„26. maí–1. júní: ‚Trúr, réttvís og vitur ráðsmaður‘: Kenning og sáttmálar 51–57,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Kenning og sáttmálar 2025 (2025)
„Kenning og sáttmálar 51–57,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2025
Fyrsta plógfarið, eftir James Taylor Harwood
26. maí–1. júní: „Trúr, réttvís og vitur ráðsmaður“
Kenning og sáttmálar 51–57
Hvað kirkjumeðlimi varðar á fjórða áratug nítjándu aldar, var samansöfnun og uppbygging Síonar bæði andlegt og stundlegt verk, þar sem greiða þurfti úr mörgum hagnýtum málum: Einhver þurfti að kaupa land þar sem hinir heilögu gátu sest að. Einhver þurfti að prenta bækur og annað efni. Einhver þurfti líka að reka verslun til að sjá þeim sem voru í Síon fyrir varningi. Í opinberuninni sem skráð er í Kenningu og sáttmálum 51–57, velur Drottinn fólk og leiðbeinir því við að takast á við þessi verk.
Þó að slík kunnátta sé dýrmæt í Síon, þá kenna þessar opinberanir líka að Drottinn þráir að hans heilögu verði andlega verðugir þess að nefnast Síonarfólk – hans fólk. Hann býður hverju okkar að vera „trúr, réttvís og vitur ráðsmaður,” hafa sáriðrandi anda og „standa fast“ í okkar tilnefndu ábyrgð (sjá Kenning og sáttmálar 51:19; 52:15; 54:2). Ef við getum gert það – sama hverjir veraldlegir hæfileikar okkar eru – þá getur Drottinn notað okkur til að byggja upp Síon.
Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju
Drottinn vill að ég sé trúr, réttvís og vitur ráðsmaður.
Ef þú hefðir verið meðlimur kirkjunnar árið 1831, gæti þér hafa verið boðið, fyrir tilstuðlan biskupsins, að lifa eftir helgunarlögmálinu með því að ánafna kirkjunni eign þína. Hann myndi þá í flestum tilvikum skila þér aftur því sem þú gafst og stundum meiru til. En það var samt ekki lengur aðeins þín eign – það heyrði undir ráðsmennsku þína.
Í dag eru verklagsreglurnar ólíkar, en reglurnar eru enn mikilvægar verki Drottins. Þegar þið lesið kafla 51, hugsið þá um það sem Guð hefur falið í ykkar umsjá. Hvað gefa orðin „ráðsmaður“ (vers 19) og „helgað“ (vers 5) í skyn um það hvers Guð væntir af ykkur?
Spencer W. Kimball forseti útskýrði: „Í kirkjunni er ráðsmennska heilagt andlegt eða stundlegt traust hvað ábyrgð viðkemur. Þar sem allt heyrir Drottni til, þá erum við ráðsmenn líkama okkar, huga, fjölskyldu og eigna. (Sjá Kenningu og sáttmála 104:11–15.) Trúr ráðsmaður er sá eða sú sem ástundar réttlát yfirráð, lætur sér annt um sína og lítur til með fátækum og þurfandi“ („Welfare Services: The Gospel in Action,“ Ensign, nóv. 1977, 78).
Sjá einnig „The Law of Consecration“ (myndband), Gospel Library.
The Law of Consecration
Kenning og sáttmálar 52:9–11, 22–27
Ég get boðið öðrum að koma til Krists hvert sem ég fer.
Þegar Drottinn sendi nokkra kirkjuleiðtoga til Missouri, bauð hann þeim að nýta tímann í ferðinni og „prédika á leið sinni“ (vers 25–27). Hvernig getið þið miðlað fagnaðarerindinu „á leið [ykkar],“ eða í gegnum daglegt líf ykkar?
Drottinn hjálpar mér að forðast blekkingu.
Hinir fyrritíðar heilögu höfðu áhyggjur af því að láta blekkjast, þar sem svo margir héldu því fram að þeir hefðu hlotið andlegar vitranir. Hvaða viðvörun veitti Drottinn þeim í Kenningu og sáttmálum 52:14? Hver var lausn hans? (sjá vers 14–19).
Mynstur er eitthvað sem endurtekur sig á reglulegan og fyrirsjáanlegan hátt. Dæmi um það eru eins og að telja sléttar tölur eða sólarupprás og sólsetur hvern dag. Hvaða fleiri fordæmi dettur ykkur í hug? Þegar þið lesið Kenningu og sáttmála 52:14–19, berið þá kennsl á mynstur Drottins til að forðast blekkingu. Það gæti hjálpað að hafa í huga að „sáriðrandi“ gefur í skyn auðmýkt og iðrun, á meðan að „hógværð“ bendir til blíðu og sjálfsstjórnar og „uppbyggjandi“ þýðir að leiðbeina, bæta eða byggja upp. Af hverju haldið þið að mynstur Drottins feli í sér þessa eiginleika, ásamt hlýðni? Hvernig getið þið nýtt þetta mynstur til að forðast blekkingu?
Útskýrið erfið orð. Í smáforritinu Gospel Library, getið þið smellt á orð og haldið því og síðan valið „Skilgreining.“ Þið munið þá flytjast yfir á skilgreiningu þess orðs. Reynið þetta þegar þið rekist á ókunnugleg orð – eða orð sem virðast kunnugleg en þið viljið skilja betur.
Hver eru einhver dæmi blekkingar á okkar tíma? Hvernig vitum við að verið er að blekkja okkur?
Þið gætuð til að mynda íhugað að meta val ykkar varðandi kvikmyndir, tónlist og samfélagsmiðla út frá stöðlunum í „Ganga í Guðs ljósi“ í Til styrktar ungmennum: Leiðarvísir fyrir ákvarðanatökum, 16–21.
Sjá einnig Gary E. Stevenson, „Ekki skaltu blekkja mig,“ aðalráðstefna, október 2019; „Leið mig til þín,“ Sálmar, nr. 33; Topics and Questions, „Seeking Truth and Avoiding Deception,“ Gospel Library.
Ég get komið til Drottins þegar ákvarðanir annarra hafa skaðað mig.
Hafið þið einhvern tíma orðið fyrir vonbrigðum þegar einhver sem þið treystuð á hélt ekki sáttmála sína? Það gerðist fyrir hina heilögu í Colesville, New York, sem væntu þess að geta dvalið á landi Lemans Copley í Ohio. Til að læra af þessari reynslu, gætuð þið kynnt ykkur fyrirsögn kafla 54 (sjá einnig Heilagir, 1:125–28; „A Bishop unto the Church,“ Revelations in Context, 78–79). Ef þið ættuð vin á meðal hinna heilögu í Colesville, hvaða ráð gætuð þið þá fundið í kafla 54 til að miðla þeim?
Bóndabær Leamans Copley
Sælir eru hjartahreinir.
Í þessum versum talar Drottinn bæði til auðugra og fátækra; áhugavert gæti verið að bera saman leiðsögn hans til þessara beggja hópa. Hvað í þessum versum finnst ykkur eiga við um ykkur sjálf?
Sjá þessa mánaðar útgáfur tímaritanna Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.
Hugmyndir fyrir kennslu barna
Ég get verið heiðarleg/ur.
-
Til að hjálpa börnum ykkar að vera heiðarleg, gætuð þið lesið saman í Kenningu og sáttmálum 51:9 og miðlað þeim sögum um börn sem standa frammi fyrir ákvörðunum varðandi það að vera heiðarleg. Þið gætuð notað myndir, handbrúður eða dúkkulísur til að gera sögurnar áhugaverðari. Hvernig blessar Drottinn okkur er við reynum að vera heiðarleg?
-
Hugleiðið að leika leik með börnum ykkar. Eftir á skulið þið ræða um það hvernig leikurinn hefði verið frábrugðinn ef einhver hefði svindlað. Af hverju er mikilvægt að „breyta heiðarlega“ við hvert annað?
Kenning og sáttmálar 52:10; 53:3; 55:1
Ég tek á móti gjöf heilags anda með handayfirlagningu.
-
Það er minnst á það nokkrum sinnum í Kenningu og sáttmálum 51–57 að meðtaka heilagan anda með handayfirlagningu. Það gæti verið gott tækifæri til að kenna börnum ykkar um þessa helgiathöfn. Þau gætu til að mynda skoðað mynd af barni sem verið er að staðfesta og lýst því fyrir þeim því sem er að gerast á myndinni. Biðjið þau að klappa saman lófum þegar þau heyra „handayfirlagning“ eða „handayfirlagningu“ þegar þið lesið Kenning og sáttmálar 52:10; 53:3; 55:1.
-
Þið gætuð einnig sungið „Heilagur andi“ (Barnasöngbókin, 56) eða svipaðan söng. Hjálpið börnum ykkar að finna orð og setningar í laginu sem kenna um gjöf heilags anda.
Guð er með mynstur til að hjálpa mér að láta ekki blekkjast.
-
Til að kenna um mynstur Drottins til að forðast blekkingu, gætuð þið byrjað á því að hjálpa börnum að finna dæmi um mynstur – í náttúrunni, í litríkum teppum eða fötum eða í daglegu lífi. Hjálpið þeim að finna mynstrin sem Drottinn gaf í Kenningu og sáttmálum 52:14–15. Fullvissið ykkur um að þau skilji öll ókunnugleg orð í þessum versum. Hvernig getum við notað þetta mynstur til að bera kennsl á sannleika?
Ég ætti alltaf að halda sáttmála mína.
-
Miðlið börnum ykkar, með ykkar eigin orðum, því sem kom fyrir hina heilögu sem komu til að búa á landi Lemans Copley (sjá kaflafyrirsögn kafla 54). Börn ykkar gætu látist vera meðlimir kirkjunnar sem höfðu komið frá Ohio. Hvernig hefði þeim liðið eftir að Leman braut sáttmála sína. Hvað kennir þetta okkur um að halda sáttmála okkar og loforð? Lesið saman í Kenningu og sáttmálum 54:6 til að uppgötva blessanir til handa þeim sem halda sáttmála sína.
Ég get notað þær blessanir sem Guð hefur gefið mér til að blessa aðra.
-
Til að kynna kafla 55, gætuð þið viljað útskýra að William W. Phelps hafi verið útgefandi fréttablaðs sem hafi lært um fagnaðarerindið og gengið í kirkjuna. Lesið Kenningu og sáttmála 55:1–4 með börnum ykkar og hjálpið þeim að uppgötva það sem Guð vildi að William gerði. Hvernig áætlaði hann að nota hæfileika Williams? Þetta gæti leitt til umræðna um það hvernig Guð gæti boðið okkur að nota hæfileika okkar til að blessa börn hans.
Sjá þessa mánaðar útgáfu tímaritsins Barnavinar til að fá fleiri hugmyndir.
Partridge biskup tekur á móti helguðum vörum, eftir Albin Veselka