2010–2019
Sannleikur og áætlunin
Október 2018


Sannleikur og áætlunin

Þegar við leitum trúarlegs sannleika, ættum við að nota andlegar aðferðir sem hæfa þeirri leit.

Nútíma opinberun segir sannleika vera „[þekkingu] á hlutum eins og þeir eru, eins og þeir voru og eins og þeir munu verða“ (Kenning og sáttmálar 93:24). Það er fullkomin skilgreining á sáluhjálparáætluninni og „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“

Við lifum á tíma gríðarlega mikils upplýsingaflæðis. Allar þær upplýsingar eru þó ekki réttar. Við þurfum að gæta að okkar er við leitum sannleika og veljum heimildir í þeirri leit. Við ættum ekki að gera ráð fyrir að veraldleg frægð eða valdastöður séu góðar sannleiksheimildir. Við ættum að taka upplýsingum með fyrirvara frá afþreyingarstjörnum, frægu íþróttafólki eða ónafngreindum netheimildum. Sérþekkingu á einu sviði ætti ekki að taka sem sérþekkingu á öðru sviði.

Við ættum líka að huga að ásetningi þess sem veitir upplýsingar. Þess vegna vara ritningarnar okkur við prestaslægð (sjá 2 Ne 26:29). Ef heimildin er ekki nafngreind eða óþekkt, gætu upplýsingarnar líka verið tortryggilegar.

Persónulegar ákvarðanir okkar ættu að byggjast á upplýsingum heimilda sem eru fullnægjandi um efnið og lausar við eigingjarnan ásetning.

I.

Þegar við leitum að trúarlegum sannleika, ættum við að nota til þess andlegar aðferðir sem hæfa þeirri leit: Bæn, vitni heilags anda og ígrundun ritninganna og orða nútíma spámanna. Það hryggir mig alltaf að heyra einhvern segjast hafa misst trú sína vegna veraldlegra kenninga. Þeir sem eitt sinn höfðu andlegan skilning geta þjáðst af sjálfskapaðri andlegri blindu. Líkt og Henry B. Eyring forseti sagði: „Vandi slíkra felst ekki í því sem þeir greina, heldur í því sem þeir fá enn ekki greint.“1

Aðferðir vísinda veita okkur það sem við nefnum vísindalegan sannleika. „Vísindalegur sannleikur“ er þó ekki lífið óskipt. Þeir sem ekki sækjast eftir fræðslu með „námi og einnig með trú“ (Kenning og sáttmálar 88:118) takmarka skilning sinn á sannleika við það sem þeir fá staðfest á grunni vísinda. Þetta setur falska takmörkun á sannleiksleit þeirra.

James E. Faust forseti, sagði: „Þeir sem hafa [skírst] setja sál sína í hættu með því að sækjast aðeins eftir veraldlegu fræðsluefni. Við trúum að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu hafi fyllingu fagnaðarerindis Jesú Krists, sem er kjarni sannleikans og eilífrar fræðslu.“2

Við finnum sanna og varanlega gleði af því að þekkja sannleikann um það hver við erum, tilgang jarðlífsins og hvert við förum eftir dauðann. Þann sannleika er ekki hægt að læra eftir veraldlegum eða vísindalegum aðferðum.

II.

Ég ætla nú að ræða um endurreistan trúarlegan sannleika, sem er undirstaða að kenningu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Hugleiðið endilega þann sannleika vandlega. Hann útskýrir að miklu leyti kenningu og trúariðkun okkar, og hugsanlega eitthvað sem okkur skortir enn skilning á.

Það er Guð, sem er kærleiksríkur faðir anda allra sem hafa lifað og munu lifa.

Kynferði er eilíft. Áður en við fæddumst á þessa jörðu, vorum við öll karlkyns eða kvenkyns andar í návist Guðs.

Við hlustuðum á Laufskálakór Musteristorgsins hér áðan syngja: „Ég fylgi áætlun Guðs.“3 Það er sú áætlun sem Guð gerði svo að öll hans börn gætu þróast að eilífu. Sú áætlun er ómissandi fyrir okkur öll.

Guð skapaði þessa jörðu, samkvæmt þeirri áætlun og í þeim tilgangi að hans ástkæru andbörn gætu fæðst í jarðlífið til að hljóta efnislíkama og eiga kost á eilífri framþróun með réttlátu vali.

Til að ná fram tilgangi sínum, þurfti jarðlífið að bjóða upp á valkosti sem tengdust baráttu góðs og ills. Andstæður urðu að vera og því var óvininum, sem hafði verið varpað burtu vegna uppreisnar leyft að freista barna Guðs til að breyta andstætt áætlun Guðs.

Tilgangur áætlunar Guðs var að gefa börnum hans tækifæri til að velja eilíft líf. Það varð aðeins uppfyllt með jarðneskri reynslu og með framþróun í andaheimi, eftir dauðann.

Á jarðlífstíð okkar var víst að syndin yrði okkur kunnug og að við létum undan freistingum óvinarins og myndum loks deyja. Við gengumst við þessum áskorunum í trausti þeirrar áætlunar að Guðs faðir okkar sæi okkur fyrir frelsara, sínum frumgetna syni, sem kæmi okkur til bjargar með altækri upprisu efnislíkamans eftir dauðann. Frelsarinn myndi líka sjá okkur fyrir friðþægingu, til að reiða fram gjaldið fyrir hreinsun allra frá synd, að skilyrðum sem hann fyrirskipaði. Þau skilyrði fólu í sér trú á Krist, iðrun, skírn, gjöf heilags anda og aðrar helgiathafnir framkvæmdar með prestdæmisvaldi.

Hin mikla hamingjuáætlun Guðs veitir fullkomið jafnvægi á milli eilífrar réttvísi og þeirrar miskunnar sem við getum hlotið fyrir tilstilli friðþægingar Jesú Krists. Hún gerir okkur líka kleift að breytast í nýja sköpun í Kristi.

Kærleiksríkur Guð nær til okkar allra. Við vitum að fyrir elsku hans og friðþægingu hans eingetna sonar, geta „allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins [hans]“ (Trúaratriðin 1:3; leturbreyting hér).

Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er réttilega þekkt sem fjölskylduvæn kirkja. Það sem hins vegar er ekki fyllilega skilið, er að fjölskyldugildi okkar taka ekki aðeins mið af jarðneskum samböndum. Eilíf sambönd eru líka undirstaða trúar okkar. „Fjölskyldan er vígð af Guði.“4 Ætlunarverk hans endurreistu kirkju er, samkvæmt hinni miklu áætlun okkar kærleiksríka skapara, að hjálpa börnum Guðs að taka á móti guðlegri blessun upphafningar í himneska ríkið, sem aðeins mun hljótast með eilífu hjónabandi karls og konu (sjá Kenning og sáttmálar 131:1–3). Við staðfestum kenningar Drottins um að „kynferði [sé] nauðsynlegur eiginleiki einstaklingsins, sem einkennir hann og samræmist tilgangi hans í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð“ og að „hjónaband milli karls og konu [sé] kjarninn í [eilífri] áætlun [hans].“5

Að síðustu, er elska Guðs svo altæk að hann hefur séð öllum börnum sínum fyrir dýrðlegum örlögum, nema þeim fáu sem af ráðnum hug verða glötunarsynir. „Öllum börnum sínum,“ einnig þeim sem eru dáin. Við framkvæmum helgiathafnir fyrir þau í musterum okkar með staðgenglum. Tilgangur kirkju Jesú Krists er að gera börn Guðs hæf fyrir æðstu dýrðargráðuna, sem er upphafning eða eilíft líf. Þeim sem þrá það ekki eða eru óhæfir, hefur Guð séð fyrir öðrum en þó síðri dýrðarríkjum.

Allir þeir sem skilja þennan eilífa sannleika, fá skilið viðhorf og breytni meðlima Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

III.

Ég ætla nú að benda á hagnýtingu þessa eilífa sannleika, sem aðeins verður skilinn í ljósi áætlunar Guðs.

Í fyrsta lagi, heiðrum við sjálfræði einstaklingsins. Flestir eru kunnugir því mikla starfi hinnar endurreistu kirkju að efla trúfrelsi í Bandaríkjunum og um heim allan. Það starf er ekki einungis í eigin hagsmunaskyni, heldur samkvæmt áætlun hans, til að stuðla að því að öll börn Guðs fái notið valfrelsis.

Í öðru lagi, erum við trúboðsfólk. Stundum erum við spurð um ástæðu þess að við sendum trúboða til svo margra landa, jafnvel meðal kristinna þjóða. Við fáum sömu spurninguna um ástæðu þess að við gefum milljónir dala af hjálpargögnum til fólks sem ekki er meðlimir kirkju okkar og hvers vegna við tengjum ekki þá hjálp við trúboðsstarfið okkar. Við gerum þetta af þeirri ástæðu að við sjáum alla jarðarbúa sem börn Guðs – bræður okkar og systur – og við viljum miðla öllum af okkar andlegu og stundlegu allsnægtum.

Í þriðja lagi, er jarðlífið okkur heilagt. Skuldbinding okkar við áætlun Guðs krefst þess að við séum andstæð fóstureyðingum og líknardrápum.

Í fjórða lagi, eru sumir þjakaðir af sumum afstöðumálum kirkju okkar til hjónabands og barna. Þekking okkar á hinni opinberuðu sáluhjálparáætlun Guðs, gerir okkur andstæð núverandi pólitískum, lagalegum og félagslegum þrýstihópum, sem vilja hverfa frá hefðbundnu hjónabandi og koma á breytingum sem rugla þeim kynjaeinkennum sem aðgreina karla og konur. Við vitum að samband, auðkenni og virkni karla og kvenna eru nauðsynleg til að áætlun Guðs nái fram að ganga.

Í fimmta lagi, höfum við líka aðra hugsýn varðandi börnin. Við lítum á barnsburð og barnauppeldi sem hluta af áætlun Guðs og helga og gleðilega skyldu þeirra sem eiga kost á að framfylgja henni. Við lítum svo á að endanlegar gersemar himins og jarðar séu börn okkar og afkomendur. Við verðum því að kenna og vinna að reglum og verklagi sem skapa bestan jarðveg fyrir börn til vaxtar og hamingju – öllum börnum.

Í sjötta og síðasta lagi, erum við elskuð börn föður okkar á himnum, sem hefur kennt okkur að karlkyn og kvenkyn, hjónaband milli karls og konu og barnsburður og barnauppeldi séu nauðsynlegir þættir í hans eilífu hamingjuáætlun. Afstaða okkar til þessara undirstöðuatriða vekja oft upp andstöðu gegn kirkjunni. Við teljum það óhjákvæmilegt. Andstaða er hluti af áætluninni og ákafasta andstaða Satans beinist að hverju því sem er mikilvægast í áætlun Guðs. Hann reynir að eyðileggja verk Guðs. Megin tilgangur hans er að vanvirða frelsarann og hið guðlega vald hans, að draga úr áhrifum friðþægingar Jesú Krists, letja fólk til iðrunar, falsa opinberanir og gera einstaklingsbundna ábyrgðarskyldu að engu. Hann reynir líka að rugla fólk í ríminu varðandi kynferði, brengla hjónabandið og letja barneignir – einkum meðal foreldra sem munu ala upp börn sín í sannleikanum.

IV.

Verk Guðs eflist þrátt fyrir hina skipulögðu og stöðugu andspyrnu sem við stöndum frammi fyrir, er við reynum að lifa eftir kenningum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þeim sem hrasa við þá andspyrnu, færi ég þessar ábendingar.

Hafið í huga reglu iðrunar, sem hinn óviðjafnanlegi máttur friðþægingar Jesú Krists gerir mögulega. Líkt og öldungur Neal A. Maxwell brýndi fyrir okkur: Verið ekki meðal þeirra „sem vilja fremur breyta kirkjunni, en að breyta sjálfum sér.“6

Líkt og öldungur Jeffrey R. Holland brýndi fyrir okkur:

Haldið fast í það sem þið þegar vitið og verið sterk allt þar til meiri þekking berst ykkur.

Í þessari kirkju mun það sem við vitum alltaf verða ofan á gagnvart því sem við vitum ekki.“7

Iðkið trú á Drottin Jesú Krist, sem er fyrsta frumregla fagnaðarerindisins.

Að endingu, leitið liðsinnis. Kirkjuleiðtogar okkar elska ykkur og leita andlegrar leiðsagnar ykkur til hjálpar. Við höfum mörg hjálpargögn, sem t.d. finna má á LDS.org, og annan stuðning til trúarnáms á heimilinu. Við höfum líka þjónandi bræður og systur, kölluð til að veita ástúðlega aðstoð.

Okkar kærleiksríki himneski faðir vill að börn sín njóti þeirrar gleði sem var tilgangur sköpunar þeirra. Þau gleðilegu örlög er eilíft líf, sem við getum öðlast með því að sækja staðfastlega fram, á því sem spámaður okkar, Russell M. Nelson forseti, nefnir oft „sáttmálsveginn.“ Hér er það sem hann sagði í sínum fyrsta boðskap sem forseti kirkjunnar: „Verið á sáttmálsveginum. Skuldbinding ykkar um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og síðan að halda þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda, fyrir karla, konur og börn hvarvetna.“8

Ég ber hátíðlega vitni um sannleika orða minna hér og allt þetta er mögulegt fyrir kenningar og friðþægingu Jesú Krists, sem gerir þetta allt mögulegt fyrir tilstilli hinnar miklu áætlunar Guðs, okkar eilífa föður. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Henry B. Eyring, To Draw Closer to God: A Collection of Discourses (1997), 143.

  2. James E. Faust, “The Abundant Life,” Ensign, nóv. 1985, 9.

  3. “I Will Follow God’s Plan,” Children’s Songbook, 164–65.

  4. The Family: A Proclamation to the World,” Liahona, maí 2017, 145.

  5. The Family: A Proclamation to the World,” 145.

  6. Neal A. Maxwell, If Thou Endure It Well (1996), 101.

  7. Jeffrey R. Holland, “Lord, I Believe,” Liahona, maí 2013, 94; leturbreyting hér.

  8. Russell M. Nelson, “As We Go Forward Together,” Liahona, apríl 2018, 7.