2000–2009
En þótt hann gjöri það ekki …
Apríl 2004


En þótt hann gjöri það ekki …

Menn koma mörgu dásamlegu til leiðar með því að treysta Drottni og halda boðorð hans – iðka trú, jafnvel þótt þeir geri sér ekki grein fyrir á hvaða hátt Drottinn mótar þá.

Þegar ég var piltur kom ég eitt sinn heim af skólakörfuboltakeppni, hryggur í bragði og í uppnámi. Ég kveinkaði mér við mömmu: „Ég skil ekki hvers vegna við töpuðum – ég hafði trú á að við myndum vinna!“

Ég geri mér nú ljóst að ég hafði ekki skilning á trú.

Trú er ekki mannalæti, ekki bara ósk um eitthvað, ekki vonin ein. Sönn trú er trú á Drottin Jesú Krist – að eiga sannfæringu um að Jesú leiði mann til fylgdar við sig.1

Fyrir mörgum öldum voru Daníel og vinum hans skyndilega svipt úr öruggu umhverfi yfir í heiminn – ókunnan og skelfilegan heiminn. Þegar Sadrak, Mesak og Abed-Negó neituðu að tilbiðja gull-líkneskið, sem konungur hafði látið búa til, Þá fylltist Nebúkadnesar heiftarreiði og sagði að ef þeir gerðu ekki eins og þeim var boðið, yrði þeim þegar í stað kastað í eldsofn. „Hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?“2

Ungu mennirnir svöruðu ákveðnir að bragði: „Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss [ef þú kastar okkur í eldsofninn], þá mun hann frelsa oss … af þinni hendi.“ Þetta hljómar eins og trú mín í barnaskóla. Þeir sýndu síðan að þeir skildu fyllilega merkingu trúar. Þeir sögðu áfram: „En þótt hann gjöri það ekki … munum [vér] ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“3 Yfirlýsing þessi gefur sanna trú til kynna.

Þeir vissu að þeir gátu lagt traust sitt á Guð – jafnvel þótt allt færi ekki að þeirra óskum.4 Þeim var ljóst að trú er meira en játningin ein, meira en samþykki að Guð lifir. Trú er að leggja allt sitt traust á hann.

Trú er sannfæring um að hann skilji alla hluti, þótt við skiljum ekki alla hluti. Trú er vitneskja um að máttur hans sé ótakmarkaður, þótt máttur okkar sé takmarkaður. Trú á Jesú Krist er háð því að við treystum honum algjörlega.

Sadrak, Mesak og Abed-Negó vissu að þeir gætu alltaf reitt sig á hann, því þeir þekktu áætlun hans og vissu að hann væri alltaf sá sami.5 Þeir vissu líkt og við að jarðlífið væri ekki aðeins tilviljunin ein. Að það er lítill hluti af hinni miklu áætlun6 okkar ástkæra föður á himnum, til að gera okkur mögulegt, sonum hans og dætrum, að hljóta sömu blessanir og hann nýtur, ef við erum fús til þess.

Þeir vissu líkt og við að í fortilverunni hlutum við fræðslu hans um tilgang jarðlífsins: „Við munum gjöra jörð, sem þessir geta dvalið á – og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.”7

Hér höfum við það – um prófraun er að ræða. Heimurinn er staður prófraunar jarðneskra karla og kvenna. Þegar okkur verður ljóst að um prófraun er a ræða, sem himneskur faðir útfærir og vill að við leggjum traust okkar á hann og leyfum honum að hjálpa okkur, verður sýn okkar skarpari.

Hann hefur sagt okkur að verk sitt og dýrð sín sé að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.”8 Hann hefur þegar náð guðdómi. Hann hefur því aðeins að marki nú að hjálpa okkur – að gera okkur kleift að snúa að nýju til sín, vera lík honum og lifa að eilífu því lífi sem hann lifir.

Þessir þrír ungu Hebrear áttu því ekki í vandkvæðum með að taka þessa ákvörðun sína, þar sem þeir bjuggu yfir slíkri vitneskju. Þeir ætluðu sér að fylgja Guði; þeir ætluðu sér að iðka trú á hann. Hann mundi bjarga þeim – en þótt hann [gjörði] það ekki – og við þekkjum framhaldið.

Drottinn hefur gefið okkur sjálfræði, sem er réttur og ábyrgð til eigin ákvarðana.9 Hann reynir okkur með því að láta okkur fást við vandamál. Hann fullvissar okkur um að hann muni ekki láta freista okkur um megn fram.10 Okkur verður þó að skiljast að miklir erfiðleikar eru efniviður að miklum mönnum. Við sækjumst ekki eftir mótlæti, en ef við bregðumst við af trú, mun Drottinn styrkja okkur. En þótt hann gjöri það ekki, getur það orðið okkur til ómældrar blessunar.

Páll postuli lærði þessa þýðingarmiklu lexíu og lýsti svo yfir eftir áratuga starf á trúboðsakrinum: „Vér fögnum … í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki.“11

Frelsarinn fullvissar okkur: „Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika.12

Páll svaraði: „Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér. … Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.“13 Trú hans efldist þegar hann tókst á við erfiðleika sína að hætti Drottins.

Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur.“14 Abraham var heitið fleiri niðjum en stjörnur væru á himni, vegna mikillar trúar sinnar og að þeir ættu að koma af Ísak. Abraham fór þegar að boði Drottins. Guð myndi halda heit sitt, en þótt hann gjöri það ekki á þann hátt sem Abraham vænti, hugðist hann samt leggja allt sitt traust á hann.

Menn koma mörgu dásamlegu til leiðar með því að treysta Drottni og halda boðorð hans – iðka trú, jafnvel þótt þeir geri sér ekki grein fyrir á hvaða hátt Drottinn mótar þá.

Fyrir trú hafnaði Móse því … að vera talinn dóttursonur Faraós

og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands. …

Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins. …

Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land. …

Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar.“15

Og enn frekar: „Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, … iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit, byrgðu gin ljóna,

slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum, urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði.“16

En í öllum þessum dýrðlegu tilvikum, sem slíkir trúaðir menn höfðu vænst, var alltaf um að ræða möguleikann en þótt hann gjöri það ekki:

„Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.

Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu … alls vana, aðþrengdir og illa haldnir. …17

Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.“18

Ritningar okkar og saga eru uppfull af frásögnum mikilhæfra karla og kvenna Guðs, sem trúðu að hann myndi bjarga þeim, en þótt hann [gjörði] það ekki, var sönnun þess að þau vildu treysta og trúa.

Hann hefur máttinn – en prófraunin er okkar.

Hvers væntir Drottinn af okkur er erfiðleikar kveða dyra? Hann væntir þess að við gerum allt í okkar valdi. Hann mun gera allt annað. Nefí sagði: „Því að vér vitum, að vér frelsumst fyrir náð, að afloknu öllu, sem vér getum gjört.“19

Við þurfum að hafa sömu trú og Sadrak, Mesak og Abed-Negó.

Guð okkar mun bjarga okkur frá spotti og ofsóknum, en þótt hann gjöri það ekki. … Guð okkar mun bjarga okkur frá sjúkdómum og veikindum, en þótt hann gjöri það ekki … . Hann mun bjarga okkur frá einmanaleika, depurð og ótta, en þótt hann gjöri það ekki. … Guð okkar mun bjarga okkur frá ógnum, ásökunum og óöryggi, en þótt hann gjöri það ekki. … Hann mun bjarga okkur frá missi eða slysi ástvina , en þótt hann gjöri það ekki, … munum við leggja traust okkar á Drottin.

Guð okkar mun sjá til þess að við njótum réttlætis og sanngirnis, en þótt hann gjöri það ekki. … Hann mun tryggja að við séum elskuð og viðurkennd, en þótt hann gjöri það ekki. … Hann mun tryggja að við hljótum fullkominn maka og réttlát og hlýðin börn, en þótt hann gjöri það ekki… munum við trúa á Drottin Jesú Krist og vita að ef við gerum allt í okkar valdi, munum við á hans tíma og að hans hætti, endurleysast og hljóta allt sem hans er.20 Um það vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.