2010–2019
Heiðra hans nafn
Aðalráðstefna október 2019


Heiðra hans nafn

Með aðild og auðkenni sáttmála, erum við kölluð fyrir nafn Jesú Krists.

Þegar foreldrar bíða spenntir eftir fæðingu barns síns, eru þau ábyrg fyrir því að velja nafn fyrir hið nýja barn. Þegar þú fæddist fékkstu kannski nafn sem hafði borist manna á milli í margar kynslóðir. Kannski var nafnið sem þú fékkst vinsælt árið sem þú fæddist eða á því svæði sem þú fæddist.

Spámaðurinn Helaman og kona hans gáfu ungum sonum sínum þýðingarmikil nöfn. Helaman sagði sonum sínum síðar:

„Ég hef gefið ykkur nöfn forfeðra okkar … er nöfn ykkar koma upp í huga ykkar … minnist þeirra, þá minnist þið verka þeirra … að sagt er og einnig ritað, að þau voru góð.

Þess vegna vil ég, synir mínir, að þið gjörið það, sem gott er.“1

Nöfn Nefís og Lehís hjálpuðu þeim að minnast góðra verka forfeðra sinna og hvöttu þá að gera einnig gott.

Systur, sama hvar við búum, hvaða tungumál við tölum eða hvort við séum 8 eða 108 ára, þá deilum við allar sérstöku nafni sem hefur þennan sama tilgang.

„[Við] öll, sem [erum] skírð til samfélags við Krist, [höfum] íklæðst Kristi … [við erum] öll eitt í Kristi Jesú.“2

„Grundvallarsáttmáli okkar,“ sem meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, „[er] við fyrst heitum að taka fúslega á okkur nafn Krists, er staðfestur með skírnarathöfninni.“3 Með þeim sáttmála, lofuðum við að hafa hann ávallt í huga, halda boðorð hans og þjóna öðrum. Fúsleiki okkar til að halda boðorðin er endurnýjaður hvern sunnudag er við meðtökum sakramentið og fögnum aftur í blessunum þess að „lifa nýju lífi.“4

Nafnið sem við hljótum við fæðingu endurspeglar auðkenni okkar sem einstaklinga og veitir okkur aðild að jarðneskum fjölskyldum okkar. Þegar við erum hinsvegar „endurfædd“ við skírn, útvíkkast skilningur okkar á því hver við erum. „Og vegna sáttmálans, sem þér hafið gjört, skuluð þér nefnast börn Krists, … því að sjá. Á þessum degi hefur… hann… getið yður andlega, því að þér segið, að hjörtu yðar hafi breyst fyrir trú á nafn hans. Þess vegna eruð þér af honum fædd.“5

Með aðild og auðkenni sáttmála, erum við því kölluð fyrir nafn Jesú Krists. „Ekkert annað nafn [er] gefið og engin önnur leið eða aðferð, sem fært getur mannanna börnum sáluhjálp, nema í og fyrir nafn Krists, Drottins almáttugs.“6

Nafn Jesú var kunnugt löngu fyrir fæðingu hans. Engillinn spáði fyrir Benjamín konungi: „Og hann skal kallast Jesús Kristur, sonur Guðs, … [og] móðir hans mun kölluð verða María.“7 Verk „endurleysandi elsku“ hans8 var einnig opinberað börnum Guðs í hvert skipti sem fagnaðarerindið var á jörðunni, frá tímum Adams og Evu, fram á okkar tíma, svo þau gætu vitað „til hvaða uppsprettu þau [mættu] leita til fyrirgefningar synda sinna.“9

Á síðasta ári lagði Russel M. Nelson forseti fram „spámannlega beiðni“ til systranna um að „móta framtíðina með því að hjálpa til við samansöfnun Ísraels.“ Hann bauð okkur að lesa Mormónsbók og að „merkja við hvert vers sem fjallar um frelsarann.“ Hann bað okkur síðan að vera „meðvitaðar um að tala um Krist, fagna í Kristi og prédika um Krist meðal fjölskyldu [okkar] og vina.“ Kannski eruð þið byrjaðar að bera kennsl á ávexti loforðs hans um að „þið og þau munuð komast nær frelsaranum. … Breytingar munu þá eiga sér stað, jafnvel kraftaverk.“10

Loforð okkar um að minnast ávallt frelsarans veitir okkur styrk til að standa fyrir sannleika og réttlæti – hvort sem við erum í stórum hópi eða í einrúmi, þar sem enginn veit um gjörðir okkar nema Guð. Þegar við minnumst hans og þess nafns sem við berum, höfum við ekkert rými fyrir niðurrífandi samanburð eða yfirlætislegan dóm. Ef við horfum til frelsarans, sjáum við okkur eins og við erum – ástkært barn Guðs.

Þegar við minnumst sáttmála okkar, minnkar það veraldlegar áhyggjur okkar, snýr sjálfsefa í hugrekki og veitir von á erfiðleikatímum.

Þegar við hrösum og föllum á leið okkar um sáttmálsveginn, verðum við einungis að minnast nafns hans og kærleika til okkur. „Því að hans er allt vald, öll viska og allur skilningur. Hann skilur alla hluti, og hann er miskunnsöm vera, … [þeim] sem vilja iðrast og trúa á nafn hans.“11 Vissulega er ekkert yndislegra þeim sem leitast við að „gera betur og vera betri,“12 og hafa sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda, en nafn Jesú.

Nelson forseti kenndi: „Þeir dagar eru liðnir þegar þið getið verið hljóðir og afslappaðir kristnir einstaklingar. Trú ykkar snýst ekki um að mæta bara í kirkju á sunnudögum. Hún snýst um að vera sannur lærisveinn frá sunnudagsmorgni fram yfir laugardagskvöld. … Það er ekkert til sem heitir hlutastarfslærisveinn Drottins Jesú Krists.“13

Fúsleiki okkar til að taka á okkur nafn Krists er meira en að skiptast formlega á orðum. Það er ekki óvirkt loforð eða menningalegur uppspuni. Það er ekki manndómsvígsla eða nafnspjald sem við berum. Það er ekki bara orðatiltæki sem við stillum upp á hillu eða hengjum upp á vegg. Nafn hans er nafn sem við „[íklæðumst],“14 sem er skrifað á hjarta okkar og „greypt í svip [okkar].“15

Ávallt ætti að minnast friðþægingarfórnar frelsarans í hugsun, gjörðum og samskiptum við aðra. Hann man ekki bara nöfn okkar, heldur minnist hann okkar alltaf. Frelsarinn kenndi:

„Hvort fær kona gleymt brjóstabarni sínu, svo að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu? Já, þær gætu gleymt, en ég mun ekki gleyma þér, ó Ísraelsætt.

Sjá, ég hef rist þig á lófa mína.“16

George Albert Smith forseti kenndi: „Heiðrið nöfnin sem þið berið, því sá dagur kemur að þið munið hafa þau forréttindi og skyldu að mæta frammi …fyrir föður ykkar á himni … og segja honum hvað þið hafið gert með [þessi] nöfn.“17

Er hægt að segja um okkur, eins og hin vandlega völdu nöfn Nefí og Lehí, að við séum sannir lærisveinar Drottins Jesú Krists? Heiðrum við nafn Jesú Krists, sem við höfum fúslega tekið á okkur sjálf? Erum við bæði „þjónar og vitni“18 að kærleika hans og endurleysandi krafti?

Fyrir ekki löngu var ég að hlusta á Mormónsbók. Í síðasta kapítula 2. Nefís heyrði ég Nefí segja nokkuð sem ég hafði aldrei lesið á sama hátt áður. Allt í gegnum heimildir sínar kennir hann og ber vitni um „lausnarann,“ hinn „heilaga Ísraels,“ „Guðslambið“ og „Messías.“ Er hann lauk frásögn sinn, heyrði ég hann segja þessi orð: „Ég miklast í hreinskilni og miklast í sannleika og miklast í Jesú mínum, því að hann hefur leyst sál mína.“19 Þegar ég heyrði þessi orð, gladdist hjarta mitt og ég varð að hlusta aftur og aftur. Ég gerði mér grein fyrir og brást við þessu versi eins og ég þekki og svara mínu eigin nafni.

Drottinn hefur sagt: „Já, blessað er það fólk, sem ber nafn mitt af fúsum vilja, því að mínu nafni verður það kallað, og það tilheyrir mér.“20

Megum við sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, „[taka] fúslega á [okkur] nafn Krists“21 með því að heiðra nafn hans með elsku, tilbeiðslu og góðum verkum. Ég ber vitni um að hann er „Guðslambið, já [sonur] hins eilífa föður.“22 Í nafni hans heilaga barns, Jesú Krists, amen.