2010–2019
Þjónum eins og frelsarinn
Apríl 2018


Þjónum eins og frelsarinn

Megum við sýna þakklæti okkar og kærleika til Guðs með því að þjóna eilífum bræðrum okkar og systrum af kærleika.

Þvílík dásamleg blessun það er að lifa á tímum áframhaldandi opinberana frá Guði. Er við horfum fram til þess að hann „endurreisir alla hluti,“1 sem hafa og mun koma gegnum opinberaða atburði okkar tíma, þá er verið að undirbúa okkur fyrir seinni komu frelsarans.2

Hvernig getum við betur undirbúið okkur undir að hitta hann en að vinna að því að verða líkari honum í gegnum kærleikríka þjónustu við hvert annað! Eins og Jesús Kristur kenndi fylgjendum sínum í upphafi ráðstöfunartíma okkar: „Ef þið elskið mig, skuluð þér þjóna mér.“3 Þjónusta okkar við aðra er vitnisburður á lærisveinaþjónustu okkar og þakklæti og elsku til Guðs og sonar hans, Jesú Krists.

Stundum höldum við að við verðum að gera eitthvað stórkostlegt og djarflegt til að það „gildi“ sem þjónusta við náungann. Samt getur einföld þjónusta haft djúp áhrif á aðra - og á okkur sjálf. Hvað gerði frelsarinn? Í gegnum guðdómlegar gjafir friðþægingar og upprisu - sem við minnumst á þessum fallega páskasunnudegi - „[hefur] enginn annar haft svo djúpstæð áhrif á þá sem lifað hafa og lifa munu á jörðu.“4 Hins vegar brosti hann einnig til, talaði við, gekk með, hlustaði á, gaf sér tíma með, hvatti, kenndi, fæddi og fyrirgaf. Hann þjónaði fjölskyldu og vinum jafnt sem nágrönnum og ókunnugum og hann bauð kunningjum og ástvinum að njóta hinna ríkulegu blessana fagnaðarerindis síns. Þessi „einföldu“ þjónustu- og kærleiksverk eru mótið fyrir þjónustu okkar í dag.

Þegar þið fáið tækifæri til að vera fulltrúar frelsarans í þjónustu ykkar, spyrjið ykkur þá sjálf: „Hvernig get ég deilt ljósi fagnaðarerindisins með þessum einstaklingi eða fjölskyldu? Hvað er andinn að hvetja mig til að gera?“

Hægt er að þjóna á fjölbreyttan en einstaklingsbundinn hátt. Hvernig lítur það þá út?

Það er þjónusta þegar forsætisráð öldungasveitar eða Líknarfélags ráðgast saman um verkefni með bæn í huga. Þjónusta er að ræða persónulega saman um einstaklinga og fjölskyldur, þegar verkefnum er útdeilt til þjónustubræðra og systra, fremur en að dreifa bara blöðum. Hún er að fara út í göngutúr saman, hittast á spilakvöldi, bjóða fram þjónustu eða að þjóna saman. Hún er að heimsækja einhvern eða að spjalla saman í símanum, á netinu eða í skilaboðum. Hún er að afhenda afmæliskort eða fagna saman á knattspyrnuleik. Hún er að deila ritningarversi eða tilvitnun í ráðstefnuræðu sem gæti haft þýðingu fyrir viðkomandi einstakling. Hún er að ræða spurningu úr fagnaðarerindinu eða að deila vitnisburði til að færa skýrleika og frið. Hún er að verða hluti af lífi einhvers og að annast hann eða hana. Hún er að veita þjónustuviðtal, þar sem rætt er um þarfir og styrkleika á næman og viðeigandi hátt. Hún er veitt þegar deildarráð skipuleggur hvernig hægt er að bregðast við meiri þörf.

Slík þjónusta styrkti eina systur sem flutti langt að heiman þegar maðurinn hennar hóf mastersnám. Hún var símalaus og var með lítið barn að annast og henni fannst hún vera að tapa áttum á nýjum stað, algerlega týnd og ein. Án þess að veita henni einhvern fyrirvara þá kom Líknarfélagssystir til hennar með litla skó fyrir barnið, setti þau bæði í bílinn sinn og fór með þau í matvörubúð. Þakklát systirin sagði: „Hún var líflínan mín!“

Sönn þjónusta er eins og ein eldri systir sýndi í Afríku, þegar henni var gefið það verkefni að ná sambandi við systur sem hafði ekki komið á kirkjusamkomur í langan tíma. Þegar hún fór heim til systurinnar komst hún að því að hún hafði verið barin og rænd, átti mjög lítið til að borða og átti engin föt sem henni fannst viðeigandi fyrir kirkjusamkomur. Konan sem fékk verkefnið að þjóna, kom og hlustaði á hana. Hin „týnda“ systir kom fljótlega aftur til kirkju og er nú með köllun, því að hún veit að hún er elskuð og mikils metin.

Það að sameina framlag Líknarfélagsins með ný skipulagðri öldungasveit, mun stuðla að einingu sem getur komið með undraverðar niðurstöður. Þjónustan verður eitt sameiginlegt verk við að uppfylla prestdæmisskyldur sem felast í því að „vitja heimilis sérhvers meðlims“ og að „vaka stöðugt yfir söfnuðinum, vera með honum og styrkja hann,“5 ásamt því að uppfylla tilgang Líknarfélagsins við að aðstoða hvert annað við að undirbúa sig undir blessanir eilífs lífs.6 Að starfa saman undir leiðsögn biskupsins, geta forsætisráð öldungasveitar og Líknarfélags verið innblásin í leit þeirra að bestu leiðinni til að vaka yfir og annast hvern einstakling og fjölskyldu.

Mig langar að gefa ykkur dæmi. Móðir nokkur greindist með krabbamein. Hún hóf fljótlega meðferð og Líknarfélagssysturnar tóku strax til starfa við að gera áætlanir um hvernig væri best að aðstoða með máltíðir, ferðir í meðferðir og annan stuðning. Þær heimsóttu hana reglulega og veittu henni glaðlegan félagsskap. Á sama tíma stökk Melkísedekprestdæmið af stað. Þeir veittu aðstoð við að bæta við sérhönnuðu auka herbergi og baðherbergi, svo að það yrði auðveldara að annast hina veiku systur. Piltarnir ljáðu hendur og bök í að taka þátt í því merka verki. Stúlkurnar tóku þátt og skipulögðu kátar að viðra hundinn á hverjum degi. Tíminn leið og deildin hélt áfram þjónustu sinni, bættu við og aðlöguðu þar sem nauðsyn krafðist. Þetta var greinilega kærleiksverk, hver meðlimur gaf af sér og í sameiningu sýndu þau kærleika á persónulegan hátt sem blessaði ekki einungis hina þjáðu systur, heldur hvern meðlim fjölskyldu hennar.

Eftir hetjulega baráttu þá laut systirin loks lægra haldi fyrir krabbameininu og var lögð til hinstu hvílu. Varpaði deildin andanum léttar og hugsaði sér að þetta væri vel gert og gott að það var búið? Nei, stúlkurnar héldu áfram að ganga með hundinn daglega, prestdæmið hélt áfram að þjóna föðurnum og fjölskyldu hans og Líknarfélagið hélt áfram að rétta fram hönd með kærleika til að fullvissa sig um styrkleika og þarfir. Bræður og systur, þetta er þjónusta - þetta er að elska eins og frelsarinn!

Önnur blessun þessarar innblásnu tilkynningar, er tækifærið fyrir stúlkur, 14 til 18 ára, að taka þátt í þjónustu sem félagar Líknarfélagssystra, á sama hátt og piltarnir á sama aldri starfa sem þjónustufélagar bræðra í Melkísedeksprestdæminu. Æskan getur deild einstökum gjöfum sínum og vaxið andlega er hún þjónar við hlið hinna fullorðnu í verki sáluhjálparinnar. Að láta æskufólkið vera með í þjónustuverkefnum, eykur fjölda þeirra sem taka þátt, svo Líknarfélagið og öldungasveitin verða betur í stakk búinn til að annast aðra.

Er ég hugsa um þær afburða stúlkur sem ég hef þekkt, þá verð ég spennt fyrir hönd þeirra Líkarfélagssystra sem munu fá þau forréttindi að vera blessaðar með eldmóð stúlknanna, hæfileikum þeirra og andlegri næmni, er þær þjóna hlið við hlið eða hljóta þjónustu frá þeim. Ég er jafn glöð yfir því að stúlkunum gefst kostur á að njóta leiðsagnar, kennslu og styrks systra þeirra í Líknarfélaginu. Þetta tækifæri, að taka þátt í uppbyggingu ríkis Guðs, mun verða gífurlegur ávinningur fyrir stúlkurnar, auðvelda þeim að búa sig undir að uppfylla hlutverk sitt sem leiðtogar í kirkjunni og samfélaginu og að verða virkir og fullgildir félagar í fjölskyldum sínum. Eins og systir Bonnie L. Oscarson sagði í gær um stúlkurnar: „Þær vilja þjóna. Þær þurfa að vita að þær eru mikils metnar og nauðsynlegar í verki sáluhjálpar.“7

Í raun þá eru stúlkurnar þegar að þjóna öðrum, án úthlutaðra verkefna eða lúðrablásturs. Fjölskylda sem ég þekki flutti langa leið á nýjan stað þar sem þau þekktu engan. Strax fyrstu vikuna kom 14 ára stúlka úr nýju deildinni heim til þeirra með disk af smákökum og bauð þau velkomin á svæðið. Móðir hennar stóð brosandi fyrir aftan hana sem fús bílstjóri, að styrkja dóttur sína í löngun hennar til að þjóna.

Önnur móðir hafði áhyggjur af því að 16 ára dóttir hennar var ekki komin heima á venjulegum tíma. Þegar hún kom loks heim spurði móðir hennar, frekar ósátt, hvar hún hefði verið. Þessi 16 ára stúlka svaraði hálf vandræðalega að hún hefði farið með blóm til ekkju sem bjó nærri. Hún hafði tekið eftir því að þessi eldri systir virtist einmanna og fannst hún hvött til að heimsækja hana. Með fullu samþykki móður sinnar, hélt stúlkan áfram að heimsækja hina eldri konu. Þær urðu góðar vinkonur og þessi ljúfa vinátta þeirra hélt áfram í mörg ár.

Hver og ein þessarra stúlkna, og margar aðrar líkar þeim, taka eftir þörf einhvers og reyna að uppfylla hana. Stúlkur hafa eðlislæga þrá til að annast og gefa af sér, sem væri tilvalið að virkja í sameiginlegri þjónustu með eldri systrum.

Sama hvað við erum gamlar, þegar við hugsum um að þjóna á sem áhrifaríkastan máta, þá spyrjum við: „Á hverju þarf hún [eða hann] að halda?“ Tengjum þessa spurningu svo við einlæga þrá til að þjóna, þá erum við leiddar af andanum til að gera það sem lyftir og styrkir einstaklinginn. Ég hef heyrt óteljandi sögur af bræðrum og systrum sem voru blessuð af einföldum vináttuvotti og boðin velkomin í kirkju, hugulsömum tölvupósti eða textaboðum, persónulegum samskiptum á erfiðum tíma, boði í hópskemmtun eða boði um aðstoð við erfiðar aðstæður. Einstæðir foreldrar, nýir trúskiptingar, líttvirkir meðlimir, ekkjur og ekklar eða unglingur í vanda þurfa kannski auka athygli og forgangsaðstoð frá þjónustubræðrum og systrum Samhæfing á milli forsætisráða öldungasveitar og Líknarfélags leiðir til þess að réttum verkum verði úthlutað.

Eftir að öll kurl eru komin til grafar, þá er sannri þjónustu sinnt einni í einu með kærleikann að leiðarljósi. Gildi, virði og undur einlægrar þjónustu er það sem sannarlega breytir lífum! Þegar hjörtu okkar eru opin og fús til að elska og umvefja, hvetja og hugga, þá verður kraftur þjónustu okkar ómótstæðilegur. Með kærleika sem hvata þá munu kraftaverk gerast og við munum finna leiðir til að koma hinum „týndu“ bræðrum okkar og systrum í alltumvefjandi faðm fagnaðarerindis Jesú Krists.

Frelsarinn er fordæmi okkar í öllu - ekki einungis í því sem við ættum að gera heldur í því hvers vegna við ættum að gera það.8 „Líf hans hér á jörðu var boð til okkar - um að lyfta augsýn okkar aðeins ofar, til að gleyma eigin vandamálum og að seilast til annarra.“9 Er við tökum á mótið því tækifæri að þjóna systrum okkar og bræðrum einlæglega, þá erum við blessuð til að verða andlega fágaðri, meira í takt við vilja Guðs og hæfari til að skilja áætlun hans um að hvert okkar geti snúið aftur til hans. Við munum eiga auðveldara með að bera kennsl á blessanir hans og vera fúsari að deila þeim blessunum með öðrum. Hjörtu okkar munu syngja í takt við raddir okkar.

Ljúft vil elska lúinn bróður,

líkt og heitt þú elskar mig.

Vera ætíð við hann góður,

virða og lyfta á æðra stig.

Ljúft vil elska lúinn bróður,

Lát mig æ geisla þig.10

Megum við sýna þakklæti okkar og kærleika til Guðs með því að þjóna eilífum bræðrum okkar og systrum af kærleika.11 Niðurstaðan af því verður tilfinningaleg eining eins og fólkið í Ameríku naut í 100 ár eftir að frelsarinn birtist í landi þeirra.

„Og svo bar við, að engar deilur voru í landinu vegna elsku Guðs, sem bjó í hjörtum fólksins.

… engin öfund var, né erjur, … og vissulega gat ekki hamingjusamara fólk á meðal allra þeirra, sem Guð hafði skapað.“12

Ég ber minn persónulega vitnisburð af gleði um að þessar opinberuðu breytingar eru innblásnar af Guði og ef við umföðmum þær af fúsu hjarta, þá munum við verða betur undirbúin að taka á móti syni hans, Jesú Kristi, er hann kemur. Við verðum nær því að verða fólk Síonar og munum upplifa framúrskarandi gleði með þeim sem við höfum hjálpað eftir vegi lærisveinsins. Að við megum gjöra svo, er heit og auðmjúk bæn mín, í nafni Jesú Krists, amen.