Jesús Kristur er líkn
Við getum tekið höndum saman með frelsaranum við að veita hinum þurfandi stundlega og andlega líkn – og þannig fundið líkn fyrir okkur sjálf.
Í trú á Jesú Krist og í von á það sem þeir höfðu heyrt um kraftaverk hans, færðu umönnunaraðilar lama manns hann til Jesú. Þeir voru frumlegir í því að koma honum þangað – rufu gat á húsþakið og létu hann síga niður, í fleti sínu, þangað sem Jesús var að kenna. „Og er Jesús sá trú þeirra sagði hann [við lama manninn], syndir þínar eru þér fyrirgefnar.“1 Því næst: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín.“2 Jafnskjótt reis lama maðurinn upp, tók rekkju sína og fór heim og „lofaði Guð.“3
Hvað vitum við meira um vinina sem önnuðust lama manninn? Við vitum að frelsarinn sá trú þeirra. Þar sem þeir höfðu séð og heyrt í frelsaranum og orðið vitni að kraftaverkum hans, urðu þeir „furðu lostnir“ og „lofuðu Guð.“4
Jesús Kristur hafði veitt þá lækningu sem hafði verið lofað – líkamlegri líkn frá sársauka og örkumlandi afleiðingum langvarandi sjúkdóms. Það sem mikilvægara var, þá hafði frelsarinn veitt andlega líkn með því að hreinsa manninn af synd.
Vinirnir – í viðleitni til að liðsinna hinum þurfandi einstaklingi – fundu uppsprettu líknar, þeir fundu Jesú Krist.
Ég ber vitni um að Jesús Kristur er líkn. Fyrir tilstuðlan friðþægingar Jesú Krists getum við hlotið líkn af byrði og afleiðingum syndar og liðsinni í veikleikum okkar.
Vegna þess að við elskum Guð og höfum gert sáttmála um að þjóna honum, getum við tekið höndum saman með frelsaranum við að veita hinum þurfandi stundlega og andlega líkn – og þannig fundið líkn fyrir okkur sjálf í Jesú Kristi.5
Ástkær spámaður okkar, Russell M. Nelson, bauð okkur að sigrast á heiminum og finna frið.6 Hann skilgreindi „sanna hvíld“ sem „líkn og frið.“ Nelson forseti sagði: „Vegna þess að frelsarinn, með óendanlegri friðþægingu sinni, endurleysti okkur öll frá veikleika, mistökum og synd og vegna þess að hann upplifði allan sársauka, áhyggjur og byrði, sem þið hafið nokkru sinni upplifað, þá getið þið risið ofar þessum ótrygga heimi.7 Þetta er sú líkn sem Jesús Kristur býður okkur.
Hvert okkar ber óeiginlegan bakpoka. Það kann að vera karfa sem tyllt er á höfuð ykkar, eða poki eða knyppi af hlutum sem vafið er í klút og hent yfir öxlina á ykkur. En í þessu tilfelli skulum við kalla það bakpoka.
Í þessum óeiginlega bakpoka berum við byrðir þess að búa í föllnum heimi. Byrðir okkar eru eins og grjót í bakpokanum. Yfirleitt eru þær þrennskonar:
-
Grjótið er þar tilkomið af eigin gjörðum vegna synda.
-
Grjót er í bakpoka okkar vegna slæmrar ákvörðanatöku, rangrar breytni og óvild annarra.
-
Einnig er þar grjót sem við berum vegna þess að við lifum í föllnu ástandi. Þar má finna grjót sjúkdóma, sársauka, langvinnra veikinda, sorgar, vonbrigða, einmannaleika og áhrifa náttúruhamfara.
Ég lýsi því yfir með gleði að jarðneskar byrðar okkar, þetta grjót í ímyndaða bakpokanum okkar, þurfa ekki að reynast þungar.
Jesús Kristur getur létt byrðar okkar.
Jesús Kristur getur lyft byrðum okkar.
Jesús Kristur sér okkur fyrir leið til að losna við þyngd syndar.
Jesús Kristur er okkar líkn.
Hann sagði:
„Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld [sem er líkn og friður].
Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.
Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“8
Svo að okið verði ljúft og byrðin létt, þá er þess vænst að við göngum undir okið með frelsaranum, að við deilum byrðum okkar með honum, að við leyfum að hann létti byrðar okkar. Það þýðir að ganga inn í sáttmálssamband við Guð og halda þann sáttmála, sem „gerir allt við lífið auðveldara“ eins og Nelson foreti hefur útskýrt. Hann sagði: „Að gangast sjálf undir ok með frelsaranum, þýðir að þið hafið aðgang að styrk hans og endurleysandi krafti.“9
Hvers vegna erum við þá svona nísk á grjótið okkar? Hvers vegna myndi úrvinda hafnaboltakastari neita að yfirgefa hólinn þegar afleysing er kominn til að klára leikinn? Hvers vegna ætti ég að krefjast þess að standa vaktina alein áfram þegar sá sem líknar er tilbúinn að standa með mér?
Nelson forseti hefur kennt: „[Jesús Kristur … stendur með útbreidda arma, vonar og er fús til að lækna, fyrirgefa, hreinsa, styrkja og helga.“10
Hvers vegna heimtum við þá að bera grjótið okkar alein?
Þessi spurning er ætluð hverju ykkur til að hugleiða persónulega.
Sjálfri finnst mér þetta vera hin aldargamli löstur, hroki. „Ég get þetta,“ segi ég. „Engar áhyggjur, ég klára dæmið.“ Það er hinn mikli blekkjari sem vill að ég feli mig fyrir Guði, snúi frá honum og geri allt alein.
Bræður og systur, ég get ekki gert þetta alein og ég þarf þess ekki og ég mun ekki gera það. Ég vel að vera bundin frelsara mínum Jesú Kristi með sáttmálum sem ég hef gert við Guð, „fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“11
Þeir sem gera sáttmála eru blessaðir með líkn frelsarans.
Hugleiðið þetta dæmi úr Mormónsbók: Fólk Alma var ofsótt með því að vera „[skipað] fyrir verkum og … [vera með] verkstjóra yfir [sér].“12 Þar sem þeim var bannað að biðja upphátt „opnaði [það] hjörtu sín fyrir honum, og hann þekkti hugsanir hjartna þeirra.“13
Og „rödd Drottins barst til þeirra í þrengingum þeirra og sagði: Lyftið höfðum yðar og látið huggast, því að mér er kunnugt um sáttmálann sem þér hafið gjört við mig. Og ég mun gjöra sáttmála við fólk mitt og leysa það úr ánauð.
Ég mun einnig létta byrðarnar, sem lagðar hafa verið á herðar yðar, já, svo að þér finnið ekki fyrir þeim á bökum yðar.“14
Byrðar þeirra „urðu þeim léttari“ og „Drottinn gaf þeim svo mikinn styrk, að þeir gátu borið byrðar sínar léttilega og lutu vilja Guðs með gleði og þolinmæði.“15
Þessir sáttmálshaldarar fengu líkn í formi huggunar, aukinnar þolinmæði og gleði, og dregið var úr byrðum þeirra svo þær virtust léttari og síðan kom endanleg frelsun.16
Snúum okkur aftur að okkar eigin óeiginlega bakpoka.
Iðrun fyrir friðþægingu Jesús Krists, er það sem léttir af okkur syndabyrði grjóstsins. Með þessari einstöku gjöf, léttir náð Guðs af okkur hinum þungu og annars óyfirstíganlegu kröfum réttlætisins.17
Friðþæging Jesú Krists gerir okkur einnig mögulegt að meðtaka kraftinn til að fyrirgefa, sem gerir okkur kleift að losa okkur við þá þyngd sem við berum vegna illrar meðferðar annarra.18
Hvernig léttir frelsarinn þá af okkur þeim byrðum að lifa í föllnum heimi með jarðneskan líkama sem er háður sorg og sársauka?
Hann veitir oft þess konar líkn í gegnum okkur! Sem sáttmálsfólk í kirkju hans lofum við að „syrgja með syrgjendum“ og „hugga þá sem huggunar þarfnast.“19 Þar sem við höfum komist „í hjörð Guðs“ og köllumst „hans lýður“ erum við „fús til að bera hvers annars byrðar svo að þær verði léttar.“20
Sáttmálsblessun okkar er að taka höndum saman með Jesú Kristi við að veita öllum börnum Guðs líkn, bæði stundlega og andlega. Við erum sú rás sem hann notar til að líkna.21
Þannig að við, eins og vinir lama mannsins, „[styðjum] þá óstyrku, [lyftum] máttvana örmum og [styrkjum] veikbyggð kné.“22 Við berum „[hvers] annars byrðar og [uppfyllum] þannig lögmál Krists.“23 Þegar við gerum svo, komum við til hans, verðum eins og hann og finnum líkn hans.24
Hvað er líkn?
Hún er aflétting eða létting einhvers sársaukafulls, truflandi eða íþyngjandi eða styrkurinn til að standast það. Hún hefur að gera með einstakling sem setur sig í stað annarrs einstaklings. Það er lögmæt leiðrétting á einhverju röngu.25 Ensk-franska orðið kemur úr fornfrönsku, frá orðinu relever, eða „að rísa upp,“ og frá latneska orðinu relevare, eða „rísa upp aftur.“26
Bræður og systur, Jesús Kristur er líkn. Ég ber vitni um að hann reis upp aftur á þriðja degi og hafandi uppfyllt hina kærleiksríku og altæku friðþægingu, stendur hann með opinn faðminn og býður okkur það tækifæri að rísa upp aftur, að verða frelsuð, og verða upphafin og verða eins og hann er. Líknin sem hann býður okkur er eilíf.
Eins og konurnar sem vitjað var af engli á þessum fyrsta páskadagsmorgni, langar mig að „[fara] í skyndi“ og „í mikilli gleði“ og færa heiminum þær fréttir að hann sé upprisin.27 Í nafni frelsara okkar, Jesú Krists, amen.