2019
Hvernig gefa má vitnisburð á eðlilegan hátt
Mars 2019


Ljósmynd
ministering

Reglur hirðisþjónustu, mars 2019

Hvernig gefa má vitnisburð á eðlilegan hátt

Hirðisþjónusta er að gefa vitnisburð. Sveigjanleiki hirðisþjónustu getur aukið tækifæri okkar til að gefa vitnisburð okkar formlega og óformlega.

Við höfum gert sáttmála um að „standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allstaðar (Mósía 18:9). Að deila vitnisburði okkar er hluti af því að standa sem vitni og er áhrifamikil leið til að bjóða heilögum anda að snerta hjörtu fólks og breyta lífi þess.

„Vitnisburður – raunverulegur vitnisburður, fæddur af andanum og staðfestur af heilögum anda – breytir lífum,“ sagði M. Russell Ballard forseti, starfandi forseti Tólfpostulasveitarinnar.1

Hins vegar getur verið ógnvekjandi eða óþægilegt fyrir sum okkar að gefa vitnisburð okkar. Það getur verið vegna þess að við tengjum vitnisburðargjöf við það sem við gerum á föstu- og vitnisburðasamkomu eða að kenna lexíu. Við þessi formlegu tækifæri notum við oft ákveðin hugtök eða orðatiltæki sem hljóma undarlega í venjulegum samræðum.

Að gefa vitnisburð okkar getur orðið að almennri blessun í lífi okkar og annarra, þegar okkur skilst hve einfalt getur verið að miðla trú okkar í hversdagslegum aðstæðum. Hér eru nokkrar ábendingar sem auðvelda ykkur að byrja.

Hafið það einfalt

Vitnisburð þarf ekki að hefja á því að segja: „Mig langar til að gefa þér vitnisburð minn“ eða ljúka á orðunum: „í nafni Jesú Krists, amen.“ Vitnisburður er framsetning á því sem við trúum og vitum að er sannleikur. Það getur verið jafn áhrifaríkt og nokkur vitnisburður úr ræðustól kirkjunnar, að vitja nágrannakonu í sömu götu vegna vanda sem hún tekst á við og segja: „Ég veit að Guð svarar bænum. Krafturinn á ekki rætur í skrúðmælgi; hann kemur frá heilögum anda, er hann staðfestir sannleikann (sjá Kenning og sáttmálar 100:7-8).

Passar inn í eðlilegar samræður

Ef við erum fús til að miðla öðrum, má hvarvetna finna tækifæri til að koma vitnisburði að í daglegum samræðum. Dæmi um það:

  • Einhver spyr hvernig helgin hafi verið. „Hún var frábær,“ svarið þið. „Að fara í kirkju var nákvæmlega það sem ég þurfti.“

  • Einhver lætur í ljós samkennd yfir að heyra af einhverri áskorun í lífi ykkar: „Mikið finnst mér það leitt.“ Þið svarið: „Takk fyrir umhyggjuna. Ég veit að Guð mun hjálpa mér í gegnum þetta. Hann hefur stutt mig áður.“

  • Einhver segir: „Ég vona að þetta leiðindaveður breytist fljótlega,“ eða „það er aldeilis að strætó er seinn,“ eða „þvílík umferð.“ Þið gætuð þá svarað: „Ég er viss um að Guð sjái til þess að allt fari vel.“

Miðlið eigin reynslu

Við ræðum oft við hvert annað um eigin áskoranir. Þegar einhver segir ykkur frá eigin vanda, getið þið sagt frá tilvikum er Guð hefur liðsinnt ykkur í vanda og vitnað um að hann geti líka liðsinnt þeim. Drottinn sagðist styrkja okkur í raunum okkar svo „að þér verðið vitni mín héðan í frá og megið vita með vissu, að ég, Drottinn Guð, vitja fólks míns í þrengingum þess “(Mósía 24:14). Við getum staðið sem vitni um hann, þegar við berum vitni um hvernig hann hefur liðsinnt okkur í raunum okkar.

Verið viðbúin

Sumum okkar gæti fundist ógnvekjandi að gefa vitnisburð undirbúningslaust. Við getum fundið leiðir til að vera viðbúin og „ætíð [reiðubúin] að svara hverjum manni sem krefst raka hjá [okkur] fyrir voninni, sem í [okkur] er.“ (1 Pét 3:15).

Í fyrsta lagi getur viðbúnaður okkar falist í því að skoða eigið líf. Bjóðum við heilögum anda inn í líf okkar og styrkjum vitnisburð okkar daglega með réttlátum lífsmáta? Veitum við andanum tækifæri til að tala til okkar og veita okkur þau orð sem við þurfum í gegnum bæn og ritninganám? Líkt og Drottinn ráðlagði Hyrum Smith: „Reyndu ekki að boða orð mitt, reyndu heldur fyrst að öðlast orð mitt, og þá mun tunga þín losna“ (Kenning og sáttmálar 11:21).

Í öðru lagi getur viðbúnaður falist í því að horfa fram veginn og íhuga hugsanleg tækifæri þess dags, eða þeirrar viku, til að gefa vitnisburð ykkar. Þið gætuð verið viðbúin þeim tækifærum með því að hugleiða hvernig þið gætuð nýtt þau til að miðla trú ykkar.

Hafið frelsarann og kenningu hans að þungamiðju

Ballard forseti kenndi: „Þótt við gætum átt vitnisburð um margt sem meðlimir kirkjunnar, þá er viss grundvallarsannleikur sem við verðum stöðugt að miðla og kenna hvert öðru.“ Hann nefndi sem dæmi um það: „Guð er faðir okkar og Jesús er Kristur. Friðþæging frelsarans er þungamiðja sáluhjálparáætlunarinnar. Joseph Smith endurreisti fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists og Mormónsbók staðfestir að vitnisburður okkar er sannleikur.“ Þegar við tjáum þennan hjartfólgna sannleik, bjóðum við andanum að bera vitni um sannleiksgildi orða okkar. Ballard forseti lagði áherslu á að „ekki væri mögulegt að hindra andann þegar sannur vitnisburður er gefinn um Krist.“2

Fordæmi frelsarans

Frelsarinn áði þreyttur við brunn einn, á ferð sinni um Samaríu og hitti þar konu nokkra. Hann hóf samtal um vatnstöku úr brunninum. Með því að nota þetta hversdagslega verk sem konan var upptekin við, nýtti Jesús það tækifæri til að bera vitni um hið lifandi vatn og eilífa líf sem þeim býðst sem trúa á hann (sjá Jóh 4:13-15, 25-26).

Einfaldur vitnisburður getur breytt lífi

Russel M. Nelson forseti sagði frá því er hann var starfandi læknir og hjúkrunarfræðingur nokkur lagið fyrir hann þessa spurningu eftir erfiða skurðaðgerð. „Hvers vegna ertu ekki eins og aðrir skurðlæknar?“ Sumir læknanna sem hún þekkti voru skapillir og dónalegir við slíkar mikilvægar aðgerðir.

Nelson læknir hefði getað svarað á margvíslegan hátt. Hann svaraði því hins vegar einfaldlega: „Af því að ég veit að Mormónsbók er sönn.“

Þetta svar hans varð til þess að hjúkrunarfræðingurinn og eiginmaður hennar tóku að læra í Mormónsbók. Síðar skírði Nelson forseti hjúkrunarfræðinginn. Áratugum síðar, er Nelson forseti var í forsæti stikuráðstefnu í Tennessee í Bandaríkjunum sem nývígður postuli, naut hann þeirrar óvæntu ánægju að að hitta aftur þennan sama hjúkrunarfræðing. Hún sagði þá að trúskipti hennar, sem rekja mátti til hans einfalda vitnisburðar og áhrifa Mormónsbókar, hefði stuðlað að trúskiptum 80 annarra einstaklinga.3

Boð um að bregðast við

Óttist ekki að gefa vitnisburð ykkar. Það getur blessað þá sem þið þjónið. Hvernig hyggist þið nota þessar hugmyndir, eða ykkar eigin, til að gefa vitnisburð ykkar í dag?

Heimildir

  1. M. Russell Ballard, “Pure Testimony,” Liahona, nóv. 2004, 40.

  2. M. Russell Ballard, “Pure Testimony,” 41.

  3. Í Jason Swensen, “Be Ready to Explain Your Testimony Using the Book of Mormon, President Nelson Says,” í hlutanum Church News á LDS.org, 6. feb. 2018, news.lds.org.