2010–2019
Ómetanleg arfleifð vonar
Apríl 2014


Ómetanleg arfleifð vonar

Þegar þið ákveðið annaðhvort að gera eða halda sáttmála við Guð, eruð þið að velja að færa þeim, sem gætu fylgt fordæmi ykkar, arfleifð vonar .

Kæru bræður og systur, sumum ykkar var boðið á þessa samkomu af trúboðum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þeir trúboðar gætu þegar hafa boðið ykkur að taka ákvörðun um að gera sáttmála við Guð með því að láta skírast.

Aðrir hlýða hér á, því þeir hafa þegið boð foreldris, eða hugsanlega barns, sem ykkur var fært í þeirri von að þið einsettuð ykkur að setja sáttmálana sem þið hafið þegar gert við Guð, aftur fremsta í lífi ykkar. Sum ykkar sem hlýðið hér á hafið þegar ákveðið að snúa aftur til frelsarans og skynjið í dag gleði hans opnu arma.

Hver sem þið eruð og hvar sem þið eruð, þá er hamingja fleira fólks í ykkar höndum en þið fáið nú ímyndað ykkur. Hvern dag og hverja klukkustund getið þið valið að gera eða halda sáttmála við Guð.

Hvar sem þið eruð stödd á veginum til að erfa gjöf eilífs lífs, þá búið þið yfir því tækifæri að geta sýnt mörgum leiðina til aukinnar hamingju. Þegar þið ákveðið annaðhvort að gera eða halda sáttmála við Guð, eruð þið að velja að færa þeim, sem gætu fylgt fordæmi ykkar, .

Við höfum verið blessuð með fyrirheiti um slíka arfleifð. Ég á hamingju mína að þakka manni sem ég hef aldrei hitt í jarðlífinu. Hann var munaðarlaus og varð einn af langalangaöfum mínum. Hann skildi eftir sig ómetanlega arfleifð vonar. Ég ætla að segja ykkur frá því hvernig hann bjó mér þessa arfleifð vonar.

Hann hét Heinrich Eyring. Hann fæddist inn í mikið ríkidæmi. Faðir hans, Edward, átti stóra óðalsjörð í Coburg, sem nú er Þýskaland. Móði hans hét Viscountess Charlotte Von Blomberg. Faðir hennar var gæslumaður landeigna Prússakonungs.

Heinrich var fyrsti sonur Charlotte og Edwards. Charlotte lést 31 árs, eftir að hafa fætt þriðja barnið sitt. Edward lést nokkru síðar, eftir að hafa misst allt sitt ríkidæmi og eigur eftir slæma fjárfestingu. Hann lést einungis 40 ára gamall. Hann skildi eftir sig þrjú munaðarlaus börn.

Heinrich, langalangaafi minn, hafði misst báða foreldra sína og mikla veraldlega auðlegð. Hann átti ekki eyri. Hann skráði í ævisögu sína að hann taldi bestu möguleika sína liggja í því að fara til Ameríku. Hann batt von sína við Ameríku, þótt hann ætti þar engin ættmenni eða vini. Fyrst fór hann til New York City. Síðar flutti hann til St. Louis, Missouri.

Í St. Louis var einn samstarfsmaður hans Síðari daga heilagur. Frá honum fékk hann eintak af bæklingi ritaðan af öldungi Parley P. Pratt. Hann las bæklinginn og ígrundaði allt efni sem hann fann um Síðari daga heilaga. Hann bað fyrir því að fá vitneskju um það hvort englar vitjuðu í raun manna, hvort til væri lifandi spámaður og hvort hann hefði fundið sönn og opinberuð trúarbrögð.

Eftir tveggja mánaða vandlega ígrundun og bænir, dreymdi Heinrich draum þar sem honum var boðið að láta skírast. Öldungur William Brown, hvers nafn og prestdæmi eiga sér sérstakan staði í hjarta mínu, framkvæmdi helgiathöfnina. Heinrich var skírður í regnvatnslaug 11. mars 1855, klukkan 7:30 að morgni.

Ég trúi að Heinrich Eyring hafi þekkt þann sannleika sem ég kenni ykkur í dag. Hann vissi að hamingja eilífs lífs ætti rætur í varanlegum fjölskylduböndum. Hann vissi að von hans um eilífa gleði væri háð frjálsu vali annarra um að fylgja sér, jafnvel þótt hann hefði svo nýlega fundið sæluáætlun Drottins. Von hans um eilífa hamingju var undir ófæddu fólki komin.

Hann skildi eftir sig ævisögu, sem er hluti af vonararfleifð fjölskyldunnar.

Í þeirri sögu skynja ég elsku hans til þeirra sem áttu eftir að fylgja honum. Í orðum hans skynja ég von hans um að niðjar hans mættu velja að fylgja honum á veginum til okkar himnesku heimkynna. Honum var ljóst að ekki væri um einn stórfenglegan valkost að ræða, heldur marga litla. Ég vitna í sögu hans:

„Frá þeirri stundu er ég fyrst heyrði öldung Andrus tala … hef ég ætíð sótt samkomur Síðari daga heilagra og þau skipti sem ég hef ekki farið á samkomur eru vissulega afar fá, en skylda mín hefur samt verið sú að gera það.

Ég nefni þetta í sögu minni, svo að börn mín megi fylgja fordæmi mínu og aldrei vanrækja þessa … mikilvægu skyldu [að koma saman] með hinum heilögu.“1

Heinrich var ljóst að á sakramentissamkomu bæri okkur að endurnýja loforð okkar um að hafa frelsarann ávallt í huga og hafa anda hans með okkur.

Það var andinn sem studdi hann í trúboðinu sem hann var kallaður í, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hann tók á móti skírnarsáttmálanum. Hann skildi fordæmi sitt eftir sem arfleifð um að vera trúfastur í trúboði sínu í sex ár, þar sem þá nefndist Yfirráðasvæði Indíjána. Hann gekk og fékk far með vagnlest frá Oklahoma til Salt Lake City, um 1.770 km, til að vera leystur af frá trúboðinu sínu.

Stuttu síðar var hann kallaður af spámanni Guðs til að flytja búferlum til suðurhluta Utah. Þar tók hann á móti annarri köllun um að fara í trúboð til fæðingarlands síns, Þýskalands. Hann gekkst síðan við því boði postula Drottins Jesú Krists að hjálpa til við nýlendu Síðari daga heilagra í norðurhluta Mexíkó. Þaðan var hann kallaður í trúboð til Mexíkóborgar. Hann heiðraði þessar kallanir. Hann er grafinn í litlum kirkjugarði í Colonia Juárez, Chihuahua, Mexíkó

Ég segi ekki frá þessum staðreyndum til að hefja hann upp til skýja fyrir það sem hann afrekaði eða gerði í þágu niðja sinna. Ég segi frá þessum staðreyndum til að heiðra hann fyrir fordæmi hans um trú og von, sem fylltu hjarta hans.

Hann tók á móti þessum köllunum vegna þeirrar trúar að hinn upprisni Kristur og okkar himneski faðir hafi birtst Joseph Smith í trjálundi í New York. Hann tók á móti þeim vegna þess að hann trúði að lyklar prestdæmisins hefðu verið endurreistir í kirkju Drottins, með valdinu til að innsigla fjölskyldur að eilífu, bundið því að þær hafi næga trú til að halda sáttmála sína.

Þið gætuð, líkt og Heinrich Eyring, forfaðir minn, verið fyrst í ykkar fjölskyldu til að vísa veginn til eilífs lífs, á vegi hinna helgu sáttmála sem gerðir eru og haldnir af kostgæfni og trú. Hverjum sáttmála fylgja skyldur og loforð. Hvað okkur öll varðar, líkt og Heinrich upplifði, þá eru þessi skyldustörf stundum einföld, en oftast erfið. Hafið í huga að slík skyldustörf verða stundum að vera erfið, því tilgangur þeirra er að leiða okkur áfram á þeim vegi að lifa að eilífu með himneskum föður og hans ástkæra syni, Jesú Kristi, sem fjölskyldur.

Minnist þessara orða í Bók Abrahams:

„Og einn stóð á meðal þeirra, líkur Guði, og hann sagði við þá, sem með honum voru: Við munum fara niður, því að þar er rúm, og við munum taka af þessu efni og við munum gjöra jörð, sem þessir geta dvalið á—

Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim—

Og þeim, sem standast fyrsta stig sitt, mun bætast meira. En þeir, sem ekki standast fyrsta stig sitt, munu ekki njóta dýrðar í sama ríki og þeir, sem standast fyrsta stig sitt. Og þeim, sem standast annað stig sitt, mun bætast dýrð við dýrð alltaf og að eilífu.“2

Að halda annað stig sitt, er háð því að við gerum sáttmála við Guð og framfylgjum af trúfesti þeim skyldum sem þeim fylgja. Það krefst trúar á Jesú Krist, sem frelsara okkar, að halda helga sáttmála alla ævi.

Sökum þess að Adam og Eva féllu, er alheimsarfleifð okkar sú að upplifa freistingar, raunir og dauða. Okkar kærleiksríki himneski faðir gaf okkur gjöf hans ástkæra sonar, Jesús Krist, frelsara okkar. Sú undursamlega gjöf og blessun friðþægingar Jesú Krists, færir alheimsarfleifð: Fyrirheitið um upprisuna og möguleika eilífs lífs fyrir alla sem fæðast.

Æðstu blessun Guðs, sem er eilíft líf, hljótum við aðeins með því að gera sáttmála, sem tiltækir eru í hinni sönnu kirkju Jesú Krists, af hendi réttmætra þjóna hans. Sökum fallsins þurfum við öll hinn hreinsandi mátt skírnar og handayfirlagningu til viðtöku gjafar heilags anda. Þessar helgiathafnir verða að vera framkvæmdar af þeim sem hefur til þess prestdæmisvald. Við getum síðan, með hjálp ljóss Krists og heilags anda, haldið alla sáttmálana sem við gerum við Guð, einkum þá sem gerðir eru í musterum hans. Aðeins á þennan hátt, og með þessari hjálp, er hægt að gera kröfu til sinnar réttmætu arfleifðar, sem barn Guðs í ævarandi fjölskyldu.

Sumum sem á mig hlýða, kann að finnast það nærri vonlaus draumur.

Þið hafið séð trúfasta foreldra trega yfir börnum sem hafa hafnað sáttmálum sína við Guð eða kosið að brjóta þá. Þeir foreldrar geta hinsvegar látið huggast og fundið von í reynslu annarra foreldra.

Alma og synir Mósía konungs létu af ofsafenginni mótstöðu gegn sáttmálum og boðorðum Guðs. Alma yngri sá son sinn, Kóríanton, snúa frá vítaverðri synd að trúfastri þjónustu. Í Mormónsbók er líka getið um hinn undraverða viðsnúning Lamanítanna, að láta af hinu hefðbundna hatri sínu á réttlætinu og gera sáttmála um að viðhalda friði allt til dauða.

Engill var sendur til hins unga Alma og sona Mósía. Engillinn vitjaði þeirra vegna trúar og bæna feðra þeirra og fólks Guðs. Þessar fyrirmyndir, um kraft friðþægingarinnar hafandi áhrif á mannshjartað, geta fyllt okkur hugrekki og huggun.

Drottinn hefur séð okkur fyrir öllum úrræðum vonar, er við reynum að hjálpa þeim sem okkur þykir vænt um að taka á móti eilífri arfleifð sinni. Hann hefur gefið okkur loforð, er við höldum áfram að leiða fólk til hans, jafnvel þótt það taki ekki á móti boði hans. Mótstaða þeirra hryggir hann, en hann gefst ekki upp og það ættum við ekki að gera. Hann er okkur hin fullkomna fyrirmynd með sinni langvarandi elsku: „Og enn fremur, hversu oft hefði ég viljað safna yður saman, eins og hæna safnar ungum sínum undir vængi sína, já, yður af Ísraelsætt, sem fallið hafið, já, ó, yður, Ísraelsætt, yður, sem dveljið í Jerúsalem, og yður, sem fallið hafið. Já, hversu oft hefði ég viljað safna yður saman, eins og hæna safnar saman ungum sínum, en þér vilduð það ekki.“3

Við getum reitt okkur á hina óbrigðulu þrá frelsarans til að leiða öll andabörn himnesks föður aftur heimkynna þeirra hjá honum. Allir trúfastir foreldrar, afar og ömmur og langafar og langömmur, hafa líka þessa þrá. Himneskur faðir og frelsarinn eru fullkomið fordæmi um það hvað við getum gert og verðum að gera. Þeir þröngva ekki réttlæti upp á neinn, því það verður að vera valkvætt. Þeir gera okkur réttlætið ljóst og gera okkur kleift að sjá að ávextir þess eru ljúfengir.

Allir menn sem fæðast í þennan heim hafa með sér ljós Krists, sem hjálpar okkur að sjá og skynja hið rétta og hið ranga. Guð hefur sent jarðneska þjóna, sem með heilögum anda geta hjálpað okkur að skilja hvað hann vill að við gerum og hvað hann fyrirbýður okkur að gera. Guð gerir það aðlaðandi að velja hið rétta með því að láta okkur skynja áhrifin af vali okkar. Ef við veljum hið rétta, munum við upplifa hamingju - á tilsettum tíma. Ef við veljum hið ranga, munum við upplifa sorg og eftirsjá - á tilsettum tíma. Þessi áhrif eru óbrigðul. Oft er þeim þó seinkað. Ef blessanir kæmu þegar í stað, mundi rétt val ekki byggja upp trú. Þar sem sorginni er líka stundum seinkað, þarf trú til að skynja nauðsyn þess að leita árla fyrirgefningar fyrir syndir, fremur en eftir að við upplifum sorgina og sár áhrif hennar.

Faðir Lehí harmaði ákvarðanir sumra sona sinna og fjölskyldna þeirra. Hann var mikilhæfur og góður maður - spámaður Guðs. Hann bar þeim oft vitni um frelsara okkar, Jesú Krist. Hann var fordæmi um hlýðni og þjónustu þegar Drottinn kallaði hann til að yfirgefa allar sínar veraldlegu eigur til að koma í veg fyrir tortímingu fjölskyldu sinnar. Þegar dró að lokum lífs hans, var hann enn að vitna fyrir börnum sínum. Lehí hélt örmum sínum útréttum til að laða fjölskyldu sína að hjálpræði, líkt og frelsarinn - þrátt fyrir getu hans til að greina hjörtu þeirra og að geta séð bæði sorglega og gleðilega framtíð.

Á okkar tíma eru milljónir niðja föður Lehís til staðfestingar á von hans fyrir þá.

Hvað getum við gert til að læra af fordæmi Lehís? Við getum gert það með því að læra ritningarnar af guðrækni og kostgæfni.

Ég legg til að þið hugsið bæði til skamms og langs tíma í þeirri viðleitni að færa fjölskyldu ykkar arfleifð vonar. Til skamms tíma, þá horfir til vandræða og Satan mun freista. Sumu þarf að sýna biðlund í trú, í þeirri vissu að Drottinn bregðist við á sínum tíma og á sinn hátt.

Sumt er hægt að gera árla, þegar ástvinir eru ungir að árum. Hafið í huga að einfaldara og áhrifaríkara er að kenna fjölskyldubænir, ritningarnám og vitnisburðargjöf á sakramentissamkomu meðan börnin eru enn ung. Ung börn eru oft næmari á andann en við höldum.

Þegar þau eldast, muna þau eftir sálmunum sem þú sungu með ykkur. Þau muna jafnvel enn betur eftir vitnisburðum og orðum ritninganna, en tónlistinni. Heilagur andi getur kallað þetta allt fram í minni þeirra, en orð ritninganna og sálmarnir hafa varanlegustu áhrifin. Þessar minningar munu toga þau til baka, ef þau hafa villst frá um tíma, hugsanlega í mörg ár, af veginum heim til eilífs lífs.

Við þurfum að horfa langt fram á veg þegar heimurinn togar í ástvini okkar og skýjahulu virðist draga fyrir trú þeirra. Við höfum trú, von og kærleika til að leiða okkur og efla þau.

Það hef ég séð sem ráðgjafi tveggja lifandi spámanna Guðs. Þeir eru einstaklingar sem búa að sérstakri persónugerð. Þeim virðist sameiginlegt að vera stöðugt bjartsýnir. Þegar einhver hefur upp viðvörunarraust varðandi eitthvað sem snertir kirkjuna, þá er svar þeirra oftast: „Ó, þetta mun allt blessast.“ Yfirleitt þekkja þeir betur til vandans en þeir sem hefja upp aðvörunarraustina.

Þeir þekkja líka vegu Drottins og því eru þeir ætíð vongóðir varðandi ríki hans. Þeir vita að hann stjórnar því. Hann er almáttugur og honum stendur ekki á sama. Ef þið hafið hann sem leiðtoga fjölskyldu ykkar, mun allt fara vel.

Sumir niðjar Heinrichs Eyring virðast hafa farið villu vegar. Mörg barnabarnabarnabörn hans fara hins vegar í musteri Guðs klukkan 6 að morgni, til að framkvæma helgiathafnir fyrir áa sem þeir hafa aldrei kynnst. Þau gera það vegna arfleifðar vonar sem hann skildi eftir sig. Hann skildi eftir sig arfleifð sem margir niðjar hans hafa tileinkað sér.

Eftir allt sem við getum gert í trú, mun Drottinn réttlæta vonir okkar um ríkulegri blessanir fyrir fjölskyldu okkar en við fáum ímyndað okkur. Hann vill það besta fyrir þau og fyrir okkur, sem börn hans.

Við erum öll börn lifanda Guðs Jesús frá Nasaret er hans ástkær sonur hans og okkar upprisni frelsari. Þetta er hans kirkja. Í henni eru lyklar prestdæmisins, þar af leiðandi geta fjölskyldur verið saman að eilífu. Þetta er okkar ómetanlega arfleifð vonar. Ég ber vini um að það er sannleikur, í nafni Drottins Jesú Krists, amen.