2010–2019
Hið sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi Jesú Krists
Apríl 2019


Hið sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi Jesú Krists

Grundvallarkenning hirðisþjónustu: Heimilismiðað, kirkjustyrkt nám, andleg tilbeiðsla á hvíldardegi og sáluhjálparstarf, er að elska Guð og náunga okkar.

Bræður mínir og systur, það er erfitt fyrir mig að trúa því að liðið sé 71 ár frá því að ég var trúboði í Englandi, árið 1948, og 44 ár frá því að ég og Barbara fórum með fjölskyldu okkar til Kanada þegar ég var forseti trúboðsins í Toronto, Kanada. Er ég þjónaði þar í apríl 1976, var ég kallaður í fyrstu sveit hinna Sjötíu og svo óvænt árið 1985 í Tólfpostulasveitina. Ólíkt fyrri köllunum mínum sem fólu í sér afleysingar, þá væri aflausn frá köllun minni í sveit hinna Tólf ekki besti valkosturinn núna og ég bið þess að sá dagur komi ekki fyrr en ég hef lokið öllu því sem Drottinn hefur kallað mig til að gera.

Er ég hugleiði þessi 43 ár í þjónustu, sem aðalvaldhafi og þau forréttindi að fá að þjóna börnum himnesks föður, geri ég mér enn betur grein fyrir því að hann vill að öll börn sín finni frið, gleði og hamingju í lífinu.

Spámaðurinn Lehí kenndi: „[Karlar og konur] lifa, svo að [þau] megi gleði njóta.“1 Það eru margar ástæður fyrir því að friður, gleði og hamingja smjúga úr greipum okkar í þessu lífi, má þar nefna fátækt, stríð, náttúruhamfarir og óvænt áföll í atvinnu-, heilsufars- og fjölskyldumálum.

Þó að við höfum ekki stjórn á þeim ytri öflum, sem hafa áhrif á líf okkar hér á jörðu, þá getum við fundið frið, gleði og hamingju, þrátt fyrir hin veraldlegu vandamál sem hvarvetna umlykja okkur, er við keppum að því að verða trúfastir lærisveinar Drottins Jesú Krists.

Eitt barna minna sagði eitt sinn: „Pabbi, ætli ég eigi nokkurn tíma eftir að ná alla leið.“ Ég svaraði: „Það eina sem himneskur faðir ætlast til, er að við gerum það besta sem við getum dag hvern.“ Bræður og systur, gerið ykkar besta dag fyrir dag og fyrr en varir munið þið vita að himneskur faðir þekkir ykkur og elskar. Þegar þið skiljið það – virkilega skiljið það – mun líf ykkar fá raunverulegan tilgang og merkingu og fyllast gleði og friði.

Sem ljós heimsins, sagði frelsarinn: „Enginn, sem á mig trúir, [er] áfram í myrkri.“2

„Jesús Kristur er það nafn, sem faðirinn gefur, og ekkert annað nafn er gefið, sem frelsað getur [okkur];

Þess vegna verða allir [karlar og konur] að taka á sig það nafn, sem faðirinn hefur gefið.“3

Ritningarnar kenna okkur að Satan þrái að leiða fólk inn í myrkur. Öll viðleitni hans fer í að loka á ljós og sannleika Jesú Krists og fagnaðarerindis hans. Eins og Lehí kenndi börnum sínum, þá sækist hann „eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann er sjálfur.“4 Ef „verk … og dýrð“ himnesks föður er að „gjöra ódauðleika og eilíft líf [karls og konu] að veruleika,“ 5 þá er „verk“ Lúsífers að kalla eymd og vesæld yfir börn Guðs. Synd og yfirsjónir myrkva ljós Krists í lífi okkar. Þess vegna keppum við að því að baða okkur í ljósi Krists, sem færir okkur frið, gleði og hamingju.

Á síðustu 18 mánuðum hefur Drottinn blásið spámanni sínum og postulum í brjóst að koma nokkrum dásamlegum breytingum í verk. Hins vegar hef ég áhyggjur af því að andlegur tilgangur þessara breytinga gæti týnst í sjálfum spenningnum yfir téðum breytingum.

Joseph F. Smith sagði: „Hið sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi Jesú Krists hefur verið endurreist. Við berum ábyrgð á því að viðhalda því hér á jörðunni.“6 Hann bætti því við að þetta sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi væri hinar „sáluhjálpandi kenningar Krists.“7

Spámaðurinn Joseph Smith kenndi í Trúaratriðunum, að „fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“8

Frumreglur fagnaðarerindisins eru trú á Drottin Jesú Krist, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og að standast allt til enda. Bróðir hans, Hyrum, prédikaði þær stöðugt og endurtekið: Þið munið finna að dag fyrir dag munu nýjar hugmyndir og frekara ljós varðandi þær opinberast ykkur. Þið getið útvíkkað þær þannig að þið skiljið þær greinilega. Þið munuð síðan geta gert þær mun skiljanlegri þeim sem [þið] kennið.“9

Besta leiðin til að sjá andlegan tilgang kirkjunnar er að lifa eftir hinum sönnu, hreinu og einföldu kenningum Krists og tileinka sér tvö æðstu boðorð frelsarans: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu. … Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“10

Hlýðni við þessi tvö boðorð gerir okkur kleift að upplifa meiri frið og gleði. Þegar við elskum og þjónum Drottni og elskum og þjónum samferðafólki okkar, mun okkur eðlislægara að upplifa meiri hamingju en við gætum á annan hátt.

Að elska Guð og náungann er hinn kenningarlegi grunnur hirðisþjónustu, hins heimilismiðaða og kirkjustyrkta náms, hvíldardagstilbeiðslu og sáluhjálparstarfsins beggja vegna hulunnar, sem stutt er bæði af Líknarfélaginu og öldungasveitum. Allt þetta byggir á guðlegum boðorðunum um að elska Guð og náunga okkar. Getur nokkuð verið jafn mikið undirstöðuatriði eða einfaldara en það?

Ef við lifum eftir hinni sönnu, hreinu og einföldu áætlun fagnaðarerindisins, mun það veita okkur meiri tíma til að heimsækja ekkjur og ekkla, munaðarlausa, einmana, veika og fátæka. Við munum finna frið, gleði og hamingju í lífinu er við þjónum Drottni og náunga okkar.

Breytingin á hvíldardeginum, sem tekur mið af heimilismiðuðu og kirkjustyrktu námi, er tækifæri til að endurnýja anda okkar og guðrækni innan veggja heimila okkar. Hvað gæti verið einfaldara, grundvallaðra og dýpra? Bræður og systur, getið þið séð hvað það er mikilvægt að læra og kenna fagnaðarerindið á heimilum okkar til að finna gleði og hamingju í lífi okkar?

Frelsarinn sagði, er hann ræddi um hvíldardaginn: „Því að sannlega er þessi dagur útnefndur yður til hvíldar frá erfiði yðar og til að votta hinum æðsta hollustu yðar.“11 Hann bætti við: „Svo að gleði yðar verði algjör … [með] gleði og bæn … gjörið [þá] þetta með þakkargjörð, með léttu hjarta og svip, … [og] með glöðu hjarta og léttum svip.“12

Takið vinsamlega eftir lykilorðum í þessari opinberun: Gleði, gleði, þakkargjörð, léttu hjarta, glöðu hjarta og léttum svip. Það hljómar þannig að hvíldardagshald ætti að færa bros á andlit okkar.

Ljósmynd
Að heilsast í kirkju

Höfum vinsamlega í huga er við störfum við háleitari og heilagari þjónustu, hve mikilvægt það er að við heilsum öllum sem koma á kirkjusamkomur, sérstaklega nýjum meðlimum og gestum. Við ættum öll að njóta þess að syngja sálmana og hlusta vandlega á orð sakramentisbænarinnar með opnu hjarta og huga.

Vitnisburðir trúar á föstu- og vitnisburðarsamkomum eru leiddir af meðlimum biskupsráð, sem deila stuttum vitnisburði, með áherslu á sæluáætlunina og hið sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi Krists. Allir aðrir ættu að fylgja því fordæmi. Við þurfum að hafa í huga að aðrir staðir eru betur til þess fallnir að segja sögur og deila frásögnum úr ferðalögum. Er við höldum vitnisburðum okkar einföldum og einblínum á fagnaðarerindi Krists, mun hann veita andlega endurnýjun er við deilum vitnisburði okkar með hvert öðru.

Best er að horfa á áhrifaríka hirðisþjónustu í gegnum linsu þess að elska Guð og náunga okkar. Málið er einfalt, við þjónum vegna þess að við elskum himneskan föður og börn hans. Viðleitni okkar í hirðisþjónustu verður farsælli, ef við höldum þjónustu okkar einfaldri. Mesta gleðin kemur frá hinu einfalda í lífinu, svo við þurfum að gæta okkur á því að telja ekki að auka þurfi við einhverjar þær breytingar sem eru ætlaðar okkur til að byggja upp trú og sterka vitnisburði í hjörtum barna Guðs.

Flækjum ekki málið með fleiri fundum, væntingum eða kröfum. Hafið þetta einfalt. Það er í þessum einfaldleika sem þið munið finna þennan frið, gleði og hamingju sem ég hef verið að tala um.

Markmið leiðtogastarfsins í kirkjunni hefur í mörg ár verið, eins og kemur fram í Handbook 2, að niðurstöður séu skýrar og einfaldar, og ég vitna:

Ljósmynd
Fjölskylda í tíundaruppgjöri

„Leiðtogar hvetja alla meðlimi til að meðtaka allar nauðsynlegar helgiathafnir prestdæmisins, halda þá sáttmála sem tengjast þeim og verða hæfa fyrir upphafningu og eilíft líf. …

Ljósmynd
Hjón í musterinu

Fullorðnir: Hvetja alla fullorðna til að vera verðuga þess að meðtaka helgiathafnir musterisins. Kenna öllum fullorðnum að finna áa sína og framkvæma staðgengilsathafnir fyrir þá í musterinu.

Ljósmynd
Prestdæmisvígsla
Ljósmynd
Stúlkur með helgiathafnaspjald musterisins

Æskan: Aðstoða hvern pilt við að meðtaka Melkíesedekprestdæmið, meðtaka helgiathafnir musterisins og vera verðugur þess að þjóna sem fastatrúboði. Aðstoða hverja stúlku til að verða verðug þess að gera og halda heilaga sáttmála og meðtaka helgiathafnir musterisins. Styrkja æskuna með þátttöku í innihaldsríkum viðburðum.

Ljósmynd
Deildarráð

Allir meðlimir: Aðstoða leiðtoga prestdæmis og aðildarfélaga, deildarráð, deildar- og fastatrúboða og meðlimi við að vinna að sameiginlegu framtaki við að bjarga einstaklingum, styrkja fjölskyldur og kirkjueiningar, auka prestdæmisstarf og safna saman Ísrael með trúarumbreytingu, varðveislustarfi og endurvirkni. Kenna meðlimum að sjá fyrir sjálfum sér og fjölskyldum sínum og aðstoða hina fátæku og nauðstöddu að hætti Drottins.“13

Þjónusta mín í kirkjunni hefur blessað mig með mörgum stórkostlegum og einstökum andlegum upplifunum. Ég er vitni að því að Drottinn leiðir kirkju sína til að uppfylla tilgang sinn. Ég hef hlotið guðlega leiðsögn langt umfram eigin getu. Sú gleði sem ég hef upplifað í trúarlífi mínu, hefur snúist um hina sönnu, hreinu og einföldu kenningu og fagnaðarerindi Jesú Krists.

Ég hef þjónað undir lyklum og leiðsögn sex spámanna og forseta kirkjunnar, allt frá Spencer W. Kimball að Russel M. Nelson. Ég ber vitni um að hver og einn þeirra var og er útvalinn spámaður Guðs. Þeir hafa kennt okkur grundvallarkenningar um kirkjuna og fagnaðarerindi og kenningar Krists. Nelson forseti heldur verki Drottins áfram á hrífandi hraða. Ég segi „hrífandi“ því að hann er sá eini postulanna sem er mér eldri og ég á erfitt með að halda í við hann! Ég er vitni að því að lyklar prestdæmisins eru í hans fórum og möttull spámanns Guðs er yfir honum. Nelson forseti kennir hið sanna, hreina og einfalda fagnaðarerindi Jesú Krists. Ég ber vitni um að Jesús er Kristur og að þetta er hans kirkja – um það ber ég auðmjúkur vitni, í nafni Jesú Krists, amen.