2010–2019
Enga aðra guði
Október 2013


Enga aðra guði

Erum við að tilbiðja og dýrka aðra guði eða taka eitthvað annað fram yfir Guð sem við játum að tilbiðja?

Boðorðin tíu eru grunnurinn að trúarbrögðum kristinna og Gyðinga. Guð gaf Ísraelsmönnum boðorðin með spámanninum Móse og fyrstu tvö þeirra sýna forgang okkar og hvað okkur ber að tilbiðja. Í fyrsta boðorðinu býður Drottinn: „Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig“ (2 Mós 20:3). Öldum síðar, er Jesús var spurður: „Hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ svaraði hann: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum“ (Matt 22:36–37).

Annað boðorðið af boðorðunum tíu býður okkur að hafa enga aðra guði og kveður á um endanlegan forgang í lífi okkar barna hans. „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því“ sem er á himnum eða á jörðu (2 Mós 20:4). Auk þess segir boðorðið: „Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær“ (2 Mós 20:5). Auk þess að banna líkneskjur, staðhæfir þetta hver forgangsröðun okkar skal ætíð vera. Jehóva útskýrir: „Því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, ... en auðsýni miskunn ... [þeim] sem elska mig og varðveita boðorð mín“ (2 Mós 20:5–6). Merking orðsins vandlátur er upplýsandi. Hin upprunalega hebreska merking er „að búa yfir næmum og innilegum tilfinningum“ (2 Mós 20:5, neðanmálstexti b) Við misbjóðum því Guði þegar við „dýrkum“ aðra guði ‒ þegar við höfum aðra forgangsröðun.1

I.

Hvaða önnur forgangsatriði eru „dýrkuð“ framar Guði af fólki ‒ jafnvel trúuðu fólki ‒ á okkar tíma? Íhugið þessi mögulegu atriði sem öll eru almenn í okkar heimi:

  • Menningar- og fjölskylduhefðir

  • Pólitískar siðvenjur

  • Starfsframi

  • Veraldlegar eigur

  • Skemmtanir

  • Vald, stöður og upphefð

Ef ekkert af þessu virðist eiga við um eitthvert okkar, getum við mjög líklega bent á aðra sem þetta á við um. Reglan er mikilvægari en einstök dæmi. Reglan snýst ekki um hvort við höfum aðra forgangsröðun. Spurningin sem annað boðorðið vekur er: „Hvað höfum við í algjörum forgangi?“ Erum við að tilbiðja og dýrka aðra guði eða taka eitthvað annað fram yfir Guð sem við játum að tilbiðja? Höfum við gleymt að fylgja frelsaranum sem sagði, að ef við elskum hann, munum við halda boðorð hans? (sjá Jóh 14:15). Ef svo er, hafa forgangsatriði okkar snúist við sökum andlegs andvaraleysis og óheftra langana sem er svo ríkjandi á okkar tíma.

II.

Hvað Síðari daga heilaga varðar þá eru boðorðin grundvölluð á og óaðskiljanlega tengd áætlun Guðs fyrir börn hans ‒ hinni miklu sáluhjálparáætlun. Áætlun þessi, sem stundum er nefnd „hin mikla sæluáætlun“ (Alma 42:8), útskýrir uppruna okkar og örlög sem börn Guðs ‒ hvaðan við komum, hvers vegna við erum hér og hvert við förum. Sáluhjálparáætlunin útskýrir tilgang sköpunar og aðstæður jarðlífsins, þar með talið boðorð Guðs, þörfina á frelsara og mikilvægi jarðneskra og eilífra fjölskyldna. Ef við, Síðari daga heilagir, sem höfum hlotið þessa þekkingu að gjöf, forgangsröðum ekki samkvæmt áætlun hans, er hætta á að við þjónum öðrum guðum.

Þekking á áætlun Guðs fyrir börn hans veitir Síðari daga heilögum einstæða sýn yfir hjónabandið og fjölskylduna. Almennt erum við þekkt sem fjölskylduvæn kirkja. Hugmyndafræði okkar hefst á himneskum foreldrum og dýpsta þrá okkar er að hljóta fyllingu eilífrar upphafningar. Við vitum að það er aðeins mögulegt í fjölskylduböndum. Við vitum að hjónaband karls og konu er nauðsynlegt til að uppfylla áætlun Guðs. Aðeins slíkt hjónaband fær komið til leiðar réttri jarðneskri fæðingu og getur búið fjölskylduna undir eilíft líf. Við lítum á hjónabandið og barnsburð og barnauppeldi sem hluta af áætlun Guðs og helga skyldu þeirra sem fá tækifæri til að vera þátttakandi í því. Við trúum að endanlegar gersemar jarðar og himins séu börn okkar og afkomendur.

III.

Þar sem við höfum skilning á mögulegu eilífu hlutverki fjölskyldunnar, hryggir það okkur hve fæðingum og hjónaböndum hefur fækkað hratt í mörgum vestrænum löndum, sem búa að kristinni og gyðinglegri menningu. Áreiðanlegar heimildir greina svo frá:

  • Í Bandaríkjunum er nú lægsta sögulega tíðni fæðinga,2 og í mörgum Evrópusambandsríkjum og öðrum þróuðum löndum eru fæðingar færri en þarf til að viðhalda íbúafjölda landanna.3 Þetta ógnar tilveru menningarsiða og jafnvel þjóða.

  • Í Bandaríkjunum hefur hlutfall ungs fólks á aldrinum 18 til 29 ára sem gengur í hjónaband lækkað úr 59 prósentum árið 1960 í 20 prósent árið 2010.4 Meðalaldur fyrsta hjónabands er nú sögulega hæstur: 26 hjá konum og 29 hjá körlum.5

  • Í mörgum löndum og menningu (1) er hin hefðbundna fjölskylda, þar sem móðir og faðir eru gift og eiga börn, orðin undantekning fremur en regla, (2) starfsframi í stað hjónabands og barnauppeldis er nú fyrsti valkostur fjölda ungra kvenna og (3) gert er lítið úr hinu nauðsynlega hlutverki feðra.

Okkur er einnig ljóst, mitt í slíkum áhyggjuvaldandi sveiflum, að áætlun Guðs er fyrir öll hans börn og að Guð elskar öll börn sín hvarvetna.6 Í fyrsta kapítula Mormónsbókar er staðhæft, að „vald [Guðs], gæska [hans] og miskunn [ríki] yfir öllum jarðarbúum“ (1 Ne 1:14). Annar kapítuli staðhæfir, að „hann [hafi] gjört hjálpræðið frjálst öllum mönnum“ og „allir menn [hafi] sama rétt, og enginn er útilokaður“ (2 Ne 26:27–28). Þar af leiðandi kenna ritningarnar að það er okkar ábyrgð að vera kærleiksrík (ástúðleg) við alla menn (sjá 1 Þess 3:12; 1 Jóh 3:17; K&S 121:45).

IV.

Við berum líka virðingu fyrir trúarskoðunum allra manna og jafnvel þeirra sem í auknum mæli segjast ekki trúa á Guð. Við vitum að fyrir hina guðlegu gjöf valfrelsis, munu margir hafa andstæðar skoðanir við okkur, en við vonum að aðrir beri jafn mikla virðingu fyrir trúarskoðunum okkar og skilji, að trú okkar leiðir til þess að við veljum annað og breytum öðruvísi en þeir gera. Við trúum til að mynda, að sem nauðsynlegan hluta af sáluhjálparáætlun sinni hafi Guð ákvarðað þá eilífu reglu kynferðissambands, að kynlíf eigi sér aðeins stað á milli karls og konu sem eru í hjónabandi.

Krafturinn til þess að skapa dauðlegt líf er æðsti upphafni krafturinn sem Guð hefur gefið börnum sínum. Notkun hans var fyrirskipuð í fyrsta boðorði Guðs til Adams og Evu (sjá 1 Mós 1:28), en önnur mikilvæg boðorð voru gefin til að banna misnotkun hans (sjá 1 Mós 20:14; 1 Þess 4:3). Sú áhersla sem við leggjum á skírlífislögmálið skýrist af skilningi okkar á tilgangi sköpunarkraftsins við að framfylgja áætlun Guðs. Öll notkun sköpunarkraftar okkar, utan hjónabands á milli karls og konu, er að meiru eða minna leyti syndug og í mótsögn við áætlun Guðs til upphafningar barna hans.

Áherslan sem við leggjum á skírlífislögmálið skýrist af skuldbindingu okkar gagnvart því hjónabandi sem á uppruna hjá Adam og Evu og hefur viðhaldist um aldir sem fyrirmynd að notkun sköpunarkraftarins á milli sonar hans og dætra og til uppeldis barna hans. Sem betur fer eru margir í öðrum samtökum og trúsöfnuðum sammála okkur um eðli og mikilvægi hjónabandsins, sem sumir byggja á trúarkenningum og aðrir á því sem þeir telja að best sé fyrir samfélagið.

Þekking okkar á áætlun Guðs fyrir börn hans7 skýrir hvers vegna við erum miður okkar yfir að sífellt fleiri börn fæðast utan hjónabands ‒ um þessar mundir 41 prósent allra fæðinga í Bandaríkjunum8 ‒ og að fjöldi ungra para sem búa saman ógift hefur aukist gífurlega á síðustu 50 árum. Fyrir fimm áratugum voru aðeins fáein prósent sem voru í óvígðri sambúð fyrir fyrsta hjónaband sitt. Nú eru 60 prósent í sambúð áður en til hjónabands er stofnað.9 Það er viðurkennt í auknum mæli, einkum meðal ungs fólks. Í nýlegri könnun kom fram að 50 prósent ungs fólks staðhæfði að barnsburður utan hjónabands væri „góður lífsstíll.“10

V.

Margskonar pólitískur og samfélagslegur þrýstingur er í gangi um laga- og reglugerðabreytingar til að koma á hegðun sem andstæð er tilskipun Guðs um kynferðislegt siðferði og eilíft eðli og tilgang hjónabands og barnauppeldis. Slíkur þrýstingur hefur þegar samþykkt hjónaband samkynhneigðra hjá ýmsum ríkjum og þjóðum. Aðrir þrýstihópar brengla kynhlutverkin eða segja engan mun vera á hlutverkaskiptingu karla og kvenna, sem nauðsynleg er þó til að framfylgja hinni miklu sæluáætlun Guðs.

Skilningur okkar á áætlun Guðs og kenningu hans veitir okkur eilífa yfirsýn sem leyfir ekki að við samþykkjum slíka breytni eða reynum að réttlæta slíkt með lagasetningum. Ólíkt öðrum samtökum sem geta breytt reglum sínum og jafnvel kenningum, þá eru reglur okkar ákvarðaðar af þeim sannleika sem Guð hefur auðkennt sem óbreytanlegan.

Tólfta trúaratriðið staðhæfir, að okkur beri að lúta borgarlegu yfirvaldi og „hlýða lögunum, virða þau og styðja.“ Lög mannsins geta ekki gert það siðlegt sem Guð hefur staðhæft að sé ósiðlegt. Skuldbinding okkar við þann æðsta forgang ‒ að elska og þjóna Guði ‒ krefst þess að við höfum lögmál hans til viðmiðunar varðandi breytni okkar. Við lútum til að mynda áfram guðlegu boði um drýgja ekki hór eða ástunda saurlifnað, jafnvel þótt slík breytni sé ekki lengur glæpur samkvæmt lögum í þeim ríkjum okkar eða löndum. Á svipaðan hátt breytir það ekki lögmáli Guðs um hjónabandið eða boðorðum hans og reglum varðandi það, að lögleiða hið svo nefnda „samkynhneigðarhjónaband.“ Við höldum áfram að vera undir sáttmála um að elska Guð og halda boðorð hans og að forðast að dýrka aðra guði eða hafa annan forgang ‒ jafnvel ekki þá guði sem orðnir eru vinsælir á okkar stað og stund.

Aðrir geta misskilið þessa ákveðnu afstöðu okkar, og við getum verið sökuð um ofstæki, verið mismunað eða þurft að líða yfirgang fyrir að iðka trúfrelsi okkar. Ef svo er, ættum við að hafa æðsta forgang okkar í huga ‒ að þjóna Guði ‒ og, líkt og fyrirrennarar okkar, frumbyggjarnir, gerðu, ýta okkar persónulegu handvögnum áfram af sama þrótti og þeir gerðu.

Kenning Thomas S. Monson forseta, á við um þessar aðstæður. Á þessari ráðstefnu fyrir 27 árum sagði hann skýrt og skorinort: „Höfum hugrekki til þess að bjóða tíðarandanum byrginn, hugrekki til að standa fast með sannleikanum. Hugrekki, ekki málamiðlun, vekur bros og viðurkenningu Guðs. Hugrekki verður að lifandi og aðlaðandi dyggð, þegar ekki er aðeins litið á það sem fúsleika til að deyja karlmannlega, heldur líka festu til að lifa siðsamlega. Andlegur hugleysingi er sá sem óttast að gera það sem hann telur rétt, vegna þess að aðrir eru ekki sammála eða hlægja að honum. Munið að allir menn berjast við ótta sinn, en þeir sem horfast í augu við ótta sinn með reisn eru jafnframt hugrakkir.‟11

Ég bið þess að við látum ekki tímabundnar áskoranir jarðlífsins valda því að við gleymum hinum æðstu boðorðum og forgangsatriðum sem skapari okkar og frelsari hafa gefið okkur. Við megum ekki beina hjarta okkar svo að því sem heimsins er og sækjast svo eftir mannlegri upphefð, (sjá K&S 121:35) að við hættum að reyna að öðlast eilíf örlög okkar. Við sem þekkjum áætlun Guðs fyrir börn hans ‒ við sem höfum gert sáttmála um að taka þátt í henni ‒ höfum skýra ábyrgð. Við megum aldrei gleyma mikilvægustu þrá okkar, sem er að hljóta eilíft líf.12 Við megum aldrei þynna út þann forgang okkar ‒ að hafa ekki aðra guði, og að ekkert hafi forgang fram yfir Guð föðurinn og son hans, frelsara okkar, Jesú Krist.

Megi Guð hjálpa okkur að skilja þennan forgang og að hljóta skilning annarra er við reynum að lifa eftir honum á skynsamlegan og kærleiksríkan hátt. Það er bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá tildæmis Kenning og sáttmálar 124:84.

  2. Sjá Joyce A. Martin og aðra, „Births: Final Data for 2011,” National Vital Statistics Reports, bindi 62, nr. 1 (28. júní 2013), 4; Gloria Goodale, „Behind a Looming Baby Bust,” Christian Science Monitor Weekly, 4. feb. 2013, 21, 23.

  3. Sjá Population Reference Bureau, “2012 World Population Data Sheet,” www.prb.org/Publications/Datasheets/2012/world-population-data-sheet/data-sheet.aspx.

  4. Sjá D’Vera Cohn og fleiri, „Barely Half of U.S. Adults Are Married-a Record Low,” Pew Research Center, Social and Demographic Trends, 14. des. 2011, fáanlegt á www.pewsocialtrends.org/2011/12/14/barely-half-of-u-s-adults-are-married-a-record-low; „Rash Retreat from Marriage,” Christian Science Monitor, 2. og 9. jan. 2012, 34.

  5. U.S. Census Bureau, „Estimated Median Age at First Marriage, by Sex: 1890 to Present,” available at www.census.gov/population/socdemo/hh-fam/ms2.xls.

  6. Sjá Dallin H. Oaks, „All Men Everywhere,” Ensign eða Líahóna, maí 2006, 77–80.

  7. Sjá Dallin H. Oaks, „The Great Plan of Happiness,” Ensign, nóv. 1993, 72–75.

  8. Sjá Martin, „Births: Final Data for 2011,” 4.

  9. Sjá The State of Our Unions: Marriage in America,2012 (2012), 76.

  10. Sjá The State of Our Unions, 101, 102.

  11. Thomas S. Monson, „Courage Counts,” Ensign, nóv. 1986, 41.

  12. Sjá Dallin H. Oaks, „Desire,” Ensign eða Líahóna, maí 2011, 42–45.