2010–2019
Vitni, sveitir Aronsprestdæmisins og námsbekkir Stúlknafélagsins
Aðalráðstefna október 2019


Vitni, sveitir Aronsprestdæmisins og námsbekkir Stúlknafélagsins

Breytingunum, sem við nú kynnum, er ætlað að auðvelda piltum og stúlkum að þróa sína helgu persónulegu möguleika.

Kæru bræður og systur, það er dásamlegt að vera aftur meðal ykkar á aðalráðstefnu. Fyrr í vikunni var meðlimum kirkjunnar kynntar breytingar á reglum er varða þá sem geta þjónað sem vitni að helgiathöfnum skírnar og innsiglunar. Ég ætla að undirstrika þau þrjú atriði.

  1. Hver sá sem hefur gild musterismeðmæli, líka takmörkuð meðmæli, getur þjónað sem vitni að staðgengilsskírn fyrir látinn einstakling.

  2. Hver sá meðlimur sem hefur musterisgjöf og gild musterismeðmæli, getur þjónað sem vitni að helgiathöfnum innsiglunar hinna lifandi og innsiglunar með staðgenglum.

  3. Hver skírður meðlimur kirkjunnar getur þjónað sem vitni að skírn lifandi einstaklings. Þessi breyting á við um allar skírnir utan musteris.

Þessar reglubreytingar eru formlegs eðlis. Undirliggjandi kenningar og sáttmálar eru óbreyttar. Þær eru álíka áhrifaríkar í öllum helgiathöfnum. Þessar breytingar ættu að auka til muna þátttöku fjölskyldna í þessum helgiathöfnum.

Að þessu sinni ætla ég líka að kynna ykkur breytingar sem varða ungmenni okkar og leiðtoga þeirra.

Þið munið eftir að ég bauð ungmennum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu að skrá sig í æskulýðsfylkingu Drottins, til að taka þátt í mikilvægasta málstað á jörðu í dag – samansöfnun Ísraels.1 Ég bauð ungmennum okkar að gera svo, vegna þess að þau búa að þeirri sérstöku hæfni að ná til annarra og miðla því sem þau trúa á sannfærandi hátt. Samansöfnunin er mikilvægur hluti af því að búa heiminn og íbúa hans undir síðari komu Drottins.

Æskulýðsfylking Drottins er í hverri deild leidd af biskupi, trúföstum þjóni Guðs. Megin ábyrgð hans er að annast piltana og stúlkurnar í deildinni hans. Biskupinn og ráðgjafar hans stjórna starfi sveita Aronsprestdæmisins og námsbekkja Stúlknafélagsins í deildinni.

Breytingunum, sem við nú kynnum, er ætlað að auðvelda piltum og stúlkum að þróa sína helgu persónulegu möguleika. Við viljum líka styrkja sveitir Aronsprestdæmisins og námsbekki Stúlknafélagsins og sjá biskupum og öðrum fullorðnum leiðtogum fyrir stuðningi við að þjóna þessari upprennandi kynslóð.

Öldungur Quentin L. Cook mun nú ræða breytingarnar sem varðar piltana. Í kvöld mun systir Bonnie H. Cordon, aðalforseti Stúlknafélagsins, síðan ræða breytingarnar sem varða stúlkurnar.

Æðsta forsætisráðið og hinir Tólf eru einhuga í framsetningu þessa starfs til styrktar ungmennum. Ó, hve við elskum þau og biðjum fyrir þeim! Þau eru „Vonin Síons, æskan unga endurlausnar glæsti her.“2 Við tjáum unga fólkinu okkar fyllsta traust og þakklæti. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson, “Hope of Israel” (heimslæg trúarsamkoma fyrir ungt fólk, 3. júní 2018), HopeofIsrael.ChurchofJesusChrist.org.

  2. „Vonin Síons,“Sálmar, nr: 108.