2010–2019
Upphafsorð
Október 2018


Upphafsorð

Það er kominn tími á heimilismiðaða kirkju, með stuðningi þess sem á sér stað í greinar-, deildar- og stikubygginum okkar.

Kæru bræður og systur, við höfum hlakkað til þess að vera með ykkur aftur á þessari októberaðalráðstefnu kirkjunnar. Við færum sérhverju ykkar okkar innilegustu kærleikskveðjur. Við erum mjög þakklátir fyrir bænastuðning ykkar. Við finnum áhrif bæna ykkar. Takk fyrir!

Við erum þakklátir fyrir ykkar góða framlag við að fylgja eftir þeirri leiðsögn sem var gefin á aðalráðstefnu fyrir sex mánuðum. Stikuforsætisráð hvarvetna um heim hafa leitað nauðsynlegrar opinberunar við endurskipulag öldungasveita. Karlar þessara sveita, vinna af kostgæfni, ásamt okkar trúföstu Líknarfélagssystrum, við að þjóna bræðrum okkar og systrum á æðri og helgari hátt. Við fyllumst andagift yfir gæsku ykkar og undursamlegu framlagi við að færa fjölskyldum, samferðafólki og vinum elsku frelsarans og þjóna þeim að hans hætti.

Frá aprílráðstefnunni höfum ég og systir Nelson átt stundir með meðlimum í fjórum meginlöndum og á eyjum úthafs. Allt frá Jerúsalem til Harare og frá Winnipeg til Bangkok, höfum við skynjað mikla trú ykkar og styrk vitnisburðar ykkar.

Við gleðjumst innilega yfir hinum mikla fjölda æskufólks sem hefur gengið í æskulýðssveit Drottins, til að hjálpa til við samansöfnun Ísraels.1 Við þökkum ykkur! Ef þið takið því boði sem ég lagði fram á hinni heimslægu æskulýðssamkomu, munið þið verða okkur hinum til fyrirmyndar. Þið æskufólkið setjið sannlega mark ykkar á starfið!

Á undanförnum árum höfum við í yfirráðum kirkjunnar glímt við þessa spurningu: Hvernig getum við fært öllum börnum Guðs hið einfalda og skýra fagnaðarerindi og helgiathafnir þess, með eilífum áhrifum þeirra?

Við, sem Síðari daga heilög, erum orðin vön þeim hugsanagangi að „kirkja“ sé eitthvað sem gerist í samkomuhúsum okkar, með stuðningi þess sem á sér stað á heimilinu. Við þurfum að breyta þessum hugsanagangi. Það er kominn tími á heimilismiðaða kirkju, með stuðningi þess sem á sér stað í greinar-, deildar- og stikubygginum okkar.

Eftir því sem kirkjan verður fjölmennari um heim allan, búa margir meðlimir þar sem við höfum ekki kapellur – og svo gæti orðið um ófyrirséða framtíð. Ég man eftir fjölskyldu sem bjó við slíkar aðstæður og var beðin um að koma saman á heimili sínu. Ég spurði móðurina að því hvað henni fyndist um að hafa kirkju á eigin heimili. Hún svaraði: „Mér finnst það dásamlegt! Eiginmaður minn vandar nú mál sitt betur á heimilinu, því hann veit að hann þarf að blessa sakramentið hér hvern sunnudag.“

Hið viðvarandi ætlunarverk kirkjunnar er að hjálpa öllum meðlimum að styrkja eigin trú á Drottin Jesú Krist og friðþægingu hans, hjálpa þeim að gera og halda sáttmála við Guð og styrkja og innsigla fjölskyldur þeirra. Þetta er ekki auðvelt í þessum flókna heimi. Árásir óvinarins á trúna og okkur sjálf og fjölskyldur okkar verða stöðugt harðari. Við þurfum að koma forvirkri varnaráætlun í framkvæmd, til að standast andlega. Við viljum því gera skipulagsbreytingar í þessu sambandi, til að efla enn frekar meðlimi okkar og fjölskyldur þeirra.

Í mörg ár hafa kirkjuleiðtogar unnið að þróun samþætts námsefnis, til að styrkja fjölskyldur og einstaklinga sem tekur mið af heimilismiðaðri og kirkjustyrktri áætlun, til að læra kenningar, styrkja trú og stuðla að persónulegri tilbeiðslu. Sú viðleitni okkar á umliðnum árum að stuðla að helgi hvíldardagsins – að gera hann að feginsdegi og persónulegu tákni um elsku okkar til Guðs – mun fá aukið vægi samfara þeim breytingum sem nú verða kynntar.

Í dag munum við kynna breytingar og nýjar áherslur varðandi trúarfræðslu á milli heimilis og kirkju. Sérhvert okkar ber ábyrgð á eigin andlegum vexti. Ritningarnar segja glögglega að megin ábyrgð foreldra sé að kenna börnum sínum kenninguna.2 Ábyrgð kirkjunnar er að hjálpa hverjum meðlim að vinna að því guðlega skilgreinda markmiði að auka trúarlega þekkingu sína.

Öldungur Quentin L. Cook mun nú gera frekari grein fyrir þessum mikilvægu breytingum. Allir meðlimir Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar eru sameinaðir í framsetningu þessa boðskapar. Við staðfestum þakklátir innblástur Drottins, sem hefur verið ráðandi í þróun þeirrar áætlunar sem öldungur Cook mun kynna.

Kæru bræður og systur, ég veit að Guð lifir! Jesús er Kristur! Þetta er kirkjan hans, sem hann leiðir með spádómi og opinberun til auðmjúkra þjóna sinna. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.