2010–2019
Undirbúningur fyrir síðari komu Drottins
Apríl 2019


Undirbúningur fyrir síðari komu Drottins

Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur verið veitt einstakt umboð og heimild til að vinna að nauðsynlegum undirbúningi fyrir síðari komu Drottins.

Eftir tvær vikur höldum við páskana hátíðlega. Upprisan staðfestir guðdómleika Jesú Krists og raunveruleika Guðs föðurins. Hugsanir okkar beinast til frelsarans og við íhugum „stórbrotið lífsstarf og algjöra friðþægingu [hans].“ 1 Ég vona að við hugsum einnig um yfirstandandi endurkomu hans þegar „hann mun ríkja sem kóngur konunganna og Drottinn drottnanna.“2

Fyrir nokkru tók ég þátt í ráðstefnu í Buenos Aires, Argentínu, með leiðtogum fjölbreyttra trúfélaga. Kærleikur þeirra til náungans var augljós. Þeir voru ákveðnir í að létta þjáningu og aðstoða fólk við að rísa ofar kúgun og fátækt. Ég hugleiddi hin fjölmörgu mannúðarstörf þessarar kirkju, þar með talin samstarfsverkefni með nokkrum þeirra trúfélaga sem tóku þátt í ráðstefnunni. Ég fann fyrir einlægu þakklæti fyrir meðlimi Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, sem gera slíka þjónustu mögulega.

Á því augnabliki staðfesti heilagur andi tvennt fyrir mér. Hið fyrra var að hirðisþjónusta stundlegra þarfa væri nauðsynleg og yrði að halda áfram. Hið síðara var óvænt en mjög kröftugt og skýrt. Það var þetta: Að undanskilinni óeigingjarnri þjónustu, þá væri algjört forgangsatriði að búa heiminn undir síðari komu Drottins Jesú Krists.

Þegar hann kemur mun kúgun og óréttlæti ekki aðeins minnka, heldur linna algjörlega:

„Þá mun úlfurinn una hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og ungt barn gætir þeirra. …

Hvergi á mínu heilaga fjalli mun illt framið né nokkru tortímt, því að jörðin verður full af þekkingu á Drottni á sama hátt og djúp sjávar er vötnum hulið.“3

Fátækt og þjáning munu ekki einungis minnka, heldur hverfa:

„Eigi mun þá framar hungra og eigi heldur framar þyrsta og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur hiti.

Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“4

Jafnvel sársauka og sorg yfir dauða mun linna:

„Á þeim degi mun ungbarn ekki deyja fyrr en það nær gamalsaldri, og aldur þess verður sem aldur trésins;

Og þegar það deyr mun það ekki sofa, það er að segja í jörðu niðri, heldur breytast á augabragði og verða hrifið upp, og hvíld þess verður dýrðleg.“5

Gerum því allt sem við nú getum til að létta þjáningu og sorgir og helgum okkur enn betur þeim undirbúningi sem er nauðsynlegur fyrir þann dag þegar sársauka og illsku verður eytt, þegar „Kristur mun sjálfur ríkja hér á jörðu og að jörðin verði endurnýjuð og [hlýtur] paradísardýrð sína.“6 Það verður dagur endurlausnar og dóms. Fyrrverandi biskup Biskupakirkjunnar í Durham, Dr. N. T. Wright hefur lýst mikilvægi friðþægingar Krists, upprisu og dóms við að sigrast á óréttlæti og setja allt í rétt horf.

Hann sagði: „Guð hefur ákveðið dag þar sem hann mun sjá til þess að maður sem hann hefur útvalið, muni dæma heiminn og hann hefur veitt öllum fullvissu um þetta með því að reisa hann upp frá dauðum. Staðreyndirnar um Jesú frá Nasaret, og þá sérstaklega varðandi upprisu hans frá dauðum, eru grunnurinn að þeirri fullvissu að heimurinn er ekki tilviljun. Þegar til lengdar lætur, þá er heimurinn ekki óreiða, þegar við framkvæmum réttlæti, þá erum við ekki bara að flauta í myrkrinu, að reyna að byggja byggingu sem mun hrynja um síðir eða að laga bíl sem er í raun á leiðinni á haugana. Þegar Guð reisti Jesú upp frá dauðum, þá var það örviðburður sem fól alheimsdómsviðburðinn í sér eins og í skel, fræ … hinnar endanlegu vonar. Guð lýsti því yfir á þann áhrifaríkasta máta sem mögulegt er, að Jesús frá Nasaret væri Messías. … Í mestu kaldhæðni sögunnar, þoldi [Jesús] sjálfur grimmilegan og óréttlátan dóm, er hann kom á þann stað sem var táknrænn og dró saman öll hin fjölmörgu grimmdarverka og óréttlæti sögunnar, til að þola þá óreiðu, það myrkur, þá grimmd, það óréttlæti í sér sjálfum og til að tæma vald þess.“7

Á meðan ég var á ráðstefnunni í Buenos Aires, sem ég minntist á, þá gerði andinn mér ljóst að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hefur hlotið einstakan kraft og umboð til að vinna að nauðsynlegum undirbúningi fyrir síðari komu Drottins; sannlega var hún endurreist með þann tilgang í huga. Er einhversstaðar hægt að finna annað fólk sem viðurkennir nútímann sem forspáða „[fyllingu] tímans,“ þar sem Guð hefur „[safnað] öllu því, sem er á himnum, og því sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi“?8 Ef hér er ekki samfélag sem einsetur sér að vinna að því nauðsynlega verki fyrir bæði lifandi og látna, til undirbúnings þess daga, ef hér er ekki samfélag sem fúslega leggur til gríðarlegan tíma og fjármagn til samansöfnunarinnar og undirbúnings sáttmálslýðs, sem er reiðubúinn til að taka á móti Drottni, þá er það hvergi annarsstaðar að finna.

Drottinn sagði árið 1831, talandi við kirkjuna:

„Lyklar Guðs ríkis eru afhentir manni á jörðu, og þaðan skal fagnaðarerindið breiðast út til endimarka jarðar. …

Ákallið Drottin, svo að ríki hans breiðist út á jörðunni og íbúar hennar megi veita því viðtöku og vera viðbúnir komandi dögum, þegar mannssonurinn kemur í himni niður, klæddur ljóma dýrðar sinnar, til að mæta því Guðs ríki, sem reist er á jörðu.“9

Hvað getum við gert til að undirbúa nútímann fyrir þann dag? Við getum undirbúið okkur sjálf sem samfélag; við getum safnað saman sáttmálslýð Drottins; við getum hjálpað til við að endurleysa fyrirheitin um sáluhjálp, „sem feðrunum voru gefin,“ forfeðrum okkar.10 Allt þetta verður að gerast upp að vissu marki, áður en að Drottinn kemur aftur.

Fyrir endurkomu Drottins þá er viðvera þess fólks á jörðunni, sem er tilbúið að taka á móti honum við komu hans, mjög mikilvæg. Hann hefur sagt að þeir sem eru enn á jörðinni þann dag „frá þeim lægsta til hins æðsta, … munu fylltir þekkingu á Drottni og sjá augliti til auglitis, og hefja upp raust sína og einum rómi syngja þennan nýja söng, og segja: Drottinn hefur aftur fært oss Síon. … Drottinn hefur sameinað allt í eitt. Drottinn hefur leitt Síon niður ofan frá. Drottinn hefur leitt Síon upp neðan frá.“11

Til forna tók Guð hina réttlátu borg Síon til sín.12 Hins vegar þá mun ný Síon á hinum síðustu dögum taka á móti Drottni við endurkomu hans.13 Síon er hinir hjartahreinu, fólk sem er sameinað í hjarta og huga, þeir sem dvelja í réttlæti með engan fátækan sín á meðal.14 Spámaðurinn Joseph Smith sagði: „Uppbygging Síonar ætti að vera aðal markmið okkar.“15 Við byggjum upp Síon á heimilum okkar, í deildum, greinum og stikum í gegnum einingu, trúrækni og kærleika.16

Við verðum að viðurkenna að bygging Síonar gerist á róstursömum tímum – „[degi] heilagrar reiði, [degi] brennu, [degi] eyðingar, gráts, hryggðar og harmakveins, og sem hvirfilvindur kemur hún yfir alla jörðina, segir Drottinn“17 Þannig að samansöfnunin í stikur megi „verða vörn og athvarf fyrir storminum og hinni heilögu reiði, þegar henni verður skilyrðislaust úthellt yfir gjörvalla jörðina“18

Eins og áður komum við „oft saman til að fasta og biðja og ræða hvert við annað um sálarheill [okkar]. Og … til að neyta brauðs og [vatns] til minningar um Drottin Jesú.“19 Eins og Russel M. Nelson forseti útskýrði á aðalráðstefnunni í október síðastliðnum: „Hið viðvarandi ætlunarverk kirkjunnar er að hjálpa öllum meðlimum að styrkja eigin trú á Drottin Jesú Krist og friðþægingu hans, hjálpa þeim að gera og halda sáttmála við Guð og styrkja og innsigla fjölskyldur þeirra.“20 Í samræmi við það leggur hann áherslu á mikilvægi musterissáttmála, hvíldardaginn og daglega endurnæringu á fagnaðarerindinu heimavið, stutt af samræmdri námsskrá í kirkjunni. Við viljum vera uppfrædd um Drottin og við viljum þekkja Drottin.21

Hið undirliggjandi átak í að byggja Síon er samansöfnun hins löngu tvístraða sáttmálslýðs Drottins.22 „Vér höfum trú á hinni raunverulegu samansöfnun Ísraels og endurreisn hinna tíu kynkvísla.“23 Allir sem munu iðrast, trúa á Krist og verða skírðir, eru sáttmálsfólk hans.24 Drottinn sjálfur spáði því að fyrir síðari komu hans myndi fagnaðarerindið vera kennt um alla heimsbyggðina25 „til að endurheimta þjóð [hans], sem er af ætt Ísraels“26 „og þá mun endirinn koma.“27 Spádómur Jeremía er að uppfyllast:

„Sjá, fyrir því munu þeir dagar koma segir Drottinn að menn munu eigi framar segja: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi!

Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er leiddi Ísraelsmenn út úr landinu norður frá og úr öllum þeim löndum, þangað sem hann hafði rekið þá. Og ég mun flytja þá aftur til lands þeirra, sem ég gaf feðrum þeirra.“28

Nelson forseti hefur ítrekað lagt áherslu á að „samansöfnun [Ísraels] sé það mikilvægasta sem fer fram í dag. Ekkert annað er sambærilegt að umfangi, mikilvægi og mikilfengleika. Þið getið tekið aukinn þátt í henni, ef við viljið og kjósið.“29 Síðari daga heilagir hafa alltaf verið trúboðar. Hundruð þúsunda hafa svarað trúboðskallinu frá tíma endurreisnarinnar, tugir þúsunda eru nú starfandi. Á sama hátt og öldungur Quentin L. Cook var að segja, þá getum við öll tekið þátt á einfaldan og eðlilegan máta, í kærleika, með því að bjóða öðrum að koma með okkur til kirkju, heimsækja okkur á heimilum okkar, verða hluti af nánasta umhverfi okkar. Útgáfa Mormónsbókar var merki þess að samansöfnunin væri hafin.30 Mormónsbók sjálf er verkfæri samansöfnunar og trúarumbreytingar.

Það sem er einnig mikilvægt fyrir síðari komuna er hið mikla endurleysandi verk fyrir forfeður okkar. Drottinn lofaði að senda Elía, spámann, fyrir síðari komuna, „hinn [mikla og ógurlega dag] Drottins“31 til að „opinbera … prestdæmið“ og „gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin.“32 Elía kom eins og hafði verið lofað. Það var hinn 3. apríl 1836; staðurinn var musterið í Kirtland. Á þeim stað og á þeirri stundu veitti hann sannarlega hið lofaða prestdæmi, lyklana að endurlausn hinna dánu og sameiningu eiginmanna, eiginkvenna og fjölskyldna allra kynslóða, um tíma og um alla eilífð.33 Án þessa hefði tilgangur sköpunarinnar ekki náð fram að ganga og í þeim skilningi hefði jörðin verið lostin „banni“ eða „gjöreydd“ við komu hans.34

Á trúarsamkomunni á undan vígslu musterisins í Róm á Ítalíu, sýndu hundruð viðstaddra pilta og stúlkna Nelson forseta spjöld sem þau höfðu undirbúið með nöfnum áa sinna. Þau voru tilbúin að fara í musterið og framkvæma staðgengilsskírnir fyrir þessa forfeður, um leið og það myndi opna. Það var einstaklega gleðileg stund, en aðeins eitt dæmi um hröðun verksins í að byggja upp Síon fyrir þær kynslóðir sem hafa farið á undan.

Á sama tíma og við vinnum að því af kostgæfni að byggja upp Síon, þar með talið hlutverk okkar að safna Drottins útvöldu saman og endurleysa hina dánu, þá ættum við að doka við og minnast þess að þetta er verk Drottins og hann er að koma því í verk. Hann er herra víngarðsins og við erum þjónar hans. Hann biður okkur að starfa í víngarði sínum af öllum kröftum í „síðasta sinn“ og hann mun starfa með okkur.35 Það væri eflaust réttara að segja að hann leyfði okkur að starfa með sér. Eins og Páll sagði: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.“36 Það er hann sem er að hraða verki sínu þegar að því kemur. 37 Með því að nýta sér hið sannarlega ófullkomna framlag okkar, hið „litla,“ getur Drottinn komið miklu til leiðar.38

Þessi mikli og síðasti ráðstöfunartími er stöðugt vaxandi í átt að hámarki sínu, Síon á jörðu, sameinuð Síon að ofan, við dýrlega endurkomu frelsarans. Kirkju Jesú Krists er boðið að undirbúa – og hún er að undirbúa heiminn – fyrir þann dag. Reynum því, á þessum páskum, að halda sannlega upp á upprisu Jesú Krists og alls sem hún veit á, endurkomu hans til að ríkja í þúsund ára friðartíð, réttlátum dómi og fullkominni réttvísi fyrir alla, ódauðleika fyrir alla sem einhvern tíma hafa lifað á þessari jörðu og fyrirheitinu um eilíft líf. Upprisa Krists er hin endanlega fullvissa um að allt verði fært í rétt horf. Tökum þátt í að byggja upp Síon, til að hraða þeim degi. Í nafni Jesú Krists, amen.