2010–2019
Áætlunin og yfirlýsingin
Október 2017


Áætlunin og yfirlýsingin

Fjölskylduyfirlýsingin er ítrekun Drottins á sannleika fagnaðarerindisins, sem við þurfum okkur til stuðnings í núverandi áskorunum gagnvart fjölskyldunni.

Líkt og yfirlýsingin um fjölskylduna ber vott um, þá eru meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu blessaðir með einstæðri kenningu og ólíkri sýn á heiminn. Við tökum þátt í og jafnvel skörum fram úr í viðburðum heimsins, en sumt er það sem við forðumst að gefa okkur að, er við sækjumst eftir því að lifa eftir kenningum Jesú Krists og postula hans, bæði fortíðar og samtíðar.

I.

Í dæmisögu lýsti Jesús þeim sem „[heyra] orðið, en áhyggjur heimsins og tál auðæfanna [kæfa] orðið, svo það ber engan ávöxt“ (Matt 13:22). Síðar ávítaði Jesús Pétur fyrir að hugsa ekki um „það, sem Guðs er, heldur það, sem manna er,“ og sagði síðan „hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?“ (Matt 16:23, 26). Í lokakennslu sinni í jarðlífinu sagði hann við postulana: „Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum“ (Jóh 15:19; sjá einnig Jóh 17:14, 16).

Á svipaðan hátt, þá notuðu hinir upprunalegu postular Jesú oft ímynd „heimsins“ sem fulltrúa andstæðna kenninga fagnaðarerindisins. „Hegðið yður eigi eftir öld þessari“ (Róm 12:2), kenndi Páll postuli. „Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði“ (1 Kor 3:19). Einnig: „Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með … [því] sem byggist á mannasetningum, [og] er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi“ (Kol 2:8). Jakob postuli kenndi að „vinátta við heiminn [væri] fjandskapur gegn Guði. Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs“(Jakbr 4:4).

Í Mormónsbók er oft dregin upp mynd af „heiminum“ sem andstæðu afli. Nefí spáði fyrir um endanlega eyðingu þeirra „sem stefna að vinsældum í augum heimsins, og … sem sækjast eftir … stundlegum hlutum“ (1 Ne 22:23; sjá einnig 2 Ne 9:30). Alma fordæmdi þá sem voru „uppfullir af hégóma heimsins“ (Alma 31:27). Í draumi Lehís kemur fram að þeir sem reyna að fylgja járnstönginni, orði Guðs, munu upplifa andúð heimsins. Fólkið sem Lehí sá í hinni „stóru og rúmmiklu byggingu,“ „hæddi og benti“ „með fyrirlitningu“ (1 Ne 8:26–27, 33). Í sýn sinni sem túlkaði drauminn, þá lærði Nefí að háðið og andúðin komu frá „mannmergð jarðar, … [heiminum] og heimsins visku, … hroka heimsins“ (1 Ne 11:34–36).

Ljósmynd
Mynd af Thomas S. Monson forseti

Hver er merking hinnar andlegu aðvörunar og boðs, að vera ekki „af heiminum“ eða hins nútíma boðs að „afneita heiminum“? (K&S 53:2). Thomas S. Monson forseti gerði samantekt á þessum kenningum: „Við verðum að vera vökul í heimi sem hefur farið svo langt af leið hins andlega. Mikilvægt er að við höfnum öllu því sem ekki samræmist stöðlum okkar, og neitum að gefa upp á bátinn það sem við þráum mest ‒ eilíft líf í ríki Guðs.“1

Guð skapaði þessa jörðu í samræmi við áætlun sína um að sjá andlegum börnum sínum fyrir stað til að upplifa jarðlífið sem er nauðsynlegt þrep í átt að þeirri dýrð sem hann þráir fyrir öll sín börn. Þótt til séu hin ýmsu dýrðarríki, þá er það dýpsta þrá himnesks föður að börn hans erfi, það sem Monson forseti nefndi „eilíft líf í ríki Guðs,“ og er upphafning fjölskyldna. Þetta er meira en sáluhjálp. Russell M. Nelson forseti minnti okkur á: „Í áætlun Guð er sáluhjálp persónubundin; [en] upphafning snertir alla fjölskylduna.“2

Hið endureista fagnaðarerindi Jesú Krists og hin innblásna yfirlýsing um fjölskylduna, sem ég mun ræða síðar, geyma nauðsynlegar kenningar til handleiðslu fyrir jarðneskan undirbúning að upphafningu. Þótt við þurfum að búa við hjúskaparlög og aðrar hefðir hnignandi heims, þá verða þeir sem keppa að upphafningu alltaf að tileinka sér valkosti fjölskyldulífs að hætti Drottins, þegar það er frábrugðið leiðum heimsins.

Í þessu jarðlífi höfum við engar minningar um tilveru okkar fyrir fæðingu og nú þurfum við að upplifa mótlæti. Við vöxum og þroskumst andlega við það að velja að hlýða boðorðum Guðs í röð réttra valkosta. Í því felast sáttmálar og helgiathafnir og iðrun, þegar við höfum valið rangt. Aftur á móti, ef okkur skortir trú á áætlun Guðs og erum óhlýðin eða forðumst vísvitandi að breyta samkvæmt henni, þá missum við af þeim vexti og þroska. Í Mormónsbók er kennt: „Dagur þessa lífs er dagurinn, sem menn hafa til að leysa verk sitt af hendi“ (Alma 34:32).

II.

Síðri daga heilagir, sem þekkja áætlun Guð um sáluhjálp, hafa einstaka heimssýn, sem gerir þeim kleift að skilja ástæðuna að baki boðorða Guðs, hið óbreytanlega eðli nauðsynlegra helgiathafna hans og grundvallarhlutverk frelsara okkar, Jesú Krists. Friðþæging frelsarans leysir okkur úr klóm dauðans og frelsar okkur frá synd, bundið því að við iðrumst. Sökum þessarar heimssýnar, þá er forgangsröðun og atferli Síðari daga heilagra öðruvísi og þeir eru blessaðir með styrk til að takast á við þrengingar og þrautir jarðlífsins.

Atferli þeirra sem reyna að fylgja sáluhjálparáætlun Guðs getur þó óhjákvæmilega valdið misskilningi eða jafnvel ágreiningi við fjölskyldu eða vini, sem ekki trúa á reglur hennar. Slíkur ágreiningur er ætíð fyrir hendi. Allar kynslóðir sem hafa leitast við að fylgja áætlun Guðs hafa glímt við áskoranir. Spámaðurinn Jesaja styrkti Ísrael til forna og kallaði þá: „Þér sem þekkið réttlætið, … sem [bera] lögmál mitt í hjarta.“ Við þá sagði hann: „Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra“(Jesaja 51:7; einnig 2 Ne 8:7). Hver sem ástæða ágreiningsins er við þá sem ekki skilja eða trúa á áætlun Guðs, þá hefur þeim sem skilja hana ætíð verið boðið að taka hætti Drottins fram yfir hætti heimsins.

III.

Sú áætlun fagnaðarerindisins sem öllum fjölskyldum er boðið að fylgja til að búa sig undir eilíft líf og upphafningu, er útskýrð í útgefnu skjali kirkjunnar frá 1995: „Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins.“3 Yfirlýsingar hennar eru auðvitað merkjanlega frábrugðnar sumum gildandi lögum, framkvæmdum og boðunum þess heims sem við lifum í. Á okkar tíma er helsti ágreiningurinn sambúð ógiftra, hjónaband samkynhneigðra og barnauppeldi í slíkum samböndum. Þeir sem ekki trúa á eða sækjast eftir upphafningu og láta að mestu stjórnast af háttum heimsins, telja fjölskylduyfirlýsinguna einungis stefnuyfirlýsingu sem ætti að breyta. Síðari daga heilagir standa hins vegar fast á því að fjölskylduyfirlýsingin sé skilgreinandi fyrir fjölskyldusamband þar sem mikilvægasti hluti okkar eilífu framþróunar geti farið fram.

Við höfum orðið vitni að mikilli og hraðri aukingu í samþykki óvígðrar sambúðar og hjónabandi samkynhneigðra. Samhliða stuðningur fjölmiðla, skóla og jafnvel atvinnulífs gerir Síðari daga heilögum erfitt fyrir í þessum málum. Við verðum að reyna að hafa jafnvægi í því að lifa eftir lögmálum fagnaðaerindisins í eigin lífi og kennslu, jafnvel er við reynum að sýna öllum elsku.4 Þegar við gerum það, þá þurfum við stundum að takast óttalaus á við það sem Jesaja kallaði „spott manna.“

Trúfastir Síðari daga heilagir trúa að fjölskylduyfirlýsingin, sem var gefin út fyrir nær aldarfjórðungi síðan og hefur nú verð þýdd yfir á fjölda tungumála, sé enn frekari áhersla Drottins á sannleika fagnaðarerindisins, sem við þörfnumst okkur til stuðnings í núverandi áskorunum gagnvart fjölskyldunni. Tvö dæmi um það eru hjónaband samkynhneigðra og óvígð sambúð. Einungis 20 árum eftir að fjölskylduyfirlýsingin var kynnt, þá heimilaði hæstiréttur Bandaríkjanna hjónaband samkynhneigðra og breytti þar með þeirri aldagömlu hefð að hjónaband takmarkaðist við karl og konu. Aðdragandi hins háa og sláandi hlutfalls bandarískra barna sem fæddust móður utan hjónabands með föðurnum, spannar lengra tímabil: 5 prósent árið 1960,5 32 prósent árið 1995,6 og nú 40 prósent.7

IV.

Fjölskylduyfirlýsingin hefst á þessari yfirlýsingu: „Hjónaband milli karls og konu er vígt af Guði og að fjölskyldan er kjarninn í áætlun skaparans um eilíf örlög barna hans.“ Hún segir jafnframt: „Kynferði er nauðsynlegur eiginleiki einstaklingsins, sem einkennir hann og samræmist tilgangi hans í fortilveru, jarðneskri tilveru og um eilífð.“ Hún segir ennfremur: „Guð hefur boðið að hinn helgi sköpunarkraftur skuli aðeins notaður milli karls og konu í löglega vígðu hjónabandi.“

Yfirlýsingin staðfestir hina áframhaldandi „skyldu eiginmanns og eiginkonu að margfaldast og uppfylla jörðina og þá helgu ábyrgð að elska og annast hvert annað og börn sín“: „Börn eiga rétt á því að fæðast innan hjónabandsins, vera alin upp af föður og móður sem heiðra hjónabandseiða sína af fullkominni tryggð.“ Hún varar við því að maka eða barni sé misþyrmt og staðfestir að „hamingju í fjölskyldulífi hljótum við fyrst og fremst þegar við byggjum á kenningum Drottins Jesú Krists. Loks kallar hún eftir kynningu á því að „efla þá þætti sem ætlaðir eru til að varðveita og styrkja fjölskylduna sem grundvallareiningu þjóðfélagsins.“

Árið 1995 gáfu forseti kirkjunnar og 14 aðrir postular Drottins út þessa mikilvægu kenningarlegu yfirlýsingu. Sem einn af þeim sjö eftirlifandi postulum, þá finn ég mig knúinn til að segja frá aðdraganda yfirlýsingarinnar um fjölskylduna, til upplýsingar öllum sem hana ígrunda.

Innblásturinn sem vakti athygli á þeirri nauðsyn að út yrði gefin yfirlýsing um fjölskylduna hlutu kirkjuleiðtogar fyrir rúmum 23 árum. Hún kom sumum á óvart, sem töldu að kenningalegur sannleikur um hjónabandið og fjölskylduna væri svo skýr að ekki þyrfti að ítreka hann.8 Við skynjuðum þó staðfestinguna og tókum til starfa. Efnið var skilgreint og rætt af meðlimum Tólfpostulasveitarinnar í tæpt ár. Lögð var fram tillaga að orðalagi og það var skoðað og uppfært. Við báðum stöðugt til Drottins um innblástur um hvað ætti að koma fram og hvernig ætti að orða það. Við lærðum allir „orð á orð ofan, setning á setning ofan,“ líkt og Drottinn lofaði (K&S 98:12).

Ljósmynd
Mynd af GordonB. Hinckley forseta

Á meðan á þessum ferli opinberunar stóð, voru lögð drög að texta fyrir Æðsta forsætisráðið, sem fer yfir og gefur út kenningar. Eftir að Æðsta forsætisráðið hafði gert einhverjar breytingar, var yfirlýsingin um fjölskylduna kynnt af Gordon B. Hinckley, forseta kirkjunnar. Á ráðstefnu kvenna, þann 23. september 1995, kynnti hann yfirlýsinguna með þessum orðum: „Þar sem svo margt hefur verið staðhæft sem sannleikur, og miklar blekkingar hafðar uppi um staðla og gildi, með svo miklum freistingum til að láta lokkast að óhreinindum heimsins, þá finnst okkur við knúnir til að aðvara og gera viðvart.“9

Ég ber vitni um að yfirlýsingin um fjölskylduna staðhæfir eilífan sannleika og er vilji Drottins fyrir þau börn hans sem keppa að eilífu lífi. Hún hefur verið undirstöðukenning kirkjunnar og iðkuð síðastliðin 22 ár og mun halda áfram að vera það. Takið á móti henni sem slíkri, kennið hana, lifið eftir henni og þið verðið blessuð er þið sækið fram til eilífs lífs.

Fyrir fjörutíu árum kenndi Ezra Taft Benson forseti að „sérhver kynslóð hefði sínar prófraunir og tækifæri til að standast þær og sannreyna sig.“10 Ég trúi að viðhorf okkar til fjölskylduyfirlýsingarinnar og gagnsemi okkar af henni, sé ein slík prófraun fyrir þessa kynslóð. Ég bið þess að allir Síðari daga heilagir verið staðfastir í þeirri prófraun.

Ég lýk með þessari kennslu Gordons B. Hinckley forseta, orð sem hann mælti fram tveimur árum eftir að yfirlýsingin um fjölskylduna var kynnt. Hann sagði: „Ég sé dásamlega framtíð í afar ótryggum heimi. Ef við höldum okkur fast að gildum okkar, ef við byggjum á arfleifð okkar, ef við göngum í hlýðni frammi fyrir Drottni, ef við einfaldlega lifum eftir fagnaðarerindinu, þá munum við verða blessuð á mikilsverðan og dásamlegan hátt. Á okkur verið litið sem sérstakt fólk, sem hefur fundið lykil að sérstakri hamingju.“11

Ég ber vitni um sannleika og eilíft mikilvægi fjölskylduyfirlýsingarinnar, sem Drottinn Jesús Kristur opinberaði postulum sínum, börnum Guðs til upphafningar (sjá Kenning og sáttmálar 131:1–4), í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, “Stand in Holy Places,” Liahona, nóv. 2011, 83.

  2. Russell M. Nelson, “Salvation and Exaltation,” Liahona, maí 2008, 10.

  3. Sjá „The Family: Yfirlýsing til heimsins,” Liahona, nóv. 2010, 129.

  4. Sjá Dallin H. Oaks, “Love and Law,” Liahona, nóv. 2009, 26–29.

  5. Sjá “‘Disastrous’ Illegitimacy Trends,” Washington Times, 1. des. 2006, washingtontimes.com.

  6. Sjá Stephanie J. Ventura and fleiri, “Report of Final Natality Statistics, 1996,” Monthly Vital Statistics Report, 31. júní 1998, 9.

  7. Sjá Brady E. Hamilton og fleiri, “Births: Provisional Data for 2016,” Vital Statistics Rapid Release, júní 2017, 10.

  8. Aðalforseti Stúlknafélagsins orðaði það vel 20 árum síðar: „Við gerðum okkur ekki mikla grein fyrir því þá, hversu mikið við myndum þurfa á þessum grundvallar yfirlýsingum að halda í dag sem viðmið til að meta sérhverja nýju kenningu heimsins sem kemur til okkar í gegnum fjölmiðla, Alnetið, fræðimenn, sjónvarp, kvikmyndir og jafnvel löggjafarvaldið. Yfirlýsingin um fjölskylduna hefur orðið að viðmiði fyrir okkur svo við getum greint heimspeki heimsins og ég vitna um að reglurnar sem koma fram í þessari yfirlýsingu eru eins sannar í dag og þær voru þegar spámaður Guðs gaf okkur þær fyrir nærri 20 árum síðan“ (Bonnie L. Oscarson, “Defenders of the Family Proclamation,” Liahona, maí 2015, 14–15).

  9. Gordon B. Hinckley, “Stand Strong against the Wiles of the World,” Ensign, nóv. 1995, 100.

  10. Ezra Taft Benson, “Our Obligation and Challenge” (address given at the regional representatives’ seminar, 30.sept. 1977), 2; í David A. Bednar, “On the Lord’s Side: Lessons from Zion’s Camp,” Liahona, júlí 2017, 19.

  11. Teachings of Presidents of the Church: Gordon B. Hinckley (2016), 186; sjá einnig Gordon B. Hinckley, “Look to the Future,” Ensign, nóv. 1997, 69.