2010–2019
Hver verður útkoman?
Apríl 2019


Hver verður útkoman?

Við tökum betri ákvarðanir, ef við skoðum valkostina og íhugum útkomu þeirra.

Hið endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists hvetur okkur til að huga að framtíðinni. Það varpar ljósi á tilgang jarðlífsins og raunveruleika framhaldslífsins. Það kennir stórfenglegar hugmyndir um framtíðina til að verk okkar nú falli að þeim.

Öll þekkjum við þó einhvern sem aðeins lifir fyrir augnablikið: Eyðir í dag, nýtur þess í dag og hugar ekki að framtíðinni.

Við njótum betur nútíðar og framtíðar, ef við erum ávallt meðvituð um framtíðina. Þegar við tökum ákvarðanir, ættum við alltaf að spyrja: „Hver verður útkoman?“

I.

Í sumum ákvörðunum felst val á milli þess að gera eitthvað eða alls ekkert. Fyrir mörgum árum heyrði ég dæmi um slíka ákvörðun á stikuráðstefnu í Bandaríkjunum.

Það gerðist á fagurri háskólalóð. Hópur ungra nemenda sat á grasflöt. Ræðumaðurinn sem greindi frá þessari reynslu sagði að þeir hefðu fylgst með fallegum trjáíkorna með þykkt, loðið skott skoppa um við rætur fallegs harðviðartrés. Stundum var hann á jörðinni, stundum þaut hann upp og niður eða umhverfis trjábolinn. Hvers vegna skyldi svo algeng sjón hafa náð athygli nemendahópsins?

Á grasflötinni þar hjá flatmagaði írskur veiðihundur. Nemendurnir einblíndu á hundinn og hundurinn einblíndi á íkornann. Í hvert sinn sem íkorninn hvarf úr augnsýn á bak við tréð, nálgaðist hundurinn hljóðlega fáeina þumlunga í einu, en varð svo aftur grafkyrr, áhugalaus að því er virtist. Þetta var það sem fangaði athygli nemendanna. Hljóðir og grafkyrrir störðu þeir á þann atburð sem augljóslega var í uppsiglingu.

Að lokum var hundurinn nógu nálægt til að stökkva að íkornanum og grípa hann í kjaftinn. Skelfingarhróp heyrðust og hópurinn hljóp fram til að hrifsa litla dýrið af hundinum, en það var um seinan. Íkorninn hafði drepist.

Hver sem í hópnum var hefði getað aðvarað íkornann með því að veifa höndum eða hrópa, en enginn gerði það. Nemendurnir fylgdust bara með aðdraganda hins óhjákvæmilega. Enginn spurði: „Hver verður útkoman?“ Þegar hið óhjákvæmilega gerðist, þustu allir fram til að breyta útkomunni, en það var um seinan. Allt sem þeir gátu gert var að fella harmatár.

Þessi sanna saga er einskonar dæmisaga. Hún á við um margt sem við sjáum í eigin lífi og aðstæðum annarra. Þegar við sjáum ógn nálgast manneskju eða kærar eigur, getum við valið að segja eða gera eitthvað eða bara þegja áfram. Gott er að spyrja: „Hver verður útkoman?“ Ef afleiðingarnar eru tafarlausar og alvarlegar, höfum við ekki ráð á að aðhafast ekkert. Við verðum að hefja upp viðeigandi aðvörunarraust eða gera réttar ráðstafanir, meðan enn gefst tími.

Aðstæðurnar sem ég lýsti hér fela í sér val á milli þess að aðhafast eitthvað eða hreinlega ekkert. Algengara er þó að valið standi á milli tveggja virkra valkosta. Það getur verið val á milli góðs eða ills, en þó er algengara að valið sé á milli tveggja góðra kosta. Þá er einnig gott að íhuga hver útkoman verður. Oft þurfum við að velja á milli tveggja góðra valkosta, sem tengjast því hvernig verja skuli tímanum. Það er ekkert að því að fara í tölvuleiki, skrifa textaboð, horfa á sjónvarp eða tala í farsíma. Hvert fyrir sig tengist þó hinum svo kallaða „fórnarkostnaði,“ sem merkir að við missum af tækifæri til að gera eitthvað eitt, ef við verjum tíma í eitthvað annað. Ég er viss um að þið skiljið hversu mikilvægt er að meta vandlega það sem við missum af, er við verjum tíma okkar í eitthvað annað, þótt það sé í sjálfu sér fyllilega gott.

Fyrir nokkru hélt ég ræðu sem ber yfirskriftina „Gott, betra, best.“ Í henni sagði ég að „aðeins það að eitthvað sé gott, er ekki næg ástæða til þess að gera það. Fjöldi alls þess góða sem við getum gert er mun meiri en tíminn sem gefst til að ljúka því. Sumt [er] betra en gott, og það er það sem ætti að hafa forgang í lífi okkar. … Við þurfum að sleppa sumu góðu til þess að velja annað sem er betra eða best.“1

Horfið fram á við. Hvaða áhrif hafa ákvarðanir okkar í dag á framtíðina? Munið mikilvægi þess að afla sér menntunar, læra fagnaðarerindið, endurnýja sáttmála okkar með sakramentinu og musterissókn.

II.

Spurningin: „Hver verður útkoman?“ er einnig mikilvæg hvað varðar sjálfsmat okkar og auðkenni. Mest um vert er að sérhvert okkar er barn Guðs með möguleika á eilífu lífi. Öll önnur auðkenni, þar á meðal atvinna, kynþáttur, líkamlegir eiginleikar eða gráður, eru stundleg og smávægileg í eilífu samhengi. Auðkennið ykkur ekki, eða sjáið sjálf ykkur, á þann hátt að það takmarki markmið sem þið keppið að.

Bræður mínir, og þær systur sem horfa á eða lesa það sem ég segi hér, ég vona að þið vitið afhverju leiðtogar ykkar setja fram þær kenningar og þá leiðsögn sem þeir gera. Við elskum ykkur og himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, elska ykkur. Áætlun hans fyrir okkur er „hin mikla sæluáætlun” (Alma 42:8). Sú áætlun, ásamt boðorðum þeirra, helgiathöfnum og sáttmálum, færa okkur mestu hamingju og gleði í þessu og næsta lífi. Sem þjónar föðurins og sonarins, kennum við og leiðbeinum í samræmi við leiðsögn þeirra með heilögum anda. Við þráum ekkert heitara en að segja það sem satt er og hvetja ykkur til að takast á við það sem þeir hafa fyrirbúið sem leiðina til eilífs lífs, „[mestu] allra gjafa Guðs“ (Kenning og sáttmálar 14:7).

III.

Hér er annað dæmi um áhrif ákvarðana okkar á framtíðina. Það varðar ákvörðun um að fórna einhverju í dag, til að ná mikilvægu markmiði í framtíðinni.

Á stikuráðstefnu í Cali í Kólumbíu sagði systir ein frá því hve mikið hún og unnusti hennar hefðu þráð að giftast í musterinu, þótt næsta musterið væri langt fjarri í Perú. Þau lögðu fyrir í langan tíma, til að eiga fyrir rútuferðinni. Þau komust loks þau með rútunni til Bogotá, en þegar þangað var komið voru öll sætin í rútunni til Líma, Perú, frátekin. Þau hefðu getað snúið heim, án þess að giftast eða gift sig utan musterisins. Sem betur fór var annar kostur fyrir hendi. Þau gátu farið með rútunni til Líma, væru þau fús til að sitja á gólfinu alla leiðina, dag og nótt, í fimm sólarhringa. Þau völdu það. Hún sagði það hafa verið erfitt, þó að sumir farþeganna hefðu stundum leyft þeim að sitja í sínu sæti meðan þeir teygðu úr sér á gólfinu.

Það sem snart mig í ræðunni, voru orð þessarar systur um hve þakklát hún og eiginmaður hennar hefðu verið að geta ferðast til musterisins á þennan hátt, því það breytti viðhorf þeirra til fagnaðarerindisins og musterishjónabandsins. Drottinn hafði umbunað þeim með þeim þroska sem í fórninni felst. Hún sagði einnig að fimm daga ferðin til musterisins, hefði gert mun meira til auka andríki þeirra, en margar musterisferðir án fórna hefðu gert.

Síðan ég heyrði þennan vitnisburð, hef ég íhugað hve frábrugðið líf ungu hjónanna hefði verið, ef þau hefðu tekið aðra ákvörðun – sleppt þeirri fórn sem var nauðsynleg til að giftast í musterinu.

Bræður, við tökum ógrynni ákvarðana í lífinu, sumar stærri og aðrar minni, að því er virðist. Eftir á að hyggja sjáum við að sumar ákvarðanir okkar hafa skipt miklu máli í lífinu. Við tökum betri ákvarðanir, ef við skoðum valkostina og íhugum útkomu þeirra. Með því að gera það, erum við að fylgja þeirri leiðsögn Russells M. Nelson forseta um að í upphafi skuli endinn skoða.2 Fyrir okkur er sá endir alltaf sáttmálsvegurinn í gegnum musterið til eilífs lífs, hinnar mestu allra gjafa Guðs.

Ég ber vitni um Jesú Krist og áhrif friðþægingar hans og sannleika hans ævarandi fagnaðarerindis, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Dallin H. Oaks, „Gott, betra, best,“ aðalráðstefna, okt. 2007.

  2. Sjá Russell M. Nelson, „Fylkjum liði,” aðalráðstefna, apríl 2018.