2010–2019
Er ég barn Guðs?
Apríl 2018


Er ég barn Guðs?

Hvernig getum við upplifað þau áhrif að skilja guðlegt auðkenni okkar? Það hefst á því að reyna að þekkja Guð, föður okkar.

Nýverið fór ég með ljúfri móður minni í gömlu steinkapelluna okkar. Ég veitti athygli ungum röddum sem komu frá sama herbergi Barnafélagsins og ég hafði verið í áratugum áður. Ég gekk inn aftast og horfði á umhyggjusama leiðtoga kenna þessa árs þema: „Guðs barnið eitt ég er.“1 Ég brosti og minntist þolinmóðra og ástúðlegra kennara, sem oft litu til mín í söngstundum þess tíma – hins háværa litla drengs, aftast í röðinni, eins og til að segja: „Er hann í raun barn Guðs? Og hver hefur sent hann hér?“2

Ég býð sérhverju okkar að ljúka upp hjörtum okkar fyrir heilögum anda, sem „vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn.“3

Orð Boyds K. Packer forseta eru skýr og dýrmæt: „Þú ert barn Guðs. Hann er faðir anda ykkar. Þið eruð af andlegu ættgöfgi, afsprengi konungs himins. Festið þann sannleika vandlega í huga ykkar og haldið í hann. Hversu göfugt sem ykkar jarðneska ætterni væri, kynþáttur eða þjóðerni, þá væri hægt að rita ættgöfgi anda ykkar með fáeinum orðum: Guðs barnið eitt þú ert!“4

„Þegar þið … sjáið föður okkar,“ sagði Brigham Young, „munið þið sjá veru sem þið eruð vel kunnug og hann mun taka ykkur í faðm sinn og þið munið fúslega falla í faðm hans og kyssa hann.“5

Hið mikla stríð yfir guðlegu auðkenni

Móse lærði um sína guðlegu arfleifð með því að ræða einslega við Drottin. Eftir þessa reynslu „kom Satan og freistaði“ af slægni, en þó heift, í tilraun til að brengla auðkenni Móse „og sagði: Móse, mannsonur, tigna þú mig. Og … Móse leit á Satan og sagði: Hver ert þú? Því að sjá, ég er sonur Guðs.“6

Stríðið yfir hinu guðlega auðkenni er harðvítugt, því Satan vex ásmegin í því að eyðileggja trú okkar og vitneskju um samband okkar við Guð. Til allrar hamingju höfum við verið blessuð allt frá upphafi með skýrum skilningi á okkar sanna auðkenni: „Guð sagði: ,Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss.‘“7 og lifandi spámenn hafa lýst yfir: „Hver [maður] er ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra, og sem slík á sérhvert þeirra sér guðlegt eðli og örlög.“8

Að komast til vitundar um þennan sannleika „af fullvissu“9 auðveldar okkur að sigrast á hvers kyns raunum, vandamálum og hörmungum.10 Þegar spurt er: „Hvernig getum við liðsinnt þeim sem glíma við [persónulegar áskoranir]?“ þá getum fylgt þessari leiðsögn postula Drottins: „Fræðið þau um eigið auðkenni og tilgang.“11

„Áhrifaríkasta vitneskjan sem ég bý yfir“

Þessi áhrifaríki sannleikur breytti lífi vinkonu minnar, Jen,12 sem olli alvarlegu bílslysi er hún var unglingur. Þótt líkamlegir áverkar hennar væru alvarlegir, var sársaukinn óbærilegur yfir því að hinn ökumaðurinn lét lífið. „Einhver missti móður sína og það var mér að kenna,“ sagði hún. Jen hafði nokkrum dögum áður staðið og þulið upp: „Við erum dætur himnesks föður, sem elskar okkur.“13 Nú efaðist hún: „Hvernig getur hann elskað mig?“

„Hinn líkamlegi sársauki leið hjá,“ sagði hún, „en mér fannst að hið tilfinningalega og andlega sár myndi aldrei gróa.“

Jen bældi tilfinningar sínar djúpt niðri til að komast af og varð fjarlæg og dofin. Að ári liðnu, er hún loks gat rætt um slysið, bað innblásinn ráðgjafi hana um að skrifa orðin „Guðs barnið eitt ég er“ og þylja þau upp tíu sinnum á hverjum degi.

„Það var auðvelt að skrifa orðin,“ sagði hún, „en ég gat ekki sagt þau. … Það gerði þau raunveruleg og ég trúði í raun að Guð hefði hafnað mér sem barni sínu. Ég hefði þá fallið saman og grátið.“

Að nokkrum mánuðum liðnum, gat Jen loks þulið upp orðin á hverjum degi. „Ég úthellti allri sál minni,“ sagði hún, „og sárbað Guð. … Eftir það tók ég að trúa orðunum.“ Sú trú gerði frelsaranum kleift að byrja að græða særða sál hennar. Mormónsbók vakti mér huggun og hugrekki í friðþægingu hans.14

„Kristur fann sársauka minn, sorg mína, sekt mína,“ sagði Jean. „Ég fann hina hreinu ást Guðs og hafði aldrei áður upplifað neitt svo áhrifaríkt! Að vita að ég er barn Guðs, er áhrifaríkasta vitneskjan sem ég bý yfir!“

Sækjast eftir að þekkja Guð, föður okkar

Bræður og systur, hvernig getum við upplifað þau áhrif að skilja guðlegt auðkenni okkar? Það hefst á því að sækjast eftir að þekkja Guð, föður okkar.15 Russell M. Nelson forseti vitnaði: „Það gerist eitthvað máttugt þegar barn Guðs leitast við að læra meira um hann og ástkæran son hans.“16

Að læra um og fylgja frelsaranum, gerir okkur kleift að þekkja föðurinn. Jesús, sem „er … ímynd veru [föður síns],”17 kenndi: „Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra.“18 Öll orð og verk Krists opinbera hið sanna eðli Guðs og samband okkar við hann.19 Öldungur Jeffrey R. Holland kenndi: „Með blóð drjúpandi úr hverri svitaholu og angistaróp á vörum, leitaði Kristur til þess sem hann ætíð gerði – til föður síns. ,Abba,‘ hrópaði hann, ‚faðir.‘“20

Líkt og Jesús leitaði föður síns einlæglega í Getsemane, svo og leitaði hinn ungi Joseph Smith Guðs í Lundinum helga, árið 1820. Eftir að Joseph hafði lesið: „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð,“21 dró hann sig í hlé til að biðjast fyrir.

„Ég [kraup] á kné,“ ritaði hann, „og tók að skýra Guði frá óskum hjarta míns. …

… Ég [sá] ljósstólpa beint yfir höfði mér. …

… Ég sá tvær verur, svo bjartar og dýrðlegar, að ekki verður með orðum lýst, og stóðu þær fyrir ofan mig í loftinu. Önnur þeirra ávarpaði mig, nefndi mig með nafni og sagði, um leið og hún benti á hina – [Joseph,] þetta er minn elskaði sonur.Hlýð þú á hann!22

Ef við fylgjum fordæmi frelsarans og spámannsins Josephs Smith og leitum Guðs einlæglega, munum við fara að skilja afar raunverulega, líkt og Jen gerði, að faðirinn þekkir okkur með nafni, að við erum börn hans.

Þið mæður, einkum hinar ungu mæður, sem oft finnst yfirþyrmandi og erfitt að ala upp „syndþolna kynslóð,“23 vanmetið aldrei mikilvægt hlutverk ykkar í áætlun Guðs. Á álagsstundum – kannski þegar þið eruð að eltast við ungana og brunalykt berst frá eldhúsinu, sem segir ykkur að hinn ástúðlega tilreiddi kvöldverður sé nú brunarústir einar – vitið að Guð helgar ykkar erfiðustu daga.24 „Óttast þú eigi, því að ég er með þér,“25 fullvissar hann ljúflega. Við heiðrum ykkur er þið uppfyllið von systur Joy D. Jones sem sagði: „Börn okkar verðskulda að skilja hið guðlega auðkenni sitt.“26

Ég býð hverju okkar að leita Guðs og hans ástkæra sonar. Nelson forseti sagði: „Þessi sannleikur er hvergi kenndur skýrar eða kröftugar en í Mormónsbók.“27 Ljúkið henni upp og lærið að Guð gerir „allt [okkur] til velfarnaðar og hamingju,“28 að hann er „miskunnsamur og lítillátur, þolinmóður, langlyndur og gæskuríkur“29 og að allir eru jafnir fyrir [honum].“30 Þegar þið eruð særð, týnd, hrædd, ósátt, sorgmædd, hungruð eða vonlaus og yfirgefin í heimsins neyð31 – ljúkið þá upp Mormónsbók og þið munið vakna til vitundar um að „Guð hefur aldrei yfirgefið okkur. Það hefur hann aldrei gert og mun aldrei gera. Hann getur ekki gert það. Það samræmist ekki persónuleika hans [að gera það].“32

Að komast til þekkingar á föður okkar, breytir öllu, einkum hjarta okkar og andi hans staðfestir ljúflega okkar sanna auðkenni og mikið verðmæti okkar í hans augum.33 Guð gengur með okkur á sáttmálsveginum, er við leitum hans með einlægum bænum, ritninganámi og kostgæfinni hlýðni.

Hágöfgi persónuleika Guðs – vitnisburður minn

Ég elska Guð feðra minna,34 „Drottin, Guð almáttugan,“35 sem grætur með okkur í sorg okkar, hirtir okkur af þolinmæði fyrir ranglæti okkar og fagnar þegar við reynum að „láta af öllum syndum [okkar] til að þekkja [Hann].“36 Ég tilbið hann, sem ætíð er „faðir föðurlausra“37 og vinur hinna vinalausu. Ég ber því vitni af þakklæti að ég hef hlotið þekkingu á Guði, föður mínum, og ber vitni um fullkomleika og „hágöfgi persónuleika [hans].“38

Ég bið þess innilega að sérhvert okkar megi sannlega skilja og varðveita okkar „göfuga ætterni“39 sem barn Guðs, með því að þekkja hann, „hinn eina sanna Guð, og [þann sem hann sendi],“40 í nafni Jesú Krists, amen.