2010–2019
Velkomin á ráðstefnu
Október 2013


Velkomin á ráðstefnu

Það er bæn mín að við megum fyllast af anda Drottins er við hlustum og lærum.

Hversu gott það er, kæru bræður og systur, að koma saman enn á ný. Það eru rétt rúm 183 ár síðan Joseph Smith stofnaði kirkjuna, undir leiðsögn Drottins. Sex kirkjuþegnar voru viðstaddir á þeim fundi, þann 6. apríl árið 1830.

Það gleður mig að tilkynna, að fyrir tveimur vikum náði meðlimafjöldi kirkjunnar 15 milljónum. Kirkjan vex stöðugt og breytir lífi sífellt fleiri manna á hverju ári. Hún dreifist yfir jörðina er trúboðssveitir okkar finna þá sem leita sannleikans.

Það er tæpt ár síðan ég tilkynnti lækkaðan aldur trúboða. Síðan þá hefur fjöldi starfandi fastatrúboða aukist úr 58.500 í október 2012 í 80.333 í dag. Við höfum orðið vitni að gífurlegum og hvetjandi viðbrögðum.

Hinar heilögu ritningar geyma enga mikilvægari yfirlýsingu, enga ábyrgð jafn bindandi og engar leiðbeiningar eins afdráttarlausar og þau fyrirmæli sem hinn upprisni Drottinn gaf, er hann birtist hinum ellefu lærisveinum sínum í Galíleu. Hann sagði: „Farið því og kristnið allar þjóðir, skírið þá til nafns föðurins og sonarins og hins heilaga anda.“1 Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Þegar allt kemur til alls er mesta og mikilvægasta skyldan sú að prédika fagnaðarerindið.“2 Sum ykkar sem eruð hér í dag munið orð Davids O. McKay forseta sem mælti þessa fleygu setningu: „Allir meðlimir eru trúboðar!“3

Ég bæti mínum orðum við þeirra. Nú er rétti tíminn fyrir kirkjuþegna og trúboða að koma saman, að vinna saman, að starfa í víngarði Drottins og leiða sálir til hans. Hann hefur undirbúið fyrir okkur fjöldann allan af leiðum til að deila fagnaðarerindinu og hann vill aðstoða okkur við það starf, ef við erum reiðubúin að starfa í trú við að uppfylla verk hans.

Til að viðhalda þessari sístækkandi trúboðssveit hef ég áður beðið kirkjuþegna að leggja sitt á vogaskálarnar, eins og þeir hafa getu til, og gefa í trúboðssjóð deildanna eða hinn almenna trúboðssjóð kirkjunnar. Viðbrögð við þeirri beiðni hafa verið gleðileg og hafa stutt þúsundir trúboða, sem ekki eru í aðstöðu til að framfleyta sér sjálfir. Ég þakka ykkur fyrir rausnarlegt framlag ykkar. Þörfin fyrir aðstoð er viðvarandi, og getum við því haldið áfram að aðstoða þá sem þrá að þjóna en geta það ekki fjárhagslega.

Við erum hér nú, bræður og systur, til að hljóta leiðsögn og innblástur. Margar ræður, sem fjalla um hina ýmsu þætti fagnaðarerindisins, verða fluttar á næstu tveimur dögum. Þeir karlar og þær konur sem tala munu til ykkar hafa leitað eftir himneskri hjálp varðandi boðin sem þau munu flytja.

Það er bæn mín að við megum fyllast af anda Drottins er við hlustum og lærum. Í nafni frelsara okkar, Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Matt 28:19.

  2. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 330.

  3. David O. McKay, í Conference Report, apríl 1959, 122.