2010–2019
Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra
Apríl 2018


Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra

Við getum öll hlotið ólýsanlegan frið og átt samfélag við frelsara okkar, ef við erum fús til að fyrirgefa þeim sem hafa „brotið gegn“ okkur.

„En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.

Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,

og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn.“1

Á morgun, á páska- og hvíldardegi, munum við minnast á sérstakan hátt þess sem Jesús Kristur hefur gert fyrir okkur: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“2 Að því mun koma að við verðum reist upp, líkt og hann, til ævarandi lífs.

Við getum líka, fyrir kraftaverk hinnar helgu friðþægingar, hlotið fyrirgefningu synda okkar og misgjörða, ef við göngumst við ábyrgðinni að baki iðrunar. Við getum og öðlast eilíft líf og upphafningu með því að taka á móti nauðsynlegum helgiathöfnum, halda sáttmála okkar og boðorðin.

Í dag hyggst ég ræða um fyrirgefningu, hina nauðsynlegu og dýrmætu gjöf sem frelsari okkar og lausnari, Jesús Kristur, býður okkur.

Á desemberkvöldi, árið 1982, vorum ég og eiginkona mín, Terry, vakinn upp af símhringingu á heimili okkar í Pocatello, Idaho. Þegar ég tók upp tólið heyrði ég aðeins grátkvein. Loks sagði systir mín með herkjum: „Tommy er dáinn.“

Tuttugu ára gamall drukkinn bílstjóri hafði af gáleysi ekið yfir á rauðu ljósi á 135 km hraða í úthverfi Denver, Colarado. Hann ók harkalega á bílinn sem yngsti bróðir minn, Tommy, ók, svo hann og eiginkona hans, Joan, létust samstundis. Þau voru á leið heim til ungrar dóttur sinnar eftir jólaboð.

Ég og eiginkona mín flugum þegar í stað til Denver og fórum í líkhúsið. Við komum saman með foreldrum mínum og systkinum og syrgðum missi okkar ástkæru Tommy og Joan. Við höfðum misst þau sökum glórulauss glæpaverks. Við vorum harmþrungin og reiði tók að blossa upp hið innra út í hinn unga lögbrjót.

Tommy hafði starfað sem lögmaður í Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna og var á leið með að tryggja eigin framtíð sem áhrifamikill málsvari til verndar landssvæðum og náttúruauðlindum frumbyggja Ameríku.

Að nokkrum tíma liðnum, var dómsúrskurður kveðinn upp yfir hinum unga manni sem var fundinn sekur um manndráp af völdum ökutækis. Foreldrar mínir og elsta systir mín, Kathy, voru viðstödd dómsúrskurðinn í mikilli sorg sinni. Foreldrar hins drukkna ökumanns voru líka þar og að dómsúrskurð loknum sátu þau grátandi á bekknum. Foreldrar mínir og systir sátu þar nærri og reyndu að halda aftur af eigin tilfinningum. Eftir stutta stund, stóðu foreldrar mínir og systir upp, fóru yfir til foreldra ökumannsins og færðu þeim orð huggunar og fyrirgefningar. Karlarnir tókust í hendur; konurnar héldust í hendur; djúp sorg var í hjörtum og tár runnu í sökum allra og yfir því að báðar fjölskyldurnar höfðu þjáðst svo ákaflega. Mamma, pabbi og Katy voru fordæmi um innri styrk og hugrekki og sýndu fjölskyldu okkar merkingu þess að fyrirgefa.

Fyrirgefningarboðið á þessari stundu varð til þess að milda hjarta mitt og greiða leið til lækningar. Með tímanum lærði ég að vera fús til að fyrirgefa. Einungis með hjálp Friðarhöfðingjans var sorgarbyrðinni létt af mér. Ég mun alltaf sakna Tommy og Joan, en fyrirgefningin gerir mér nú kleift að minnast þeirra af óheftri gleði. Ég veit að við munum verða saman aftur sem fjölskylda.

Ég er ekki að ýja að því að við líðum ólögmæta hegðun. Við vitum mæta vel að menn þurfa að standa skil á glæpsamlegum gjörðum og samfélagsmiðgjörðum. Við vitum þó líka, að sem synir og dætur Guðs, lifum við eftir kenningum Jesú Krists. Okkur er boðið að fyrirgefa, þótt aðrir virðist ekki eiga fyrirgefningu okkar skilið.

Frelsarinn kenndi:

„Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður.

En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“3

Við getum öll hlotið ólýsanlegan frið og átt samfélag við frelsara okkar, ef við erum fús að fyrirgefa þeim sem hafa „brotið gegn“ okkur. Slíkt samfélag færir mátt frelsarans inn í líf okkar á óyggjandi og ógleymanlegan hátt.

Páll postuli sagði:

„Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, … hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.

Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum. … Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“4

Drottinn hefur lýst yfir:

„Fyrir því segi ég yður, að þér eigið að fyrirgefa hver öðrum, því að sá, sem ekki fyrirgefur bróður sínum misgjörðir hans, stendur dæmdur frammi fyrir Drottni, því að í honum býr hin stærri synd.

Ég, Drottinn, mun fyrirgefa þeim, sem ég vil fyrirgefa, en af yður er krafist, að þér fyrirgefið öllum mönnum.“5

Kenningar frelsara okkar og lausnara eru skýrar; hinn syndugi verður að vera fús til að fyrirgefa öðrum, ef hann vonast sjálfur eftir að verða fyrirgefið.6

Bræður og systur, eru þeir til í lífi okkar sem hafa sært okkur? Ölum við á tilfinningum reiði og óvildar sem virðast algjörlega réttlætanlegar? Látum við dramb halda okkur frá því að fyrirgefa og sleppa? Ég býð okkur öllum að fyrirgefa algjörlega til að læknast hið innra. Þótt fyrirgefningin komi ekki í dag, vitið þá að ef við þráum hana og vinnum að henni, þá mun hún koma til okkar – á sama hátt og hún kom endanlega til mín eftir andlát bróður míns.

Hafið líka í huga að nauðsynlegur þáttur fyrirgefningar er að fyrirgefa okkur sjálfum.

„Sjá, þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég, Drottinn, minnist þeirra ekki lengur.“7

Ég hvet sérhvert okkar á þessum degi að hafa í huga og fylgja fordæmi Jesú Krists. Á krossinum á Golgata sagði hann þessi orð í mikilli angist: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra.“8

Með því að hafa anda fyrirgefningar og breyta samkvæmt honum, líkt og foreldrar mínir og eldri systir, þá getum við upplifað þetta loforð frelsarans: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“9

Ég ber vitni um að við munum upplifa slíkan frið þegar við lifum eftir kenningum Jesú Krists og fylgjum fordæmi hans með því að fyrirgefa öðrum. Ef við fyrirgefum, þá lofa ég að frelsarinn mun styrkja okkur og máttur hans og gleði munu fylla líf okkar.

Gröfin er tóm. Kristur lifir. Ég þekki hann. Ég elska hann. Ég er þakklátur fyrir náð hans, sem er sá styrkjandi kraftur sem megnar að lækna alla hluti. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.