2010–2019
Lykillinn að andlegri vernd
Október 2013


Lykillinn að andlegri vernd

Friður getur tekið sér bólfestu í hjarta sérhvers manns sem snýr sér að ritningunum og opnar leið að loforðum um vernd og endurlausn.

Fyrir stuttu síðan innsiglaði ég ungt par í musterinu. Þetta par hafði haldið sér verðugu þess að vera þar á þessum stórkostlega degi, þegar sonur og dóttir yfirgefa æskuheimili sitt og verða eiginmaður og eiginkona. Þau voru hrein og tær á þessari helgu stund. Þegar sá tími kemur munu þau ala upp sín eigin börn, í samræmi við þann hátt sem himneskur faðir hefur ákvarðað. Hamingja þeirra og hamingja framtíðarkynslóða byggir á því að þau lifi eftir þeim reglum sem frelsarinn hefur sett okkur og skráðar eru í ritningum hans.

Foreldrar í dag velta því fyrir sér hvort til sé öruggur staður til að ala upp börn sín. Það er til öruggur staður. Á heimili sem leggur áherslu á fagnaðarerindið. Í kirkjunni er áherslan lögð á fjölskylduna og við ráðleggjum öllum foreldrum að ala upp börn sín í réttlæti.

Páll postuli spáði og varaði við: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.

Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,

sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.

Þeir hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar, en neita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!“1

Páll spáði einnig: „En vondir menn og svikarar munu magnast í vonzkunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“2

Þessi vers eru viðvörun og sýna hvers konar hegðun skal forðast. Við verðum að vera vakandi og kostgæfin. Við getum farið yfir hvern þessara spádóma og merkt við þau atriði sem eru til staðar og eru áhyggjuefni í heiminum í dag:

Örðugar tíðir— til staðar. Við lifum á mjög örðugum tímum.

Fégirni, raupsemi, hroki— allt til staðar og á meðal okkar.

Lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklæti, vanhelgi, kærleiksleysi— allt þetta er svo sannlega til staðar.

Ósáttfýsi, rógberar, og svo framvegis — hægt er að merkja við allt þetta sem ríkjandi einkenni þess sem er allt í kringum okkur.

Moróni talaði einnig um vonsku okkar tíma þegar hann aðvaraði:

„Þegar þér sjáið slíkt koma yðar á meðal … vakna [þá] til fullrar vitundar um hörmulegt ástand yðar …

Þess vegna er mér, Moróni, boðið að rita þetta, svo að hið illa verði afnumið og sá tími komi, að Satan hafi ekkert vald yfir hjörtum mannanna barna heldur hneigist þau stöðugt til góðra verka og rati að uppsprettu alls réttlætis og láti frelsast.“3

Lýsingar Páls og Morónis á okkar tímum eru svo nákvæmar að ekki er hægt að hunsa þær. Þetta kemur mjög illa við marga, dregur jafnvel úr þeim kjark. Þegar ég hugsa til framtíðarinnar, fyllist ég engu að síður yfirþyrmandi og jákvæðri bjartsýni.

Til viðbótar við litstann yfir áskoranir og vandamál, segir Páll í opinberun sinni hvað við getum gert til að vernda okkur:

„En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það.

Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.“4

Ritningarnar halda lyklunum að andlegri vernd. Þær innihalda kenningar, lögmál og helgiathafnir sem færa munu öllum börnum Guðs vitnisburð um Jesú Krist sem frelsara þeirra og lausnara.

Margra ára undirbúningur og mikil vinna hefur farið í útgáfu ritninganna á öllum tungumálum með neðanmálsgreinum og tilvísunum. Við vinnum að því að gera þær fáanlegar öllum sem óska þess að læra. Þær kenna okkur hvert við eigum að fara og hvað við eigum að gera. Þær bjóða upp á von og þekkingu.

Fyrir mörgum árum kenndi öldungur S. Dilworth Young, af hinum Sjötíu, mér lexíu um ritningarlestur. Í einni stiku var spenna og erfiðleikar á milli kirkjuþegnanna og þörf var á ráðgjöf.

Ég spurði Young forseta, „Hvað ætti ég að segja?“

Hann svaraði því einfaldlega: „Segðu þeim að lesa ritningarnar.“

Ég spurði: „Hvaða ritningar?“

Hann svaraði: „Það skiptir í raun engu. Segðu þeim að opna Mormónsbók, til dæmis, og byrja að lesa. Þá munu þau fljótlega hljóta frið og innblástur og lausnin mun birtast.“

Gerið ritningarlestur að hluta af reglulegri áætlun ykkar og þá munu blessanirnar fylgja í kjölfarið. Í ritningunum er aðvörunarraust, en einnig mikil næring.

Ef málfar ritninganna virðist framandi til að byrja með, haldið þá áfram að lesa. Fljótlega munuð þið greina fegurðina og kraftinn sem finna má á þessum síðum.

Páll sagði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar og til menntunar í réttlæti.“5

Þið getið prófað þetta loforð sjálf.

Við búum á hættutímum, en þrátt fyrir það getum við fundið von og frið fyrir okkur sjálf og fjölskyldu okkar. Þeir sem lifa í sorg, örvæntingu um hvort mögulegt verði að bjarga barni þaðan sem heimurinn hefur borið það, mega aldrei gefast upp. „Óttast ekki, trú þú aðeins.“6 Réttlæti er kröftugra en ranglæti.

Þau börn sem læra að skilja ritningarnar snemma í lífi sínu, munu læra að þekkja þann veg sem þau ættu að ganga og eru líklegri til að halda sig á þeim vegi. Þau sem fara af veginum hafa getuna til að koma aftur og geta ratað til baka ef þau fá hjálp.

Synir Mósía börðust gegn kirkjunni um tíma en iðruðust síðan og gengu í gegnum miklar breytingar. Í Alma lesum við: „Þessir synir Mósía … höfðu styrkst í þekkingu sinni á sannleikanum, því að þeir voru menn gæddir heilbrigðum skilningi og höfðu kynnt sér ritningarnar af kostgæfni til þess að öðlast þekkingu á orði Guðs.“7

Joseph F. Smith forseti var sex ára gamall þegar faðir hans, Hyrum, var drepinn í Carthage fangelsinu. Seinna fór hann yfir slétturnar með ekkjunni, móður sinni.

Þegar hann var 15 ára var hann kallaður í trúboð til Hawaii. Honum fannst hann týndur og aleinn og sagði: „Ég var mjög þjakaður. …Mér fannst ég vera svo lítilmagna í örbirgð minni, fávísi og vanþekkingu, aðeins drengur sem vart þorði að horfa framan í fólk.“

Hinn ungi Joseph hugleiddi ástand sitt eitt kvöldið og þá dreymdi hann að hann væri á ferðalagi, að flýta sér eins og hann gæti. Hann hélt á litlum böggli. Að lokum kom hann að ákvörðunarstað sínum, dásamlegu höfðingjasetri. Er hann nálgaðist sá hann skilti sem á stóð: „Baðhús.“ Hann flýtti sér þangað inn og þvoði sér. Hann opnaði litla böggulinn og fann þar hreinan, hvítan fatnað ‒ „nokkuð sem ég hafði ekki séð í langan tíma“ sagði hann. Hann fór í fötin og rauk að húsdyrunum.

„Ég bankaði“ sagði hann, „og dyrnar opnuðust og maðurinn sem stóð í dyrunum var spámaðurinn Joseph Smith. Hann leit á mig ávítandi og það fyrsta sem hann sagði var:, Joseph, þú ert seinn.‘ Ég fann samt öryggi og sagði:

‚Já, en ég er hreinn — ég er hreinn!‘“8

Þannig getur það verið fyrir okkur öll.

Ef þið eruð á braut trúar og virkni í kirkjunni, haldið ykkur þá á þeirri braut og haldið sáttmála ykkar. Haldið áfram þar til sá tími kemur að blessanir Drottins berast ykkur og heilagur andi mun opinberast sem hreyfiafl í lífi ykkar.

Ef þið eruð nú á braut sem beinist frá því sem er útlistað í ritningunum, þá fullvissa ég ykkur um að það er hægt að snúa við.

Jesús Kristur lýsti mjög skýrri aðferð fyrir okkur til að iðrast og hljóta lækningu í lífi okkar. Hægt er að finna lækningu á flestum mistökum með því að leita fyrirgefningar í gegnum persónulega bæn. Hins vegar eru viss andleg veikindi sem kalla algerlega á aðstoð og meðferð hæfra andlegra lækna, sérstaklega veikindi sem hafa með siðferðisbrot að gera.

Fyrir mörgum árum kom ung kona inn á skrifstofuna til mín, ásamt fullorðnum föður sínum. Hún hafði komið með hann hundruð kílómetra leið til að fá lækningu á þeirri sektarkennd sem hrjáði hann. Sem ungur maður hafði hann gert alvarleg mistök, og minningin sótti á hann og hrjáði hann á efri árum. Hann gat ekki losnað við sektarkenndina. Hann gat ekki snúið til baka og þurrkað út vandamál æsku sinnar sjálfur, en hann gat byrjað þar sem hann var og með aðstoð, létt sektarkenndinni sem hafði fylgt honum öll þessi ár.

Ég var þakklátur fyrir það að þegar ég kenndi honum kenningar úr Mormónsbók, var eins og þungum byrðum væri létt af herðum hans. Þegar hann og dóttir hans óku alla þessa kílómetra heim aftur, hafði gamli maðurinn skilið eftir sektarkennd gamalla synda.

Ef þið „vaknið til fullrar vitundar um hörmulegt ástand yðar“9 og óskið þess að snúa aftur til andlegrar heilsu, farið þá og hittið biskup ykkar. Hann hefur lyklana og getur aðstoðað ykkur á veginum til iðrunar.

Iðrun er einstaklingsbundin og svo er einnig með fyrirgefninguna. Drottinn ætlast aðeins til þess að einstaklingurinn snúi frá syndinni og „[hann] mun fyrirgefa misgjörð þeirra og ekki framar minnast syndar þeirra“10

Þegar iðrunarferlið er fullkomnað, munuð þið skilja merkingu loforðs Jesaja varðandi friðþæginguna. „Komið nú og eigum lög við, segir Drottinn: Þó að syndir yðar séu sem skarlat, skulu þær verða hvítar sem mjöll. Þó að þær séu rauðar sem purpuri, skulu þær verða sem ull.“11

Á sama hátt og hægt er að fjarlægja krít af töflu, er unnt að þurrka út áhrif brota okkar vegna friðþægingar Jesú Krists, ef iðrunin er einlæg. Þetta loforð á við í öllum tilfellum.

Fagnaðarerindið kennir okkur að vera hamingjusöm, að hafa trú frekar en ótta, að finna von og sigrast á örvæntingu, að yfirgefa myrkrið og snúa okkur að ljósi hins ævarandi fagnaðarerindis.

Páll og aðrir vöruðu okkur við erfiðleikum okkar tíma og þeirra daga sem framundan eru. Hins vegar getur friður tekið sér bólfestu í hjarta sérhvers manns sem snýr sér að ritningunum og opnar leið að loforðum um vernd og endurlausn sem þar eru kennd. Við bjóðum öllum að snúa sér til frelsarans Jesú Krists, kenninga hans eins og þær eru í Gamla testamentinu, Nýja testamentinu, Mormónsbók, Kenningu og sáttmálum, og Hinni dýrmætu perlu.

Ég ber ykkur öruggt vitni um að ritningarnar eru lykillinn að andlegri vernd okkar. Ég ber einnig vitni um læknandi kraft friðþægingar Jesú Krists, „að fyrir hann [geta] allir …frelsast,“12 sem vilja frelsast. Kirkja Drottins hefur enn á ný verið endurreist á jörðu. Ég ber vitni um sannleiksgildi fagnaðarerindisins. Ég ber vini um hann. Í nafni Jesú Krists, amen.