2010–2019
Fylkjum liði
Apríl 2018


Fylkjum liði

Þrá ykkar til að hlýða mun aukast, er þið rifjið upp og íhugið það sem þið hafið upplifað þessa helgi.

Kæru bræður og systur, er dregur að lokum þessarar sögulegu ráðstefnu, þá sameinast ég ykkur í þakklæti til Drottins fyrir handleiðslu hans og andleg áhrif. Tónlistin hefur verið dásamleg og andlega auðgandi. Boðskapurinn hér hefur ekki aðeins verið fræðandi, heldur lífsmótandi!

Við studdum hið nýja Æðsta forsætisráð á hátíðarfundinum. Tveir mikilhæfir menn hafa tekið sæti í Tólfpostulasveitinni. Auk þess hafa átta nýir aðalvaldhafar verið kallaðir.

Kunnulegur sálmur lýsir endurnýjaðri staðfestu okkar, áskorunum og boðinu um að sækja fram:

Fylkjum liði, Drottins vors flytjum mikla mál,

mun hann þá á himninum launa vorri sál.

Bregðum andans sverði sýnum máttinn hans,

sigurmáttinn sannleikans.

Hræðstu' ei þó að árás ógni þér,

oss mun Drottinn styrkja hvar sem er,

eigi munum virða vondra manna tal,

vorum Guði einum hlýða skal.1

Ég hvet ykkur til að ígrunda oft boðskap þessarar ráðstefnu – jafnvel mjög oft – á næstu sex mánuðum. Leitið meðvitað leiða til að tileinka ykkur þennan boðskap á fjölskyldukvöldum, í trúarnámi ykkar, í samræðum ykkar við fjölskyldu og vini og jafnvel við þá sem ekki eru okkar trúar. Margt gott fólk mun taka vel á móti þeim sannleika sem kenndur hefur verið á þessari ráðstefnu, sé hann gefinn af kærleika. Þrá ykkar til að hlýða mun líka aukast, er þið rifjið upp og íhugið það sem þið hafið upplifað þessa helgi.

Þessi aðalráðstefna markar nýtt upphaf á nýju skeiði þjónustu. Drottinn hefur gert mikilvægar breytingar á því hvernig við önnumst hvert annað. Systur og bræður – ungir sem aldnir – munu þjóna hvert öðru á nýjan, helgari hátt. Öldungasveitir verða efldar til að blessa líf karla, kvenna og barna um heim allan. Líknarfélagssystur munu halda áfram að þjóna á sinn einstæða og ástúðlega hátt og veita yngri systrum tækifæri til að starfa með þeim, eins og verður viðeigandi skipulagt.

Boðskapur okkar til heimsins er einfaldur og einlægur: Við bjóðum öllum börnum Guðs, báðum megin hulunnar, að taka á móti blessunum hins heilaga musteris, njóta varanlegrar gleði og vera hæf fyrir eilíft líf.2

Upphafning mun endanlega krefjast algjörrar trúmennsku núna við þá sáttmála sem við gerum og helgiathafnir sem við tökum á móti í húsi Drottins. Á þessum tíma eru starfrækt musteri 150 að tölu og fleiri eru í byggingu. Við viljum færa musterin nær hinum stækkandi meðlimafjölda kirkjunnar. Við njótum því nú þeirrar ánægju að tilkynna um ráðgerða byggingu sjö mustera til viðbótar. Þau musteri verða staðsett á eftirtöldum landssvæðum: Salta, Argentínu; Bengaluru, Indlandi; Managua, Níkaragúa; Cagayan de Oro, Fillipseyjum; Layton, Utah; Richmond, Virginíu; og í stórborg sem enn á eftir að ákveða í Rússlandi.

Kæru bræður og systur, ekki er víst að bygging þessara mustera breyti lífi ykkar, en tíminn sem þið verjið þar mun vissulega gera það. Í þeim anda blessa ég ykkur svo að þið fáið vitað hvað leggja má til hliðar, til að verja meiri tíma í musterinu. Ég blessa ykkur með meira samlyndi og kærleika á heimilum ykkar og dýpri þrá til að hlúa að ykkar eilífu fjölskyldusamböndum. Ég blessa ykkur með aukinni trú á Drottin Jesú Krist og auknu atgervi til að fylgja honum, sem sannir lærisveinar hans.

Ég blessa ykkur til að hefja upp raust ykkar í vitnisburði, líkt og ég geri nú, um að við séum þátttakendur í verki almáttugs Guðs! Jesús er Kristur. Þetta er hans kirkja, sem hann leiðir með sínum smurðu þjónum. Ég ber þessu vitni með kærleikskveðju til ykkar allra, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. “Let Us All Press On,” Hymns, nr. 243, (ísl. þýðing).

  2. Skilgreint í Kenning og sáttmálar 14:7 sem „gjöf mest allra gjafa Guðs.“