2010–2019
Svo andi hans sé með þeim
Apríl 2018


Svo andi hans sé með þeim

Ég bið þess af öllu hjarta að þið munið heyra rödd andans, sem af miklu örlæti er ykkur send.

Bræður mínir og systur, ég er þakklátur fyrir að fá tækifæri í dag til að tala til ykkar á hvíldardegi Drottins, á aðalráðstefnu kirkju hans, á páskum. Ég þakka himneskum föður fyrir þá gjöf sem hans ástkæri sonur er, sem kom sjálfviljugur til jarðar til að vera frelsari okkar. Ég er þakklátur fyrir að vita að hann friðþægði fyrir syndir okkar og reis upp frá dauðum. Hvern dag er það mér blessun að vita að ég muni dag einn rísa upp, sökum friðþægingar hans, til að lifa ævarandi í kærleiksríkri fjölskyldu.

Ég veit þetta á þann eina hátt sem sérhvert okkar fær vitað það. Heilagur andi hefur staðfest þennan sannleik í huga mínum og hjarta – ekki bara einu sinni, heldur oft. Ég hef þurft á þeim viðvarandi stuðningi að halda. Við upplifum öll hörmungar þar sem við þörfnumst fullvissu andans. Ég upplifði það dag einn er ég stóð við hlið föður míns á sjúkrahúsi. Við horfðum á móðir mína taka fáein stutt andköf - og gefa upp andann. Við horfðum á andlit hennar og sáum hana brosa er þjáningarnar hurfu. Eftir stundarþögn, tók faðir minn fyrstur til máls. Hann sagði: „Lítil stúlka hefur farið heim.“

Hann sagði þetta blíðlega. Hann virtist friðsæll. Hann hafði mælt nokkuð sem hann vissi að var sannleikur. Með hægð tók hann að safna saman persónulegum munum móður minnar. Hann fór út og fram á sjúkrahúsganginn til að þakka öllum hjúkrunarfræðingunum og læknunum fyrir hina löngu umönnun þeirra.

Faðir minn átti samfélag við heilagan anda á þessari stundu, til að finna, vita og gera það sem hann gerði þann dag. Hann hafði upplifað loforðið, líkt og margir aðrir: „Svo að andi hans sé með þeim“ (K&S 20:79).

Von mín í dag stendur til þess að auka þrá ykkar og getu til að taka á móti heilögum anda. Minnist þess að hann er þriðji aðilinn í Guðdómnum. Faðirinn og sonurinn eru upprisnar verur. Heilagur andi er andavera. (Sjá K&S 130:22.) Það er ykkar val hvort þið takið á móti honum og bjóðið hann velkominn í hjarta ykkar og huga, eður ei.

Skilyrðin fyrir því að geta tekið á móti þessari guðlegu blessun eru greinilega sett fram með hinum vikulegu töluðu orðum, sem gætu þó mögulega fengið lítinn hljómgrunn í hjarta okkar og huga. Við verðum að „hafa [frelsarann] ætíð í huga“ og „halda boðroð hans,“ til að fá notið samfélags andans (D&C 20:77).

Þessi árstími hjálpar okkur að hugsa um fórn frelsarans og upprisu hans úr gröfinni. Mörg okkar hafa í huganum ímyndað myndsvið af þessum viðburði. Ég stóð eitt sinn með eiginkonu minni við gröf í Jerúsalem. Margir trúa að það sé gröfin sem hinn krossfesti frelsari hafi stigið út úr sem upprisinn og lifandi Guð.

Hinn virðingafulli leiðsögumaður þann dag benti með hönd sinni og sagði við okkur: „Komið og sjáið hina tómu gröf.“

Við lutum höfði til að komast inn fyrir munann. Við sáum þar inni steinbekk við vegg. Upp í huga minn kom þó önnur sviðsmynd, jafn raunveruleg og það sem við sáum þann dag. Hún var af Maríu við gröfina, sem postularnir höfðu skilið við þar. Þetta er það sem andinn leyfði mér að sjá og jafnvel heyra í huganum, svo greinilega sem ég hefði verið þar:

„En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina

og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta.

Þeir segja við hana: Kona, hví grætur þú? Hún svaraði: Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann.

Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús.

Jesús segir við hana: Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú? Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann.

Jesús segir við hana: María! Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: Rabbúní! Rabbúní sem þýðir meistari.

Jesús segir við hana: Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar“ (Jóh 20:11–17).

Ég bað þess að fá að upplifa eitthvað af því sem María upplifði við gröfina og lærisveinarnir tveir á veginum til Emmus, er þeir gengu með hinum upprisna frelsara og hugðu hann vitja Jerúsalem:

„Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar. Og hann fór inn til að vera hjá þeim.

Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.

Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.

Og þeir sögðu hvor við annan: Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ (Lúk 24:29–32).

Sum þessara orða voru endursögð á sakramentissamkomu sem ég var á fyrir 70 árum. Á þeim tíma voru sakramentissamkomur hafðar að kvöldi til. Það var dimmt úti. Söfnuðurinn söng þennan kunnuglega texta. Ég hef heyrt hann ótal sinnum. Síðasta minning mín um hann tengist upplifun á ákveðnu kvöldi. Hann fær mig til að komast nær frelsaranum. Ef ég les textann, mun hann kannski koma til okkar allra.

Ó, Drottinn hjá mér dvel í nótt,

því degi hallar skjótt.

Sjá, skuggar nætur nálgast ótt,

ver nær mér Guð í nótt.

Ver tíður gestur heima hér,

og huggun veittu mér.

Ó, dvel hjá mér um dimma nótt,

í dag þú fylgdir mér,

og kveiktir hjá mér kærleiksgnótt,

þá kyrrð ég fann hjá þér.

Þitt einfalt orð mína' eflir trú,

um eilífð hjá mér bú.

Ó, frelsari minn fylg þú mér,

ég fel mig einum þér.

Ó, frelsari minn fylg þú mér,

ég fel mig einum þér.1

Dýrmætari minningunni um viðburði, er minningin um heilagan anda snerta hjörtu okkar og stöðug staðfesting hans á sannleikanum. Dýrmætari en að sjá með augum okkar eða að muna eftir töluðum og lesnum orðum, er minningin um tilfinninguna sem fylgir hinni hljóðu rödd andans. Sjaldnar hef ég upplifað það nákvæmlega eins og ferðalangarnir á veginum til Emmaus gerðu – sem ljúfan en óyggjandi bruna í brjóstinu. Oftar er það tilfinning ljóss og friðsællar fullvissu.

Við höfum hið ómetanlega loforð um samfélag heilags anda, sem og nákvæma leiðsögn um hvernig gera má tilkall til þeirrar gjafar. Þessi orð eru mælt af réttmætum þjóni Drottins, er hann leggur hendur á höfuð okkar: „Meðtak hinn heilaga anda.“ Á því andartaki getum við verið viss um að hann verður sendur. Við berum þó ábyrgð á að ljúka upp hjörtum okkar, til að taka á móti liðsinni andans í gegnum lífið.

Reynsla spámannsins Josephs Smith er okkur leiðarvísir. Hann hóf þjónustu sína og hélt henni áfram í þeirri trú að viska hans sjálfs væri ekki nægileg til að vita hvaða stefnu skildi taka. Hann kaus að vera auðmjúkur frammi fyrir Guði.

Joseph ákvað þessu næst að spyrja Guð. Hann bað í trú um að Guð bænheyrði sig. Svarið barst þegar hann var ungur drengur. Svörin bárust honum þegar hann þurfti að vita hvernig Guð vildi að kirkja hans yrði skipulögð. Heilagur andi huggaði og leiddi hann í gegnum lífið.

Hann fór eftir innblæstri, þegar það var erfitt. Hann hlaut til að mynda leiðsögn um að senda hina Tólf til Englands, er hann sjálfur sárlega þarfnaðist þeirra. Hann sendi þá frá sér.

Hann beygði sig undir umvöndun og huggun andans, er hann var í varðhaldi og hinir heilögu þoldu miklar þjáningar. Hann hlýddi líka er hann fór veginn til Carthage, jafnvel þótt honum væri ljóst að líf hans væri í hættu.

Spámaðurinn Joseph setti fordæmi fyrir okkur öll um hvernig á að hljóta stöðuga andlega leiðsögn og huggun með heilögum anda.

Fyrsta ákvörðun hans var að vera auðmjúkur frammi fyrir Guði.

Önnur ákvörðun hans var að biðja í trú á Drottin Jesú Krist.

Þriðja ákvörðun hans var að hlýða algjörlega. Hlýðni getur falist í því að bregðast skjótt við. Hún getur falist í því að vera viðbúinn. Hún getur líka falist í því að bíða eftir frekari innblæstri.

Fjórða ákvörðun hans var að biðja þess að geta þekkt þarfir og hjörtu annarra og hvernig liðsinna mætti þeim fyrir Drottin. Joseph bað fyrir hinum heilögu í neyð þeirra, er hann var í varðhaldi. Ég hef fengið að njóta þess að fylgjast með spámönnum Guðs er þeir biðjast fyrir, biðja um innblástur, hljóta handleiðslu og bregðast við henni.

Ég hef tekið eftir hve bænir þeirra snúast oft um fólk sem þeim er annt um og þjóna. Umhyggja þeirra fyrir öðrum virðist gera þá næma fyrir innblæstri. Það getur líka átt við um ykkur.

Innblástur gerir okkur kleift að þjóna öðrum fyrir Drottin. Þið hafið sjálf upplifað það og það hef ég einnig. Biskup minn sagði eitt sinn við mig – á tíma er eiginkona mín var undir miklu álagi: „Í hvert sinn er ég frétti af því að einhver í deildinni þarfnast hjálpar, kemst ég að því, eftir að ég kem á staðinn, að eiginkona þín hafi verið þar áður en ég kom. Hvernig getur hún það?

Hún er eins og allir sem eru góðir þjónar í ríki Drottins. Það virðist vera tvennt sem þeir gera. Góðir þjónar eru verðugir heilags anda, að hafa hann sem næstum stöðugan förunaut. Þeir hafa líka áunnið sér gjöf kærleikans, sem er hin hreina ást Krists. Þessar gjafir hafa eflst í þeim við að nota þær í kærleiksþjónustu Drottins.

Hvernig bæn, innblástur og elska Drottins samtvinnast í þjónustu okkar, finnst mér best koma fram í þessum orðum:

„Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.

Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.

Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu,

anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.

Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.

Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.

Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður.

Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig“ (Jóh 14:14-21).

Ég ber mitt persónulega vitni um að faðirinn veit af ykkur á þessari stundu, tilfinningum ykkar og andlegum og stundlegum þörfum allra umhverfis ykkur. Ég ber vitni um að faðirinn og sonurinn senda nú heilagan anda til allra sem hafa hann sem gjöf, biðja um þá blessun og leitast við að vera verðugir hennar. Hvorki faðirinn, né sonurinn, né heilagur andi neyða sig upp á líf okkar. Okkur er frjálst að velja. Drottinn hefur sagt við alla:

„Sjá, ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum, þá mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér.

Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.

Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum“ (Op 3:20–22).

Ég bið þess af öllu hjarta að þið munið heyra rödd andans, sem af miklu örlæti er ykkur send. Ég bið þess líka að þið megið ætíð ljúka upp hjörtum ykkar til að taka á móti honum. Ef þið biðjið um innblástur af einlægum ásetningi og í trú á Jesú Krists, munið þið hljóta hann að hætti og tíma Drottins. Guð gerði það fyrir hinn unga Joseph Smith. Hann gerir það í dag fyrir okkar lifandi spámann, Russell M. Nelson forseta. Hann hefur staðsett ykkur nálægt öðrum börnum Guðs, til að þjóna þeim í hans þágu. Ég veit það, ekki aðeins af því sem ég hef séð með augum mínum, heldur fremur af því að andinn hefur talað það í hjarta mitt.

Ég hef fundið elsku föðurins og hans ástkæra sonar til allra barna Guðs hér í heimi og til barna hans í andaheimi. Ég hef fundið huggun og handleiðslu heilags anda. Ég bið þess að þið megið njóta þeirrar gleði sem felst í stöðugu samfélagi andans. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. “Abide with Me; ’Tis Eventide,” Hymns, nr. 165, ísl. þýðing.