2010–2019
Við getum gert betur og verið betri
Apríl 2019


Við getum gert betur og verið betri

Gerið iðrun að daglegum órjúfanlegum þætti lífs ykkar, svo þið fáið iðkað prestdæmið af meiri krafti en áður hefur verið.

Kæru bræður mínir, það er hrífandi að horfa yfir þennan fjölmenna söfnuð, liðsveit prestdæmishafa Drottins. Hve máttugt afl þið eruð til góðs!! Við elskum ykkur. Við biðjum fyrir ykkur. Við erum mjög þakklátir fyrir ykkur.

Upp á síðkastið hef ég fundið mig laðast að leiðsögn Drottins, sem gefin var fyrir tilverknað spámannsins Josephs Smith: „Boðið þessari kynslóð aðeins iðrun.“1 Yfirlýsing þessi er oft endurtekin í ritningunum.2 Hún vekur augljósa spurningu: „Þurfa allir að iðrast?“ Svarið er já.

Of margir líta á iðrun sem refsingu – eitthvað sem forðast á, nema við alvarlegustu aðstæður. Sú tilfinning að verið sé að refsa manni, er af völdum Satans. Hann reynir að koma í veg fyrir að við lítum til Jesú Krists,3 sem stendur með útbreidda arma,4 vonar og er fús til að lækna, fyrirgefa, hreinsa, styrkja og helga.

Hugtakið fyrir iðrun í gríska Nýja testamentinu er metanoeo. Forskeytið meta- hefur merkinguna að „breyta.“ Viðskeytið -noeo er skylt grísku hugtaki sem merkir „hugur,“ „þekking,“ „andi“ og „andardráttur.“5

Þegar Jesús býður ykkur og mér að „iðrast,“6 er hann að bjóða okkur að breyta viðhorfi okkar, þekkingu okkar, anda okkar – jafnvel hvernig við drögum andann. Hann er að biðja okkur að breyta því hvernig við elskum, hugsum, þjónum, verjum tíma okkar, komum fram við eiginkonu okkar, kennum börnum okkar og jafnvel hirðum líkama okkar.

Ekkert er jafn frelsandi, göfgandi eða nauðsynlegt framþróun okkar sjálfra, en að einblína á iðrun daglega og reglubundið. Iðrun er ekki atburður; hún er ferli. Hún er lykill að hamingju og hugarró. Fari iðrun og trú saman, greiðir hún okkur aðgang að krafti friðþægingar Jesú Krists.7

Hvort heldur þið sækið af kostgæfni fram á sáttmálsveginum, hafið hrasað eða stigið af sáttmálsveginum eða fáið ekki greint veginn þar sem þið nú eruð, þá sárbæni ég ykkur um að iðrast. Upplifið styrkjandi mátt daglegrar iðrunar – með því að gera örlítið betur og verða örlítið betri dag hvern.

Þegar við veljum að iðrast, veljum við að breytast! Við leyfum frelsaranum að breyta okkur í bestu útgáfu okkar sjálfra. Við veljum að vaxa andlega og meðtaka gleði – gleði endurlausnar hans.8 Þegar við veljum að iðrast, veljum við að líkjast Jesú Kristi meira!9

Bræður, við þurfum að gera betur og verða betri, því við eigum í stríði. Baráttan við synd er raunveruleg. Óvinurinn er að margfalda afl sitt við að sundra vitnisburðum og hefta verk Drottins. Hann er að hervæða handbendi sitt sterkum vopnum, til að gera okkur ókleift að meðtaka af gleði og elsku Drottins.10

Iðrun er lykillinn að því að forðast þá vansæld sem felst í gildrum óvinarins. Drottinn væntir ekki fullkomnunar af okkur á þessu stigi okkar eilífu framþróunar. Hann væntir þess þó að við verðum stöðugt hreinni. Dagleg iðrun er vegur hreinleikans og hreinleika fylgir kraftur. Persónulegur hreinleiki getur gert okkur að máttugum verkærum í hendi Guðs. Iðrun okkar – hreinleiki okkar – mun gera okkur kleift að hjálpa við samansöfnun Ísraels.

Drottinn kenndi spámanninum Joseph Smith „að réttur prestdæmisins er óaðskiljanlega tengdur krafti himins, og að krafti himins verður aðeins stjórnað og beitt eftir reglum réttlætisins.“11

Við vitum hvað veitir okkur aukinn aðgang að kröftum himins. Við vitum líka hvað hindrar framþróun okkar – hverju við þurfum að láta af til að fá aukinn aðgang að kröftum himins. Bræður, reynið af kostgæfni að skilja hvað hindrar iðrun ykkar. Auðkennið það sem kemur í veg fyrir iðrun ykkar. Bætið ykkur síðan! Gjörið iðrun! Allir getum við gert betur og verið betri en nokkru sinni áður.12

Við getum líklega bætt okkur á marga vegu. Eitt af því er hvernig við hirðum líkama okkar. Ég fyllist andakt yfir kraftaverki mannslíkamans. Hann er stórbrotin sköpun, nauðsynlegur til stigvaxandi framþróunar að okkar endanlegu guðlegu möguleikum. Án hans verður engin framþróun. Með því að gefa okkur gjöf líkama, hefur Guð leyft okkur að taka mikilvægt skref í því að verða líkari honum.

Satan veit það. Honum gremst sú staðreynd að fráhvarf hans í fortilverunni gerir hann óhæfan fyrir þessi forréttindi, svo hann upplifir stöðugt afbrýðissemi og reiði. Af þeim sökum, eru margar, ef ekki flestar, freistinganna sem hann setur í veg okkar til þess fallnar að misbjóða líkama okkar eða annarra. Satan er vansæll án líkama og vill að við séum vansælir vegna líkama okkar.13

Líkami ykkar er persónulegt musteri, skapað til að hýsa ykkar eilífa anda.14 Umhirða ykkar um þann líkama er mikilvæg. Ég spyr ykkur, bræður, hafið þið meiri áhuga á því að klæða og hirða líkama ykkar til að þóknast heiminum, en að þóknast Guði? Svar ykkar við þessari spurningu er honum bein skilaboð um tilfinningar ykkar gagnvart hinni óviðjafnanlegu gjöf hans til ykkar. Af virðingu við líkama okkar, þá held ég, bræður, að við getum gert betur og verið betri.

Við getum líka gert betur og verið betri með því að heiðra konurnar í lífi okkar og byrjað á eiginkonum okkar og dætrum og mæðrum okkar og systrum.15

Fyrir mánuði barst mér átakanlegt bréf frá kærri systur. Hún skrifaði: „[Mér og dætrum mínum] finnst við eiga í mikilli samkeppni um óskipta athygli eiginmanns míns og sona okkar, vegna íþróttafrétta, tölvuleikja, hlutabréfamarkaðar [og] stöðugs áhorfs leikja [allskyns] íþrótta. Mér finnst við ekki lengur vera í fyrirrúmi eiginmanns míns og sona okkar, þar sem athygli þeirra beinist fyrst og fremst að [íþróttum og leikjum].“16

Bræður, æðsta skylda ykkar sem prestdæmishafa er að elska og annast eiginkonu ykkar. Verðið eitt með henni. Verið félagi hennar. Auðveldið henni að vilja tilheyra ykkur. Ekkert annað lífsins áhugamál ætti að vera í fyrirrúmi þess að rækta eilíft samband við hana. Ekkert í sjónvarpinu, farsímanum eða tölvunni er mikilvægara hennar velferð. Skoðið hvernig þið verjið tíma ykkar og kröftum. Það mun segja ykkur hvar hjarta ykkar er. Biðjið þess að hjarta ykkar sé í samhljóm við hjarta eiginkonu ykkar. Leitist við að gleðja hana. Leitið ráða hennar og hlustið. Tillögur hennar munu bæta afköst ykkar.

Ef þið þurfið að iðrast vegna breytni ykkar gagnvart þeirri konu sem ykkur er nánust, gerið það þá núna. Hafið líka hugfast að það er ykkar ábyrgð að hjálpa konunum í lífi ykkar að taka á móti þeim blessunum sem hljótast af því að lifa eftir skírlífislögmáli Drottins. Verið aldrei ástæða þess að kona fái ekki notið blessana musterisins.

Bræður, við þurfum allir að iðrast. Við þurfum að rísa úr sófanum, leggja frá okkur fjarstýringuna og vakna af andlegum svefni. Sá tími er upprunninn að við klæðumst alvæpni Guðs, svo við getum helgað okkur mikilvægasta verki jarðar. Sá tími er upp runninn að við „[beitum] sigð [okkar og uppskerum] af öllum mætti [okkar], huga og styrk.“17 Hin illu öfl hafa aldrei áður verið jafn öflug og á okkar tíma. Við, sem þjónar Drottins, getum ekki verið sofandi í miðri þessari baráttu.

Fjölskylda ykkar þarfnast leiðsagnar ykkar og elsku. Sveitin ykkar og þeir sem eru í deild ykkar eða grein þarfnast styrks ykkar. Allir sem þið hittið þurfa að vita hvernig sannur lærisveinn Drottins lítur út og hvað hann aðhefst.

Kæru bræður, þið voruð útvaldir af föður ykkar til að koma til jarðar á þessum mikilvæga tíma, sökum andlegs hugprýðis ykkar í fortilverunni. Þið eruð meðal bestu og hugdjörfustu manna sem komið hafa til jarðar. Satan þekkir ykkur og veit hverjir þið voruð í fortilverunni og hann áttar sig á því sem koma þarf í verk áður en frelsarinn kemur aftur. Óvinurinn er reyndur og forhertur eftir að hafa iðkað kænskubrögð í árþúsundir.

Þakksamlega, þá er prestdæmið sem við höfum langtum öflugra blekkingum óvinarins. Ég sárbæni ykkur að vera þeir karlmenn og piltar sem Drottinn þarfnast að þið séuð. Gerið iðrun að daglegum órjúfanlegum þætti lífs ykkar, svo þið fáið iðkað prestdæmið af meiri krafti en áður hefur verið. Aðeins á þennan hátt munið þið tryggja andlegt öryggi ykkar sjálfra og fjölskyldu ykkar á þeim krefjandi tíma sem framundan er.

Drottinn þarfnast óeigingjarnra manna, sem setja velferð annarra framar sínum eigin. Hann þarfnast manna sem meðvitað reyna að heyra rödd andans af skýrleika. Hann þarfnast manna sáttmálans, sem halda sáttmála sína af ráðvendni. Hann þarfnast manna sem eru staðráðnir í því að vera kynferðislega hreinir – verðugra manna sem hægt er að kalla á með stuttum fyrirvara til að veita blessanir, af hreinu hjarta og huga og fúsum höndum. Drottinn þarfnast manna sem óðfúsir vilja iðrast – manna sem þjóna af áhuga og vilja tilheyra verðugri liðsveit prestdæmishafa Drottins.

Ég blessa ykkur til að verða slíkir menn. Ég blessa ykkur með hugrekki til að iðrast daglega og læra hvernig iðka má kraft prestdæmisins að fullu. Ég blessa ykkur til að tjá eiginkonu ykkar og börnum elsku frelsarans og öllum sem þið þekkið. Ég blessa ykkur til að gera betur og verða betri. Ég veiti ykkur jafnframt þá blessun að upplifa kraftaverk í lífi ykkar, þegar þið gerið þetta.

Við erum þátttakendur í verki almáttugs Guðs. Jesús er Kristur. Við erum þjónar þeirra. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.