2020
Hirðisþjónusta með musterisþjónustu
Mars 2020


Reglur hirðisþjónustu, mars 2020

Hirðisþjónusta með musterisþjónustu

Þegar við hjálpum öðrum að njóta blessana musterisins, innum við af hendi hirðisþjónustu.

Ljósmynd
ministering

Bakgrunnur frá Getty Images; ljósmynd af Tegucigalpa-musterinu í Hondúras

Musterissókn er erfiðisins virði. Russell M. Nelson forseti kenndi: „[Musterið] er það sem ræður úrslitum varðandi sáluhjálp okkar og upphafningu, bæði fyrir okkur sjálf og fjölskyldur okkar. …

… Hvert og eitt okkar [þarf] áframhaldandi andlega styrkingu og lærdóm, sem einungis er mögulegur í húsi Drottins.“1

Að sækja musterið heim, krefst þess að við skipuleggjum tíma okkar, ábyrgðarskyldur og úrræði sem og að vera andlega undirbúin. Við innum af hendi hirðisþjónustu þegar við skiljum hvað það er sem kemur í veg fyrir að bræður okkar og systur fari í musterið og hjálpum þeim að leysa málið.

Musterið er blessun sem allir geta notið

Meg, sem nýlega kom heim af trúboði, var á gangi í átt að dyrum Kona-musterisins á Havaí, þegar hún sá unga konu sitja eina á bekk þar úti. Meg fannst að hún ætti að gefa sig á tal við konuna, en vissi ekki hvað hún ætti að segja. Hún spurði því ungu konuna um merkingu húðflúrs á ökkla hennar. Við það vöknuðu umræður sem gerðu ungu konunni, Lani, kleift að segja sögu sína.

Lani sagði Meg frá baráttu hennar við að snúa til fullrar virkni í kirkjunni, hinum ljúfu meðlimum sem væru að hjálpa henni og von hennar um að innsiglast ungri dóttur sinni einhvern daginn.

Meg bauð Lani að koma með sér í biðstofu musterisins. Þær áttu enn ekki kost á að fara lengra inn í musterið, en gátu þó farið inn fyrir dyr þess. Laní samþykkti það og saman fóru þær inn um aðaldyrnar. Musterisþjónn vísaði þeim á bekk neðan við málverk af frelsaranum.

Þegar þær höfðu sest niður, hvíslaði Lani: „Mig langaði mikið til að fara í musterið í dag, en var órótt. Þar sem Meg lét leiðast af andanum, varð hún til þess að hljóðri bæn Lanis var svarað.

Ábendingar um hvernig hjálpa má þeim sem eru án meðmæla

Þeir sem enn hafa ekki musterismeðmæli geta þó notið blessana musterisins.

  • Segið frá því hvernig Drottinn hefur blessað ykkur fyrir tilstilli musterisverks.

  • Bjóðið einhverjum að koma á opið hús musteris eða í gestamiðstöð. Kynnið ykkur væntanleg opin hús á temples.ChurchofJesusChrist.org.

  • Skoðið myndir og lærið meira um musterið á temples.ChurchofJesusChrist.org.

Auðveldið öðrum musterissókn

Það getur jafnvel verið þeim áskorun að fara í musterið sem þegar hafa musterismeðmæli. Sumir gætu þurft að ferðast langar leiðir. Aðrir gætu átt ung börn eða aldraða fjölskyldumeðlimi sem þarfnast umönnunar. Við getum unnið saman að því að gera musterisþjónustu mögulega öllum.

Leola Chandler reyndist erfitt að annast sjúkan eiginmann sinn og fjögur börn þeirra. Hún ákvarðaði sér því tíma til að fara í nálægt musteri á hverjum þriðjudegi. Við það fylltist líf hennar friði og krafti.

Dag einn frétti hún að nokkrar eldri systur í deildinni hennar þráðu innilega að komast í musterið, en áttu ekki kost á fari þangað. Leola bauðst til að aka þeim þangað. Næstu 40 árin fór hún sjaldan ein í musterið.2

Leola var blessuð og blessaði aðra þegar hún bauðst til að taka þá með sér í musterið.

Ábendingar um hvernig hjálpa má öðrum að fara í musterið

Hvernig getum við hjálpað öðrum að komast oftar í musterið? Þið gætuð uppgötvað að þessar sömu ábendingar gætu líka komið ykkur að notum.

  • Farið saman. Bjóðið einhverjum far eða sjáið öðrum fyrir fari. Það gæti hvatt einhvern annan til að fara líka í musterið.

  • Biðjið fjölskyldu- eða deildarmeðlimi ykkar að hjálpa ykkur að framkvæma helgiathafnir fyrir áa ykkar, einkum ef þið hafið fjölda nafna til reiðu fyrir helgiathafnir.

  • Bjóðist til að gæta barna, svo foreldrar komist í musterið. Ráðgerið að skiptast á að gæta barna hvers annars.

Þegar langt er í musterið

Chandradas „Roshan“ og Sheron Antony frá Colombo, Sri Lanka, ákváðu að innsiglast í musterinu. Vinir þeirra Ann og Anton Kumarasamy voru eftirvæntingarfull fyrir þeirra hönd. Þeim var þó ljóst að það var hvorki auðvelt, né ódýrt að komast í Manila-musterið á Filippseyjum.

Roshan og Sheron höfðu lagt fyrir og bókað flug með margra mánaða fyrirvara, til að fá flug sem þau höfðu ráð á. Loks rann dagurinn upp. Þau komust svo að því, í millilendingu í Malasíu, að til að halda áfram til Filippseyja yrðu þau annaðhvort að verða sér úti um vegabréfsáritun eða fljúga með öðru flugfélagi. Það var ekki mögulegt að fá vegabréfsáritun og þau höfðu ekki ráð á að kaupa miða hjá öðru flugfélagi. Þau afbáru þó ekki þá hugsun að snúa heim án þess að hafa innsiglast.

Þau vissi ekki hvað gera skildi, svo Roshan hringdi í Anton. Anton og Ann vildu allt gera til að hjálpa. Þau voru ein fárra hjóna í Sri Lanka sem höfðu innsiglast í musterinu og þekktu blessunina sem því fylgdi. Þau höfðu þó nýlega notað sparifé sitt til að hjálpa fjölskyldumeðlim í neyð og áttu ekki nægt fé til að hjálpa Roshan og Sheron til að kaupa aðra flugmiða.

Á Sri Lanka er til siðs að brúðguminn kaupi gullfesti fyrir brúðina, svo hún hefði eitthvert fé ef eiginmaðurinn félli frá. Ann ákvað að selja hálsfestina sína til að geta keypt flugmiðana. Hin rausnarlega gjöf hennar gerði Roshan og Sheron mögulegt að komast til musterisins í Manila.

„Ég veit hvert gildi musterisinnsiglunar er,“ sagði Ann. „Ég vissi að Sheron og Roshan yrðu mikill styrkur fyrir greinina. Ég vildi ekki að þau yrðu af þessu tækifæri.“3

Ábendingar til hjálpar þeim sem geta ekki farið í musterið

Þið gætuð verið kölluð til að þjóna þeim sem ekki komast oft í musterið, eða alls ekki, sökum fjarlægðar eða kostnaðar. Þið getið samt fundið leiðir til að vekja þeim þakklæti fyrir blessanir musterisins.

  • Kennið eða takið þátt í námsbekk með þeim til undirbúnings fyrir musterið eða fyrir ættarsögu.

  • Gefið þeim mynd af musteri til að hengja upp á heimili þeirra.

  • Segið þeim frá upplifun og vitnisburði ykkar af helgiathöfnum musterisins, ef þið hafið farið í musterið.

  • Hjálpið þeim að læra meira um sáttmálana sem þau hafa gert og hvernig þau geta haldið þá. Íhugið að nota greinina „Understanding Our Covenants with God: An Overview of Our Most Important Promises [Skilja sáttmála okkar við Guð: Yfirlit mikilvægustu fyrirheita okkar],“ í Liahona, júlí 2012.

Heimildir

  1. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, okt. 2018.

  2. Sjá LaRene Gaunt, „Finding Joy in Temple Service,“ Ensign, okt. 1994, 8.

  3. Ann og Anton tókst að fá hálsfestina aftur, eftir að þau fengu hana endurgreidda úr Almennum aðstoðarsjóði kirkjunnar fyrir musterisgesti, sem veitir fjárhagsaðstoð í eitt skipti, þeim kirkjumeðlimum sem annars hefðu ekki ráð á að fara í musterið.