2000–2009
Blessaðir séu allir hinir hjartahreinu
Október 2007


Blessaðir séu allir hinir hjartahreinu

Megi Guð blessa einlægar tilraunir okkar til að vera hrein í hjarta og huga, að „dyggðir [megi] prýða hugsanir [okkar] linnulaust.“

Þegar ég og eiginkona mín gengum á sunnudagsmorgni fyrir nokkrum árum á sjávarströnd á Karabísku-eyjunum, sáum við nokkra litla fiskibáta sem höfðu verið dregnir upp á sandströndina. Þegar við stöldruðum við til að skoða bátana, komst ég að nokkru um fiskveiðar sem aldrei hefur horfið úr huga mínum síðan. Fiskimennirnir notuðu einfaldar gildrur úr möskvavírneti, í stað þess að nota hefðbundin net, línur eða króka. Gildrurnar voru í laginu líkt og kassi. Veiðimennirnir skáru um 20 sentimetra lóðréttar rifur á hverja hlið gildrunnar og beygðu svo vírana inn á við og þannig gátu fiskarnir synt inn í gildruna.

Þið getið líklega gert ykkur í hugarlund virkni gildrunnar. Fiskimennirnir fóru með gildruna út á sjó og létu hana síga niður á botninn. Þegar passlega stór fiskur synti upp að gildrunni og varð var við beituna, leitaði hann uppi rifu á hlið gildrunnar og synti inn um hana með því að troða sér á milli víranna. Þegar fiskurinn reyndi svo að synda út, komst hann að því að þótt auðvelt hafi verið að troða sér inn um rifuna utan frá, gegndi allt öðru máli að troða sér á móti beittum vírendunum til að komast út – hann var fangaður. Þegar fiskimennirnir sneru aftur, hífðu þeir gildruna upp úr sjónum og fiskurinn varð brátt að ljúffengri máltíð.

Það er til frásögn í Gamla testamentinu um mann sem féll í álíka gildru. Sá maður var hinn máttugi konungur Davíð og það sem gerðist er ein sorglegasta frásögn ritninganna.

„Svo bar til … um það leyti sem konungar eru vanir að fara í hernað, að Davíð sendi Jóab af stað með menn sína og allan Ísrael [og] þeir herjuðu á Ammóníta … en Davíð sat heima í Jerúsalem.

Nú vildi svo til eitt kvöld, að Davíð reis upp úr hvílu sinni og fór að ganga um gólf uppi á þaki konungshallarinnar. Sá hann þá ofan af þakinu konu vera að lauga sig. En konan var forkunnar fögur“ (2, Samúelsbók 11:1–2).

Davíð komst að því að nafn konunnar var Batseba. Eiginmaður hennar, Úría, var hermaður og barðist gegn Ammónítum í her hans, þar sem Davíð konungur hefði getað verið. Davíð lét boða Batsebu í höllina. Þau drýgðu saman hór, hún varð barnshafandi og Davíð tók að óttast að upp kæmist um hórdóm þeirra. Í þeirri von að dylja þessa synd sína, bauð Davíð að Úría yrði sendur aftur til Jerúsalem. Úría sneri til baka, en vildi ekki fara til heimilis síns til að heimsækja Batsebu vegna eigin lífsskoðunar. Davíð sá þá til þess að Úría myndi falla í hernaði (sjá 2. Samúelsbók 11:3–17). Þessi sorglega atburðarás varð til þess að Úría lét lífið og Davíð kallaði eymd yfir sig og Batsebu og loks allt konungsríkið. Af ríkri ástæðu segir í Biblíunni: „En Drottni mislíkaði það, sem Davíð hafði gjört“ (2. Samúelsbók 11:27).

Sjáið þið hvernig Davíð var fangaður í þessa gildru? Hann var upp á garðþaki hallar sinnar og fyrir neðan í garði nágranna síns sá hann nokkuð sem hann hefði betur aldrei séð. Það var beita óvinarins. Hæverska, skírlífi og góð dómgreind kröfðust þess að Davíð hætti að horfa og héldi þegar á braut, en hann gerði hvorugt. Þess í stað tók hann að velta sér upp úr forboðnum ímyndunum, hugsunum sem leiddu til verknaðar og brátt vatt atburðarásin upp á sig og varð enn verri og loks banvæn. Davíð var í sjálfheldu og hvað hann varðaði voru afleiðingarnar eilífar.

Á okkar tímum er til andleg gildra sem nefnist klám og margir sem falla fyrir hennar lokkandi beitu, lenda í þessari banvænu gildru. Líkt og á við um allar gildrur, þá er auðvelt að falla í hana en erfitt að losna úr henni. Sumir telja sér trú um að þeir geti endrum og eins skoðað klámmyndir án þess að verða fyrir slæmum áhrifum af því. Til að byrja með segja þeir: „Þetta er ekki svo slæmt,“ eða „hverjum er ekki sama? Þetta skiptir engu máli,“ eða „þetta er bara forvitni.“ En þeir blekkja sjálfa sig. Drottinn hefur sagt: „Og sá, sem lítur á konu með girndarhug, mun afneita trúnni og ekki hafa andann. Og iðrist hann ekki skal honum vísað burt“ (K&S 42:23). Það er nákvæmlega það sem gerðist hjá Davíð: Hann horfði á Batsebu, girntist hana og andinn hvarf frá honum. Hve öðruvísi ævi Davíðs hefði getað orðið, ef hann hefði aðeins litið undan.

Auk þess að andinn hverfi frá þeim sem nota klámefni, þá missa þeir eigin yfirsýn og verða ekki samkvæmir sjálfum sér. Þeir reyna, líkt og Davíð konungur, að leyna synd sinni, en gleyma að auga Drottins er alsjáandi (sjá 2. Nefí 27:27). Hinar raunverulegu afleiðingar taka að hlaðast upp þegar menn missa sjálfsvirðinguna, ljúfleikinn hverfur úr samböndum, hjónabandið visnar og saklaus fórnarlömb taka að hrannast upp. Þeir komast að því að það sem þeir hafa leyft sér að skoða, veitir þeim ekki lengur ánægju og því leiðast þeir út í enn svæsnara efni. Smám saman ánetjast þeir, jafnvel þótt þeim sé það ekki ljóst, og hegðun þeirra tekur að hraka, líkt og hjá Davíð, þegar siðferðisstaðlar hverfa.

Eftir því sem vinsæl menning um heim allan úrkynjast, verða fjölmiðlar, skemmtanir, auglýsingar og Alnetið gegnsýrt af auknum sora. En vinsældir, samkvæmt hinum ríkjandi stöðlum heimsins, eru hættulegur mælikvarði á hvað rétt er og jafnvel meinlaust. Kvikmyndir eða sjónvarpsþættir kunna að vera þekktir og vinsælir meðal milljóna áhorfenda, en samt sýna þeir klámfengna hegðun. Ef eitthvað í kvikmynd „er ekki of slæmt,“ fellur það líka sjálfkrafa undir það að vera ekki nógu gott. Sú staðreynd að aðrir horfa á slæmar kvikmyndir eða fara á slæmar vefsíður er okkur ekki til afsökunar. Líf prestdæmishafa ætti að vera í samræmi við staðla frelsarans og kirkju hans, en ekki staðla heimsins.

Frelsarinn kenndi: „Og blessaðir eru allir hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá“ (3. Nefí 12:8). Fyrirheit fagnaðarerindisins eru uppörvandi og göfgandi, jafnvel upphefjandi. Við hljótum þau fyrirheit með sáttmála, sem bundin eru því skilyrði að við séum hrein og siðsöm. Þegar líferni okkar er rétt og við kappkostum að hreinsa hjarta okkar, munum við komast nær Guði og andanum. Ástand hjarta okkar mun ákvarða hve mikil teikn við sjáum um Guðdóminn í heiminum nú og gerir okkur hæf til að skilja til hlítar fyrirheitið um að hinir hreinu „munu Guð sjá.“ Okkur ber að keppa að hreinleika. Jóhannes postuli ritaði í þessu sambandi:

„Þér elskaðir, nú þegar erum vér Guðs börn, og það er enn þá ekki orðið bert, hvað vér munum verða. Vér vitum, að þegar hann birtist, þá munum vér verða honum líkir, því að vér munum sjá hann eins og hann er.

Hver sem hefur þessa von til hans hreinsar sjálfan sig, eins og Kristur er hreinn“ (1. Jóhannesarbréf 3:2–3).

Ef þið eruð þegar fangaðir í gildru klámsins, skuluð þið nú þegar bjarga ykkur úr henni með hjálp frelsarans. Það er hægt að losna, en þið verðið að fá hjálp hans til þess. Hin fullnægjandi lækning er háð fullnægjandi iðrun ykkar. Farið þegar í stað til biskups ykkar. Leitið innblásinnar leiðsagnar hans. Hann mun hjálpa ykkur að gera áætlun um iðrun, sem mun veita ykkur sjálfsvirðinguna og andann að nýju. Græðandi máttur friðþægingar Drottins Jesú Krists nær yfir allar hörmungar, jafnvel þessa. Ef þið snúið ykkur að frelsaranum af öllu hjarta og fylgið leiðsögn biskups ykkar, munuð þið finna nauðsynlega lækningu. Frelsarinn mun gera ykkur kleift að finna styrk til að standast freistinguna og mátt til að sigrast á fíkn ykkar, líkt og Moróní kenndi:

„ … Og enn vil ég hvetja yður að koma til Krists og höndla hverja góða gjöf og snerta ekki hina illu gjöf, né það, sem óhreint er.

Já, komið til Krists, fullkomnist í honum og hafnið öllu óguðlegu. Og ef þér hafnið öllu óguðlegu og elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk, þá bregst yður eigi náð hans, en fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi“ (Moróní 10:30, 32).

Megi Guð blessa einlægan ásetning okkar til að verða hreinir í hjarta og huga, svo að „dyggðir [megi] prýða hugsanir [okkar] linnulaust“ (K&S 121:45). Ég ber vitni um endurleysandi elsku frelsarans og hreinsandi mátt friðþægingar hans, í nafni Jesú Krists, amen.