2010–2019
Þjónusta sáttargjörðar
Október 2018


Þjónusta sáttargjörðar

Ég ber vitni um sálarfriðinn er sá hlýtur er sættist við Guð og menn, sé hann nægilega bljúgur og hugdjarfur til að leita hans.

Síðastliðinn apríl, er Russell M. Nelson forseti kynnti hugtakið hirðisþjónusta, lagði hann áherslu á að hún væri leið til að halda æðsta boðorðið um að elska Guð og hvert annað.1 Við, sem embættismenn kirkjunnar, hrósum ykkur opinskátt og óskum ykkur til hamingju með þau gífurlegu viðbrögð sem þið hafið sýnt hvað þetta varðar. Við þökkum ykkur fyrir að fylgja okkar ástkæra spámanni í þessu dásamlega verki og leggjum til að þið bíðið ekki eftir mikið fleiri leiðbeiningum. Stökkvið bara ofan í laugina og takið sundtökin. Haldið í átt að hinum þurfandi. Standið ekki sem lömuð og verið tvístíga yfir hvort synda skuli baksund eða hundasund. Ef við fylgjum þeim grundvallarreglum sem við höfum lært, erum í samræmi við prestdæmislykla og leitum leiðsagnar heilags anda, getur okkur ekki mistekist.

Í dag ætla ég að ræða um enn persónulegri þátt hirðisþjónustu, sem ekki er úthlutuð, felur ekki í sér áætluð viðtöl og krefst engrar greinargerðar, nema við himininn. Ég ætla einungis að segja frá einu heimatilbúnu dæmi um þess konar hirðisþjónustu.

Grant Morrell Bowen var duglegur og tryggur eiginmaður og faðir sem varð fyrir fjárhagslegum samdrætti, líkt og margir sem yrkja landið, er kartöfluuppskeran á svæðinu verður léleg. Hann og eiginkona hans, Norma, fóru í aðra vinnu, fluttu að lokum til annarrar borgar og tóku að vinna sig upp fjárhagslega. Því miður gerðist það óheppilega atvik, að bróðir Browen varð afar særður í viðtali vegna musterismeðmæla, er biskup hans efaðist örlítið um yfirlýsingu Morrels um að hann greiddi fulla tíund.

Ég veit ekki hvor þessara tveggja manna hafði meira til síns máls þennan dag, en ég veit að systir Browen fór frá því viðtali með endurnýjuð musterismeðmæli, en bróðir Browen fór frá því reiður, sem hélt honum frá kirkjunni í 15 ár.

Burt séð frá því hvor hafði rétt fyrir sér um tíundina, er ljóst að bæði Morrell og biskup hans gleymdu þessu boði frelsarans: „Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn,“2 og einnig leiðsögn Pálls: „Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.“3 Staðreyndin er sú að þeir voru ósáttir og að sólin settist yfir reiði Browens í daga, síðan vikur og loks ár, sem staðfesti mál eins vitrasta forn-rómverjans, er sagði: „Óheft reiði er oftast [skaðlegri] en meingjörðin sem vakti hana.“4 Kraftaverk sáttar stendur okkur samt alltaf til boða og af kærleika til fjölskyldu sinnar og kirkjunnar, sem Morrell Browen vissi að var sönn, varð hann aftur fullvirkur í kirkjunni. Ég skal segja ykkur stuttlega hvernig það vildi til.

Brad, sonur bróður Browens, er góður vinur okkar og tryggur svæðishafi Sjötíu, sem þjónar í suðurhuta Idaho. Brad var 11 ára þegar þetta gerðist og í 15 ár sá hann draga úr trúrækni föður síns og varð vitni að því ömurlega ástandi sem menn uppskera eftir að reiði og misskilningur hafa sáð sér. Eitthvað þurfti að gera. Þegar leið að þakkargjörðardegi árið 1977 var Brad 26 ára nemandi í Brigham Young háskóla. Hann og eiginkona hans, Valerie, og nýfæddur sonur hans, Mic, hlóðu sér inn í námsmannabílinn og óku til Billings, Montana, þrátt fyrir slæmt veður. Brotlending í snjóskafli nærri West Yellostone hélt þessum þremur ekki frá því að inna af hendi hirðisþjónustu sína við bróður Browen eldri.

Þegar komið var á staðinn, báðu Brad og systir Pam um að fá að ræða við föður sinn einslega. „Þú hefur verið dásamlegur faðir,“ byrjaði Brad af nokkurri tilfinningu, „og við höfum alltaf vitað hve heitt þú elskaðir okkur. Það er þó eitthvað að og hefur verið um langan tíma. Öll fjölskyldan hefur átt um sárt að binda vegna gamalla særinda þinna. Við erum brostin og þú einn getur lagað það. Geturðu fundið það í hjarta þínu, eftir allan þennan tíma, að gleyma þessu óheppilega atviki með þennan biskup og leiða þessa fjölskyldu í fagnaðarerindinu, eins og þú gerðir hér áður.“

Það varð dauðaþögn. Síðan leit bróðir Bowen upp á þessi tvö, börnin sín, sem voru hold af hans holdi5 og sagði afar hljóðlega: „Já. Já, ég skal gera það.“

Glöð en orðlaus yfir þessu óvænta svari, horfðu Brad Bowen og fjölskylda hans á eiginmann sinn og föður fara til núverandi biskups síns í anda sáttar, til að færa líf sitt í réttar skorður. Biskupinn, sem oft hafði boðið bróður Browen að koma til baka, brást fullkomlega við þessari hugdjörfu og óvæntu heimsókn, vafði Morrell örmum og faðmaði hann að sér – lengi og innilega.

Á einungis fáeinum vikum – það tók ekki langan tíma – var bróðir Browen aftur virkur í kirkjunni og hafði unnið að verðugleika sínum til að fara í musterið. Að því kom að hann tók á móti köllun um að vera í forsæti 25 manna lítillar greinar sem átti í basli og kom henni upp í blómlegan, rúmlega 100 manna söfnuð. Allt gerðist þetta fyrir um hálfri öld, en afleiðingar þess að sonur og dóttir sárbáðu föður sinn, og vegna fúsleika þessa föður til að fyrirgefa og sækja fram, þrátt fyrir ófullkomleika annarra, hefur þetta fært Browen fjölskyldunni blessanir sem enn halda áfram að koma – og munu koma að eilífu.

Bræður og systur, Jesús hefur boðið að við „[búum] saman í kærleika“6 og „engin sundrung skal vera á meðal yðar.“7 „Sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn,“ aðvaraði hann Nefítana.8 Vissulega mun samband okkar við Krist að miklu leyti ákvarðast af – eða hið minnsta verða fyrir áhrifum af – sambandi okkar við hvert annað.

„Ef þér … þráið að koma til mín,“ sagði hann, „og minnist þess þá, að bróðir yðar hafi gjört eitthvað á móti yður–

Farið þá fyrst til bróður yðar og sættist fyrst við hann, og komið síðan til mín með einlægum ásetningi, og ég mun taka á móti yður.9

Vissulega getum við öll vitnað í ótal frásagnir af gömlum sárum og sorgum og erfiðum minningum, sem einmitt nú eyðileggja hjartans frið einhvers einstaklings eða fjölskyldu eða hverfis. Hvort sem við höfum valdið þeim sársauka eða höfum þolað þann sársauka, þá þarfnast slík sár lækningar við, svo lífið geti orðið jafn gefandi og Guð ætlaði því að vera. Líkt og matvælin í ískáp ykkar sem barnabörnin gæta vel að fyrir ykkur, verða útrunnin, hafa slík gömul gremjuefni löngu náð sínum fyrningardegi. Látið þau ekki lengur taka dýrmætt pláss í sál ykkar. Líkt og Prospero sagði við hinn hrygga Alonso í The Tempest: „Við skulum ekki íþyngja okkur með slæmum minningum liðins tíma.“10

„Sýknið, og þér munuð sýknaðir verða,“11 kenndi Kristur á tíma Nýja testamentisins. Á okkar tíma: „Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“12 Það er aftur á móti mikilvægt fyrir sum ykkar sem upplifið raunverulegan sársauka að veita því athygli sem hann sagði ekki. Hann sagði ekki: „Þú mátt ekki upplifa raunverulegan sársauka eða sorg af þeirri niðurbrjótandi reynslu sem þú hefur orðið fyrir af hendi annars.“ Hann sagði ekki heldur: „Þú verður að snúa aftur í eitrað samband til að fyrirgefa algjörlega eða fara aftur í hrottafengnar, eyðileggjandi aðstæður.“ Við getum aðeins risið ofar sársauka okkar, hversu hræðilegar sem misgjörðirnar gætu hafa verið sem við urðum fyrir, ef við stígum inn á veg sannrar lækningar. Sá vegur er vegur fyrirgefningar, er Jesús frá Nasaret fór um, sem kallar til sérhvers okkar: „Kom … og fylg mér.“13

Með slíku boði, um að vera lærisveinn hans og að reyna að breyta líkt og hann gerði, er Jesús að biðja okkur að vera verkfæri náðar hans – að vera í „þjónustu sáttargjörðarinnar,“ eins og Páll segir við Korintubúa.14 Græðari allra sára, sá er leiðréttir allt ranglæti, biður okkur að vinna með sér í því óárennilega verki að flytja heimi frið sem ekki mun finna hann á annan hátt.

Líkt og Phillips Brooks ritaði: „Þú, sem lætur auman misskilning standa yfir árum saman, í þeim ásetningi að leysa hann síðar; þú sem viðheldur hamslausu þrætuefni, því erfitt reynist að ákveða hvort nú sé einmitt rétta stundin til að láta af eigin drambi og [gera út um málin]; þú sem sáir fúllyndi á strætin og yrðir ekki á fólk út af kjánalegri biturð …; þú sem lætur … hjarta [einhvers] verkja út af velþóknunar- eða samúðarorði, sem þú hyggst … einhverntíma gefa, … láttu þegar verða af því að gera það sem þú gæti aldrei aftur fengið tækifæri til að gera.“15

Kæru bræður mínir og systur, ég ber þess vitni að þungamiðja hinnar mikilfenglegu friðþægingar Jesú Krists, er að fyrirgefa og láta af misgjörðum, gömlum og nýjum. Ég ber þess vitni að slík andleg lækning getur aðeins hlotist frá okkar guðlega frelsara, er bregst skjótt við „með græðslu undir vængjum sínum.“16 Við þökkum honum, og himneskum föður okkar sem sendi hann, að endurnýjun og endurfæðing, framtíð laus við gamlar sorgir og liðin mistök, eru ekki aðeins möguleg, heldur er það þegar goldið og greitt afar dýru verði, sem táknað er með blóði Lambsins, er úthelti því.

Með því postulega valdi sem mér hefur verið falið af frelsara heimsins, ber ég vitni um sálarfriðinn er sá hlýtur er sættist við Guð og menn, sé hann nægilega bljúgur og hugdjarfur til að leita hans. „Leggið niður allar þrætur yðar á meðal,“ sárbiður frelsarinn.17 Ef þið vitið af gömlu sári, græðið það þá. Berið umhyggju fyrir hvert öðru með kærleika.

Kæru vinir mínir, ég bið ykkur, í okkar sameiginlegu þjónustu sáttagjörðar, að vera friðflytjendur – að elska friðinn, að leita friðar, að stilla til friðar og varðveita friðinn. Ég færi ykkur það ákall í nafni Friðarhöfðingjans, sem er fullkunnugur því að vera „[særður] í húsi ástvina [sinna],“18 en hafði styrk til að fyrirgefa og gleyma – og lækna – og vera hamingjusamur. Það er bæn mín, fyrir þig og mig, í nafni Drottins Jesú Krists, amen.