Kirkjusaga
Frásagnir af Fyrstu sýninni


Ljósmynd
sólargeislar milli trjáa

Frásagnir af Fyrstu sýninni

Yfirlit

Joseph Smith skráði að Guð faðirinn og Jesús Kristur höfðu birst honum í trjálundi nærri heimili foreldra hans, í vestanverðu New York fylki, þegar hann var um 14 ára. Joseph, sem hafði áhyggjur vegna synda sinna og var óviss um hvaða andlegu braut hann skyldi fylgja, leitaði leiðsagnar með því að sækja samkomur, lesa ritningar og biðjast fyrir. Sem svar hlaut hann himneska opinberun. Joseph skrásetti og miðlaði því sem síðar varð þekkt sem Fyrsta sýnin, fjölmörgum sinnum. Hann skrifaði, eða fékk skrifara, til að rita fjórar mismunandi frásagnir af sýninni.

Joseph Smith gaf út tvær frásagnir af Fyrstu sýninni á lífstíð sinni. Sú fyrri, sem er þekkt sem Joseph Smith – Saga, varð hluti af ritningunum í Hinni dýrmætu perlu og varð því sú best þekkta. Óútgefnu frásagnirnar tvær, sem skráðar voru í fyrstu sjálfsævisögu Josephs Smith og í seinni tíma dagbók, höfðu gleymst þar til sagnfræðingar sem störfuðu fyrir Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu enduruppgötvuðu þær og gáfu út á 7. áratug 20. aldar. Frá því hefur endurtekið verið fjallað um þessi skjöl í kirkjutímaritum, í útgefnu efni, prentuðu af prentsmiðjum í eigu og í tengslum við kirkjuna og af fræðimönnum í kirkjunni á öðrum vettvangi.1 Til viðbótar við frásagnirnar frá fyrstu hendi eru líka til fimm lýsingar á sýn Josephs Smith sem skráðar voru af samtíðarmönnum hans.2

Hinar ýmsu frásagnir af Fyrstu sýninni segja samræmanlega sögu, þó þær séu auðvitað mismunandi að áherslu og upplýsingum. Þegar einstaklingur endursegir upplifun sína fyrir mismunandi áheyrendum og á mörgum stöðum yfir mörg ár, eiga sagnfræðingar von á að hver frásögn leggi áherslu á ýmsa þætti upplifunarinnar og innihaldi einstök smáatriði. Sama blæbrigðamun og í frásögnunum um Fyrstu sýnina má meðal annars finna í fjölda frásagna um sýn Páls á ferð hans til Damaskus og upplifun postulanna á ummyndunarfjallinu.3 Þrátt fyrir blæbrigðamun, þá gætir fulls samræmis í öllum frásögnum um Fyrstu sýnina. Sumir hafa ranglega haldið því fram að hvers konar frávik í endursögn bendi til þess að sagan sé uppspuni. Þvert á móti gerir þessi sögulega heimild okkur kleift að læra meira um þennan merkilega atburð, en ef hann væri ekki jafn ítarlega skrásettur.

Frásagnir af Fyrstu sýninni

Hver frásögn Josephs Smith og samtíðarmanna hans af Fyrstu sýninni á sér eigið sögulegt samhengi sem hafði áhrif á hvernig atburðarins var minnst, hvernig honum var miðlað og hvernig hann var skrásettur. Frásagnirnar eru til umfjöllunar hér á eftir.

Frásögnin frá 1832. Fyrsta þekkta frásögnin af Fyrstu sýninni, sú eina rituð með eigin hendi Josephs Smith, er að finna í stuttri, óútgefinni sjálfsævisögu Josephs Smith sem kom fram á síðari hluta ársins 1832. Í frásögninni lýsir Joseph Smith meðvitund sinni um eigin syndir og gremju yfir því að hafa ekki getað fundið kirkju sem samsvaraði þeirri sem hann hafði lesið um í Nýja testamentinu og myndi leiða hann til endurlausnar. Hann lagði áherslu á friðþægingu Jesú Krists og þá persónulegu endurlausn sem hún býður. Hann ritaði að „Drottinn“ hefði birst og fyrirgefið honum syndir hans. Joseph upplifði gleði og elsku vegna sýnarinnar, þó gat hann þess að hann hefði ekki fundið neinn sem trúði frásögn hans. Lesið frásögnina frá 1832 hér.

Frásögnin frá 1835. Joseph Smith sagði Robert Matthews, sem var gestur í Kirtland, Ohio, frá Fyrstu sýninni haustið 1835. Endursögnin, sem skráð var í dagbók Josephs af ritara hans, Warren Parrish, leggur áherslu á tilraun Josephs til að komast að því hvaða kirkja var sönn, andstöðuna sem hann fann þegar hann baðst fyrir og birtingu einnar guðlegrar veru og síðan annarrar, rétt á eftir. Þessi frásögn tekur líka fram að englar hefðu birst í sýninni. Lesið frásögnina frá 1835 hér.

Frásögnin frá 1838. Frásögnin sem best er þekkt meðal Síðari daga heilagra á okkar tíma er frá 1838. Hún var upphaflega gefin út árið 1842 í Times and Seasons, dagblaði kirkjunnar í Nauvoo, Illinois, og var hluti af lengri frásögn sem lesin var af Joseph Smith milli tímabila gífurlegrar andstöðu. Frásögnin frá 1832 lagði áherslu á persónulega sögu Josephs Smith sem ungan mann sem leitaði fyrirgefningar, en hins vegar einblínir frásögnin frá 1838 á sýnina sem upphaf „vaxtar og framþróunar kirkjunnar.“ Líkt og í frásögninni 1835, þá snýst megin spurningin um hvaða kirkja sé rétt. Lesið frásögnina frá 1838 hér.

Frásögnin frá 1842. Frásögn þessi var rituð sem svar við beiðni Johns Wentworth, ritstjóra Chicago Democrat, um upplýsingar um hina Síðari daga heilögu og var prentuð í Times and Seasons árið 1842. (Í „Wentworth-bréfinu,“ eins og það er kallað, er líka að finna heimildina fyrir Trúaratriðin.)4 Frásögnin er samþjöppuð og auðskilin, ætluð lesendum sem ekki þekktu trú mormóna. Líkt og í fyrri frásögnum lýsir Joseph Smith ráðaleysinu sem hann upplifði og birtingu tveggja vera sem svari við bæn hans. Árið eftir sendi Joseph Smith þessa frásögn með minniháttar breytingum til sagnfræðings að nafni Israel Daniel Rupp, sem gaf hana út sem kafla í bók sinni, He Pasa Ekklesia [Öll kirkjan]: An Original History of the Religious Denominations at Present Existing in the United States.5 Lesið frásögnina frá 1842 hér.

Frásagnir frá annarri hendi. Fyrir utan frásagnir Josephs Smith sjálfs voru fimm aðrar frásagnir ritaðar af samtíðarmönnum sem heyrðu Joseph Smith tala um sýnina. Lesið þessar frásagnir hér.

Rökfærslur varðandi frásagnir af Fyrstu sýn Josephs Smith

Fjöldi frásagna um Fyrstu sýnina og margbreytileiki þeirra hefur leitt gagnrýnendur til að véfengja hvort lýsingar Josephs Smith séu raunverulega í samræmi við upplifun hans. Tveimur röksemdum er reglulega varpað fram gegn trúverðugleika hans: Sú fyrri dregur minni Josephs Smith um atburðina í efa; sú síðari spyr hvort hann hafi stílfært söguþætti með tímanum.

Minni. Ein röksemd sem snýr gegn frásögn Fyrstu sýnar Josephs Smith heldur því fram að söguleg gögn styðji ekki lýsingu Josephs Smith á trúarvakningunni sem varð í Palmyra, New York, og nágrenni árið 1820. Sumir halda því fram að þetta grafi undan fullyrðingu Josephs um óvenjulegan trúarákafa og frásögninni af sýninni sjálfri.

Skjalfest gögn styðja þó staðhæfingar Josephs Smith um trúarvakninguna. Svæðið sem hann bjó á varð þekkt fyrir trúarákafa og var ótvírætt ein af gróðrarstíum trúarvakningar. Sagnfræðingar vísa til svæðisins sem „brennda héraðsins“ vegna þess að prédikarar fóru um landið á fyrsta hluta 19. aldar og höfðu þar trúarvakningarbúðir og leituðu trúskiptinga.6 Í júní 1818 voru t.d. samkomubúðir meþódista hafðar í Palmyra og sumarið eftir söfnuðust meþódistar aftur saman í Vienna (nú Phelps), New York, 15 mílum frá býli Smith-fjölskyldunnar. Dagbækur meþódista-farandprédikara færa heimildir fyrir miklum trúaráhuga á landsvæði Josephs milli 1819 og 1820. Þær greina frá séra George Lane, klerki vakningarsinnaðra meþódista, sem var á svæðinu bæði árin og talaði um „vegi Guðs til koma á siðbót.“7 Þessi sögulegu gögn eru í samræmi við lýsingar Josephs. Hann sagði hinn óvenjulega trúaráhuga í umdæmi sínu eða héraði hafa „hafist hjá meþódistum.“ Joseph sagði jafnvel frá því að hann hafi verið meþódistum hlutdrægur.8

Stílfærsla. Síðari röksemdin gegn Fyrstu sýn Josephs Smith er sú að hann hefði stílfært söguna með tímanum. Þessi röksemd einblínir á tvö atriði: Fjölda og auðkenni hinna guðlegu vera sem Joseph Smith sagðist hafa séð. Frásagnir Josephs af Fyrstu sýninni lýstu hinum guðlegu verum með æ ítarlegri hætti eftir því sem tímanum leið. Frásögnin frá 1832 segir: „Drottinn lauk upp himninum fyrir mér og ég sá Drottin.“ Frásögnin frá 1838 segir: „Ég [hafði] séð tvær verur,“ ein þeirra kynnti hina sem „minn elskaði sonur.“ Þannig hafa gagnrýnendur fært rök fyrir því að Joseph Smith hafi í upphafi aðeins sagst hafa séð eina veru – „Drottin“ – en á endanum fullyrt að hann hafi séð bæði föðurinn og soninn.9

Það eru fleiri og skýrari leiðir til að líta á gögnin. Það verður að líta til þess að samhljómur er í frásögnunum sem spanna fleiri ár: Þrjár af fjórum frásögnum lýsa því greinilega að tvær verur hafi birst Joseph Smith í Fyrstu sýninni. Frásögn Josephs Smith frá 1832 er undantekningin, en hægt er að túlka hana eins og honum hafi birst annaðhvort ein eða tvær verur. Ef hún er túlkuð svo að veran hafi verið ein, væri það líklega sú sem fyrirgaf honum syndir hans. Samkvæmt síðari frásögnum sagði fyrri guðlega veran Joseph Smith að „hlýða á“ hina, en hún kom svo höfuðboðskapnum til skila, meðal annars boðskap fyrirgefningarinnar.10 Frásögn Josephs Smith frá 1832 gæti því hafa einblínt á Jesú Krist, boðbera fyrirgefningar.

Önnur leið til að túlka frásögnina frá 1832 er sú að Joseph Smith hafi vísað til tveggja vera, en nefnt báðar „Drottin.“ Rök fyrir stílfærslu byggist á þeirri ályktun að frásögnin frá 1832 lýsi aðeins birtingu einnar guðlegrar veru. Frásögnin frá 1832 segir þó ekki að aðeins ein vera hafi birst. Takið eftir að tilvísanirnar tvær til „Drottins“ eru aðskildar í tímaröð: Fyrst opnar „Drottinn“ himnana; svo sér Joseph Smith „Drottin.“ Þessi túlkun frásagnarinnar er í samræmi við frásögn Josephs frá 1835, þar sem ein vera birtist á undan annarri. Það er því auðveldlega hægt að túlka frásögnina frá 1832 þannig að Joseph Smith hafi séð eina veru sem svo opinberaði aðra, og að hann hafi vísað til beggja sem „Drottin“: „Drottinn lauk upp himninum fyrir mér og ég sá Drottin.“11

Stöðugt ítarlegri lýsingar Josephs geta þannig verið túlkaðar á sannfærandi hátt sem uppsöfnuð innsýn sem óx jafnt og þétt í samræmi við upplifanir hans. Að hluta til getur munurinn milli frásagnarinnar 1832 og síðari frásagna haft með muninn á hinu talaða og hinu skrifaða orði að gera. Frásögnin frá 1832 er fyrsta tilraun Josephs Smith til að skrifa sögu sína niður. Sama ár skrifaði hann vini sínum að honum fyndist hann vera fjötraður „skrifpenna og bleki og bjagaðri, slakri og ófullkominni málnotkun.“ Hann kallaði hið ritaða orð „lítið og þröngt fangelsi.“12 Auðvelt er að skilja, og jafnvel við því að búast, að síðari frásagnirnar séu opinskárri þegar við gerum okkur grein fyrir því að þær voru líklegast upplesnar – sem var auðveld og þægileg aðferð fyrir Joseph Smith og bætti orðaflæðið.

Lokaorð

Joseph Smith bar því stöðugt vitni að hann hefði séð undursamlega sýn af Guði föðurnum og syni hans, Jesú Krists. Sagnfræðilegar rannsóknir einar og sér geta hvorki fært sönnur fyrir Fyrstu sýninni, né afsannað hana með rökum. Til að komast að sannleikanum um vitnisburð Josephs Smith, þarf sá sem leitar sannleikans að læra heimildina, iðka trú á Krist og spyrja Guð í einlægri bæn hvort hún sé sönn. Ef sá sem leitar spyr af einlægum ásetningi um að bregðast við svarinu sem opinberast með heilögum anda, mun sannleikurinn um sýn Josephs Smith verða staðfestur. Á þennan hátt getur hver einasti einstaklingur vitað að Joseph Smith mælti heiðarlega þegar hann sagði: „Því að ég hafði séð sýn. Ég vissi það, og ég vissi að Guð vissi það, og ég … gat [ekki] neitað því.“13

Kirkjan þakkar framlag fræðimanna vegna sagnfræðilegs innihalds þessarar greinar; verk þeirra er notað með leyfi.

Upphaflega gefið út í nóvember 2013.

Tengt efni

  • Svara spurningum fagnaðarerindisins

  • Guðdómur

  • Guð faðirinn

  • Jesús Kristur

  • Joseph Smith

  • Endurreisn kirkjunnar

  • Endurreisn prestdæmisins

Helgiritin

Ritningartilvísanir

Myndbönd

„Endurreisnin“

„Joseph Smith: Spámaður endurreisnarinnar“

„Mission Preparation Track 14: Gordon B. Hinckley“

Heimildir til náms

Almennar heimildir

History, circa Summer 1832,“ The Joseph Smith Papers

Journal, 1835–1836,“ The Joseph Smith Papers

History, circa June 1839–circa 1841 [Draft 2],“ The Joseph Smith Papers

‘Church History,’ 1 March 1842,“ The Joseph Smith Papers

‘Latter Day Saints,’ 1844,“ The Joseph Smith Papers

Primary Accounts of Joseph Smith’s First Vision of Deity,“ The Joseph Smith Papers

Kirkjutímaritin

Preparing for the Restoration,“ Ensign, júní 1999

Book of Mormon Personalities Known by Joseph Smith,“ Ensign, desember 1983

  1. Sjá sem dæmi: James B. Allen, „Eight Contemporary Accounts of the First Vision—What Do We Learn from Them?“ Improvement Era, 73 (1970): 4–13; Richard L. Anderson, „Joseph Smith’s Testimony of the First Vision,“ Ensign, apr. 1996, 10–21; Milton V. Backman, Joseph Smith’s First Vision: The First Vision in Its Historical Context (Salt Lake City: Bookcraft, 1971; 2nd ed., 1980); Steven C. Harper, Joseph Smith’s First Vision: A Guide to the Historical Accounts (Salt Lake City: Deseret Book, 2012).

  2. Allar þessar frásagnir voru endurútgefnar í: Dean C. Jessee, „The Earliest Documented Accounts of Joseph Smith’s First Vision,“ í útgáfu Johns W. Welch, með Erick B. Carlson, Opening the Heavens: Accounts of Divine Manifestations, 1820–1844 (Provo and Salt Lake City: Brigham Young University Press and Deseret Book, 2005), 1–33.

  3. Postulasagan 9:3–9; 22:6–21; 26:12–18; Matteus 17:1–13; Markús 9:2–13; Lúkas 9:28–36.

  4. Bréfið í heild sinni er að finna í: Joseph Smith, „Church History,“ Times and Seasons 3 (1. mars 1842): 706–10.

  5. Joseph Smith, „Latter Day Saints,“ í I. Daniel Rupp, He Pasa Ekklesia: An Original History of the Religious Denominations at Present Existing in the United States (Philadelphia: J. Y. Humphreys, 1844), 404–10.

  6. Whitney R. Cross, The Burned-Over District: The Social and Intellectual History of Enthusiastic Religion in Western New York, 1800–1850 (Ithaca, N.Y.: Cornell University Press, 1950); Paul E. Johnson, A Shopkeeper’s Millennium: Society and Revivals in Rochester, New York, 1815–1837 (New York: Hill and Wang, 1983); Nathan O. Hatch, The Democratization of American Christianity (New Haven: Yale University Press, 1989).

  7. Dagbók Benajah Williams, 15. júlí, 1820, eintak í Church History Library, Salt Lake City; stöðluð stafsetning.

  8. Frásögnin frá 1838 (Joseph Smith – Saga 1:5, 8).

  9. Frásögnin frá 1832 (Joseph Smith History, ca. Summer 1832, 3, í Joseph Smith, “Letter Book A,” Joseph Smith Collection, Church History Library, Salt Lake City); Frásögnin frá 1838 (Joseph Smith – Saga 1:17).

  10. Frásögnin frá 1838 (Joseph Smith – Saga 1:17); Frásögnin frá 1835 (Joseph Smith, “Sketch Book of the use of Joseph Smith, jr.,” Journal, Nov. 9–11, 1835, Joseph Smith Collection, Church History Library, Salt Lake City.

  11. Frásögnin frá 1832 (Joseph Smith History, ca. Summer 1832, 3, í Joseph Smith, “Letter Book A,” Joseph Smith Collection, Church History Library, Salt Lake City).

  12. Joseph Smith til William W. Phelps, 27. nóv., 1832, Joseph Smith Collection, Church History Library, Salt Lake City; tiltækt á www.josephsmithpapers.org.

  13. Frásögnin frá 1838 (Joseph Smith – Saga 1:25).