2010–2019
Sáluhjálpandi helgiathafnir færa okkur undursamlegt ljós
Apríl 2018


Sáluhjálpandi helgiathafnir færa okkur undursamlegt ljós

Þátttaka í helgiathöfnum og að heiðra þá sáttmála sem tengjast þeim, mun færa ykkur undursamlegt ljós og vernd í heimi sem er sífellt að myrkvast.

Bræður og systur, ég fagna með ykkur í fagnaðarerindinu, eða í kenningu Krists.

Eitt sinn spurði vinur öldung Neil L. Andersen, sem var þá einn af hinum Sjötíu, hvernig það væri að tala frammi fyrir 21.000 manns í Ráðstefnuhöllinni. Svar öldungs Andersen var: „Það eru ekki þessir 21.000 sem gera mann óstyrkan, heldur bræðurinir fimmtán sem sitja fyrir aftan þig.“ Ég hló lágt þá, en skynja það nú. Ég sannarleg elska og styð þessa fimmtán menn sem spámenn, sjáendur og opinberara.

Drottinn sagði Abraham að í gegnum niðja hans og í gegnum prestdæmið, þá myndu allar fjölskyldur jarðar verða blessaðar „með blessunum fagnaðarerindisins,… já, eilífs lífs“ (Abraham 2:11; sjá einnigvers 2-10).

Þessar blessanir, sem lofaðar voru, og prestdæmið, voru endurreist á jörðu og síðan, árið 1842, veitti spámaðurinn Joseph Smith takmörkuðum fjölda karla og kvenna musterisgjöfina. Mercy Fielding Thompson var ein þeirra. Spámaðurinn sagði við hana: „Þessi [musterisgjöf] mun færa þig úr myrkri inn í undursamlegt ljós.“1

Í dag langar mig að leggja áherslu á sáluhjálpandi helgiathafnir sem munu færa ykkur og mig inn í undursamlegt ljós.

Helgiathafnir og sáttmálar musterisins

Í True to the Faith, lesum við: „Helgiathöfn er heilög, formleg athöfn sem framkvæmd er með valdi prestdæmisins. Helgiathafnirnar, sem eru nauðsynlegar fyrir upphafningu okkar … eru kallaðar sáluhjálpandi helgiathafnir. Þar má nefna skírn, staðfestingu, vígslu í Melkíesedeksprestdæmið (fyrir karlmenn), musterisgjöfina og hjónabandsvígslu.“2

Öldungur David A. Bednar kenndi: „Helgiathafnir sáluhjálpar og upphafningar sem iðkaðar eru í hinni endurreistu kirkju Drottins … mynda samþykktar leiðir þar sem blessanir og kraftar himna geta flætt inn í okkar persónulega líf.3

Eins og með tvíhliða smápening, þá fylgir sáttmáli við Guð öllum sáluhjálpandi helgiathöfnum. Guð lofaði okkur blessunum, ef við heiðrum þessa sáttmála trúfastlega.

Spámaðurinn Amúlek lýsti yfir: „Þetta líf er tími … til að búa sig undir að mæta Guði (Alma 34:32). Hvernig undirbúum við okkur? Með því að meðtaka helgiathafnirnar verðuglega. Samkvæmt orðum Russel M. Nelsons forseta, þá verðum við einnig að „halda okkur á sáttmálsleiðinni.“ Nelson forseti hélt áfram: „Skuldbinding ykkar um að fylgja frelsaranum, með því að gera sáttmála við hann og síðan að halda þá sáttmála, mun ljúka upp dyrum sérhverrar andlegrar blessunar og forréttinda, fyrir karla, konur og börn hvarvetna.“4

Eins og svo mörg ykkar þá eru John og Bonnie Newman þiggendur þeirra blessana sem Nelson forseti lofaði. Eftir að hafa farið í kirkju með ungu börnin sín þrjú, einn sunnudaginn, sagði Bonnie við John, sem var ekki meðlimur kirkjunnar: „Ég get ekki gert þetta ein. Þú verður að ákveða hvort þú komir með okkur í kirkju eða veldu kirkju sem við getum farið saman í, en börnin þurfa að vita að faðir þeirra elskar Guð líka.“ Næsta sunnudag, og alla sunnudaga þar á eftir, kom John ekki bara með þeim í kirkju heldur þjónaði hann einnig, lék á píanóið í mörg ár fyrir margar deildir, greinar og Barnafélög. Ég fékk þann heiður að hitta John í apríl 2015 og við ræddum á þeim fundi, að besta leiðin fyrir hann að tjá Bonnie ást sína væri að fara með hana í musterið, en það gæti ekki gerst fyrr en hann myndi skírast.

Eftir að hafa stundað Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu í 39 ár þá skírðist John árið 2015. Ári seinna voru John og Bonnie innsigluð í musterinu í Memphis, Tennessee, 20 árum eftir að hún hafði hlotið musterisgjöf sína. Sonur þeirra Robert, sem var 47 ára gamall, sagði um föður sinn: „Pabbi hefur virkilega blómstrað síðan hann fékk prestdæmið.“ Bonnie bætti við: „John hefur alltaf verið hamingjusamur og glaðlyndur einstaklingur en eftir að hann meðtók helgiathafnirnar og er að heiðra sáttmála sína, hefur ljúfmennska hans aukist.“

Friðþægingarfórn Krists og fordæmi hans

Fyrir mörgum árum varaði Boyd K. Packer forseti við: „Góð hegðun, án helgiathafna fagnaðarerindisins mun hvorki endurleysa, né upphefja mannkynið.“5 Í raun þá þurfum við ekki einungis helgiathafnirnar og sáttmálana til að snúa til föður okkar, heldur þurfum við einnig son hans Jesú Krist og friðþægingu hans.

Benjamín konungur kenndi að einungis með og í nafni Krists getur sáluhjálp komið til mannanna barna (sjáMósía 3:17;sjá einnigTrúaratriðin 1:3).

Jesú Kristur endurleysti okkur frá falli Adams í gegnum friðþægingu sína og gerði okkur kleyft að iðrast og öðlast að lokum upphafningu. Í gegnum líf sitt gaf hann okkur fordæmið að meðtaka sáluhjálpandi helgiathafnir þar sem „opinberast … kraftur guðleikans“ (K&S 84:20).

Eftir að frelsarinn meðtók skírnarathöfnina til að „fullnægja öllu réttlæti“ (sjá 2 Ne 31:5-6), þá freistaði Satan hans. Á sama hátt þá hætta freistingar ekki eftir skírn, eða innsiglun, en að meðtaka helgiathafnirnar og að heiðra þá sáttmála sem fylgja þeim fyllir okkur með undraverðu ljósi og veitir okkur styrk til að standast og sigrast á freistingum.

Aðvörun:

Jesaja spáði um að á síðari dögum muni: „Jörðin vanhelgast … því að þeir hafa … rofið sáttmálann“ (Jes 24:5; sjá einnig K&S 1:15).

Viðvörun, sem tengist þessu, var opinberuð spámanninum Joseph Smith um að „þeir nálgast [Drottin] með vörunum, … [og] þeir kenna boðorð manna, sem eru guðleg að formi til, en þeir afneita krafti þeirra“ (Joseph Smith—Saga 1:19).

Páll varaði einnig við að margir myndu hafa „á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar, snú þér burt frá slíkum“ (2 Tím 3:5). Ég endurtek, snú þér burt frá slíkum.

Hinar miklu truflanir og freistingar sem lífið býður upp á, eru eins og „gráðugir vargar“ (Matt 7:15). Það er hinn sanni fjárhirðir sem mun undirbúa, vernda og vara sauðina og hjörðina við þegar þessi vargur nálgast (sjáJóh 10:11-12). Sem aðstoðarfjárhirðar sem reynum að tileinka okkur hið fullkomna líf góða hirðisins, erum við ekki hirðar okkar eigin sálar, jafnt sem sálna annarra? Með ráðgjöf spámanna, sjáenda og opinberara, þeirra sem við vorum að styðja, og með valdi og gjöf heilags anda, getum við séð varginn koma ef við erum vakandi og undirbúin. Í andstöðu við þetta, ef við erum kærulausir hirðar eigin sálar og annarra, þá er líklegt að eitthvað mannfall verði. Kæruleysi leiðir að mannfalli. Ég býð okkur öllum að vera trúfastir hirðar.

Reynsla og vitnisburður

Sakramentið er helgiathöfn sem hjálpar okkur að halda okkur á veginum og ef við meðtökum það verðuglega þá er það sönnun á því að við séum að halda sáttmálana sem tengjast öllum hinum helgiathöfnunum. Fyrir nokkrum árum, er við Anita, eiginkona mín, þjónuðum í trúboðinu í Little Rock, Arkansas, fór ég út að kenna með tveimur ungum trúboðum. Á meðan á lexíunni stóð sagði þessi góði bróðir, sem við vorum að kenna: „Ég hef komið í kirkju ykkar, af hverju eruð þið að borða brauð og vatn á hverjum sunnudegi? Í okkar kirkju gerum við það tvisvar á ári, á páskum og jólum, og það hefur mikla þýðingu.“

Við deildum því með honum að okkur sé boðið að „kom oft saman til að neyta brauðs og víns“ (Moró 6:6; sjá einnig K&S 20:75). Við lásum upphátt úr Matt 26 og 3 Ne 18. Hann svaraði því þannig að hann sæi ekki nauðsyn þess.

Við deildum þá með honum eftirfararandi samlíkingu: „Ímyndaðu þér að þú lendir í alvarlegu bílslysi. Þú hefur slasast og ert meðvitundarlaus. Einhver hleypur að, sér að þú ert meðvitundarlaus og hringir á neyðarlínuna 112. Þér er hjálpað og þú nærð meðvitund.“

Við spurðum síðan þennan bróður: „Þegar þú rankar við þér og gerir þér grein fyrir umhverfi þínu, hvaða spurningar muntu spyrja?“

Hann sagði: „Ég myndi vilja vita hvernig ég komst þangað og hver fann mig. Ég myndi vilja þakka honum á hverjum degi af því að hann bjargaði lífi mínu.“

Við deildum því þá með þessum góða bróður hvernig frelsarinn hefði bjargað lífi okkar og hvernig við verðum að þakka honum á hverjum degi, hverjum degi, hverjum degi!

Við spurðum hann svo: „Vitandi að hann gaf líf sitt fyrir þig og fyrir okkur, hve oft langar þig að eta brauð og drekka vatn sem tákn um líkama hans og blóð?“

Hann sagði: „Ég skil, ég skil. Eitt í viðbót, samt. Kirkjan ykkar er ekki eins lífleg og okkar.

Við svöruðum því þannig: „Hvað myndir þú gera ef frelsarinn Jesús Kristur gengi inn um dyrnar hjá þér?“

Hann sagði: „Ég myndi samstundis fara niður á hnéin.“

Við spurðum hann þá: „Er það ekki það sem þú skynjar þegar þú gengur inn í kapellu Síðari daga heilagra, lotning fyrir frelsaranum?“

Hann sagði: „Ég skil, ég skil, ég skil!“

Hann kom til kirkju þann páskasunnudag og hélt áfram að koma.

Ég býð okkur, hverjum og einu, að spyrja sig sjálf: „Hvaða helgiathafnir, þar með talið sakramentið, þarf ég að meðtaka og hvaða sáttmála þarf ég að gera, halda og heiðra?“ Ég lofa því að þátttaka í helgiathöfnum og að heiðra þá sáttmála sem tengjast þeim, mun færa ykkur undursamlegt ljós og vernd í heimi sem er sífellt að myrkvast. Í nafni Jesú Krists, amen.