2010–2019
Góður hirðir, lamb Guðs
Apríl 2019


Góður hirðir, lamb Guðs

Jesús Kristur kallar á okkur með eigin röddu og í sínu nafni. Hann leitar okkar og safnar okkur saman. Hann kennir okkur hvernig þjóna á af elsku.

Kæru bræður og systur, hafði þið einhvern tíma átt erfitt með svefn og reynt að telja ímyndaða sauði? Þegar dúnkenndur sauður stekkur yfir girðingu, teljið þið: 1, 2, 3, … 245, 246, … 657, 658 …1

Sjálfum syfjar mig ekki af því að telja sauði. Ég hef hins vegar áhyggjur af því að týna einum og það heldur fyrir mér vöku.

Við segjum með hinum unga fjárhirði sem varð konungur:

„Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína.“2

Ljósmynd
Kirkjugluggi með góða hirðinum

Á þessum páskum lofum við góða hirðinn, sem líka er lamb Guðs. Af öllum hans titlum, er enginn ljúfari eða meira lýsandi. Við lærum heilmargt af tilvísun frelsarans til sjálfs síns sem góðs hirðis og spámannlegum vitnisburði um sig sem lamb Guðs. Þessi hlutverk og tákn eru áhrifarík og samfallandi – hver liðsinnir betur hverju dýrmætu lambi en góði hirðirinn og hver er betur til þess fallin að vera góður hirðir en lamb Guðs?

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn“ og hinn eingetni sonur Guðs gaf fúslega líf sitt af hlýðni við föður sinn.3 Jesús vitnar: „Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.“4 Jesús hafði mátt til að leggja líf sitt í sölurnar og mátt til að taka það aftur.5 Frelsarinn er eitt með föðurnum og blessar okkur á einstæðan hátt, bæði sem góði hirðirinn og lamb Guðs.

Sem góður hirðir, kallar Jesús Kristur á okkur eigin röddu og í sínu nafni. Hann leitar okkar og safnar okkur saman. Hann kennir okkur hvernig þjóna á af elsku. Við skulum ígrunda þessi þrjú atriði og byrja á því að hann kallar á okkur sinni röddu og í sínu nafni.

Í fyrsta lagi, kallar okkar góði hirðir „á sína sauði með nafni. … Þeir þekkja rödd hans.“6 „Já, í sínu eigin nafni kallar hann á yðar, en það er nafn Krists.“7 Þegar við reynum af einlægni að fylgja Jesú Kristi, hljótum við innblástur til góðra verka, að elska Guð og þjóna honum.8 Þegar við lærum, ígrundum og biðjum, endurnýjum reglubundið sakramentis- og musterissáttmála okkar og bjóðum sérhverjum að taka á móti fagnaðarerindi hans og helgiathöfnum, erum við að hlýða á rödd hans.

Á okkar tíma hefur Russell M. Nelson forseti hvatt okkur til að nefna hina endurreistu kirkju því nafni sem Jesús Kristur opinberaði: Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga helögu.9 Drottinn sagði: „Hvað sem þér þess vegna gjörið, það skuluð þér gjöra í mínu nafni. Þess vegna skuluð þér nefna kirkjuna mínu nafni. Og þér skuluð ákalla föðurinn í mínu nafni og biðja hann um að blessa kirkjuna mín vegna.“10 Um heim allan, í hjörtum og á heimilum okkar, áköllum við föðurinn í nafni Jesú Krists. Við erum þakklát fyrir hina gjöfulu blessun okkar heimilismiðuðu og kirkjustyrktu tilbeiðslu, trúarfræðslu og heilbrigða fjölskylduafþreyingu.

Í öðru lagi leitast okkar góði hirðir við að safna okkur saman í hjörð sína. Hann spyr: „Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?“11

Frelsarinn liðsinnir hinum eina og hinum níutíu og níu, oft á sama tíma. Þegar við þjónum, göngumst við við hinum níutíu og níu, sem eru staðfastir og óhagganlegir, þótt við þráum að ná í hinn eina sem villst hefur. Drottinn leitar að og bjargar okkur „úr öllum stöðum,“12 allra heimshorna.13 Hann safnar okkur saman með helgum sáttmála og friðþægingarblóði sínu.14

Frelsarinn sagði við lærisveina sína í Nýja testamentinu: „Ég á líka aðra sauði, sem ekki eru úr þessu sauðabyrgi.“15 Í Ameríku vitnaði hinn upprisni Drottinn fyrir sáttmálsbörnum Lehís: „Þér eruð sauðir mínir.“16 Jesús sagði líka að enn aðrir sauðir muni heyra rödd hans.17 Hve mikil blessun Mormónsbók er sem annað vitni um rödd Jesú Krists!

Jesús Kristur býður kirkjunni að taka á móti öllum þeim sem heyra rödd hans18 og halda boðorð hans. Kenning Krists felur í sér skírn með vatni og með eldi og heilögum anda.19 Nefí spurði: „Ef Guðslambið, sem er heilagt, þarf á því að halda að láta skírast í vatni til að fullnægja öllu réttlæti, ó hversu miklu meiri þörf höfum vér þá, sem vanhelgir erum, til að láta skírast, já, einnig í vatni!“20

Ljósmynd
Jóhannes skírir Jesú

Á okkar tíma þráir frelsarinn að það sem við gerum og erum að verða, bjóði öðrum að koma og fylgja sér. Komið, finnið kærleika, lækningu, nálægð og sáttmála sem heyra honum til, einnig í helgu musteri Guðs, þar sem helgiathafnir sáluhjálpar geta blessað fjölskylduna alla og þannig safnað saman Ísrael, beggja vegna hulunnar.21

Í þriðja lagi, sem „hirðir Ísraels]“22 er Jesús Kristur fyrirmynd að kærleiksríkri þjónustu hirða Ísraels. Þegar Drottinn spyr hvort við elskum hann, líkt og hann gerði við Símon Pétur, mun frelsarinn bjóða: „Gæt þú lamba minna. … Ver hirðir sauða minna. … Gæt sauða minna.“23 Drottinn lofar, að þegar hirðar hans gæta lamba hans, munu þeir sem tilheyra hjörðinni „eigi framar hræðast eða skelfast og einskis þeirra saknað.“24

Góði hirðirinn okkar segir hirða Ísraels ekki mega blunda,25 eða dreifa sauðunum eða valda því að þeir villist26 eða fara eigin leiðir sjálfum sér til ávinnings.27 Góðum hirðum ber að styrkja, græða, binda um hið limlesta, sækja hið hrakta og leita að hinu týnda.28

Drottinn varar líka við leiguliðum, sem „[láta] sér ekki annt um sauðina,“29 og „[falsspámönnum], sem koma til [okkar] í sauðaklæðum, en innra eru þeir gráðugir vargar.“30

Góði hirðir okkar gleðst þegar við iðkum siðferðilegt sjálfræði af einlægni og trú. Þeir sem eru í hjörð hans, líta til frelsarans af þakklæti fyrir friðþægingarfórn hans. Við gerum sáttmála um að fylgja honum, ekki aðgerðarlaus, í blindni eða „sauðslega,“ heldur að elska Guð og náunga okkar af öllu hjarta og huga, bera hver annars byrðar og gleðjast með öðrum. Líkt og Kristur helgaði sig vilja föðurins, svo og tökum við á okkur nafn hans af auðmýkt. Af gleði helgum við okkur verki hans að safna saman og þjóna öllum börnum Guðs.

Bræður og systur, Jesús Kristur er hinn fullkomni góði hirðir okkar. Þar sem Kristur lagði líf sitt í sölurnar fyrir okkur, og er nú dýrðlegur og upprisinn, er hann líka hið fullkomna lamb Guðs.31

Sagt var frá fórnarlambi Guðs frá upphafi. Engillinn sagði Adam að fórn hans „[væri] í líkingu fórnar hins eingetna föðurins,“ sem býður okkur að „iðrast og ákalla Guð í nafni sonarins að eiífu.“32

Faðir Abraham, sem staðfesti sáttmálsblessanir fyrir allar þjóðir jarðar, upplifði hvað í því fólst að fórna sínum eingetna syni.

„Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: Faðir minn! Hann svaraði: Hér er ég, sonur minn! Hann mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn …?

Og Abraham sagði: Guð mun sjá sér fyrir sauð.“33

Postular og spámenn sáu fyrir og fögnuðu yfir hlutverki hins forvígða lambs Guðs. Jóhannes í gamla heiminum og Nefí í nýja heiminum báru vitni um „Guðs [lambið],“34 „já, son hins eilífa föður … lausnara heimsins.“35

Abinadí bar vitni um friðþægingarfórn Jesú Krists: „Vér fórum allir villir vega sem sauðir, stefndum hver sína leið, en Drottinn lét misgjörð vor allra koma niður á honum.“36 Alma sagði hina miklu og síðustu fórn sonar Guðs vera „öllu mikilvægara.“ Alma hvatti: „Eignist trú á Guðslambið,“ „komið og óttist ekki.“37

Kær vinkona sagði frá því hvernig hún hlaut sinn dýrmæta vitnisburð um friðþægingu Jesú Krists. Hún ólst upp við að refsing syndar væri mikil og einungis eigin sök. Hún sárbað Guð um að hljóta skilning á hugsanlegri guðlegri fyrirgefningu. Hún baðst fyrir til að skilja og vita hvernig Jesús Kristur getur fyrirgefið þeim sem iðrast, hvernig miskunn fær fullnægt réttvísi.

Dag einn var bæn hennar svarað með andlega umbreytandi upplifun. Örvæntingarfullur ungur maður kom hlaupandi úr út matvöruverslun með tvo stolna matarpoka. Hann hljóp út á annríka götu, eltur af eigandanum, sem náði honum og tók að öskra og berja. Í stað þess að dæma þennan hrædda unga mann sem þjóf, fann vinkona mín óvænt til mikillar samúðar með honum. Án ótta eða umhyggju fyrir eigin öryggi, gekk hún rakleiðis að þrætandi mönnunum tveimur. Hún fann sig knúna til að segja: „Ég skal borga fyrir matvælin. Láttu hann lausan. Leyfðu mér að borga matvælin fyrir hann.“

Hvött af heilögum anda og fyllt kærleika sem hún hafði aldrei áður upplifað, sagði vinkona mín: „Ég vildi aðeins hjálpa og bjarga þessum unga manni.“ Vinkona mín sagðist hafa farið að þekkja Jesú Krist og friðþægingu hans – hvernig og hvers vegna Jesús Kristur hafi af hreinni og fullkominni ást verið fús til að færa fórn til að vera frelsari og lausnari hennar og afhverju hún vildi að hann væri það.38

Engin furða að við syngjum:

Sjá, hve hann leitar og leitar

lamba sem glötun er vís,

fagnandi í byrgið þau færir,

frelsuð við guðlegan prís.39

Frelsarinn veit, sem lamb Guðs, þegar okkur finnst við vera ein, vanvirt, óörugg og óttaslegin. Nefí sá mátt Guðslambsins í sýn „[falla] yfir hina heilögu í kirkju lambsins og yfir sáttmálsþjóð Drottins.“ Þótt „[dreifðir væru] um allt yfirborð jarðar, … voru [þeir] vopnaðir réttlæti og krafti Guðs í mikilli dýrð.“40

Þetta loforð og þessi von og huggun, á við um okkar tíma.

Eruð þið eini meðlimur kirkjunnar í fjölskyldu ykkar, skóla, vinnustað eða samfélagi? Finnst ykkur stundum grein ykkar vera fámenn eða einangruð? Hafið þið flutt á nýjan stað, kannski þar sem tungumál er annað eða menningin framandi? Hafa aðstæður ykkar kannski breyst og þið standið nú frammi fyrir því sem þið áður tölduð óhugsandi? Frelsarinn fullvissar okkur, hverjar sem aðstæður okkar eru, hver sem við erum, með orðum Jesaja: „[Hann mun] taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.“41

Ljósmynd
Góði hirðirinn safnar saman lömbum sínum

Bræður og systur, okkar góði hirðir kallar á okkur sinni röddu og sínu nafni. Hann leitar, safnar saman og kemur til fólks síns. Fyrir tilstilli lifandi spámanna og hvers okkar, býður hann öllum að finna frið, tilgang, lækningu og gleði í fyllingu síns endurreista fagnaðarerindis og á sínum sáttmálsvegi. Hann kennir hirðum Ísraels með fordæmi að þjóna í elsku sinni.

Guðlegt hlutverk Jesú, sem lambs Guðs, var forvígt og í því gleðjast postular og spámenn. Friðþæging hans, altæk og eilíf, er þungamiðja sæluáætlunarinnar og tilgangs sköpunarinnar. Hann fullvissar okkur um að við stöndum næst hjarta hans.

Kæru bræður og systur, megum við þrá að vera „[auðmjúkir fylgjendur] Guðs og lambsins,“42 fá nöfn okkar, hugsanlega einhvern tíma, rituð í lífsins bók lambsins,43 syngja söng lambsins44 og vera boðið í brúðkaupsveislu lambsins.45

Sem hirðir og lamb, kallar hann: Komist að nýju „til sannrar þekkingar … á lausnara [ykkar], … [ykkar] mikla og sanna hirði.“46 Hann lofar að „fyrir náð hans [náum við] fullkomnun í Kristi.“47

Á þessum páskum lofum við hann:

„Maklegt er lambið!“48

„Hósanna Guði og lambinu!“49

Ég ber vitni um hann, okkar fullkomna góða hirði, hið fullkomna lamb Guðs. Hann kallar okkur með nafni, í sínu nafni – já, hinu heilaga nafni Jesú Krists – amen.