2010–2019
Treystið Drottni
Aðalráðstefna október 2019


Treystið Drottni

Eina áreiðanlega öryggið er traust á Drottni og elsku hans fyrir börn sín.

Kæru bræður og systur, bréf sem ég fékk fyrir nokkru er kynning á ræðu minni. Höfundur þess var að íhuga að giftast í musterinu manni sem misst hafði maka sinn. Hún yrði síðari eiginkona hans. Hún spurði eftirfarandi: Mundi hún eiga sitt eigið hús í næsta lífi eða yrði hún að búa með manni sínum og fyrri eiginkonu hans? Ég sagði henni bara að setja traust sitt á Drottin.

Ég held máli mínu áfram með reynslu kærs félaga, sem ég miðla með samþykki hans. Eftir fráfall ástríkrar eiginkonu og móður barna hans, giftist þessi faðir á ný. Sum uppkomnu barnanna voru ákaflega á móti hjónabandinu og leituðu ráða hjá nánum ættingja, sem var virtur leiðtogi kirkjunnar. Eftir að hafa hlýtt á röksemdir mótbára þeirra, sem snéru að aðstæðum og samböndum í andaheiminum, eða í dýrðarríkjum sem kæmu eftir lokadóminn, sagði þessi leiðtogi: „Þið hafið áhyggjur af röngum hlutum. Þið ættuð að hafa áhyggjur af því hvort þið komist á þessa staði. Einbeitið ykkur að því. Ef þið komist þangað, verður allt dásamlegra en þið fáið ímyndað ykkur.“

Þetta er hughreystandi kenning! Treystið Drottni!

Af bréfum sem ég hef fengið, veit ég að spurningar varðandi þann andaheim sem við munum dvelja í eftir að við deyjum og áður en við rísum upp, íþyngja öðrum. Sumir álíta að í andaheiminum verði áframhald á stundlegum kringumstæðum og málefnum sem við tökumst á við í jarðneska lífinu. Hvað vitum við raunverulega um aðstæður í andaheiminum? Ég trúi að grein eftir prófessor í trúarbrögðum í BYU hitti naglann á höfuðið: „Þegar við spyrjum okkur sjálf hvað við vitum um andaheiminn úr ritningunum, þá er svarið: ‚Ekki eins mikið og við höldum.‘“1

Úr ritningunum vitum við auðvitað að eftir að líkamar okkar deyja, höldum við áfram að lifa sem andar í andaheiminum. Ritningarnar kenna einnig að þessum andaheimi sé skipt milli þeirra sem hafa verið „réttlátir“ eða „réttvísir“ í lífinu og þeirra sem hafa verið ranglátir. Þær lýsa því einnig hvernig ýmsir réttlátir andar predika fagnaðarerindið fyrir þeim sem voru ranglátir eða uppreisnargjarnir (sjá 1. Pétursbréfið 3:19; Kenning og sáttmálar 138:19–20, 29, 32, 37). Það sem mest er um vert, að í nútíma opinberunum kemur fram að starf sáluhjálpar haldi áfram í andaheiminum (sjá Kenning og sáttmálar 138:30–34, 58) og þótt við séum hvött til að fresta ekki iðruninni í jarðlífinu (sjá Alma 13:27), þá er okkur kennt að einhver iðrun sé möguleg þar (sjá Kenning og sáttmálar 138:58).

Sáluhjálparstarfið í andaheiminum felst í því að frelsa anda úr því sem ritningarnar nefna gjarnan „fjötra.“ Allir í andaheiminum eru í nokkurs konar fjötrum. Í hinni miklu opinberun Josephs F. Smith, sem í ritningunum varð að kafla 138 í Kenningu og sáttmálum, kemur fram að hinir réttlátu dánu, sem upplifðu „[frið]“ (Kenning og sáttmálar 138:22) meðan þeir biðu eftir upprisunni (sjá Kenning og sáttmálar 138:16), „höfðu litið á hina löngu fjarveru anda sinna frá líkömum þeirra sem fjötra“ (Kenning og sáttmálar 138:50).

Hinir ranglátu þola einnig annars konar fjötra. Sökum synda sem ekki var iðrast fyrir, eru þeir í „varðhaldi,“ eins Pétur postuli nefndi það (1. Pétursbréfið 3:19; sjá einnig Kenning og sáttmálar 138:42). Öndum þessum er lýst sem „[fjötruðum]“ eða „herteknum“ (Kenning og sáttmálar 138:31, 42), eða að þeim hafi verið „vísað út í ystu myrkur“ og að þar sé „grátur og kvein og gnístran tanna“ meðan þeir bíða upprisutíma síns og dóms (Alma 40:13-14).

Upprisa allra í andaheiminum er tryggð með upprisu Jesú Krists (sjá 1. Korintubréfið 15:22), þó að hún eigi sér stað á mismunandi tímum fyrir mismunandi hópa. Ritningarnar kenna okkur að það sem á sér stað í andaheiminum fram að þeim tíma, sé fyrst og fremst sáluhjálparstarf. Lítið annað er opinberað. Fagnaðarerindið er predikað hinum fáfróðu, þeim sem ekki iðrast og þeim uppreisnargjörnu, þannig að þeir geti frelsast úr fjötrum og stefnt að þeim blessunum sem ástríkur faðir á himnum geymir þeim.

Þessi ánauð andaheims, sem á við um réttlátar og trúarlega viðsnúnar sálir, felst í því að þær þurfa að bíða eftir – og er stundum jafnvel leyft að hvetja til þess – að helgiathafnir staðgengla verði framkvæmdar fyrir þá á jörðu, svo þær fái skírst og notið blessana heilags anda (sjá Kenning og sáttmálar 138:30–37, 57–58).2 Þessar helgiathafnir dauðlegra staðgengla, gerir þeim líka kleift að sækja fram með prestdæmisvaldi, til að auka fjölda hinna réttlátu sem geta prédikað fagnaðarerindið fyrir öndunum í varðhaldinu.

Umfram þessi grundvallaratriði innihalda ritningarnar afar lítið um andaheiminn, sem kemur á eftir dauðanum og á undan lokadómnum.3 Hvað annað vitum við um andaheiminn? Margir meðlimir kirkjunnar hafa hlotið vitranir eða annan innblástur, til að upplýsa þá um virkni eða skipulag andaheims, en slíkar persónulegar upplifanir ber ekki að skilja eða kenna sem opinbera kenningu kirkjunnar. Vitanlega hefur líka verið gefið út heilmikið efni margvíslegra hugleiðinga meðlima og annarra, t.d. í bókaformi, um upplifanir þeirra sem hafa verið nálægt því að deyja.4

Varðandi allt þetta er mikilvægt að hafa í huga hina viturlegu aðvörun í boðskap öldungs D. Todd Christofferson og öldungs Neils L. Andersen frá liðnum aðalráðstefnum. Öldungur Christofferson kenndi: „Jafnframt verður að hafa í huga að ekki fela allar yfirlýsingar kirkjuleiðtoga, fyrr og nú, endilega í sér kenningu. Það er almennur skilningur í kirkjunni að yfirlýsing frá einum leiðtoga í eitt skipti felur oft í sér persónulega, en samt vel útfærða, skoðun sem ekki er ætlað að vera bindandi fyrir kirkjuna í heild.“5

Á næstu ráðstefnu þar á eftir kenndi öldungur Andersen þessa grundvallarreglu: „Kenningin er kennd af öllum 15 meðlimum Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar. Hún er ekki falin í óljósri málsgrein í einni ræðu.“6 Yfirlýsingin um fjölskylduna, sem allir 15 spámenn, sjáendur og opinberarar hafa undirritað, er dásamlegt dæmi um þessa reglu.

Auk hinnar formlegu yfirlýsingar um fjölskylduna, eru þær spámannlegu kenningar forseta kirkjunnar, staðfestar af öðrum spámönnum og postulum, einnig dæmi um þetta. Varðandi aðstæður í andaheiminum, gaf spámaðurinn Joseph Smith út tvær kenningar í lok þjónustu sinnar, sem oft hafa verið kenndar af eftirmönnum hans. Ein þeirra er kenning hans í King Follett ræðunni, að réttlátir fjölskyldumeðlimir verða saman í heimi andanna.7 Önnur er yfirlýsing í jarðarför síðasta árið sem hann var á lífi: „Andar hinna réttlátu eru upphafnir til stærra og meira verks … í heimi andanna. … Þeir eru ekki fjarri okkur, og þekkja og skilja hugsanir okkar, tilfinningar og fyrirætlanir, og þjást oft sökum þeirra.“8

Hvað þá með þessa spurningu, sem er lík þeirri sem ég spurði áður: Hvar dvelja andarnir? Ef slík spurning virðist ykkur skrýtin eða smávægileg, íhugið þá margar eigin spurningar, eða þær sem þið hafið freistast til að svara á grundvelli þess sem þið heyrðuð frá einhverjum úr fortíð. Varðandi allar spurningar um andaheiminn, legg ég til tvíþætt svar. Í fyrsta lagi, hafið í huga að Guð elskar börn sín og mun vissulega gera það sem er sérhverju okkar fyrir bestu. Í öðru lagi, munið eftir hinni kunnuglegu kenningu í Biblíunni, sem hefur reynst mér afar gagnleg varðandi fjölda ósvaraðra spurninga:

„Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta“ (Orðskviðirnir 3:5–6).

Nefí lauk, álíka þessu, sínum undursamlegu sálmum á þessum orðum: „Ó Drottinn, ég hef treyst þér og mun að eilífu treysta þér. Ég mun ekki setja traust mitt á arm holdsins“ (2. Nefí 4:34).

Öll getum við velt fyrir okkur hvernig aðstæður í andaheiminum eru eða jafnvel rætt þær eða aðrar ósvaraðar spurningar í faðmi fjölskyldu okkar eða við aðrar innilegar aðstæður. En við skulum ekki kenna eða nota, sem opinberar kenningar, eitthvað sem ekki hefur þann staðal að vera opinber kenning. Að gera slíkt hjálpar ekki við framgang verks Drottins og letur jafnvel fólk til þess að leita sjálft að huggun og endurnæringu með persónulegri opinberun sem áætlun Guðs veitir sérhverju okkar. Of mikið traust á eigin kenningar eða hugleiðingar getur truflað einbeitni okkar á lærdómi og vinnu sem mun dýpka skilning okkar og hjálpa okkur að sækja frami á sáttmálsveginum.

Traust á Drottni hljómar kunnuglega og er sönn kenning í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þetta kenndi Joseph Smith er hinir heilögu fyrrum glímdu við þungar ofsóknir og óyfirstíganlegar hindranir, að því er virtist.9 Enn sem komið er, er þetta besta reglan sem við getum notað þegar framtak okkar til að læra eða viðleitni okkar til að hljóta huggun strandar á atriðum sem enn hafa ekki verið opinberuð eða viðurkennd sem opinberar kenningar kirkjunnar.

Sama reglan á við um ósvaraðar spurningar varðandi innsiglanir í næsta lífi eða breytingar sem óskað er eftir sökum atburða eða yfirsjóna í jarðlífinu. Margt er það sem við ekki þekkjum, svo eina áreiðanlega öryggið er traust á Drottni og elsku hans fyrir börn sín.

Að lokum, það sem við vitum um andaheiminn er að sáluhjálparstarf föðurins og sonarins heldur áfram þar. Frelsarinn hóf það verk að prédika frelsi hinum fjötruðu (sjá 1. Pétursbréfið 3:18–19; 4:6; Kenning og sáttmálar 138:6–11, 18–21, 28–37) og þetta verk heldur áfram er verðugir og hæfir sendiboðar halda áfram að predika fagnaðarerindið, þar á meðal iðrun, fyrir þá sem þarfnast hreinsunaráhrifa þess (sjá Kenning og sáttmálar 138:57). Tilgangi alls þessa er lýst í opinberum kenningum kirkjunnar, veitt með nútíma opinberun.

„Hinir dánu, sem iðrast, munu endurleystir fyrir hlýðni við helgiathafnir Guðs húss.

Og eftir að þeir hafa tekið út refsingu fyrir brot sín og eru laugaðir hreinir, munu þeir hljóta laun samkvæmt verkum sínum, því að þeir eru erfingjar að sáluhjálp“ (Kenning og sáttmálar 138:58–59).

Skylda sérhvers okkar er að kenna kenninguna um hið endurreista fagnaðarerindi, halda boðorðin, elska og hjálpa hvert öðru, og framkvæma starf sáluhjálpar í helgum musterum.

Ég vitna um sannleika þess sem ég hef sagt og um sannleika sem kenndur hefur verið, eða mun kenndur, á þessari ráðstefnu. Allt er þetta mögulegt sökum friðþægingar Jesú Krists. Eins og við þekkjum úr nútíma opinberun, hann „gjörir föðurinn dýrðlegan og frelsar öll handaverk hans“ (Kenning og sáttmálar 76:43; áherslubreyting hér). Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. “What’s on the Other Side? A Conversation with Brent L. Top on the Spirit World,” Religious Educator, bindi. 14, nr. 2 (2013), 48.

  2. Sjá Teachings of the Prophet Joseph Smith, valið af Joseph Fielding Smith (1976), 309–10; Joseph Smith, “Journal, December 1842–June 1844; Book 2,” bls 246, The Joseph Smith Papers, josephsmithpapers.org.

  3. Opinberun til Josephs Smith um andaheiminn, sem oft er vitnað í, segir: „Sama félagslyndi og ríkir meðal okkar hér mun ríkja meðal okkar þar“ (Kenning og sáttmálar 130:2). Hér gæti verið um lýsingu á dýrðarríki að ræða fremur en andaheiminum, þar sem áframhaldið er: „En þar við bætist eilíf dýrð, dýrð, sem við njótum ekki nú“ (vers 2).

  4. Sem dæmi, George G. Ritchie, Return from Tomorrow (1978) og Raymond Moody, Life after Life (1975).

  5. D. Todd Christofferson, „Kenning Krists,” aðalráðstefna, apríl 2012; sjá einnig Joseph F. Smith, Gospel Doctrine, 5. útg. (1939), 42. Sjá til dæmis lýsinguna í Kenningu og sáttmálum 74:5 um einkakennslu Páls postula.

  6. Neil L. Andersen, „Eldraun trúar yðar,“ aðalráðstefna, október 2012.

  7. Sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2007), 175.

  8. History of the Church, 6:52; er líka í Teachings of the Prophet Joseph Smith, 326; oft vitnað í, eins og í Henry B. Eyring, To Draw Closer to God (1997), 122; sjá einnig Kenningar forseta kirkjunnar: Brigham Young (1997), kafli 38, „Andaheimurinn.“

  9. Sjá Teachings: Joseph Smith, 231–33.