2019
Tileinka sér samkennd í hirðisþjónustu
Febrúar 2019


Ljósmynd
ministering

Reglur hirðisþjónustu, febrúar 2019

Tileinka sér samkennd í hirðisþjónustu

Hirðisþjónusta er að hughreysta. Við getum hughreyst fólk með því að reyna að skilja aðstæður þess og sýna að við séum fús til að takast á við erfiðleikana með því.

Þar sem faðir okkar á himnum vill að við líkjumst honum, geta áskoranir þessa lífs verið okkur lærdómsrík tækifæri, ef við treystum honum og verðum áfram á veginum. Því miður er það svo, að erfitt getur reynst að vera á veginum þegar okkur finnst við takast einsömul á við slíkar áskoranir.

Okkur var þó aldrei ætlað að fara veginn einsömul. Frelsarinn ávann sér fullkomna samkennd, því hann sté niður fyrir allt, svo hann fengi vitað hvernig liðinna ætti okkur í hörmungum okkar og hrumleika (sjá Alma 7:11–12; Kenning og sáttmálar 122:8). Hann væntir þess að sérhvert okkar fylgi fordæmi hans og sýni einnig samkennd. Sérhver meðlimur kirkjunnar hefur heitið því að „syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast“ (Mósía 18:9). Þótt við sjálf höfum áskoranir, er okkur kennt hvarvetna í ritningunum að „[Rétta] úr máttvana höndum og [styrkja] magnþrota [kné]“ og „[Láta] fætur [okkar] feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði“ (Hebr 12:12–13; sjá einnig Jes 35:3–4; Kenning og sáttmálar 81:5–6).

Þegar við réttum fólki hönd, ljáum því öxl og tökum þátt í lífi þess, hjálpum við því ekki aðeins að vera nægilega lengi á veginum til að frelsarinn geti styrkt trú þess – sem er einn lykilþáttur hirðisþjónustu – heldur líka til að hann geti læknað það (sjá Kenning og sáttmálar 112:13).

Hvað er samkennd?

Samkennd er að skilja líðan fólks, hugsanir þess og ástand, út frá sjónarhorni þess sjálfs, fremur en okkar eigin.1

Mikilvægt er að vera fullur samkenndar í hirðisþjónustu og uppfylla tilgang okkar sem þjónandi bræður og systur. Það gerir okkur kleift að setja okkur í spor annarra.

Setja sig í spor annarra

Saga var sögð af óframfærnum Síðari daga heilagra manni, sem oft sat einn aftast í kapellunni. Þegar meðlimur öldungasveitarinnar féll snögglega frá, veitti biskupinn fjölskyldumeðlimum öldungsins hughreystingarblessun, Líknarfélagssystur komu með veitingar. Velviljaðir vinir og nágrannar heimsóttu fjölskylduna og sögðu: „Láttu okkur vita, ef það er eitthvað sem við getum gert til hjálpar.“

Þegar hinn óframfærni maður heimsótti fjölskylduna síðar um daginn, hringdi hann dyrabjöllunni og sagði þegar ekkjan kom til dyra: „Ég er hér til að pússa skóna ykkar.“ Á tveimur klukkustundum voru allir skór fjölskyldunnar hreinir og skínandi fyrir útförina. Næsta sunnudag sat fjölskylda hins látna öldungs aftast, við hlið hins óframfærna manns.

Þessum manni tókst að uppfylla óuppfyllta þörf. Fjölskyldan og maðurinn sjálfur nutu blessunar af þjónustu hans og samkennd.

Hvernig get ég tileinkað mér samkennd?

Sumir virðast blessaðir með þeirri gjöf að geta sýnt samkennd. Hér eru þó góð tíðindi fyrir þá sem eiga erfitt með það. Síðastliðin 30 ára hafa stöðugt fleiri rannsakað samkennd. Þótt fólk nálgist efnið á ólíkan hátt, eru flestir því sammála að mögulegt sé að ávinna sér samkennd.2

Við getum beðist fyrir um gjöf samkenndar. Ef menn vilja bæta sig, er gott að auka eigin skilning á eðli samkenndar. Eftirfarandi ábendingar eru almennt viðurkenndar sem grunnþættir samkenndar.3 Þótt virkni þeirra sé okkur oft ómeðvituð, getur það hjálpað okkur að taka framförum að vera meðvituð um þær.

1.Skilja

Samkennd gerir kröfu um að við skiljum að einhverju leyti aðstæður annars fólks. Því betur sem við skiljum aðstæður þess, því auðveldar er að skilja hvernig því líður í þeim og hvað við getum gert til hjálpar.

Mikilvægt er að hlusta vandlega, spyrja spurninga og eiga samráð við hlutaðeigandi og aðra til að skilja aðstæður þeirra. Kynnið ykkur betur þetta efni í fyrri greinum um reglur hirðisþjónustu:

  • „Ministering Principles: Five Things Good Listeners Do,“ Liahona, júní 2018, 6.

  • „Counsel about Their Needs,“ Liahona, sept. 2018, 6.

  • „Involve Others in Ministering – as Needed,“ Liahona,okt. 2018, 6.

Þegar við reynum að skilja fólk, þurfum við að leggja okkur fram við að skilja hinar sérstöku aðstæður þess, án þess að draga ályktanir byggðar á líkri reynslu einhvers annars. Ef ekki, gætum við misst marks, svo fólki finnst það misskilið.

2.Ímynda

Þegar við reynum að halda það heit okkar að syrgja með syrgjendum og hugga þá sem huggunar þarfnast, getum við beðið um hjálp heilags anda til að skilja líðan einhvers og hvernig við getum hjálpað.4

Þegar við loks skiljum aðstæður einhvers, getur hvert okkar ímyndað sér – hvort sem það gerist af sjálfu sér eða ekki – hvað okkur finndist og hvernig okkur liði í slíkum aðstæðum. Að skilja þær hugsanir og tilfinningar, samhliða leiðsögn heilags anda, getur gert okkur kleift að bregðast rétt við aðstæðum fólks.

Þegar við skiljum aðstæður einhvers einstaklings og ímyndum okkur hvernig honum gæti liðið, er mikilvægt að við dæmum ekki óréttmætt (sjá Matt 7:1). Að vera gagnrýninn á hvernig einhver kom sér í ákveðnar aðstæður, getur gert lítið úr þeim særindunum sem hljótast af þeim.

3.Viðbrögð

Viðbrögð okkar eru mikilvæg, því þau eru lýsandi fyrir samkennd okkar. Við getum tjáð skilning okkar á ótal vegu, bæði með orðum og án orða. Mikilvægt er að hafa í huga að markmið okkar er ekki endilega að leysa vandann. Oft er markmiðið einfaldlega að hughreysta og styrkja með því að láta fólk vita að það sé ekki einsamalt. Það gæti verið með því að segja: „Mér finnst svo gott að þú sagði mér frá þessu“ eða „mikið finnst mér þetta leitt. Þér hlýtur að finnast þetta sárt.“

Viðbrögð ykkar þurfa í öllum tilvikum að vera einlæg. Verið líka nægilega berskjölduð, þegar það er viðeigandi, svo fólk fái skynjað veikleika og vanmátt ykkar sjálfra, því það getur stuðlað að skilningsríkara sambandi.

Boð um að bregðast við

Þegar þið hugleiðið aðstæður þeirra sem þið þjónið, ímyndið ykkur þá að þið séuð í þeirra aðstæðum og hvað ykkur þætti gagnlegast í þeirra sporum. Biðjist fyrir til að skilja líðan fólks og fylgið því eftir. Viðbrögð ykkar eru mikilvæg, þó einföld séu.

Heimildir

  1. Sjá W. Ickes, Empathic Accuracy (1997); and M. L. Hoffman, Empathy and Moral Development: Implications for Caring and Justice (2000).

  2. Sjá t.d. Emily Teding van Berkhout og John M. Malouff, “The Efficacy of Empathy Training: A Meta-Analysis of Randomized Controlled Trials,” Journal of Counseling Psychology (2016), 63(1), 32–41.

  3. Sjá t.d. Brené Brown, I Thought It Was Just Me (But It Isn’t) (2008); Theresa Wiseman, “A Concept Analysis of Empathy,” Journal of Advanced Nursing (1996), 23, 1162–67; and Ed Neukrug and others, “Creative and Novel Approaches to Empathy: a Neo-Rogerian Perspective,” Journal of Mental Health Counseling, 35(1) (Jan. 2013), 29–42.

  4. Sjá Henry B. Eyring, “The Comforter,” Liahona, maí 2015, 17–21.