2010–2019
Svo að hann megi einnig verða styrkur
Október 2016


Svo að hann megi einnig verða styrkur

Ég bið þess að við meðtökum boðið um að styrkja aðra og búa þá undir dýrðlega þjónustu þeirra.

Mér finnst ég blessaður að vera á þessari samkomu, með þeim sem hafa prestdæmi Guðs. Hollusta, trú og óeigingjörn þjónusta þessa samfélags manna og pilta, er nútíma kraftaverk. Ég beini máli mínu í kvöld til prestdæmishafa, ungra og aldinna, sameinaðra í hugheillri þjónustu við Drottin Jesú Krist.

Drottinn veitir þeim mátt sinn sem verðugir framfylgja prestdæmisábyrgð sinni, hvert sem prestdæmisembætti þeirra er.

Wilford Woodruff, lýsti, sem forseti kirkjunnar, reynslu sinni í embættum prestdæmisins.

„Ég hlustaði á mína fyrstu prédikun í þessari kirkju. Daginn eftir var ég skírður. … Ég var vígður kennari. Trúboð mitt hófst þegar í stað. … Ég fór í gegnum allt það trúboð sem kennari. … Á ráðstefnunni var ég vígður sem prestur. … Eftir að ég hafði verið vígður sem prestur var ég sendur … í trúboð í suðurhluta landsins. Þetta var haustið 1834. Ég hafði félaga með mér og við vorum án pyngju og mals. Ég ferðaðist einsamall nokkuð marga kílómetra, prédikaði fagnaðarerindið og skírði nokkurn fjölda sem ég gat ekki staðfest í kirkjuna, því ég var aðeins prestur. … Ég ferðaðist í nokkurn tíma og prédikaði fagnaðarerindið áður en ég var vígður sem öldungur. …

Nú hefur ég verið full fimmtíu og fjögur ár sem meðlimur Tólfpostulasveitarinnar. Ég hef ferðast með henni og öðrum sveitum í um sextíu ár; og ég vil segja við þennan söfnuð, að ég naut engu síður máttar Guðs meðan ég var í embætti kennara, og einkum meðan ég vann í víngarðinum sem prestur, heldur en sem postuli. Það er engin munur þar á, svo framarleg sem við framfylgjum skyldum okkar.“1

Þessi dásamlegi jafnræðis möguleiki kemur fram í lýsingu Drottins á Aronsprestdæminu, þar sem hann segir það „viðauka“ Melkísedeksprestdæmisins.2 Hugtakið viðauki merkir að hvort tveggja er innbyrðis tengt. Þessi tenging er mikilvæg til þess að prestdæmið sé það afl og sú blessun sem því er ætlað að vera, í þessum heimi og eilíflega, því það er „án upphafs daganna eða loka áranna.“3

Tengingin er einföld. Aronsprestdæmið býr unga menn jafnvel undir enn helgari ábyrgð.

„Kraftur og vald hins æðra, eða Melkísedeksprestdæmis, er að hafa lykla að öllum andlegum blessunum kirkjunnar–

Og njóta þess réttar að meðtaka leyndardóma himnaríkis og sjá himnana ljúkast upp fyrir sér og eiga samfélag við allsherjarsöfnuð og kirkju frumburðarins og njóta samfélags og návistar Guðs föðurins og Jesú, meðalgöngumanns hins nýja sáttmála.“4

Þessum lyklum prestdæmisins eru fyllilega beitt af aðeins einum manni á hverjum tíma, forseta og ráðandi hápresti kirkju Drottins. Síðan, með úthlutun forsetans, getur hverjum þeim sem hefur Melkísedeksprestdæmið verið gefið vald og forréttindi til að mæla og starfa í nafni almættisins. Það er óendanleiki falinn í þeim krafti. Það snertir líf og dauða, fjölskylduna og kirkjuna, hið undursamlega eðli Guðs sjálfs og eilíft verk hans.

Drottinn er að búa Aronsprestdæmishafann undir að verða öldungur, sem þjónar í trú, mætti og þakklæti í þessu dýrðlega Melkísedeksprestdæmi.

Hvað öldungana varðar, þá er innilegt þakklæti nauðsynlegt til að gegna ykkar hlutverki í fullri prestdæmisþjónustu. Þið munið minnast þess tíma sem djáknar, kennarar eða prestar, þegar þeir sem höfðu æðra prestdæmið hvöttu ykkur áfram á prestdæmisvegferð ykkar.

Sérhver handhafi Melkísedeksprestdæmisins býr að slíkum minningum, en það tilfinningar þakklætis gætu hafa dofnað með árunum. Ég vonast til þess að geta endurvakið slíkar tilfinningar, svo að þið einsetjið ykkur að veita öllum sem þið getið þessa sömu hjálp sem þið áður nutuð.

Ég minnist biskups sem kom fram við mig eins og ég væri þegar orðinn sá sem ég hefði möguleika á að verða í mætti prestdæmisins. Hann hringdi í mig sunnudag einn, þegar ég var prestur. Hann sagðist þurfa á mér að halda sem félaga til að vitja einhverra meðlima í deildinni okkar. Hann hljómaði eins og ég væri hans eina von um árangur. Hann þurfti ekki á mér að halda. Hann hafði frábæra ráðgjafa í biskupsráði sínu.

Við vitjuðum fátækrar og svangrar ekkju. Hann vildi að ég hjálpaði sér að snerta hjarta hennar, hvetja hana til að koma reglu á fjármál sín og heita henni því að hún gæti komist í þá stöðu að geta ekki einungis séð fyrir sér sjálfri, heldur líka hjálpað öðrum.

Næst hughreystum við tvær litlar stúlkur sem bjuggu við erfiðar aðstæður. Þegar við gengum í burtu, sagði hann hljóðlega við mig: „Þessar stúlkur mun aldrei gleyma því að við komum til þeirra.“

Þar á eftir varð ég vitni að því hvernig bjóða má lítt virkum manni að koma aftur til Drottins með því að sannfæra hann um að meðlimir deildarinnar þörfnuðust hans.

Þessi biskup var Melkísedeksprestdæmishafi, sem lagði á sig að víkka sýn mína og hvetja mig með eigin fordæmi. Hann kenndi mér að hafa kjark og þor til að þjóna Drottni í öllum aðstæðum. Hann er nú löngu horfin á vit sinna launa, en ég man enn eftir honum, því hann efldi mig og styrkti meðan ég var óreyndur Aronsprestdæmishafi. Ég komst seinna að því að hann hafði séð mig fyrir sér á vegi æðri prestdæmisábyrgðar, en ég var sjálfur umkominn að sjá.

Faðir minn gerði það sama fyrir mig. Hann var reyndur og vitur Melkísedeksprestdæmishafi. Hann var eitt sinn beðinn af postula að skrifa stutta útskýringu á vísindalegum vísbendingum um aldur jarðarinnar. Hann skrifaði hana af varfærni, í þeirri vissu að einhver sem læsi hana gæti fundist sterklega að jörðin væri mun yngri en vísindalegar vísbendingar gætu til kynna.

Ég man enn eftir því þegar faðir minn rétti mér það sem hann hafði skrifað og sagði: „Hal, þú hefur andlega visku til að vita hvort ég eigi að senda þetta til postulanna og spámannanna.“ Ég man ekki vel hvað skrifað var á blaðið, en ég mun ávallt verða þakklátur fyrir að mikilhæfur handhafi Melkísedeksprestdæmisins hafi séð í mér þá andlegu visku sem ég sjálfur ekki sá.

Kvöld nokkurt, einhverjum árum eftir að ég hafði verið vígður sem postuli, hringdi spámaður Guðs í mig og bað mig að lesa eitthvað sem hafði verið ritað um kenningu kirkjunnar. Hann hafði varið kvöldinu í að lesa kafla bókar. Hann kímdi og sagði: „Ég kemst ekki í gegnum þetta allt. Þú ætti ekki að hvílast á meðan ég keppist við.“ Hann sagði síðan næstum sömu orð og faðir minn sagði mörgum árum áður: „Hal, þú ert sá sem ættir að lesa þetta. Þú munt vita hvort rétt sé að birta þetta.“

Þessi sama fyrirmynd Melkísedeksprestdæmishafa sem víkkaði sýn og efldi sjálfstraust, sýndi sig kvöld eitt á sérstakri ræðusamkomu sem kikjan var bakhjarl að. Þegar ég var 17 ára var ég beðinn um að ávarpa stóran söfnuð. Ég hafði ekki hugmynd um hvers vænst var af mér. Mér var ekki falið efni, og ég samdi ræðu sem var langt handan skilnings mína á fagnaðarerindinu. Þegar ég flutti hana, varð mér ljóst að ég hafði hlaupið á mig. Ég man enn eftir því hve misheppnuð mér fannst ræðan, eftir að ég hafði flutt hana.

Á eftir mér var lokaræðumaður, öldungur Matthew Cowley, í Tólfpostulasveitinni. Hann var mikill mælskumaður – elskaður hvarvetna í kirkjunni. Ég man enn eftir því að hafa horft upp til hans úr sæti mínu næst ræðustólnum.

Hann tók til máls mátturgri röddu. Hann sagði að ræðan mín hefði vakið hjá honum þá tilfinningu að hann væri staddur á mikilli ráðstefnu. Hann brosti við þessi orð sín. Sú tilfinning að mér hafi orðið á mistök hvarf og ég fylltist sjálfstrausti yfir að ég gæti einhvern tíma orðið það sem hann virtist halda að ég væri þegar orðinn.

Minningin um þetta kvöld fær mig enn til að hlusta vandlega þegar Aronsprestdæmishafi talar. Ég vænti þess ætíð að heyra orð Guðs, vegna þess sem öldungur Cowley gerði fyrir mig. Ég verð sjaldan fyrir vonbrigðum, en oft agndofa, og ég ræð ekki við að brosa, líkt og öldungur Cowley gerði.

Margt er það sem getur styrkt okkar yngri bræður til að takast á við ábyrgð prestdæmisins, en ekkert er áhrifaríkara en að hjálpa þeim að þróa nægilega trú og sjálfstraust til að hagnýta sér kraft Guðs í prestdæmisþjónustu sinni.

Þeir eignast ekki slíka trú og sjálfstraust eftir eina slíka styrkingarreynslu, þótt hún sé veitt af einhverjum hæfasta handhafa Melkísedeksprestdæmisins. Ótal hvatningar til styrktar sjálfstrausti þurfa koma frá reyndari prestdæmishöfum til að hinir óreyndu geti tileinkað sér slíka hæfni.

Aronsprestdæmishafar þurfa líka á að daglegri hvatningu að halda og jafnvel á klukkustundar fresti og umvöndun frá Drottni sjálfum, með heilögum anda. Það verður þeim mögulegt, ef þeir velja að halda sér verðugum þess. Það er bundið þeirra eigin vali.

Það er ástæða þess að við verðum að kenna með fordæmi og vitnisburði að orð hins mikla leiðtoga og Melkísedeksprestdæmishafa, Benjamíns konungs, séu sönn.5 Það eru kærleiksorð, töluð í nafni Drottins, hvers prestdæmi þetta er. Benjamín konungur sagði frá því sem okkur ber að gera til að vera nægilega hreinir til að taka á móti hvatningu og umvöndun Drottins:

„Og að lokum: Ekki er mér mögulegt að benda á allt, sem getur leitt yður í synd. Leiðirnar og aðferðirnar eru svo margvíslegar og svo margar, að ég get ekki komið á þær tölu.

En það get ég sagt yður, að ef þér gætið yðar eigi, hugsana yðar, orða yðar og gjörða, og virðið ekki boðorð Guðs og haldið ekki áfram í trú á það, sem þér hafið heyrt um komu Drottins vors, allt til enda yðar ævidaga, þá hljótið þér að farast. Ó, þú maður, haf það hugfast, og þú munt eigi farast.“6

Við könnumst við eldörvar óvinar réttlætisins, hina hræðilegu ógn, sem beint er að hinum ungu prestdæmishöfum, sem við elskum svo heitt. Okkur finnst þeir líkjast hinum ungu stríðsmönnum, sem kölluðu sig syni Helamans. Þeir geta staðist, líkt og þessir ungu stríðsmenn gerðu, ef þeir halda sjálfum sér öruggum, eins og Benjamín konungur brýndi fyrir þeim að gera.

Synir Helamans efuðust ekki. Þeir börðust hugrakkir og sigruðu, því þeir trúðu orðum mæðra sinna.7 Við skiljum trúarmátt kærleiksríkrar móður. Mæður á okkar tíma veita sonum sínum slíkan undursamlegan stuðning. Við, prestdæmishafar, þurfum að gera okkar hlut í því að veita slíkan stuðning og einsetja okkur taka axla þá ábyrgð, er við höfum snúið við, að efla og styrkja bræður okkar.8

Ég ber þá bæn í brjósti að sérhver Melkisedeksprestdæmishafi muni taka á móti þessu boði Drottins:

„Og sé einhver maður yðar á meðal sterkur í andanum, skal hann taka með sér þann, sem óstyrkur er, svo að hann megi uppbyggjast í fullri hógværð og verða einnig styrkur.

Takið þess vegna með yður þá, sem vígðir eru hinu lægra prestdæmi, og sendið þá á undan yður til að setja yður mót, greiða veginn og sækja þau mót, sem þér getið eigi sótt.

Sjá, á þennan hátt byggðu postular mínir til forna upp kirkju mína.“9

Þið, prestdæmisleiðtogar og feður Aronsprestdæmishafa, getið gert kraftaverk. Þið getið hjálpað Drottni að fylla raðir hinna trúföstu öldunga með þeim ungu mönnum sem hlíta kallinu um að prédika fagnaðarerindið af sannfæringu. Þið munið sjá marga sem þið hafið hvatt og styrkt vera trúfasta, giftast verðuglega í musterinu og síðan styrkja og undirbúa aðra.

Til þess þarf ekki nýja verkáætlun, betra kennsluefni eða samfélagsmiðla. Til þess þarf ekki annað boð en það sem þið þegar hafið. Eiður og sáttmáli prestdæmisins veitir ykkur mátt, vald og handleiðslu. Ég bið þess að þið farið heim og ígrundið vandlega eið og sáttmála prestdæmisins, sem finna má í Kenningu og sáttmálum, kafla 84.

Allir berum við þá von í brjósti að fleiri ungir menn munu upplifa álíka hluti og Wilford Woodruff gerði, sem kenndi fagnaðarerindi Jesú Krists, sem Aronsprestdæmishafi, af trúarumbreytandi sannfæringu.

Ég bið þess að við meðtökum boðið um að styrkja aðra og búa þá undir dýrðlega þjónustu þeirra. Af öllu hjarta þakka ég því dásamlega fólki sem hefur styrkt mig og sýnt mér hvernig á að elska og styrkja aðra.

Ég ber vitni um að Thomas S. Monson forseti hefur alla lykla prestdæmisins á jörðu á þessum tíma. Ég ber vitni um að hann hefur með ævilangri þjónustu verið okkur öllum fordæmi um að styrkja og efla aðra sem handhafi Melkísedeksprestdæmisins. Ég er sjálfur þakklætur fyrir hvernig hann hefur styrkt mig og sýnt mér hvernig styrkja á aðra.

Guð faðirinn lifir. Jesús er Kristur. Þetta er kirkja hans og ríki. Þetta er prestdæmi hans. Ég veit þetta sjálfur með krafti heilags anda. Í nafni Drottins Jesú Krists, amen.