2010–2019
Láta anda okkar ríkja yfir líkama okkar
Aðalráðstefna október 2019


Láta anda okkar ríkja yfir líkama okkar

Eitt það mikilvægasta sem við fáum lært í þessu lífi, er hvernig styrkja á okkar eilífa andlega eðli og stjórna illum þrám okkar.

Kæru bræður og systur, í aðdraganda aðalráðstefnu í október á síðasta ári, lagði ég áherslu á það í ráðstefnuræðu minni að 100 ár væru liðin frá því að Joseph F. Smith forseti hlaut sýnina um andaheiminn, 3. október 1918.

Nokkrum dögum eftir að ég hafði sent ræðuna mína til þýðingar, lauk jarðneskri tilveru míns ástkæra eilífa förunautar, Barböru, og hún fór yfir í andaheim.

Þegar dagar hafa orðið að vikum, síðan mánuðum og nú að ári frá andláti Barböru, finnst mér þetta vers verða mér dýrmætara: „Þér skuluð búa saman í kærleika, svo að þér grátið missi þeirra er deyja.“1 Ég og Barbara nutum þeirrar blessunar að „búa saman í kærleika“ í 67 ár. Mér hefur líka lærst á afar raunverulegan hátt hvað í því felst að „[gráta] missi“ þeirra sem við elskum. Ó, hve ég elska hana og sakna hennar!

Ég býst við að flest okkar meti ekki fyllilega hvað aðrir gera fyrir okkur fyrr en þeir eru horfnir. Ég vissi að Barbara var alltaf önnum kafin, en ég skildi ekki fyllilega kröfurnar sem fjölskylda, kirkja og samfélag gerðu á hennar tíma. Það voru dagleg helguð verk, ótal sinnum endurtekin í áranna rás, sem héldu fjölskyldu okkar á réttri braut. Í þessu öllu heyrði engin í fjölskyldu okkar hana hækka röddina eða segja óvingjarnlegt orð.

Minningarnar hafa flætt yfir mig á þessu liðna ári. Ég hef hugsað um hina líkamlegu áreynslu sem fylgdi því vali hennar að verða sjö barna móðir. Að vera húsmóðir, var það eina sem hún vildi og hún var í öllu fagmanneskja á því sviði.

Oft hef ég velt fyrir mér hvernig hún sá til þess að börnin og ég hefðum það sem við þurftum. Matreiðslan ein var sannlega óárennilegt verkefni, svo ekki sé minnst á gjörning eins og að þvo það fjall af þvotti, sem fjölskylda okkar hrúgaði upp í hverri viku og að hafa skó og viðeigandi fatastærðir til reiðu fyrir börnin. Öll fórum við til hennar með ógrynni annarra mála, sem voru okkur mikilvæg. Þar sem þau voru okkur mikilvæg, voru þau henni mikilvæg. Hún var í einu orði sagt, stórkostleg – sem eiginkona, móðir, vinur, nágranni og dóttir Guðs.

Nú, er hún hefur farið sinn veg, gleðst ég yfir að hafa valið að sitja við hlið hennar er ég kom heim af skrifstofunni síðustu mánuði lífs hennar, til að halda í hönd hennar, er við horfðum á lokaatriði sumra eftirlætis söngleikja hennar – aftur og aftur, því sökum Alzheimerssjúkdóms hafði hún gleymt því að hafa horft á þær síðdegis deginum áður. Minningin um þær sérstöku stundir að haldast í hendur eru mér nú afar kærar.

Bræður og systur, látið það tækifæri ekki fara forgörðum að horfast í augu fjölskyldumeðlima ykkar af ástúð. Börn og foreldrar, gætið að hvert öðru og tjáið elsku ykkar og þakklæti. Sum ykkar gætuð, líkt og ég sjálfur, vaknað dag einn upp við það að tími slíkra mikilvægra samskipta er liðinn. Lifið saman full þakklætis dag hvern, með góðar minningar, þjónustu og ríkan kærleika.

Á þessu liðna ári hef ég ígrundað meira en nokkru sinni áður áætlun himnesks föður. Þegar Alma kenndi syni sínum, Koríanton, sagði hann hana vera „hina miklu sæluáætlun.“2

Orðið sem nú kemur stöðugt upp í hugann, er ég ígrunda áætlunina, er „endurfundur.“ Það er áætlun, sem kærleiksríkur himneskur faðir gerði, sem hefur að þungamiðju hinn mikla og dýrðlega möguleika á samfundi fjölskyldunnar – eilífa sameiningu eiginmanns og eiginkonu, foreldra og barna, kynslóð fram af kynslóð, í húsi Guðs.

Sú hugsun veitir mér huggun og fullvissu um að ég muni vera aftur með Barböru. Þótt hún hafi þjáðst líkamlega er dró að lokum lífs hennar, var hún sterk, göfug og hrein í anda. Hún hafði haft sig til reiðu í öllu, svo að hún geti full sjálfstrausts og kyrrlátrar fullvissu staðið frammi fyrir „ljúfum dómgrindum Guðs,“3 þegar sá dagur rennur upp. Hér er ég svo, 91 árs að tveimur dögum liðnum, og velti enn fyrir mér: „Er ég reiðubúinn?“ Geri ég allt sem ég þarf að gera til að geta haldið aftur í hönd hennar?“

Einfaldasta grundvallarvissa lífsins er þessi: Við munum öll deyja. Enginn sleppur við dauðann, við deyjum hvort heldur öldruð eða ung, hæglátlega eða erfiðlega, auðug eða snauð, elskuð eða einmana.

Fyrir nokkrum árum sagði Gordon B. Hinckley forseti nokkuð þýðingarmikið umi þetta: „Hversu ljúf er fullvissan, hversu hughreystandi er friðurinn sem hlýst af þeirri vitneskju, að ef við giftum okkur rétt og lifum rétt, mun samband okkar halda áfram, þrátt fyrir dauðans vissu og tímans rás.“4

Ég giftist vissulega rétt. Um það ríkir enginn vafi. Það er þó ekki nægjanlegt, sagði Hinckley forseti. Ég verð líka að lifa rétt.5

Á okkar tíma getur það verið nokkuð flókið að „lifa rétt,“ einkum ef þið verjið miklum tíma á samfélagsmiðlum, þar sem sérhver getur lýst yfir sönnum eða fölskum hugmyndum um Guð og áætlun hans fyrir börn sín. Meðlimir kirkjunnar hafa, til allrar hamingju, eilíflega sannar trúarreglur, sem sýna hvernig lifa á, til að vera betur undir dauðann búin.

Aðeins nokkrum mánuðum áður en ég fæddist, flutti postulinn og afi minn, öldungur Melvin J. Ballard, ræðu, um efni sem sumum fannst kjarni þess að lifa rétt. Hún bar yfirskriftina „Barátta um sálina“ og fjallaði um hina stöðugu togstreitu á milli líkama og eilífs anda okkar.

Hann sagði: „Mikilvægasta barátta hvers karls eða konu … er baráttan sem háð er hið innra,“ og hann útskýrði að Satan, „óvinur sálna okkar,“ geri aðför að okkur í gegnum „girndir, ástríður og metnað holdsins.“6 Megin baráttan er því á milli okkar guðlega og andlega eðlis og hins holdlega og náttúrlega manns. Bræður og systur, minnist þess að getum notið andlegrar hjálpar með áhrifum heilags anda, sem mun „kenna yður allt.“7 Hjálp getur líka borist með krafti og blessunum prestdæmisins.

Ég spyr nú: „Hvernig standið þið ykkur í þessari baráttu?“

David O. McKay forseti sagði: „Jarðnesk tilvera mannsins er einungis prófraun um hvort hann helgi verk sín, huga sinn, sál sína, því sem er þægilegt og fullnægjandi líkamlegu eðli hans eða hvort hann geri það að [tilgangi] lífsins að keppa að andlegum eiginleikum.“8

Þessi togstreita á milli okkar holdlega og andlega eðlis, er ekki ný af nálinni. Í síðustu prédikun sinni fyrir fólki sínu, kenndi Benjamín konungur: „Hinn náttúrlegi maður er óvinur Guðs og hefur verið það frá falli Adams og mun verða það alltaf og að eilífu, nema hann láti undan umtölum hins heilaga anda, losi sig úr viðjum hins náttúrlega manns og verði heilagur fyrir friðþægingu Krists, sjálfs Drottins.“9

Páll postuli kenndi: „Þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.

Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.“10

Mér virðist ljóst að eitt það mikilvægasta sem við fáum lært í þessu lífi, er hvernig styrkja á okkar eilífa andlega eðli og stjórna illum þrám okkar. Þetta ætti ekki að vera svo erfitt. Auk þess hefur andi okkar, sem á sér lengri tilveru en efnislíkami okkar, þegar notið farsældar með því að velja réttlæti fram yfir hið illa í fortilverunni. Áður en þessi jörð var mynduð, dvöldum við í andaheiminum sem synir og dætur himneskra foreldra, sem elskuðu okkur og halda áfram að elska okkur.

Við þurftum jú að taka lífsmótandi ákvarðanir í þeirri fortilveru. Hver sá einstaklingur sem hefur lifað og mun lifa á þessari plánetu, tók þá mikilvægu ákvörðun að samþykkja áætlun himnesks föður okkur til sáluhjálpar. Við komum því öll til jarðar með vottaða skýrslu um gott andlegt eðli og farsæl eilíf örlög.

Ígrundið það um stund. Þetta er það sem við erum í raun og höfum alltaf verið, synir eða dætur Guðs, með andlegar eilífar rætur og framtíð gædd ríkulegum óendanlegum möguleikum. Þið eruð – fyrst og fremst og alltaf – andlegar verur. Þegar við því kjósum að setja okkar holdlega eðli framar okkar andlega eðli, erum við að velja það sem er andstætt raunverulegu, sönnu, auðkenni okkar andlega sjálfs.

Það er þó engin spurning að holdlegar og jarðneskar ástríður flækja ákvarðanatökur. Þar sem gleymskuhula er sett á milli andaheims fortilverunnar og þessa dauðlega heims, er auðvelt fyrir okkur að missa sjónar á sambandi okkar við Guð og okkar andlega eðli og þá getur hið holdlega eðli okkar sett það í forgang sem við viljum einmitt núna. Að læra að velja það sem andans er, fremur en það sem holdsins er, er ein megin ástæða þess að þessi jarðneska reynsla er hluti af áætlun himnesks föður. Það er líka ástæða þess að áætlunin er byggð á öruggum grundvelli friðþægingar Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, svo að mögulegt sé að sigrast á syndum okkar, þar með talið mistökunum er við látum stjórnast af holdinu, með stöðugri iðrun, svo við getum verið andlega einbeitt. Þetta er tíminn til að stjórna líkamlegum ástríðum okkar og fylgja andlegri kenningu Krists. Það er ástæða þess að við megum ekki fresta degi iðrunar okkar.11

Iðrun er því ómissandi þáttur í baráttunni við okkur sjálf. Á síðustu aðalráðstefnu vísaði Russell M. Nelson forseti til þessarar baráttu og minnti okkur á að „þegar við veljum að iðrast, veljum við að breytast! Við leyfum frelsaranum að breyta okkur í bestu útgáfu okkar sjálfra. Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar hans. Þegar við veljum að iðrast, veljum við að líkjast Jesú Kristi meira!“12

Dag hvern, er ég fer yfir daginn í bæn með föður mínum á himnum, bið ég um vera fyrirgefið, hafi ég gert eitthvað rangt og lofa að gera betur á morgun. Ég trúi að þessi reglubundna daglega iðrun hjálpi anda mínum að gera líkamanum ljóst hver sé við stjórnvölinn.

Önnur hjálp er hið vikulega tækifæri sem okkur öll gefst til að endurnýja okkur sjálf andlega með því að meðtaka sakramentið í minningu friðþægingarinnar og hinnar fullkomnu elsku sem Drottinn okkar og frelsari, Jesús Kristur, ber til okkar.

Bræður og systur, ég hvet ykkur til að staldra örlítið við og ígrunda hvar þið eruð stödd í því verki að sigrast á hinu náttúrlegu eðli og styrkja ykkar guðlega, andlega eðli, svo þið getið, er sá tími kemur, farið í andaheiminn til gleðilegra samfunda við ástvini ykkar – sem ég vitna um og geri að auðmjúkri bæn minni, í hinu heilaga nafni Drottins, Jesú Krists, amen.