2010–2019
Kjósið þá í dag
Október 2018


Kjósið þá í dag

Eilíft hamingjustig okkar ræðst af því að við veljum lifandi Guð og tökum þátt í verki hans.

Skáldsagnapersónan Mary Poppins er dæmigerð ensk barnfóstra – sem býr yfir töframætti.1 Hún kemur svífandi með austanvindinum til að hjálpa Banks-fjölskyldunni sem býr í húsi númer 17, við Kirsuberjatrjárunn, í Lundúnaborg á tímum Edwards konungs. Henni er falið að sjá um börnin – Jane og Mikael. Ákveðið en ljúflega tekur hún að kenna þeim dýrmæta lexíu á hrífandi hátt.

Jane og Mikael taka umtalsverðum framförum og Mary einsetur sér að halda af stað. Í leiksýningunni reynir sótarinn, og vinur Mary, að telja hana af því að fara. Hann segir: „En þetta eru góðir krakkar, Mary.“

Mary svarar: „Væri ég hér, ef þau væri ekki ómaksins verð? Ég get samt ekki hjálpað þeim, ef þau leyfa það ekki og engum er jafn erfitt að kenna og barni sem allt þykist vita.“

Bert sagði spyrjandi: „Og?“

Mary svarar þá: „Þau verða því að taka sitt næsta skref á eigin spýtur.“2

Bræður og systur, við erum „góðir krakkar,“ eins og Jane og Mikael Banks, sem erum ómaksins verð. Himneskur faðir þráir að hjálpa og blessa okkur, en við gerum honum það ekki alltaf kleift. Stundum breytum við eins og við vitum alla hluti sjálf. Við þurfum líka að taka okkar „næsta skref“ á eigin spýtur. Það er ástæða þess að við komum til jarðar úr fortilverunni, okkar himnesku heimkynnum. Okkar „skref“ felur í sér að gera upp hug okkar.

Uppeldismarkmið föður okkar á himnum er ekki að láta börn sín gera það sem rétt er, heldur að láta börn sín velja að gera það sem rétt er og að lokum verða eins og hann er. Ef hann einfaldlega vildi fá okkur til að hlýða, gæti hann beitt skyndiumbun og refsingu til að hafa áhrif á hegðun okkar.

Guð hefur þó ekki áhuga á að börn hans verði einungis eins og þjálfuð og hlýðin „gæludýr,“ sem ekki munu naga sundur inniskóna hans í stofu himins.“3 Nei, Guð vill að börn sín vaxi upp andlega og taki þátt í fjölskyldufyrirtæki hans.

Guð setti fram áætlun um að við gætum orðið erfingjar í ríki hans, sáttmálsveg sem gerir okkur kleift að verða eins og hann er, lifa því lífi sem hann lifir og dvelja að eilífu sem fjölskyldur í návist hans.4 Persónulegt val var – og er – nauðsynlegt í áætlun hans, sem við lærðum í fortilveru okkar. Við samþykktum áætlunina og völdum að koma til jarðar.

Við vorum sveipuð gleymskuhulu, svo við myndum ekki eftir áætlun Guðs og til að tryggja að við myndum iðka trú og læra að nota sjálfræði okkar réttilega. Án þessarar gleymskuhulu næði tilgangur Guðs ekki fram að ganga, því við gætum þá ekki þróast og orðið þeir áreiðanlegu erfingjar sem hann óskar.

Spámaðurinn Lehí sagði: „Þess vegna gaf Drottinn Guð manninum rétt til að breyta samkvæmt sjálfstæðum vilja, og sjálfstæð gat breytni mannsins aðeins orðið, ef hann léti laðast að annarri hvorri andstæðunni.“5 Í grunninn er Jesús Kristur, hinn frumgetni föðurins, fulltrúi annars valkostsins. Fulltrúi hins valkostsins er Satan, Lúsífer, sem vill eyðileggja sjálfræðið og hrifsa til sín völd.6

Í Jesú Kristi „höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum.“7 Eftir að Jesús hafði lokið friðþægingu sinni, „[sté hann] upp til himins … til að krefja föðurinn um rétt sinn til miskunnar fyrir mannanna börn.“ Eftir að hann krafðist réttar til miskunnar, talar hann máli mannanna barna.“8

Málsvörn Krists í okkar þágu hjá föðurnum er ekki óvinveitt. Jesús Kristur, sem leyfði að vilji sinn innbyrðist í vilja föðurins,9 myndi ekki tala fyrir einhverju öðru en því sem vilji föðurins hefði alltaf staðið til. Án efa þá fagnar himneskur faðir sigrihrósandi yfir árangri okkar.

Málsvörn Krists er, a.m.k. að hluta, til að minna okkur á að hann galt fyrir syndir okkar og að engin er undanskilin miskunn Guðs.10 Þeir sem trúa á Jesú Krist iðrast, eru skírðir og standast allt til enda – sem er ferli sem leiðir til sátta11 – frelarinn fyrirgefur, græðir og verður málsvari okkar. Hann er hjálpari okkar, huggari og milligöngumaður – vottar og staðfestir sátt okkar við Guð.12

Lúsífer er í algjörri andstöðu við þetta, kærandinn eða saksóknarinn. Opinberarinn Jóhannes lýsti endanlegum sigri á Lusífer: „Og ég heyrði mikla rödd á himni segja: Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi Krists hans.“ Af hverju? Af því að „niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt. Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.“13

Lúsífer er þessi kærandi. Hann talaði gegn okkur í fortilverunni og hann heldur áfram að fordæma okkur í þessu lífi. Hann reynir að rífa okkur niður. Hann vill að við upplifum óendanlega ógæfu. Hann er sá sem telur okkur trú um að við séum ófullnægjandi, sá sem telur okkur trú um að við séum ekki nógu góð, að enginn bati sé fyrir misgjörð. Hann er mesti kúgarinn, sá sem sparkar í okkur liggjandi.

Ef Lúsífer væri að kenna barni að ganga og það hrasaði, myndi hann öskra að barninu, refsa því og segja því að hætta að reyna. Aðferðir Lúsífers leiða til ógnar og örvæntingar – í öllum tilvikum, að lokum. Þessi faðir lyginnar er mesti stuðningsmaður óheilinda14 og reynir allt hvað hann getur að blekkja okkur og afvegaleiða, því „hann sækist eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann er sjálfur.“15

Ef Kristur væri að kenna barni að ganga og það hrasaði, myndi hann hjálpa barninu á fætur og hvetja það til að reyna aftur.16 Kristur er hjálparinn og huggarinn. Aðferðir hans leiða til gleði og vonar – endanlega og í öllum tilvikum.

Áætlun Guðs veitir okkur leiðsögn, sem í ritningunum er vísað til sem boðorða. Þau boðorð eru hvorki kenjótt eða handahófskennt safn þröngvaðra reglna sem hafa þann eina tilgang að þjálfa okkur til hlýðni. Þeim er ætlað að hjálpa okkur að þróa guðlega eiginleika, að komast aftur til himnesks föður og hljóta varanlega gleði. Hlýðni við boðorð hans er ekki blind. Við veljum meðvitað Guð og veginn hans heim. Leiðin okkar er sú sama og fyrirbúin var fyrir Adam og Evu, þar sem „Guð gaf þeim boðorð, eftir að hafa kunngjört þeim endurlausnaráætlunina.“17 Þótt Guð vilji að við séum á sáttmálsveginum, veitir hann okkur þá sæmd að velja fyrir okkur sjálf.

Já, Guð þráir, væntir þess og býður að sérhvert barna hans velji fyrir sig sjálft. Hann mun ekki beita þvingun. Fyrir gjöf sjálfræðis leyfir Guðs börnum sínum að „hafa sjálf áhrif, en verða ekki aðeins fyrir áhrifum.“18 Sjálfræðið gerir okkur kleift að velja að fara inn á veginn eða ekki. Það gerir okkur kleift að fara út af honum eða ekki. Á sama hátt og ekki er hægt að þvinga okkur til hlýðni, er ekki hægt að þvinga okkur til óhlýðni. Engum er mögulegt, án eigin íhlutunar, að fara með okkur út af veginum. (Þessu ætti ekki að rugla saman við þá sem upplifa að sjálfræði þeirra sé fótum troðið. Slíkir eru ekki utan vegarins. Þeir eru fórnarlömb. Þeir munu njóta skilnings, elsku og samúðar Guðs.)

Þegar við hins vegar förum út af veginum, syrgir Guð, því hann veit að það mun óhjákvæmilega að lokum leiða til óhamingju og glataðra blessana. Í ritningunum er vísað til þess sem syndar að fara út af veginum og minnkandi hamingja og glataðar blessanir eru sögð vera refsing. Í þeim skilningi er það ekki Guð sem að refsar okkur, heldur er hún afleiðing af eigin vali, ekki hans vali.

Þegar við komumst að því að við erum ekki á veginum, getum við verið utan hans eða valið að snúa við og fara aftur inn á hann fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists. Í ritningunum er sú breytni að ákveða að breytast og snúa aftur inn á veginn nefnd iðrun. Að láta hjá líða að iðrast, merkir að við veljum að vera óhæf til að hljóta þær blessanir sem Guð þráir að veita okkur. Ef við erum „ekki [fús] til að njóta þess, sem [við hefðum getað] hlotið … [munum við] snúa aftur á [okkar] stað, til að njóta þess, sem [við erum fús] til að taka á móti“19 – sem er val okkar, ekki Guðs.

Guð hjálpar okkur aftur inn á veginn sama hversu lengi sem við höfum verið utan hans eða hversu langt við höfum villst af honum.20 Ef við iðrumst einlæglega og sækjum staðföst fram í Kristi, lítur Guð svo á að við höfum aldrei farið út af veginum, er við erum aftur kominn inn á hann.21 Frelsarinn galt fyrir syndir okkar og leysti okkur undan oki dvínandi hamingju og blessana. Í ritningunum er vísað til þessa sem fyrirgefningu. Að skírn lokinni, munu allir meðlimir gera mistök – sum okkar fara jafnvel alveg út af veginum. Þess vegna einskorðast iðkun trúar á Jesú Krist, iðrun, liðsinni frá honum og fyrirgefning, ekki við einn viðburð, heldur er síendurtekið ævilangt ferli. Það er þannig sem við „stöndumst allt til enda.“22

Við þurfum að velja hverjum við viljum þjóna.23 Eilíft hamingjustig okkar ræðst af því að við veljum lifandi Guð og tökum þátt í verki hans. Þegar við kappkostum að „taka okkar næsta skref,“ erum við að nota sjálfræði okkar réttilega. Líkt og fyrrverandi Líknarfélagsforseti sagði: „Við ættum ekki að vera eins og börn sem þarfnast stöðugra gælna og umvöndunar.“24 Nei, Guð vill að við verðum þroskað fullorðið fólk og stjórnum okkur sjálf.

Að velja að fylgja áætlun föðurins, er eina leiðin fyrir okkur til að verða erfingjar í ríki hans og einungis þá getur hann treyst því að við biðjum hann jafnvel ekki um það sem er andstætt vilja hans.25 Við þurfum þó líka að hafa í huga að „engum er jafn erfitt að kenna og barni sem allt þykist vita.“ Við þurfum því að vera fús til að læra að hætti Drottins, af Drottni og þjónum hans. Við getum treyst því að við erum ástkær börn himneskra foreldra og „ómaksins verð“ og verið viss um að „á eigin spýtur“ merkir aldrei að við séum „látin ein eftir.“26

Ég segi með Jakob, spámanni Mormónsbókar:

„Herðið þess vegna upp hugann og minnist þess, að þér hafið frelsi til að breyta sjálfstætt, til að velja leiðina til ævarandi dauða eða leiðina til eilífs lífs.

Þess vegna, ástkæru bræður mínir [og systur], skuluð þér semja yður að vilja Guðs, en ekki að vilja djöfulsins og … minnast þess, að það er einungis í og fyrir Guðs náð, sem þér frelsist.“27

Veljið því trú á Krist, veljið iðrun, veljið að skírast og að meðtaka heilagan anda, veljið að búa ykkur stöðugt undir sakramentið og meðtakið það verðug, veljið að gera sáttmála í musterinu og veljið að þjóna hinum lifandi Guði og börnum hans. Val okkar ákvarðar hver við erum og hvað við verðum.

Ég lýk með niðurlagi blessunar Jakobs: „Megi Guð því reisa yður frá … ævarandi dauða í krafti friðþægingarinnar, til að þér fáið inngöngu í hið eilífa ríki Guðs.“28 Í nafni Jesú Krists, amen.