2010–2019
Foreldrar og börn
Október 2018


Foreldrar og börn

Hin mikla hamingjuáætlun himnesks föður, greinir frá því hverjar þið eruð og frá tilgangi lífsins.

Kæru systur, hve dásamlegt það er að hafa þennan nýja aðalfund kvenna, átta ára og eldri, á aðalráðstefnu kirkjunnar. Við höfum hlýtt á innblásinn boðskap frá leiðtogum systranna og frá Henry B. Eyring forseta. Ég og Eyring forseti njótum þess innilega að starfa undir leiðsögn Russells M. Nelson forseta og við hlökkum til spámannlegrar leiðsagnar hans.

I.

Börnin eru okkar dýrmætasta gjöf frá Guði – okkar eilífa aukning. Við lifum þó á tíma þar sem margar konur vilja hreint ekki eignast eða ala upp börn. Margt ungt fólk frestar hjónabandi þar til stundlegar þarfir eru uppfylltar. Meðalaldur hjónabands kirkjumeðlima hefur hækkað um ríflega tvö ár og dregið hefur úr fjölda barnsfæðinga kirkjumeðlima. Bandaríkin og sumar aðrar þjóðir standa frammi fyrir því að börn sem vaxa úr grasi og verða fullorðin séu of fá til að sjá fyrir þeim fjölda fullorðinna sem setjast í helgan stein.1 Yfir 40 prósent fæðinga í Bandaríkjunum má rekja til ógiftra mæðra. Þau börn eru berskjölduð. Öll þessi þróun vinnur gegn hinni guðlegu áætlun föður okkar.

II.

Síðari daga heilaga konur vita að mikilvægasta ábyrgð þeirra er að vera móðir, þeirra mesta gleði. Gordon B. Hinckley forseti, sagði: „Flestar konur telja sína mestu ánægju og gleði eiga rætur í heimilinu og fjölskyldunni. Guð gæddi konur einhverju guðlegu, sem er lýsandi fyrir rósemd þeirra og styrk, næmni, friðsæld, gæsku, dyggð, sannleika og kærleika. Allir þessir dásamlegu eiginleikar koma einlægast og best fram í mæðrahlutverkinu.“

Hann sagði ennfremur: „Æðsta verk sem sérhver kona mun fá unnið, er að ala upp börn sín, kenna þeim og hvetja þau og styrkja í réttlæti og sannleika. Ekkert annað jafnast á við það, burt séð frá því hvað hún gerir.“2

Mæður, kæru systur, við elskum ykkur fyrir það sem þið eruð og gerið fyrir okkur öll.

Í sinni mikilvægu ræðu frá árinu 2015, sem ber heitið „Ákall til systra minna,“ sagði Russell M. Nelson forseti:

„Ríki Guðs er ekki, og getur ekki verið, fullkomið án kvenna sem gera helga sáttmála og halda þá, kvenna sem geta talað með krafti og valdi Guðs!

Við þörfnumst kvenna á okkar tíma … sem vita hvernig þær eiga að koma mikilvægu til leiðar fyrir tilstilli eigin trúar og sem eru hugrakkir verndarar siðferðis og fjölskyldunnar í þessum syndsjúka heimi. Við þörfnumst kvenna sem helga sig því að gæta barna Guðs á vegi sáttmálans í átt að upphafningu, kvenna sem vita hvernig hljóta á persónulega opinberun, sem skilja kraft og frið musterisgjafarinnar, kvenna sem vita hvernig ákalla á krafta himins til að vernda og styrkja börn og fjölskyldur, kvenna sem kenna óttalaust.“3

Allar þessar innblásnu kenningar eru byggðar á „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ þar sem hans endurreista kirkja staðfestir kenningu og trúariðkun sem er þungamiðja áætlunar skaparans, sem gerð var fyrir sköpun jarðar.

III.

Ég beini máli mínu nú til yngri hluta þessara áheyrenda. Kæru ungu systur mínar, þið eruð einstakar, vegna þekkingar ykkar á hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Sú þekking mun gera ykkur kleift að takast á við og sigrast á erfiðleikum uppvaxtaráranna. Allt frá unga aldri hafið þið tekið þátt í dagskrám og verkefnum sem hafa þroskað hæfileika ykkar, ritmál, talmál, skipulagshæfni. Þið hafið lært ábyrga breytni, sem og að forðast þær freistingar að segja ósatt, svindla, stela eða neyta áfengis eða eiturlyfja.

Sérstaða ykkar var staðfest í rannsókn North Carolina háskólans á bandarískum unglingum og trúarbrögðum. Grein í Charlotte Observer bar yfirskriftina: „Unglingar mormóna standa sig best: Rannsókn sýnir þá koma best út úr kynþroskaárunum.“ Í greininni var ályktað að „mormónar stæðu sig best í því að forðast áhættusama breytni, stæðu sig best í skóla og hefðu jákvæðasta viðhorfið til framtíðar. Einn þeirra sem stóð að rannsókninni og átti viðtal við flesta unglinga okkar, sagði: „Í næstum öllum þáttum sem við skoðuðum, var greinilegt að mormónar stæðu sig best.“4

Af hverju takist þið best á við erfiðleika uppvaxtaráranna? Stúlkur mínar, það er vegna þess að þið skiljið hina miklu hamingjuáætlun himnesks föður. Hún greinir frá því hverjar þið eruð og frá tilgangi lífsins. Unglingar sem búa yfir þeim skilningi eru fyrstir til úrlausnar vandamála og til að velja hið rétta. Þið vitið að þið fáið notið liðsinnis Drottins til að sigrast á öllum erfiðleikum uppvaxtarins.

Önnur ástæða þess að þið standið ykkur best, er vegna þess að þið vitið að þið eruð börn himnesks föður, sem elskar ykkur. Ég er viss um að þið þekkið hinn fallega sálm: „Börnin kæru, Guð er nærri.“ Hér er fyrsta stefið sem við höfum öll sungið og fundið að er sannleikur:

Börnin kæru, Guð er nærri,

vakir yfir, dag og nótt,

ykkur þráir vel að blessa,

ef þið breytið vel og rétt.5

Það eru tvær kenningar í þessu stefi: Hin fyrri er að himneskur faðir er nálægur og vakir yfir ykkur dag og nótt. Hugleiðið það! Guð elskar ykkur, er nálægur og vakir yfir ykkur. Hin síðari er að hann hefur unun af því að blessa ykkur, er þið „breytið vel og rétt.“ Hvílík huggun mitt í áhyggjum okkar og erfiðleikum!

Já, stúlkur mínar, þið eruð blessaðar og dásamlegar, en þið, líkt og öll börn himnesks föður, þurfið að „breyta vel og rétt.“

Hér gæti ég veitt ykkur leiðsögn varðandi ótal margt, en hef valið að ræða aðeins um tvennt.

Fyrra atriðið er varðandi farsíma. Í nýlegri landlægri rannsókn kom fram að yfir helmingur unglinga í Bandaríkjunum hafi sagst verja of miklum tíma í farsíma sínum. Yfir 40 prósent þeirra sagðist finna fyrir kvíða við að vera aðskilin frá farsímanum.6 Þetta var almennara meðal stúlkna en pilta. Kæru ungu systur – og líka eldri konur – það mun blessa líf ykkar, ef við dragið úr ásókn og notkun farsíma ykkar.

Annað atriðið er jafnvel enn mikilvægara. Sýnið hver annarri vinsemd. Góðvild er nokkuð sem margir unglingar hafa þegar tileinkað sér. Sumir æskulýðshópar í sumum samfélögum hafa sýnt okkur hinum leiðina. Við höfum hrifist af verkum æskufólksins okkar í þágu þeirra sem hafa þörf fyrir ástúð og liðsinni. Þið veitið slíka hjálp á marga vegu og sýnið öðrum slíka elsku. Við vildum að allir fylgdu fordæmi ykkar.

Við vitum þó líka að óvinurinn reynir að freista okkar allra til að vera óvingjarnleg og það eru ótal dæmi um það, jafnvel meðal barna og unglinga. Látlaus illgirni er þekkt undir mörgum nöfnum, svo sem að leggja í einelti, gera aðsúg að einhverjum eða sameinast um að hafna öðrum. Slíkt atferli felst í því að særa bekkjarfélaga eða vini af ráðnum hug. Kæru ungu systur mínar, það er Drottni ekki þóknanlegt að við sýnum öðrum illgirni.

Hér er eitt dæmi. Ég þekki pilt nokkurn, flóttamann hér í Utah, sem var strítt fyrir það eitt að vera öðruvísi og þar með talið af því að tala stundum eigið móðurmál. Hann var ofsóttur af forréttindahópi unglinga, þar til hann svaraði fyrir sig á þann hátt að hann fór í fangelsi í 70 daga, meðan skoðað var að senda hann úr landi. Ég veit ekki hvað fékk þennan unglingahóp til að gera þetta, sem margir hverjir voru Síðari daga heilagir, líkt og þið, en ég fæ séð afleiðingarnar af illkvittni þeirra, ömurlega og dýrkeypta upplifum fyrir eitt barn Guðs. Smávægileg illkvittin breytni getur haft hræðilegar afleiðingar.

Þegar ég heyrði um þetta, varð mér hugsað um það sem spámaðurinn Nelson forseti sagði nýlega á heimslægri trúarsamkomu æskufólks. Þar sem hann bauð ykkur og öllu æskufólki að hjálpa til við samansöfnun Ísraels og sagði: „Standið upp úr og verið ólík heiminum. Ég og þið vitið að ykkur ber að vera ljós fyrir heiminn. Þess vegna þarfnast Drottinn þess að þið séuð eins og sannir lærisveinar Jesú Krists, í útliti, máli, framkomu og klæðnaði.“7

Æskufólk liðsveitarinnar, sem Nelson forseti hefur boðið að þið gangið í, mun ekki sýna hvert öðru illgirni. Það mun lifa eftir kenningu frelsarans um að vera hjálplegt, elskulegt og hugulsamt við aðra, jafnvel að bjóða fram hinn vangann þegar einhver hefur misboðið.

Á liðinni aðalráðstefnu, um það bil þegar margar ykkar fæddust, hrósaði Gordon B. Hinckley forseti „dásamlegum stúlkum sem reyndu að lifa eftir fagnaðarerindinu.“ Hann lýsti þeim eins og ég vil lýsa ykkur:

„Þær eru göfuglyndar við hver aðra. Þær reyna að styrkja hver aðra. Þær eru foreldrum sínum og heimilum til sóma. Þær verða brátt fullvaxta konur og munu alla ævi halda á lofti hugsjónum sínum, sem þær nú lifa eftir.“8

Ég, sem þjónn Drottins, segi við ykkur, stúlkur mínar, að heimurinn þarfnast gæsku ykkar og kærleika. Sýnið hver annarri góðvild. Jesús kenndi okkur að elska hvert annað og að breyta við aðra eins og við viljum að breytt sé við okkur. Þegar við reynum að vera gæskurík, komumst við nær honum og kærleiksríkum áhrifum hans.

Kæru systur mínar, ef þið takið þátt í einhverri illkvittni eða ómerkilegheitum – einar eða í hópi – ákveðið þá nú að breyta því og hvetja aðra til að gera hið sama. Þetta er leiðsögn mín og ég veiti ykkur hana sem þjónn Drottins Jesú Krists, því andi hans hefur knúið mig til að ræða um þetta mikilvæga efni. Ég ber vitni um Jesú Krist, frelsara okkar, sem kenndi okkur að elska aðra eins og hann elskaði aðra. Ég bið þess að við gerum það, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Sjá Sara Berg, “Nation’s Latest Challenge: Too Few Children,” AMA Wire, 18. júní 2018, wire.ama-assn.org.

  2. Teachings of Gordon B. Hinckley (1997), 387, 390; sjá einnig M. Russell Ballard, “Mothers and Daughters,” Liahona, maí 2010, 18; (í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 156).

  3. Russell M. Nelson, “A Plea to My Sisters,” Liahona, nóv. 2015, 96; sjá einnig Russell M. Nelson, “Children of the Covenant,” Ensign, maí 1995, 33.

  4. Rannsókn þessi var birt í Oxford University Press frá Christian Smith og Melinda Lundquist Denton, Soul Searching: The Religious and Spiritual Lives of American Teenagers (2005).

  5. “Dearest Children, God Is Near You,” Hymns, nr. 96.

  6. Sjá “In Our Opinion: You Don’t Need to Be Captured by Screen Time,” Deseret News, 31. ágúst 2018, deseretnews.com.

  7. Russell M. Nelson, “Hope of Israel” (worldwide youth devotional, 3. júní 2018), 8, HopeofIsrael.lds.org.

  8. Gordon B. Hinckley, “The Need for Greater Kindness,” Liahona, maí 2006, 60–61.