur í sér að vera heiðarlegur við Guð, sjálfan sig, leiðtoga sína og aðra. Þið hvorki ljúgið, stelið, svindlið eða blekkið. Þegar þið gerið eitthvað rangt þá takið þið ábyrgð og iðrist í stað þess að reyna að réttlæta eða hagræða.

Þegar þið lifið af heilindum munuð þið njóta innri friðar og sjálfsvirðingar. Drottinn og aðrir munu treysta ykkur.

Ritningarnám

Hvernig sýndi Jesús ráðvendni, jafnvel á viðkvæmustu augnablikum sínum?

Hvernig sýndu ungu stríðsmennirnir í herdeild Helamans ráðvendni?

Hvernig sýndi Daníel ráðvendni? Hvernig blessaði Guð Daníel fyrir ráðvendni hans?

Af hverju elskaði Drottinn Hyrum, bróður Josephs Smith?

Ljósmynd
Sýna í trú ykkar dyggð, Walter Rane

Þekking

Drottinn hefur boðið: „Sækist eftir fræðslu með námi og einnig með trú“ (Kenning og sáttmálar 88:118). Leitið þekkingar í trúboði ykkar og alla ævi, einkum andlegrar þekkingar.

Lærið ritningarnar á hverjum degi, sem og orð lifandi spámanna. Leitið hjálpar varðandi ákveðnar spurningar, áskoranir og tækifæri með námi og bæn. Leitið að ritningarhlutum sem þið getið notað við kennslu og til að svara spurningum um fagnaðarerindið.

Þegar þið lærið af kostgæfni og í bænaranda mun heilagur andi upplýsa huga ykkar. Hann mun kenna ykkur og veita ykkur skilning. Hann mun hjálpa ykkur að lifa eftir kenningum ritninganna og síðari daga spámanna. Þið getið þá sagt eins og Nefí:

„Því að sál mín hefur unun af ritningunum og hjarta mitt ígrundar þær. … Sjá, sál mín hefur unun af öllu, sem Drottin snertir. Og hjarta mitt ígrundar án afláts það, sem ég hef séð og heyrt“ (2. Nefí 4:15–16).

Ritningarnám

Hvernig getur þekking hjálpað okkur að framfylgja verki Drottins?

Hvernig getið þið aflað ykkur þekkingar?

Ljósmynd
skuggamynd af manneskju í sólskini

Þolinmæði

Þolinmæði er hæfileiki til að treysta Guði þegar þið takist á við seinkun, andstöðu eða þjáningu. Í trú treystið þið á tímasetningu Guðs varðandi uppfyllingu fyrirheitinna blessana hans.

Þegar þið eruð þolinmóð sjáið þið lífið út frá eilífu sjónarhorni. Þið væntið ekki blessana eða niðurstöðu tafarlaust. Réttlátar þrár ykkar verða yfirleitt að veruleika „orð á orð ofan, … örlítið hér, örlítið þar“ (2. Nefí 28:30). Sumar réttlátar þrár verða ef til vill ekki að veruleika fyrr en eftir þetta líf.

Þolinmæði er ekki iðjuleysi eða aðgerðalaus uppgjöf. Hún er að „[gera] með glöðu geði … allt, sem í okkar valdi stendur“ er við þjónum Guði (Kenning og sáttmálar 123:17). Þið gróðursetjið, vökvið og nærið sáðkornið og Guð mun „senn“ sjá um aukninguna (Alma 32:42; sjá einnig 1. Korintubréf 3:6–8). Þið eruð í samstarfi við Guð og treystið að þegar þið hafið gert ykkar hlut, þá muni hann framkvæma verk sitt á sínum tíma og í samræmi við einstaklingsbundið val.

Þolinmæði þýðir líka að þegar einhverju er ekki hægt að breyta, þá takið þið því af hugrekki, náð og trú.

Iðkið þolinmæði við aðra, þar á meðal félaga ykkar og þau sem þið þjónið. Verið líka þolinmóð við ykkur sjálf. Leitið þess besta innra með ykkur sjálfum og skiljið jafnframt að þið munuð vaxa skref fyrir skref.

Eins og á við um aðra kristilega eiginleika er það ævilangt ferli að vaxa að þolinmæði. Að sýna þolinmæði getur haft græðandi áhrif á sál ykkar og á þau sem umhverfis eru.

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

„Þolinmæði merkir jákvæða bið og að standast. Í henni felst að halda sig við eitthvað og gera allt sem við getum – vinna, vona, og iðka trú; þola harðræði með hugprýði, jafnvel þegar uppfyllingu hjartansþrár okkar seinkar. Þolinmæði er ekki bara að standast, heldur að standast vel!“ (Dieter F. Uchtdorf, „Halda áfram með þolgæði,“ aðalráðstefna, apríl 2010).

Einkanám

Lærið Mósía 28:1–9.

  • Hverjar voru þrár sona Mósía?

  • Hver var leiðsögn Drottins til þessara trúboða? (Sjá Alma 17:10–11; 26:27.)

  • Hverjir voru sumir ávextir af þolinmæði og kostgæfni þeirra? (Sjá Alma 26.)

Skrifið svör ykkar í námsdagbók ykkar.

Ritningarnám

Af hverju er þolinmæði mikilvæg? Hvernig tengjast þolinmæði og trú?

Ljósmynd
Velþóknun Guðs (Jesús biðst fyrir með móður sinni), eftir Simon Dewey

Auðmýkt

Auðmýkt er fúsleiki til að lúta vilja Drottins. Hún er fúsleiki til að veita honum dýrðina af því sem áorkað er. Hún er að vera lærdómsfús (sjá Kenning og sáttmálar 136:32). Í henni felst þakklæti fyrir blessanir Guðs og viðurkenning á stöðugri þörf fyrir liðsinni hans. Hann hjálpar þeim sem eru auðmjúkir.

Auðmýkt staðfestir andlegan styrk, ekki veikleika. Auðmýkt er nauðsynlegur eiginleiki andlegs vaxtar (sjá Eter 12:27).

Þegar þið treystið Drottni af auðmýkt getið þið notið þeirrar fullvissu að boðorð hans eru ykkur til góðs. Þið eruð fullviss um að þið fáið áorkað öllu sem hann býður ykkur að gera, ef þið reiðið ykkur á hann. Þið eruð líka fús til að treysta þjónum hans og fylgja leiðsögn þeirra. Auðmýkt mun hjálpa ykkur að vera hlýðin, leggja hart að ykkur og þjóna.

Andstæða auðmýktar er dramb. Að vera drambsamur er að treysta meira á sjálfan sig en Guð. Það þýðir líka að setja það sem heimsins er ofar því sem Guðs er. Dramb elur á samkeppni; það er sú tilhneiging að vilja meira og telja að við séum betri en aðrir. Dramb er mikil hrösunarhella.

Ritningarnám

Hvað merkir að vera auðmjúkur?

Hvaða blessanir hljótið þið þegar þið eruð auðmjúk?

Hvernig getið þið borið kennsl á dramb í ykkur sjálfum?

Ljósmynd
Páll postuli kennir mannfjölda

Kostgæfni

Kostgæfni er stöðug, einlæg viðleitni. Í trúboðsstarfi er kostgæfni kærleikstjáning ykkar til Drottins. Þegar þið eruð kostgæfin finnið þið gleði og ánægju í verki Drottins (sjá Alma 26:16).

Kostgæfni er að gera margt gott af frjálsum vilja sínum í stað þess að bíða þess að leiðtogar segi ykkur hvað gera skuli (sjá Kenning og sáttmálar 58:27–29).

Haldið áfram að gera gott, jafnvel þegar það er erfitt eða þið eruð úrvinda. Áttið ykkur samt á þörfinni fyrir jafnvægi og hvíld svo þið „[hlaupið] ekki hraðar en styrkur [ykkar] leyfir“ (Mósía 4:27).

Beinið hjarta ykkar og kröftum að Drottni og verki hans. Forðist það sem truflar ykkur frá forgangsmálum. Beinið tíma ykkar og orku að þeim aðgerðum sem skila munu bestum árangri á ykkar svæði og koma fólkinu sem þið kennið að mestum notum.

Ljósmynd
Henry B. Eyring forseti

„Þetta er kirkja Drottins. Hann kallaði okkur og treysti okkur þótt hann vissi um veikleika okkar. Hann vissi um raunirnar sem myndu mæta okkur. Með dyggri þjónustu og friðþægingu hans getum við þráð það sem hann þráði og verið það sem við verðum að vera til að blessa þá sem við þjónum fyrir hann. Þegar við þjónum honum nógu lengi og af kostgæfni munum við breytast. Við getum orðið líkari honum“ (Henry B. Eyring, „Sýnið fulla kostgæfni,“ aðalráðstefna, apríl 2010).

Ritningarnám

Hvað merkir að vera kostgæfinn?

Af hverju væntir Drottinn þess að við séum kostgæfin?

Hvernig tengist kostgæfni sjálfræði?

Ljósmynd
Tvö þúsund ungir stríðsmenn (Tvö þúsund ungir stríðsmenn), eftir Arnold Friberg

Hlýðni

Þjónusta ykkar sem trúboðar tengist sáttmálunum sem þið gerðuð við Guð í skírninni og í musterinu. Þegar þið tókuð á móti helgiathöfnum skírnar og musterisgjafar gerðuð þið sáttmála um að halda boðorð hans.

Benjamín konungur kenndi: „Mig [langar] til, að þér hugleiðið blessun og hamingju þeirra, sem halda boðorð Guðs. Því að sjá. Þeir njóta blessunar í öllu, jafnt stundlegu sem andlegu. Og ef þeir haldast staðfastir allt til enda, er tekið á móti þeim á himni, og þeir fá dvalið með Guði í óendanlegri sælu“ (Mósía 2:41).

Að hlýða boðorðunum er kærleikstjáning til himnesks föður og Jesú Krists (sjá Jóhannes 14:15). Jesús sagði: „Ef þér haldið boðorð mín verðið þér stöðug í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans“ (Jóhannes 15:10).

Fylgið stöðlunum í Trúboðsstaðlar fyrir lærisveina Jesú Krists. Fylgið líka leiðsögn trúboðsforseta ykkar og eiginkonu hans er þau leiðbeina ykkur í réttlæti.

Ljósmynd
Öldungur Dale G. Renlund

„Hlýðni er valkostur fyrir okkur. Frelsarinn setti það skýrt fram. Eins og fram kemur í þýðingu Josephs Smith á Lúkasi 14:28, sagði Jesús: ‚Ákveðið þetta því í hjörtum yðar, svo að þér gjörið það sem ég mun kenna og bjóða yður.‘ Svo einfalt er það. … Þegar við gerum það mun andlegur stöðugleiki okkar aukast til muna. Við munum forðast að sóa Guðs gefnum auðlindum og fara ófarsælar og skaðlegar hjáleiðir í lífi okkar“ (Dale G. Renlund, „Constructing Spiritual Stability“ [trúarsamkoma í Brigham Young-háskóla, 16. sept. 2014], 2, speeches.byu.edu)

Ritningarnám

Hvað lærið þið af eftirfarandi ritningarversum um hlýðni?

Ljósmynd
Kristur og fiskimennirnir (Elskar þú mig meira en þessir), eftir J. Kirk Richards

Forskrift að því að verða kristilegri

Eftirfarandi forskrift getur hjálpað ykkur að þróa og tileinka ykkur eiginleikana sem tilgreindir eru í þessum kafla og aðra eiginleika sem sagt er frá í ritningunum:

  • Berið kennsl á þann eiginleika sem þið viljið tileinka ykkur.

  • Skrifið lýsingu á eiginleikanum.

  • Skráið og lærið ritningarhluta sem sýna dæmi um eiginleikann eða kenna um hann.

  • Skráið tilfinningar ykkar og hughrif.

  • Setjið ykkur markmið og gerið áætlanir til að tileinka ykkur eiginleikann.

  • Biðjið til Guðs um að hann hjálpi ykkur að þróa og tileinka ykkur eiginleikann.

  • Metið framfarir ykkar reglubundið.

Ljósmynd
Öldungur Jeffrey R. Holland

„Drottinn blessar þá sem fúslega vilja bæta sig, sem viðurkenna nauðsyn boðorðanna og reyna að lifa eftir þeim, sem elska kristilegar dyggðir og leggja sig fram við að sækjast eftir þeim. Ef ykkur skrikar fótur í því verki, en það gera allir, þá er frelsarinn fús til að hjálpa ykkur að halda áfram. … Hin þráða farsæld mun brátt líta dagsins ljós“ (Jeffrey R. Holland, „Á morgun mun Drottinn gjöra undursamlega hluti meðal yðar,“ aðalráðstefna, apríl 2016).

Einkanám

Berið kennsl á einn eiginleika í þessum kafla eða í ritningunum. Fylgið forskriftinni sem greint er hér frá til að skilja og tileinka ykkur eiginleikann.

Virðið fyrir ykkur trúboðsnafnspjaldið ykkar. Hvernig er það frábrugðið þeim sem starfsmenn fyrirtækis bera? Athugið að tveir mest áberandi hlutarnir eru nafnið ykkar og nafn frelsarans.

  • Hvernig getið þið verið betri fulltrúar frelsarans sem lærisveinar hans?

  • Af hverju er mikilvægt að fólk tengi nafnið ykkar við nafn frelsarans á jákvæðan hátt?

Skrifið hugsanir ykkar í námsdagbók ykkar.

Ritningarnám

Rifjið upp eiginleikana sem tilgreindir eru í eftirfarandi ritningarversum. Skrifið öll hughrif í námsdagbók ykkar.


Hugmyndir að námi og tileinkun þess

Einkanám

  • Ljúkið reglubundið við „Eiginleikaverkefni“ í lok þessa kafla.

  • Berið kennsl á eiginleika í þessum kafla. Spyrjið ykkur sjálf:

    • Hvernig get ég lært meira um þennan eiginleika?

    • Hvernig mun það að leita þessa eiginleika hjálpa mér að verða betri þjónn fagnaðarerindis Jesú Krists?

  • Finnið dæmi um kristilega eiginleika í lífi karla og kvenna í ritningunum. Skrifið hughrif ykkar í námsdagbók ykkar.

  • Finnið dæmi um kristilega eiginleika í helgri tónlist kirkjunnar. Þegar þið leitið að eiginleikum, skuluð þið leggja á minnið orð sálma eða söngva til að finna styrk og kraft. Endurtakið eða syngið orðin fyrir ykkur sjálf til innblásturs og til að laða fram áhrif andans.

Félaganám og félagaskipti

  • Kynnið ykkur tilvísanir í kristilega eiginleika í Gospel Library eða öðrum viðurkenndum heimildum. Ræðið hvernig tileinka á sér það sem þið lærið. Þið gætuð líka rætt það sem þið hafið lært í persónulegri viðleitni ykkar til að verða líkari Kristi.

Umdæmisráð, svæðisráðstefnur og trúboðsleiðtogaráð

  • Nokkrum dögum fyrir fundinn eða ráðstefnuna, skuluð þið biðja hvern trúboða að búa sig undir fimm mínútna ræðu um kristilegan eiginleika. Gefið nokkrum trúboðum tíma á fundinum til að flytja ræðurnar sínar.

  • Skiptið trúboðunum í fjóra hópa og felið þeim eftirfarandi verkefni:

    Hópur 1: Lesið 1. Nefí: 17:7–16 og svarið eftirfarandi spurningum:

    • Hvernig iðkaði Nefí trú sína?

    • Hvað gerði Nefí sem var kristilegt?

    • Hvaða loforð gaf Drottinn Nefí?

    • Hvernig á þessi frásögn við um trúboðsstarf?

    Hópur 2: Lesið Markús 5:24–34 og svarið eftirfarandi spurningum:

    • Hvernig iðkaði þessi kona trú á Jesú Krist?

    • Af hverju var hún læknuð?

    • Hvernig getum við fylgt fordæmi hennar í trúboðsstarfi okkar?

    Hópur 3: Lesið Jakob 7:1–15 og svarið eftirfarandi spurningum:

    • Af hverju var trú Jakobs nægilega sterk til að standast árás Sherems?

    • Hvernig iðkaði Jakob trú í orðaskiptum sínum við Sherem?

    • Hvernig var breytni Jakobs kristileg?

    Hópur 4: Lesið Joseph Smith – Saga 1:8–18 og svarið eftirfarandi spurningum:

    • Á hvaða hátt iðkaði Joseph Smith trú á Jesú Krist?

    • Hvernig var reynt á trú hans?

    • Hvað gerði hann sem var kristilegt?

    • Hvernig getum við fylgt fordæmi Josephs Smith?

    Eftir að hóparnir hafa lokið þessu, látið þá trúboðana koma saman og biðjið þá að miðla því sem þeir fjölluðu um.

Trúboðsleiðtogar og trúboðsráðgjafar

  • Biðjið trúboða að lesa eitt guðspjallanna fjögurra í Nýja testamentinu eða 3. Nefí 11–28. Látið þá undirstrika það sem frelsarinn gerði sem þeir geta líka gert.

  • Notið markmiðasetningu og skipulagningu til að kenna trúboðum um kostgæfni. Sýnið hvernig kostgæfni við að leggja áherslu á fólk er kærleikstjáning.

  • Í viðtölum eða í samtölum, skuluð þið biðja trúboða að ræða um þá kristilegu eiginleika sem þeir sækjast eftir.

Eiginleikaverkefni

Tilgangur þessa verkefnis er að hjálpa ykkur að finna tækifæri til andlegs vaxtar. Lesið hvert atriði hér að neðan. Ákveðið hversu sönn fullyrðingin er um ykkur og veljið viðeigandi svar. Skrifið svörin ykkar í námsdagbók ykkar.

Enginn getur svarað „alltaf“ í hverju tilviki. Andlegur vöxtur er ævilangt ferli. Það er ein ástæða þess að það er spennandi og gefandi – vegna þess að það eru óteljandi tækifæri til að vaxa og upplifa blessanir vaxtar.

Verið sátt við að byrja þar sem þið eruð. Skuldbindið ykkur til að vinna það andlega verk sem þarf til vaxtar. Leitið hjálpar Guðs. Þegar þið verðið fyrir áföllum, skuluð þið treysta því að hann muni hjálpa ykkur. Þegar þið biðjist fyrir, leitið þá leiðsagnar um hvaða eiginleikum þið ættuð að einbeita ykkur að á hinum ýmsu tímum í trúboði ykkar.

Svarlykill

  • 1 = aldrei

  • 2 = stundum

  • 3 = oft

  • 4 = næstum alltaf

  • 5 = alltaf

Trú

  1. Ég trúi á Krist og meðtek hann sem frelsara minn. (2. Nefí 25:29)

  2. Ég er fullviss um að Guð elskar mig. (1. Nefí 11:17)

  3. Ég treysti frelsaranum nægilega til að meðtaka vilja hans og gera það sem hann biður. (1. Nefí 3:7)

  4. Ég trúi að fyrir friðþægingu Jesú Krists og kraft heilags anda geti ég hlotið fyrirgefningu synda minna og helgast er ég iðrast. (Enos 1:2–8)

  5. Ég trúi að Guð heyri og svari bænum mínum. (Mósía 27:14)

  6. Ég hugsa um frelsarann yfir daginn og minnist þess sem hann hefur gert fyrir mig. (Kenning og sáttmálar 20:77, 79)

  7. Ég trúi að Guð muni koma góðu til leiðar í lífi mínu og lífi annarra er við helgum okkur honum og syni hans. (Eter 12:12)

  8. Ég veit fyrir kraft heilags anda að Mormónsbók er sönn. (Moróní 10:3–5)

  9. Ég hef trú til að áorka því sem Kristur vill að ég geri. (Moróní 7:33)

Von

  1. Ein sterkasta þrá mín er að erfa eilíft líf í himneska ríkinu. (Moróní 7:41)

  2. Ég er fullviss um að trúboð mitt verði gleðiríkt og farsælt. (Kenning og sáttmálar 31:3–5)

  3. Ég er bjartsýn/n varðandi framtíðina. (Kenning og sáttmálar 59:23)

  4. Ég trúi að ég muni einhvern tíma dvelja hjá Guði og verða eins og hann er. (Eter 12:4)

Kærleikur og elska

  1. Ég þrái einlæglega eilífa velferð og hamingju annarra. (Mósía 28:3)

  2. Þegar ég biðst fyrir bið ég um kærleika – hina hreinu ást Krists. (Moróní 7:47–48)

  3. Ég reyni að skilja tilfinningar annarra og sjónarmið þeirra. (Júdasarbréfið 1:22)

  4. Ég fyrirgef þeim sem hafa misboðið mér eða brotið gegn mér. (Efesusbréfið 4:32)

  5. Ég gef mig að þeim í kærleika sem eru einmana, eiga erfitt eða eru vondaufir. (Mósía 18:9)

  6. Ég tjái elsku mína, þegar það er viðeigandi, og læt mér annt um aðra með því að þjóna þeim í orði og verki. (Lúkas 7:12–15)

  7. Ég leita tækifæra til að þjóna öðrum. (Mósía 2:17)

  8. Ég segi jákvæða hluti um aðra. (Kenning og sáttmálar 42:27)

  9. Ég sýni öðrum vingjarnleika og þolinmæði, jafnvel þótt erfitt sé að lynda við þau. (Moróní 7:45)

  10. Ég gleðst yfir afrekum annarra. (Alma 17:2–4)

Dyggð

  1. Hjarta mitt er hreint. (Sálmar 24:3–4)

  2. Ég þrái að gera gott. (Mósía 5:2)

  3. Ég legg áherslu á réttlátar, upplyftandi hugsanir og forðast óheilnæmar hugsanir. (Kenning og sáttmálar 121:45)

  4. Ég iðrast synda minna og keppi að því að sigrast á veikleikum mínum. (Kenning og sáttmálar 49:26–28; Eter 12:27)

  5. Ég finn fyrir áhrifum heilags anda í lífi mínu. (Kenning og sáttmálar 11:12–13)

Ráðvendni

  1. Ég sýni Guði alltaf hollustu. (Mósía 18:9)

  2. Ég lækka ekki staðla mína eða breytni til að vekja aðdáun eða njóta samþykkis annarra. (1. Nefí 8:24–28)

  3. Ég er heiðarleg/ur við Guð, sjálfa/n mig, leiðtoga mína og aðra. (Kenning og sáttmálar 51:9)

  4. Ég er áreiðanleg/ur. (Alma 53:20)

Þekking

  1. Mér finnst ég hafa góðan skilning á kenningum og reglum fagnaðarerindisins. (Alma 17:2–3)

  2. Ég læri ritningarnar daglega. (2. Tímóteusarbréf 3:16–17)

  3. Ég reyni að skilja sannleikann og finna svör við spurningum mínum. (Kenning og sáttmálar 6:7)

  4. Ég leita þekkingar og leiðsagnar með andanum. (1. Nefí 4:6)

  5. Kenningar og reglur fagnaðarerindisins eru mér kærar. (2. Nefí 4:15)

Þolinmæði

  1. Ég sýni þolinmæði og biðlund eftir að blessanir og loforð Drottins uppfyllast. (2. Nefí 10:17)

  2. Ég get beðið eftir hlutum án þess að það raski ró minni eða valdi mér gremju. (Rómverjabréfið 8:25)

  3. Ég hef þolinmæði með þeim áskorunum sem fylgja því að vera trúboði. (Alma 17:11)

  4. Ég sýni öðrum þolinmæði. (Rómverjabréfið 15:1)

  5. Ég sýni mér sjálfri eða sjálfum þolinmæði og reiði mig á Drottin til að sigrast á veikleikum mínum. (Eter 12:27)

  6. Ég tekst á við mótlæti með þolinmæði og trú. (Alma 34:40–41)

Auðmýkt

  1. Ég tileinka mér hógværð og lítillæti í hjarta. (Matteus 11:29)

  2. Ég reiði mig á hjálp Guðs. (Alma 26:12)

  3. Ég sýni þakklæti fyrir þær blessanir sem ég hlýt frá Guði. (Alma 7:23)

  4. Bænir mínar eru ærlegar og einlægar. (Enos 1:4)

  5. Ég met mikils leiðsögn frá leiðtogum og kennurum mínum. (2. Nefí 9:28–29)

  6. Ég keppi að því að lúta vilja Guðs. (Mósía 24:15)

Kostgæfni

  1. Ég starfa af kappi, jafnvel þótt ekki sé fylgst náið með mér. (Kenning og sáttmálar 58:26–27)

  2. Ég beini kröftum mínum að því allra mikilvægasta. (Matteus 23:23)

  3. Ég biðst fyrir persónulega hið minnsta tvisvar á dag. (Alma 34:17–27)

  4. Ég beini hugsunum mínum að köllun minni sem trúboði. (Kenning og sáttmálar 4:2, 5)

  5. Ég set markmið og skipulegg reglubundið. (Kenning og sáttmálar 88:119)

  6. Ég stafa af kappi þar til verkefninu er lokið. (Kenning og sáttmálar 10:4)

  7. Ég finn gleði og fyllingu í starfinu mínu. (Alma 36:24–25)

Hlýðni

  1. Þegar ég biðst fyrir bið ég um styrk til að standast freistingar og gera það sem rétt er. (3. Nefí 18:15)

  2. Ég er verðug/ur þess að hafa musterismeðmæli. (Kenning og sáttmálar 97:8)

  3. Ég hlýði fúslega trúboðsreglunum og fylgi leiðsögn leiðtoga minna. (Hebreabréfið 13:17)

  4. Ég geri mitt besta til að lifa í samhljóm við lögmál og reglur fagnaðarerindisins. (Kenning og sáttmálar 41:5)